Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva vinnur dásemdarverk

Jehóva vinnur dásemdarverk

Jehóva vinnur dásemdarverk

„Stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.“ — JOBSBÓK 37:14.

1, 2. Hvað fannst árið 1922 og hvaða viðbrögð vakti það?

FORNLEIFAFRÆÐINGURINN Howard Carter og enski lávarðurinn Carnarvon höfðu leitað saman að fjársjóðnum í mörg ár. Þeir fundu hann loksins 26. nóvember 1922 í Konungadalnum fræga í Egyptalandi þar sem faraóarnir liggja. Fjársjóðurinn var gröf Tútankamons faraós. Þeir komu að innsigluðum dyrum og boruðu gat. Carter stakk kerti inn fyrir og rýndi inn um gatið.

2 Carter sagði svo frá síðar: „‚Sérðu eitthvað?‘ spurði Carnarvon lávarður óþreyjufullur þegar hann þoldi ekki spennuna lengur. ‚Já, dásamlega hluti,‘ var það eina sem ég gat stunið upp.“ Í gröfinni fundust þúsundir dýrgripa, þeirra á meðal líkkista úr gagnheilu gulli. Hugsanlegt er að þú hafir séð einhverja af þessum ‚dásamlegu hlutum‘ á fornminjasafni eða séð myndir af þeim. En þó að þessir safngripir séu dásamlegir á sinn hátt hafa þeir ósköp lítil áhrif á líf þitt. Við skulum því beina athyglinni að dásamlegum hlutum sem snerta þig beint og hafa mikla þýðingu fyrir þig.

3. Hvar finnum við upplýsingar um dásamlega hluti sem geta verið mjög mikils virði fyrir okkur?

3 Við skulum leiða hugann að manni sem var uppi endur fyrir löngu. Þetta er mun eftirtektarverðari maður en nokkur kvikmyndastjarna, íþróttagarpur eða konungborin persóna. Hann var sagður meiri öllum austurbyggjum. Þú kannast við nafnið — hann hét Job. Það var skrifuð heil biblíubók um hann. En samtíðarmaður hans, ungur maður er Elíhú hét, taldi sér skylt að leiðrétta hann. Hann sagði efnislega að Job hefði gefið of mikinn gaum að sjálfum sér og þeim sem stóðu honum næst. Í 37. kafla Jobsbókar er að finna nokkur dæmi um viturleg ráð sem geta verið mjög mikils virði fyrir hvert og eitt okkar. — Jobsbók 1:1-3; 32:1–33:12.

4. Hver var kveikjan að hvatningu Elíhús í Jobsbók 37:14?

4 Þrír svokallaðir vinir Jobs héldu því fram í löngu máli að hann hlyti að hafa gerst sekur um eitthvað rangt í hugsun eða verki. (Jobsbók 15:1-6, 16; 22:5-10) Elíhú hlýddi þolinmóður á samræðurnar uns þeim var lokið en þá tók hann til máls af innsæi og visku. Hann benti á margt gagnlegt, en taktu sérstaklega eftir þessu aðalatriði: „Hlýð þú á þetta, Job, stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.“ — Jobsbók 37:14.

Sá sem vann dásemdarverkin

5. Um hvað vitna ‚dásemdir Guðs‘ sem Elíhú minnist á?

5 Þú tekur eftir að Elíhú stakk ekki upp á því að Job gæfi gaum að sjálfum sér, að honum eða öðrum mönnum. Hann hvatti hann — og okkur — til að gefa gaum að dásemdum Jehóva Guðs. Hvað heldurðu að orðin ‚dásemdir Guðs‘ merki? Kannski finnst þér þú hafa nóg með að hugsa um heilsuna, fjármálin, framtíðina, fjölskylduna, vinnufélagana og nágrannana, að þú farir nú ekki að hugsa um dásemdarverk Guðs líka. Það er þó ljóst að dásemdarverk Guðs vitna um visku hans og vald yfir sköpunarverkinu umhverfis okkur. (Nehemíabók 9:6; Sálmur 24:1; 104:24; 136:5, 6) Við skulum líta á eitt atriði í Jósúabók til að sjá það í skýru ljósi.

