Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjáningarnar taka bráðum enda

Þjáningarnar taka bráðum enda

Þjáningarnar taka bráðum enda

ÞJÁNINGAR blasa við hvert sem litið er. Sumir kalla þær beinlínis yfir sig með líferni sínu. Nægir að nefna samræðissjúkdóma og afleiðingar reykinga, ofdrykkju og fíkniefnaneyslu. Sumir spilla heilsunni með mataræði sínu. En miklar þjáningar má einnig rekja til þátta og atburða sem hinn almenni maður ræður ekki við — til styrjalda, þjóðernisátaka, glæpa, fátæktar, hungurs og sjúkdóma. Og menn eru að mestu leyti vanmátta gagnvart þjáningum af völdum öldrunar og dauða.

Biblían fullvissar okkur um að ‚Guð sé kærleikur.‘ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hvers vegna hefur kærleiksríkur Guð leyft allar þessar þjáningar um aldaraðir? Hvenær grípur hann í taumana? Til að svara þessum spurningum þurfum við að kanna hver sé tilgangur hans með mennina. Þá skiljum við betur hvers vegna hann hefur leyft þjáningarnar og hvernig hann ætlar að binda enda á þær.

Frjáls vilji er gjöf Guðs

Þegar Guð skapaði manninn bjó hann til meira en líkama með heila. Og ekki skapaði hann Adam og Evu sem viljalaus verkfæri. Hann gaf þeim frjálsan vilja sem er góð gjöf því að „Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mósebók 1:31) Já, ‚verk hans eru fullkomin.‘ (5. Mósebók 32:4) Það er okkur öllum mikils virði að hafa frjálsan vilja því að ekki viljum við láta lesa okkur fyrir í einu og öllu hvað við eigum að hugsa og gera, án þess að mega ráða nokkru um það sjálf.

En mátti maðurinn beita hinum frjálsa vilja án takmarka? Orð Guðs svarar í leiðbeiningum til frumkristinna manna. Þar stendur: „Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs.“ (1. Pétursbréf 2:16) Frelsið má ekki vera takmarkalaust heldur þarf að taka mið af hagsmunum heildarinnar. Þess vegna þurfti að setja frjálsum vilja ákveðinn lagaramma, ella myndi stjórnleysi hljótast af.

Hver átti að setja lögin?

Hver átti að setja lög um viðeigandi mörk frelsisins? Svarið við þessari spurningu er nátengt grunnástæðunni fyrir því að Guð hefur leyft þjáningar. Guð skapaði mennina svo að hann veit best hvaða lög eru þeim til góðs. Biblían orðar það þannig: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ — Jesaja 48:17.

Ljóst er að mennirnir voru ekki skapaðir til að vera óháðir Guði heldur er heill þeirra og hamingja háð því að þeir hlýði réttlátum lögum hans. Jeremía spámaður sagði: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23.

Guð setti manninn undir náttúrulögmálin, svo sem þyngdaraflið, og jafnframt undir siðferðislög sín sem eru til þess gerð að skapa sátt og samlyndi í þjóðfélaginu. Það er því ærin ástæða til þess að Biblían skuli hvetja: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ — Orðskviðirnir 3:5.

Mannkynið gat því aldrei stjórnað sjálfu sér farsællega án handleiðslu Guðs. Til að reyna að vera óháðir honum áttu þeir eftir að upphugsa þjóðfélagsgerðir, stjórnmálakerfi og trúarbrögð sem voru þess eðlis að það hlaut að koma til átaka með þeim. ‚Einn maðurinn drottnaði yfir öðrum honum til ógæfu.‘ — Prédikarinn 8:9.

Hvað fór úrskeiðis?

Guð bjó foreldrum mannkyns kjörskilyrði. Adam og Eva voru fullkomin á huga og líkama og heimili þeirra var paradís, og þau hefðu verið alsæl og fullkomin áfram ef þau hefðu virt stjórn Guðs. Með tíð og tíma hefðu fullkomnir afkomendur þeirra fyllt paradísarjörðina — ein sameinuð fjölskylda hamingjusamra manna um allan heim. Þetta var fyrirætlun Guðs með mannkynið. — 1. Mósebók 1:27-29; 2:15.

