Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitið Jehóva áður en reiðidagurinn rennur upp

Leitið Jehóva áður en reiðidagurinn rennur upp

Leitið Jehóva áður en reiðidagurinn rennur upp

„Leitið [Jehóva] . . . Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ — SEFANÍA 2:3.

1. Hvernig er komið fyrir Júda þegar spámannsstarf Sefanía hefst?

SEFANÍA hefur spámannsstarf sitt á tvísýnum tíma í sögu Júda. Þjóðin er í andlegri ládeyðu og fólkið leitar leiðsagnar heiðinna presta og stjörnuspekinga í stað þess að reiða sig á Jehóva. Landið er gagnsýrt Baalsdýrkun og tilheyrandi frjósemisathöfnum, og leiðtogar þjóðarinnar — höfðingjar, tignarmenn og dómarar — þjá og kúga þá sem þeir eiga að vernda. (Sefanía 1:9; 3:3) Það er engin furða að Jehóva skuli ákveða að ‚útrétta hönd sína‘ gegn Júda og Jerúsalem til að tortíma þeim. — Sefanía 1:4.

2. Hvaða von er um trúa þjóna Guðs í Júda?

2 Þótt ástandið sé slæmt er samt vonarglæta. Jósía Amónsson er sestur í hásætið. Hann er að vísu á barnsaldri en elskar Jehóva heitt. Ef hinn nýi konungur endurreisir hreina tilbeiðslu í Júda verður það mikil lyftistöng fyrir þá fáu sem þjóna Guði trúfastlega. Og aðrir kynnu að ganga til liðs við þá og bjargast á reiðidegi Jehóva.

Skilyrði fyrir björgun

3, 4. Hvaða þrjú skilyrði þarf að uppfylla til að bjargast á ‚reiðdegi Jehóva‘?

3 Var virkilega hægt að komast lífs af á reiðidegi Jehóva? Já, með því að uppfylla skilyrðin þrjú í Sefanía 2:2, 3. Tökum sérstaklega eftir þeim þegar við lesum þessi vers. Sefanía skrifar: „Áður en þér verðið eins og fjúkandi sáðir, áður en hin brennandi reiði [Jehóva] kemur yfir yður, áður en reiðidagur [Jehóva] kemur yfir yður. Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“

4 Til að bjargast þurftu menn (1) að leita Jehóva, (2) ástunda réttlæti og (3) ástunda auðmýkt. Þessi skilyrði snerta okkur líka vegna þess að þjóðir kristna heimsins, og í reynd allir óguðlegir menn, sigla hraðbyri til lokauppgjörs við Jehóva Guð í ‚þrengingunni miklu,‘ alveg eins og reikningsskiladagur blasti við Júda og Jerúsalem á sjöundu öld f.o.t. (Matteus 24:21) Allir sem vilja bjargast verða að taka strax til óspilltra málanna og leita Jehóva, ástunda réttlæti og ástunda auðmýkt áður en það er um seinan.

5. Hvað er fólgið í að ‚leita Jehóva‘ nú á tímum?

5 Kannski hugsarðu sem svo að þú hljótir að uppfylla skilyrðin þar eð þú ert vígður og skírður þjónn Guðs, vottur Jehóva. En það eitt að vígjast Guði er ekki nóg. Ísraelsþjóðin var vígð Guði, en Júdamenn á dögum Sefanía lifðu ekki í samræmi við vígsluheitið og þeim var um síðir hafnað. Að ‚leita Jehóva‘ nú á tímum er fólgið í því að eignast og viðhalda nánu einkasambandi við hann í félagi við jarðneskt skipulag hans, kynna sér sjónarmið hans og taka tillit til þeirra. Við leitum Jehóva þegar við nemum orð hans vandlega, hugleiðum það og förum eftir því. Þegar við leitum leiðsagnar Jehóva í innilegri bæn og fylgjum handleiðslu heilags anda verður sambandið við hann nánara og kemur okkur til að þjóna honum ‚af öllu hjarta og af allri sálu og af öllum mætti.‘ — 5. Mósebók 6:5; Galatabréfið 5:22-25; Filippíbréfið 4:6, 7; Opinberunarbókin 4:11.