6, 7. (a) Hvaða undraverk vann Jehóva á dögum Móse og Jósúa? (b) Hvernig hefðir þú brugðist við ef þú hefðir orðið vitni að öðru hvoru máttarverkinu á dögum Móse og Jósúa?

6 Jehóva sendi plágur yfir Egyptaland forðum daga og klauf svo Rauðahafið þannig að Móse gat leitt Ísraelsmenn til frelsis. (2. Mósebók 7:1–14:31; Sálmur 106:7, 21, 22) Þriðji kafli Jósúabókar segir frá hliðstæðum atburði er Jósúa, sem var arftaki Móse, átti að leiða fólk Guðs yfir annan vatnsflaum og inn í fyrirheitna landið. Þá sagði hann: „Helgið yður, því að á morgun mun [Jehóva] gjöra undursamlega hluti meðal yðar.“ (Jósúabók 3:5) Hvaða undursamlega hluti?

7 Frásagan sýnir að Jehóva opnaði þjóðinni leið yfir Jórdan, sem tálmaði för hennar, svo að hundruð þúsunda karla, kvenna og barna komust leiðar sinnar þurrum fótum. (Jósúabók 3:7-17) Við hefðum áreiðanlega kallað það undursamlegt afrek, hefðum við verið á staðnum og séð ána opnast og allan mannfjöldann ganga óhultan yfir um. Þetta vitnaði um undramátt Guðs yfir sköpunarverkinu. En það eru ekkert síðri undraverk sem blasa við okkur nú á tímum. Lítum á Jobsbók 37:5-7 til að skoða nokkur þeirra og kanna hvers vegna við ættum að gefa gaum að þeim.

8, 9. Á hvaða undraverk er bent í Jobsbók 37:5-7 og af hverju ættum við að hugleiða þau?

8 Elíhú lýsti yfir: „Guð þrumar undursamlega með raust sinni, hann sem gjörir mikla hluti, er vér eigi skiljum.“ Hvað hafði Elíhú í huga þegar hann sagði að Guð gerði eitthvað „undursamlega“? Hann nefnir snjó og helliregn sem stöðva hönd bóndans á akrinum svo að hann fær tíma og tilefni til að ígrunda verk Guðs. Við þurfum ekki að vera bændur til að þekkja áhrif snjávar og regns. Þau geta líka truflað dagleg störf okkar. Tökum við okkur tíma til að íhuga hver stendur að baki þessum undraverkum og hvað það þýðir? Hefurðu einhvern tíma gert það?

9 Eins og við lesum í 38. kafla Jobsbókar bryddar Jehóva reyndar sjálfur upp á áþekkri rökfærslu. Hann leggur ýmsar spurningar fyrir Job en það er greinilegt að þær snerta líka viðhorf okkar, tilveru og framtíð. Við skulum líta á þessar spurningar og hugleiða hvað þær fela í sér fyrir okkur. Við skulum gera eins og hvatt er til í Jobsbók 37:14.

10. Hvaða áhrif ætti 38. kafli Jobsbókar að hafa á okkur og hvaða spurningar vekur hann?

10 Þrítugasti og áttundi kaflinn hefst þannig: „Þá svaraði [Jehóva] Job úr stormviðrinu og sagði: Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs með óskynsamlegum orðum? Gyrð lendar þínar eins og maður, þá mun ég spyrja þig, og þú skalt fræða mig.“ (Jobsbók 38:1-3) Þetta gefur tóninn fyrir framhaldið. Það hjálpaði Job að stilla hugann inn á þann veruleika að hann stóð frammi fyrir skapara alheims og þurfti að standa honum reikningsskap. Það er líka hollt fyrir okkur og samtíðarmenn okkar. Síðan bendir Guð á sams konar mál og Elíhú hafði nefnt. „Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til. Hver ákvað mál hennar — þú veist það! — eða hver þandi mælivaðinn yfir hana? Á hvað var stólpum hennar hleypt niður, eða hver lagði hornstein hennar?“ — Jobsbók 38:4-6.