En foreldrar mannkyns misnotuðu sér hinn frjálsa vilja. Þau héldu ranglega að þau gætu spjarað sig óháð Guði. Þau fóru af fúsum og frjálsum vilja út fyrir þann ramma sem lög hans settu. (1. Mósebók, 3. kafli) Þau höfnuðu stjórn hans svo að honum bar engin skylda til að viðhalda fullkomleika þeirra. „Svikul kynslóð og spillt brást honum; sér til svívirðu eru þeir ekki synir hans framar.“ — 5. Mósebók 32:5, Biblíurit, ný þýðing 1995.

Um leið og þau Adam og Eva óhlýðnuðust Guði tók líkami þeirra og hugur að hrörna. Uppspretta lífsins er hjá Jehóva. (Sálmur 36:10) Með því að slíta tengslin við hann urðu fyrstu mannhjónin ófullkomin og dóu að lokum. (1. Mósebók 3:19) Erfðalögmálið sá til þess að afkomendur þeirra erfðu eiginleika foreldranna sem voru ófullkomleiki og dauði. Þess vegna skrifaði Páll postuli: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam] og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ — Rómverjabréfið 5:12.

Hver hafði réttinn til að stjórna?

Adam og Eva véfengdu rétt Guðs til að stjórna þegar þau gerðu uppreisn gegn honum. Jehóva Guð hefði getað útrýmt þeim og byrjað á nýjan leik með nýjum hjónum, en það hefði ekki útkljáð deiluna um það hver hefði réttinn til að stjórna og hver væri bestur til þess fallinn. Ef menn fengju tíma til að þróa þjóðfélög eftir eigin höfði kæmi í ljós, svo að enginn vafi léki á, hvort menn gætu nokkurn tíma stjórnað óháðir Guði.

Hvað lærum við af árþúsundalangri sögu mannkyns? Menn hafa reynt margs konar þjóðfélags-, efnahags-, stjórnmála- og trúarkerfi en illskan og þjáningarnar hafa haldið áfram. Satt að segja hafa ‚vondir menn og svikarar magnast í vonskunni,‘ sérstaklega á okkar tímum. — 2. Tímóteusarbréf 3:13.

Menn unnu mikil afrek í vísindum og iðnaði á tuttugustu öld en horfðu jafnframt upp á mestu þjáningar mannkynssögunnar. Og óháð öllum framförum í læknisfræði er lögmál Guðs enn í fullu gildi: Menn veikjast, hrörna og deyja þegar þeir eru slitnir úr tengslum við Guð, gjafara lífsins. Það hefur margsannast að menn geta ekki ‚stýrt skrefum sínum.‘

Guð lætur til sín taka

Þessi skelfingartilraun mannsins til að vera óháður Guði hefur sannað í eitt skipti fyrir öll að menn geta aldrei stjórnað án hans. Ekkert nema stjórn Guðs getur veitt mönnum hamingju, einingu, heilbrigði og líf. Og óbrigðult orð hans, heilög Biblía, sýnir fram á að við lifum á „síðustu dögum“ þess tíma sem menn fá að stjórna óháðir honum. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Sá tími er nánast á enda sem Jehóva leyfir það, ásamt illskunni sem er samfara því.

Guð lætur bráðlega til sín taka. Ritningin segir: „En á dögum þessara konunga [þeirra mannastjórna sem eru við völd núna] mun Guð himnanna hefja ríki [á himnum], sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða [menn fá aldrei aftur að ríkja yfir jörðinni]. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [sem nú eru], en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.

Sá boðskapur liggur eins og rauður þráður gegnum alla Biblíuna að hið himneska ríki eigi að verja rétt Jehóva Guðs til að stjórna jörðinni. Þetta var inntakið í kennslu Jesú. Hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.

Hverjir lifa af og hverjir ekki þegar stjórn Guðs tekur við af stjórn manna? Orðskviðirnir 2:21, 22 lofa: „Hinir hreinskilnu [sem styðja stjórn Guðs] munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu [sem styðja ekki stjórn Guðs] munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ Sálmaritarinn söng: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu. Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:10, 11, 29.