6. Hvernig ‚ástundum við réttlæti‘ og hvernig er það hægt í heimi nútímans?

6 Annað skilyrðið í Sefanía 2:3 er að ‚ástunda réttlæti.‘ Flest gerðum við veigamiklar breytingar á lífi okkar til að verða hæf til kristinnar skírnar, og við verðum að halda áfram að fylgja réttlátum siðferðisreglum Guðs alla ævi. Sumir byrjuðu vel en hafa látið heiminn flekka sig. Það er ekki auðvelt að ástunda réttlæti enda erum við umkringd fólki sem sér ekkert athugavert við kynferðislegt siðleysi, lygar og aðrar syndir. En sterk löngun til að þóknast Jehóva getur sigrast á sérhverri tilhneigingu til að sækjast eftir velþóknun heimsins með því að reyna að samlagast honum. Júdamenn misstu velþóknun Guðs af því að þeir reyndu að líkja eftir óguðlegum nágrannaþjóðum. Verum heldur „eftirbreytendur Guðs“ frekar en að líkja eftir heiminum og leggjum rækt við ‚hinn nýja mann sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.‘ — Efesusbréfið 4:24; 5:1.

7. Hvernig ‚ástundum við auðmýkt‘?

7 Þriðja skilyrðið, sem sett er í Sefanía 2:3 fyrir björgun á reiðidegi Jehóva, er að ‚ástunda auðmýkt.‘ Daglega umgöngumst við karla, konur og unglinga sem eru allt annað en auðmjúk. Þeim finnst hógværð vera persónugalli og undirgefni alvarlegt veikleikamerki. Þau eru heimtufrek, eigingjörn og kredduföst. Þau krefjast þess að „réttur“ sinn og smekkur sé virtur hvað sem tautar og raular. Það væri sorglegt ef við létum smitast af slíkum hugsunarhætti. Nú er mál að ‚ástunda auðmýkt‘ með því að sýna Guði undirgefni, þiggja auðmjúklega aga hans og breyta samkvæmt vilja hans.

Af hverju segir Sefanía „vera má“?

8. Hvað er gefið til kynna í Sefanía 2:3 með orðunum „vera má“?

8 Tökum eftir orðalaginu í Sefanía 2:3: „Vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ Af hverju segir Sefanía „vera má“ þegar hann ávarpar hina auðmjúku í landinu? Þeir máttu ekki vera of öruggir með sig þótt þeir hefðu gert vel fram til þessa. Þeir höfðu enn ekki lokið lífshlaupi sínu í trúfesti og sumir gátu hugsanlega átt eftir að syndga. Það sama á við um okkur. Jesús segir: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Hjálpræði á reiðidegi Jehóva er undir því komið að við höldum áfram að gera það sem er rétt í augum hans. Ertu algerlega staðráðinn í því?

9. Hvaða réttlætisverk vann hinn ungi Jósía konungur?

9 Svo virðist sem orð Sefanía hafi komið Jósía konungi til að ‚leita Jehóva.‘ Ritningin segir: „Á áttunda ríkisári sínu, er hann sjálfur var enn ungur að aldri [um 16 ára], tók [Jósía] að leita Guðs Davíðs, forföður síns.“ (2. Kroníkubók 34:3) Jósía ‚ástundaði réttlæti,‘ því að við lesum: „Á tólfta ári [þegar hann var um tvítugt] tók hann að rýma burt úr Júda og Jerúsalem fórnarhæðum og asérum, skurðgoðum og líkneskjum. Ölturu Baalanna voru rifin niður að honum ásjáandi.“ (2. Kroníkubók 34:3, 4) Og Jósía ‚ástundaði auðmýkt‘ og þóknaðist Jehóva með því að hreinsa landið af skurðgoðadýrkun og öðrum falstrúarathöfnum. Aðrir auðmjúkir menn hljóta að hafa fagnað mjög þessari framvindu!

10. Hvað gerðist í Júda árið 607 f.o.t. og hverjum var þyrmt?

10 Margir Gyðingar sneru aftur til Jehóva í stjórnartíð Jósía. En eftir hans dag hurfu flestir aftur til fyrri hátta — til iðkana sem Guð hefur fullkomna andstyggð á. Babýloníumenn lögðu Júda undir sig og eyddu höfuðborginni Jerúsalem árið 607 f.o.t. eins og Jehóva hafði úrskurðað. En staðan var ekki með öllu vonlaus. Spámaðurinn Jeremía, Blálendingurinn Ebed-Melek, afkomendur Jónadabs og aðrir trúir þjónar Jehóva hlutu vernd á reiðdegi hans. — Jeremía 35:18, 19; 39:11, 12, 15-18.

Óvinir Guðs — takið eftir!

11. Hvers vegna er vandi að vera Guði trúr nú á tímum, en hvað ættu óvinir fólks hans að hafa í huga?

11 Við megum þola „ýmiss konar raunir“ meðan við bíðum þess að reiðidagur Jehóva komi yfir þetta illa heimskerfi. (Jakobsbréfið 1:2) Í mörgum löndum, þar sem trúfrelsi er haldið á loft í orði kveðnu, hafa klerkar beitt áhrifum sínum bak við tjöldin til að fá yfirvöld til að ofsækja fólk Guðs grimmilega. Ófyrirleitnir menn rægja votta Jehóva og stimpla þá „hættulega trúarreglu.“ Guð veit hvað þeir aðhafast — og þeir sleppa ekki við hegningu. Fjandmenn hans ættu að íhuga afdrif óvina fólks hans til forna eins og Filista. Spádómurinn segir: „Gasa mun verða yfirgefin og Askalon verða að auðn. Asdódbúar munu burt reknir verða um hábjartan dag og Ekron í eyði lögð.“ Filistaborgunum Gasa, Askalon, Asdód og Ekron yrði gereytt. — Sefanía 2:4-7.