11. Fyrir hverju ætti Jobsbók 38:4-6 að opna augu okkar?

11 Hvar var Job — og reyndar við líka — þegar jörðin varð til? Vorum við mennirnir arkitektar hennar? Ekki vorum það við sem hönnuðum hana og málsettum. Nei, við vorum ekki til þá. Guð líkir jörðinni við stóra byggingu og spyr ‚hver hafi lagt hornstein hennar.‘ Við vitum að jörðin er í nákvæmlega réttri fjarlægð frá sól til að við getum lifað og dafnað. Og hún er líka hæfilega stór. Væri hún miklu stærri myndi vetnisgas ekki sleppa út úr andrúmsloftinu og jörðin yrði ólífvænleg. Ljóst er að einhver ‚lagði hornsteininn‘ á réttum stað. Átti Job heiðurinn af því? Eigum við heiðurinn af því? Eða er það Jehóva Guð? — Orðskviðirnir 3:19; Jeremía 10:12.

Hvaða maður kann svörin?

12. Til umhugsunar um hvað ætti spurningin í Jobsbók 38:6 að vekja okkur?

12 Guð spurði líka: „Á hvað var stólpum hennar hleypt niður?“ Þetta er góð spurning. Við þekkjum sjálfsagt hugtak sem Job þekkti ekki — aðdráttaraflið. Flestir vita að aðdráttarafl sólarmassans heldur jörðinni á sínum stað, þannig að það er eins og hleypt hafi verið niður stólpum sem hún stendur á. En skiljum við þyngdarlögmálið til fulls?

13, 14. (a) Hvað verða menn að viðurkenna varðandi þyngdaraflið? (b) Hvernig ættum við að bregðast við því sem lýst er í Jobsbók 38:6?

13 Nýlega kom út bók sem heitir The Universe Explained (Alheimurinn skýrður). Í henni er viðurkennt að ‚þyngdarlögmálið sé þekktasta náttúrulögmálið en jafnframt það sem menn síst skilja.‘ Og áfram segir í bókinni: „Þyngdaraflið virðist ferðast eins og örskot gegnum tóman geiminn án nokkurrar augljósrar flutningsleiðar. En á síðustu árum hafa eðlisfræðingar slegið fram þeirri hugmynd að þyngdaraflið sé bylgjuhreyfing agna sem kallast þyngdareindir . . . En enginn er alveg viss um að þær séu til.“ Hugleiddu hvað þetta merkir.

14 Vísindunum hefur fleygt fram þau 3000 ár sem liðin eru síðan Jehóva spurði Job þessara spurninga. En hvorki við né snjöllustu eðlisfræðingar geta skýrt þyngdaraflið til fullnustu en það heldur jörðinni á nákvæmlega réttri sporbraut til þess að við getum lifað hér. (Jobsbók 26:7; Jesaja 45:18) Við erum ekki að gefa í skyn að við þurfum einfaldlega að sökkva okkur niður í ítarlega rannsókn á leyndardómum þyngdarlögmálsins, heldur vekja athygli á því að jafnvel þessi eini þáttur dásemdarverka Guðs ætti að hafa áhrif á viðhorf okkar til hans. Berðu djúpa lotningu fyrir visku hans og þekkingu og gerirðu þér ljóst hvers vegna við þurfum að fræðast nánar um vilja hans?

15-17. (a) Að hverju beinir Jobsbók 38:8-11 athyglinni og hvaða spurningar vekur það? (b) Hvað verðum við að viðurkenna í sambandi við þekkingu á höfunum og dreifingu þeirra um hnöttinn?