Unaðslegur, nýr heimur

Þeir sem eftir lifa þegar núverandi heimskerfi líður undir lok ganga inn í nýjan heim sem Guðsríki stjórnar. Þá verður búið að uppræta alla illsku og þjáningar. Jehóva leiðbeinir mannkyninu og að lokum verður ‚jörðin full af þekkingu á honum eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.‘ (Jesaja 11:9) Hin siðbætandi fræðsla Guðs byggir upp friðsamt mannfélag þar sem stríð, morð, ofbeldi, nauðgun, þjófnaður og aðrir glæpir verða óþekktir.

Hlýðnir menn eiga margs konar gæfu í vændum í nýjum heimi Guðs. Hinar slæmu afleiðingar uppreisnarinnar gegn stjórn hans verða þurrkaðar út með öllu. Ófullkomleiki, sjúkdómar, ellihrörnun og dauði verða liðin tíð. Biblían lofar: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur,‘“ og heitir jafnframt: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ (Jesaja 33:24; 35:5, 6) Það verður unaðslegt að búa við fullkomna heilsu dag hvern — um alla eilífð!

Undir kærleiksstjórn Guðs munu ábúendur nýju jarðarinnar beita kröftum sínum og kunnáttu til að skapa paradís um allan hnöttinn. Fátækt, hungur og húsnæðisleysi heyrir fortíðinni til því að spádómur Jesaja segir: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta.“ (Jesaja 65:21, 22) Þeir munu „búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ — Míka 4:4.

Jörðin svarar góðri umsjón Guðs og hlýðinna manna því að Biblían lofar: „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. . . . Vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.“ (Jesaja 35:1, 6) „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ — Sálmur 72:16.

Hvað um þá milljarða sem látnir eru? Þeir sem Guð minnist verða endurlífgaðir því að ‚upp munu rísa bæði réttlátir og ranglátir,‘ eins og Biblían segir. (Postulasagan 24:15) Já, hinir dánu verða reistir upp frá dauðum og fræddir um stjórn Guðs, og þeir fá tækifæri til að lifa að eilífu í paradís. — Jóhannes 5:28, 29.

Þannig mun Jehóva Guð útrýma hinum ægilegu þjáningum, sjúkdómum og dauða sem hafa haldið mannkyni í helgreip sinni um árþúsundir. Sjúkdómar verða liðin tíð. Fötlun þekkist ekki framar. Dauðinn verður afmáður. Guð mun „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

Þannig bindur Guð enda á þjáningar. Hann eyðir þessum spillta heimi og í staðinn kemur nýr heimur „þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Þetta eru gleðifréttir! Það er mjög aðkallandi að nýr heimur taki við af þessum. Og við þurfum alls ekki að bíða hans um langan aldur því að uppfylling biblíuspádómanna sýnir og sannar að Guð umber ekki þjáningarnar miklu lengur. Nýi heimurinn er á næsta leiti. — Matteus 24:3-14.

[Rammi á blaðsíðu 8]

Stjórn manna hefur brugðist

Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Vestur-Þýskalands, sagði einu sinni: „Við mennirnir . . . höfum aldrei stjórnað heiminum nema að hluta til og yfirleitt mjög illa. . . . Við höfum aldrei stjórnað honum í algerum friði.“ Í skýrslunni Human Development Report 1999 segir: „Allar þjóðir greina frá því að innviðir þjóðfélagsins séu að gliðna í sundur og benda á þjóðfélagsólgu, vaxandi glæpi og aukið heimilisofbeldi. . . . Það eru æ alvarlegri blikur á lofti í heiminum, alvarlegri en svo að einstakar þjóðir geti brugðist við þeim, og meiri en svo að alþjóðasamfélagið nái að grípa í taumana.“

[Myndir á blaðsíðu 8]

‚Þeir munu gleðjast yfir ríkulegri gæfu.‘ — Sálmur 37:11.

[Mynd credit line á blaðsíðu 5]

Næstneðsta mynd, móðir og barn: FAO/B. Imevbore; neðsta mynd, sprenging: U.S. National Archives.