12. Hvað varð um Filista, Móabíta og Ammóníta?

12 Spádómurinn heldur áfram: „Ég hefi heyrt svívirðingar Móabs og smánaryrði Ammóníta, er þeir svívirtu með þjóð mína og höfðu hroka í frammi við land þeirra.“ (Sefanía 2:8) Egyptar og Blálendingar þurftu vissulega að þjást af hendi Babýloníumanna en hver er dómur Guðs gegn Móab og Ammón, þjóðunum sem komu af Lot, bróðursyni Abrahams? Jehóva spáir: „Fara [skal] fyrir Móab eins og fyrir Sódómu, og fyrir Ammónítum eins og fyrir Gómorru.“ Hinir stoltu Móabítar og Ammónítar komast ekki undan brennandi dómi Guðs, ólíkt ættmæðrum sínum, dætrum Lots sem björguðust báðar þegar Sódómu og Gómorru var eytt. (Sefanía 2:9-12; 1. Mósebók 19:16, 23-26, 36-38) Hvar eru Filistar og borgir þeirra núna? Og hvað varð um hina stoltu Móabíta og Ammóníta? Þeir eru horfnir fyrir fullt og allt.

13. Hvaða fornleifar fundust í Níníve?

13 Veldi Assýringa stóð sem hæst á dögum Sefanía. Fornleifafræðingurinn Austen Layard lýsir hluta konungshallar sem hann gróf úr jörð í Níníve, höfuðborg Assýríu: „Loftinu . . . var skipt í ferhyrnd hólf, skreytt blóma- eða dýramyndum. Sum hólf voru ígreypt fílabeini og hvert með íburðarmiklum jaðri og skrautlista. Bjálkarnir og veggirnir hafa hugsanlega verið gylltir eða jafnvel húðaðir gulli og silfri. Sjaldgæfustu viðartegundir voru notaðar í tréverkið, og var sedrusviður einkar áberandi.“ En Assýría skyldi afmáð og höfuðborgin Níníve ‚lögð í eyði‘ samkvæmt spádómi Sefanía. — Sefanía 2:13.

14. Hvernig rættist spádómur Sefanía á Níníve?

14 Aðeins 15 árum eftir að Sefanía bar spádóminn fram var hin volduga Níníve eydd og konungshöllin lögð í rúst. Já, borgin stolta var jöfnuð við jörðu. Umfang eyðileggingarinnar var sagt fyrir á litríku myndmáli: „Pelíkanar og stjörnuhegrar munu eiga náttból á [föllnum] súlnahöfðum hennar. Heyr kliðinn í gluggatóttunum! Rofhrúgur á þröskuldunum.“ (Sefanía 2:14, 15) Tígulegar byggingar Níníve yrðu einskis nýtar nema sem bæli fyrir pelíkana og stjörnuhegra. Verslunarkliður, hermannaköll og prestasöngl skyldi ekki heyrast framar á götum hennar. Á áður fjölförnum strætum myndi aðeins heyrast drungaleg hljóð í gluggatóttum, kannski tregablandið fuglskvak eða gnauð í vindi. Megi þetta verða afdrif allra óvina Guðs!

15. Hvaða lærdóm má draga af örlögum Filisteu, Móabs, Ammóns og Assýríu?

15 Hvaða lærdóm má draga af örlögum Filisteu, Móabs, Ammóns og Assýríu? Þennan: Þjónar Jehóva þurfa ekki að óttast óvini sína. Guð sér hvað andstæðingar þeirra aðhafast. Hann greip til aðgerða gegn óvinum sínum til forna og hann ætlar að dæma alla heimsbyggðina innan skamms. En ‚mikill múgur af alls kyns fólki‘ mun lifa af. (Opinberunarbókin 7:9) Þú getur verið í hópi þeirra, en aðeins ef þú heldur áfram að leita Jehóva, ástunda réttlæti og ástunda auðmýkt.

Vei óskammfeilnum syndurum

16. Hvað segir spádómur Sefanía um höfðingja og trúarleiðtoga Júda, og hvers vegna eiga þessi orð vel við kristna heiminn?