15 Skaparinn heldur áfram að spyrja: „Hver byrgði hafið inni með hurðum, þá er það braust fram, gekk út af móðurkviði, þá er ég fékk því skýin að klæðnaði og svartaþykknið að reifum? þá er ég braut því takmörk og setti slagbranda fyrir og hurðir og mælti: ‚Hingað skaltu komast og ekki lengra, hér skulu þínar hreyknu hrannir brotna!‘“ — Jobsbók 38:8-11.

16 Meginlönd, úthöf og sjávarföll setja hafinu takmörk og tálma. Maðurinn hefur virt þau fyrir sér og rannsakað um árþúsundir og mjög ítarlega síðastliðna öld. Það mætti ætla að við vissum núorðið flest sem hægt er að vita um höfin. En hvað heldurðu að þú myndir uppgötva núna, árið 2001, ef þú kynntir þér þetta mál gaumgæfilega í mestu bókasöfnum heims og nýttir þér leitarmöguleika Netsins til að grafa upp nýjustu staðreyndir?

17 Þú myndir finna eftirfarandi játningu í virtri og viðurkenndri alfræðibók: „Dreifing meginlandsflekanna og úthafsdældanna um yfirborð hnattarins, og dreifing helstu landslagsþátta hefur lengi verið eitt forvitnilegasta rannsóknar- og kenningaefni vísindanna.“ Síðan nefnir alfræðibókin fjórar hugsanlegar skýringar en bætir við að þær séu fjórar „af mörgum tilgátum.“ Og orðabækur segja að tilgáta sé ‚ágiskun, skýringartilraun,‘ ‚það sem einhver getur sér til, uppástunga.‘

18. Hvað ályktar þú með hliðsjón af Jobsbók 38:8-11?

18 Sýnir þetta ekki fram á hve tímabær spurningin í Jobsbók 38:8-11 er? Auðvitað er það ekki okkur að þakka hvernig reikistjarnan jörð er úr garði gerð. Ekki komum við tunglinu fyrir svo að aðdráttarafl þess stuðlaði að sjávarföllunum sem kaffæra hvorki okkur né umhverfi okkar. Þú veist að það var Jehóva sem gerði það og hann gerir undursamlega hluti. — Sálmur 33:7; 89:10; Orðskviðirnir 8:29; Postulasagan 4:24; Opinberunarbókin 14:7.

Veittu Jehóva þann heiður sem hann verðskuldar

19. Að hverju er athygli okkar beint í ljóðrænum orðum Jobsbókar 38:12-14?

19 Mennirnir geta ekki þakkað sér möndulsnúning jarðar sem ýjað er að í Jobsbók 38:12-14. Það er möndulsnúningnum að þakka að hver nýr dagur rennur upp, oft ægifagur. Lögun jarðar og landslag skýrist þegar sólin rís, rétt eins og mjúkur leir mótast undir signeti. Þegar við leiðum hugann örlítið að hreyfingu jarðar hljótum við að undrast það að hún skuli ekki snúast of hratt. Við sjáum fyrir okkur hve hrikalegar afleiðingar það hefði. Og ekki snýst hún heldur of hægt þannig að dagur og nótt verði mun lengri og hita- og kuldasveiflur slíkar að menn gætu ekki lifað hér. Við ættum að fagna því að það skuli hafa verið Guð en ekki einhver hópur manna sem ákvað snúningshraðann. — Sálmur 148:1-5.

20. Hvernig myndirðu svara spurningunum í Jobsbók 38:16, 18?

20 Hugsaðu þér nú að Guð spyrði þig eftirfarandi spurninga: „Hefir þú komið að uppsprettum hafsins og gengið á botni undirdjúpsins?“ Haffræðingur gæti ekki einu sinni svarað játandi. „Hefir þú litið yfir breidd jarðarinnar? Seg fram, fyrst þú veist það allt saman.“ (Jobsbók 38:16, 18) Hefurðu heimsótt og kannað öll eða að minnast kosti flest svæði jarðar? Hversu margfalda mannsævi ætli við þyrftum til að skoða alla hina fögru staði jarðar og öll undur hennar? Og hugsaðu þér hve stókostleg æviskeið þetta væru!

21. (a) Hvaða vísindasjónarmið koma upp í hugann þegar við lesum Jobsbók 38:19? (b) Hvað ættum við að gera í ljósi staðreynda?

21 Taktu líka eftir hinum djúpt hugsuðu spurningum í Jobsbók 38:19: „Hvar er vegurinn þangað sem ljósið býr, og myrkrið — hvar á það heima?“ Þú veist kannski að lengi vel litu vísindamenn á ljósið sem bylgjuhreyfingu, líkt og bylgjur berast eftir polli. Árið 1905 setti Albert Einstein fram þá kenningu að ljósið hegðaði sér eins og orkubögglar eða eindir. Var skýring Einsteins endanleg? Í nýlegri alfræðibók er spurt hvort ljósið sé bylgja eða eind og síðan svarað: „Svo virðist sem [ljós] geti ekki verið hvort tveggja því að líkönin tvö [bylgjur og eindir] eru svo ólík. Besta svarið er að strangt til tekið sé ljósið hvorugt.“ En sólarljósið heldur samt áfram að ylja okkur beint og óbeint, þó svo að enginn maður geti enn þá skýrt þetta verk Guðs til fullnustu. Við borðum mat og öndum að okkur súrefni sem myndast við ljóstillífun plantna. Við getum lesið, horft á ástvini okkar, starað á sólsetrið og svo mætti lengi telja. Og þegar við gerum þetta, ættum við þá ekki að viðurkenna dásemdarverk Guðs? — Sálmur 104:1, 2; 145:5; Jesaja 45:7; Jeremía 31:35.

22. Hvað fannst Davíð um dásemdarverk Guðs?

22 Erum við eingöngu að ígrunda dásemdarverk Jehóva í þeim tilgangi að standa höggdofa af hrifningu? Nei, sálmaritarinn viðurkenndi að við gætum alls ekki skilið eða tjáð okkur um öll verk Guðs. Davíð skrifaði: „Mörg hefir þú, [Jehóva], Guð minn, gjört dásemdarverk þín . . . Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.“ (Sálmur 40:6) Hann átti auðvitað ekki við það að hann ætlaði að þegja yfir þessum miklu verkum heldur stóð við þann ásetning sem hann lýsti yfir í Sálmi 9:2: „Ég vil lofa þig, [Jehóva], af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.“

23. Hvað finnst þér um dásemdarverk Guðs og hvernig geturðu hjálpað öðrum?

23 Ættum við ekki að vera snortin eins og Davíð? Ættum við ekki að finna til undrunar yfir stórvirkjum Guðs og finna okkur knúin til að tala um hann, það sem hann hefur gert og það sem hann á eftir að gera? Svarið er augljóst — við ættum að ‚segja frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.‘ (Sálmur 96:3-5) Við getum sýnt hve mikils við metum dásemdarverk Guðs og hve þakklát við erum fyrir þau með því að segja öðrum frá því sem við höfum lært um hann. Jafnvel þótt fólk sé alið upp í umhverfi þar sem skaparanum er afneitað getum við vakið það til vitundar um tilvist hans með jákvæðum og fræðandi orðum. Og það gæti vakið löngun hjá þeim til að fræðast um og þjóna Jehóva, ‚skapara allra hluta,‘ sem vinnur dásemdarverk. — Opinberunarbókin 4:11.

Hvernig svarar þú?

• Hvaða verk Guðs hugsarðu um þegar þú lest hvatninguna í Jobsbók 37:14?

• Hvað er nefnt í 37. og 38. kafla Jobsbókar sem vísindin geta ekki skýrt að fullu?

• Hvað finnst þér um dásemdarverk Guðs og hvað finnurðu þig knúinn til að gera?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 7]

Hver byrgði hafið inni og hélt því í skefjum?

[Mynd á blaðsíðu 7]

Hver hefur heimsótt alla fegurstu staði jarðar sem Guð skapaði?