16 Spádómur Sefanía beinir aftur athyglinni að Júda og Jerúsalem. Sefanía 3:1, 2 segir: „Vei hinni þverúðarfullu og saurguðu, hinni ofríkisfullu borg! Hún hlýðir engri áminningu, hún tekur engri hirtingu, hún treystir ekki [Jehóva] og nálægir sig ekki Guði sínum.“ Það er sorglegt að þjóðin hefur virt tilraunir Jehóva til að tyfta hana að vettugi og hann harmar harðýðgi höfðingjanna, tignarmannanna og dómaranna. Sefanía fordæmir óskammfeilni trúarleiðtoganna og segir: „Spámenn hennar eru léttúðarmenn, svikaseggir. Prestar hennar vanhelga hið heilaga, misbjóða lögmálinu.“ (Sefanía 3:3, 4) Þetta lýsir vel hvernig komið er fyrir spámönnum og prestum kristna heimsins! Þeir hafa óskammfeilnir fjarlægt nafn Guðs úr biblíuþýðingum sínum og haldið fram kennisetningum sem gefa villandi mynd af þeim sem þeir segjast tilbiðja.

17. Hvers vegna ættum við halda áfram að boða fagnaðarerindið hvort sem fólk hlustar eða ekki?

17 Jehóva er tillitssamur og varar fólk sitt til forna við því sem hann ætlar að gera. Hann sendir þjóna sína spámennina — meðal annars Sefanía og Jeremía — til að hvetja það til að iðrast. Já, „[Jehóva] er réttlátur . . . hann gjörir ekkert rangt. Á morgni hverjum leiðir hann réttlæti sitt í ljós, það bregst ekki.“ En hver eru viðbrögðin? „Hinn rangláti kann ekki að skammast sín,“ segir Sefanía. (Sefanía 3:5) Sams konar viðvörun er gefin núna. Ef þú ert boðberi fagnaðarerindisins áttu þátt í að koma henni á framfæri. Haltu linnulaust áfram að boða fagnaðarerindið. Hvort sem fólk hlustar á þig eða ekki er boðunarstarfið árangursríkt í augum Guðs meðan þú sinnir því trúfastlega. Þú þarft ekki að skammast þín ef þú ert kostgæfinn í verki hans.

18. Hvernig rætist Sefanía 3:6?

18 Dómur Jehóva einskorðast ekki við eyðingu kristna heimsins heldur nær fordæming hans til allra þjóða jarðar: „Ég hefi afmáð þjóðir, múrtindar þeirra voru brotnir niður. Ég hefi lagt stræti þeirra í eyði, svo að enginn var þar á ferð. Borgir þeirra voru eyddar.“ (Sefanía 3:6) Orð Jehóva eru svo áreiðanleg að hann talar um eyðinguna eins og hún hafi þegar átt sér stað. Hvað varð um borgir Filisteu, Móabs og Ammóns? Og hvað varð um Níníve, höfuðborg Assýríu? Eyðing þeirra er þjóðum nútímans víti til varnaðar. Guð lætur ekki að sér hæða.

Haltu áfram að leita Jehóva

19. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

19 Guð gaf reiði sinni lausan tauminn á dögum Sefanía gegn þeim er ‚létu allar gjörðir sínar vera illverk.‘ (Sefanía 3:7) Það sama gerist á okkar tímum. Sérðu vísbendingarnar um að reiðidagur Jehóva sé nálægur? ‚Leitarðu Jehóva‘ stöðugt með því að lesa í orði hans reglulega — daglega? ‚Ástundarðu réttlæti‘ með því að vera hreinlífur eins og siðferðisreglur Guðs kveða á um? Og ‚ástundarðu auðmýkt‘ með því að vera mildur í lund og undirgefinn Guði og hjálpræðisráðstöfunum hans?

20. Hvaða spurningum verður svarað í lokagreininni um spádóm Sefanía?

20 Ef við höldum trúföst áfram að leita Jehóva og ástunda réttlæti og auðmýkt getum við vænst þess að hljóta ríkulega blessun — jafnvel núna á þessum erfiðu „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Orðskviðirnir 10:22) Hvaða blessunar njóta nútímaþjónar Jehóva og hvaða framtíðargæfa segir spádómur Sefanía að falli þeim í skaut sem bjargast á yfirvofandi reiðidegi Jehóva?

Hvert er svarið?

• Hvernig á að ‚leita Jehóva‘?

• Hvað er fólgið í því að ‚ástunda réttlæti‘?

• Hvernig getum við ‚ástundað auðmýkt‘?

• Hvers vegna eigum við að halda áfram að leita Jehóva og ástunda réttlæti og auðmýkt?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20]

Leitarðu Jehóva með innilegri bæn og biblíunámi?

[Mynd á blaðsíðu 23]

Mikill múgur lifir af reiðidag Jehóva með því að leita hans stöðugt.