Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían í einu bindi

Biblían í einu bindi

Biblían í einu bindi

HINIR frumkristnu voru manna fyrstir til að nota bókina í stað bókrollunnar þegar þeir gerðu afrit af Biblíunni. En nokkur tími leið áður en menn fóru að setja allar biblíubækurnar saman í eitt bindi. Á sjöttu öld náðist mikilvægur áfangi í þessa átt. Þar kom við sögu maður að nafni Flavíus Cassíódórus.

Flavíus Magnús Árelíus Cassíódórus fæddist einhvern tíma á árabilinu 485 til 490 í efnaða fjölskyldu í Calabríu á suðurodda Ítalíu. Hann var uppi á ólgutímum í sögu landsins því að Ítalía var hernumin, fyrst af Gotum en síðar af Býsansmönnum. Cassíódórus var á milli sextugs og sjötugs er hann stofnaði klaustur og bókasafn sem kennt er við Vivaríum nærri heimili hans í Squillace í Calabríu.

Vandvirkur biblíuútgefandi

Útbreiðsla Biblíunnar var helsta hugðarefni Cassíódórusar. Sagnfræðingurinn Peter Brown bendir á að hann hafi verið þeirrar skoðunar að það ætti að beita latneskum bókmenntum af alefli til að stuðla að útbreiðslu Biblíunnar. „Öllum þeim ráðum, sem áður höfðu verið notuð til rannsókna og afritunar klassískra texta, skyldi nú beitt til að auka skilning á Ritningunni og afrita hana fagmannlega. Latnesk menning átti, líkt og nýmyndað sólkerfi, að snúast um hina miklu sól sem orð Guðs var.“

Cassíódórus kallaði þýðendur og málfræðinga til Vivaríum-klaustursins til að bera saman og flokka texta allrar Biblíunnar og ritstýrði þessu mikla nákvæmnisverki. Hann trúði aðeins fáeinum lærdómsmönnum fyrir verkinu. Þeir áttu að forðast fljótfærnislegar leiðréttingar á meintum afritunarvillum. Ef einhver málfræðiatriði voru talin vafasöm bar að álíta forn biblíuhandrit áreiðanlegri en viðtekna latneska notkun. Cassíódórus mælti svo fyrir: „Málfræðileg einkenni . . . ber að varðveita því að texti, sem er vitað að er innblásinn, má ekki spillast. . . . Viðhalda skal ‚hebreskum‘ myndum sérnafna og biblíulegu tjáningarformi, myndhvörfum og orðtökum, jafnvel þótt framandi séu á latneskan mælikvarða.“ — The Cambridge History of the Bible.

Codex Grandior

Ritararnir í Vivaríum-klaustrinu áttu að gera að minnsta kosti þrjár mismunandi útgáfur af Biblíunni á latínu. Ein þeirra var í níu bindum og innihélt sennilega fornlatneska textann sem var þýðing frá síðari hluta annarrar aldar. Önnur útgáfan innihélt hina latnesku Vúlgata-þýðingu sem Híerónýmus lauk við í byrjun fimmtu aldar. Þriðja útgáfan, Codex Grandior sem merkir „stærri bók,“ var sótt í þrjá texta Biblíunnar. Í tveim síðarnefndu útgáfunum voru allar biblíubækurnar settar saman í eitt bindi.

Cassíódórus virðist fyrstur manna hafa gefið út latneskar biblíur í einu bindi og kallaði þær pandectae. * Eflaust hefur hann áttað sig á hagkvæmni þess að sameina allar biblíubækurnar í eitt bindi, enda tímafrekt að fletta upp í mörgum bindum.

Frá Suður-Ítalíu til Bretlandseyja

Skömmu eftir dauða Cassíódórusar (sennilega um árið 583) fór Codex Grandior á flakk. Hluti Vivaríum-bókasafnsins virðist þá hafa verið fluttur í Lateran-bókasafnið í Róm. Engilsaxneskur ábóti, er Celofrith hét, flutti bókina með sér til Bretlandseyja árið 678, eftir dvöl í Róm. Þannig barst hún til klaustranna tveggja í Wearmouth og Jarrow, sem Celofrith stýrði, en þau voru í Norðumbríu á Englandi.

Celofrith og munkar hans hljóta að hafa hrifist af því hve þægilegt var að hafa Biblíuna í einu bindi. Á næstu áratugum gerðu þeir þrjár aðrar heilar biblíur í einu bindi. Eina eintakið af þeim, sem nú er til, er hið gríðarstóra handrit sem kallast Codex Amiatinus. Þetta er 2060 blaðsíðna skinnbók, um 51 sinnum 33 sentímetrar að stærð. Að kápunni meðtaldri er hún 25 sentímetrar á þykkt og vegur 34 kílógrömm. Hún er elsta heila latneska biblían í einu bindi sem til er. Hinn mikils metni biblíufræðingur Fenton J. A. Hort uppgötvaði bókina árið 1887. Hann skrifaði: „Þetta [handrit] er slíkt undraverk að það vekur nánast lotningu nútímamanna.“

Aftur til Ítalíu

Hin upprunalega Codex Grandior Cassíódórusar er nú glötuð. En engilsaxneskur afkomandi hennar, Codex Amiatinus, lagði upp í ferð til Ítalíu skömmu eftir að hún var gerð. Celofrith ákvað, skömmu fyrir dauða sinn, að snúa aftur til Rómar og tók með sér eitt af hinum þrem latnesku biblíuhandritum sem gjöf handa Gregoríusi páfa öðrum. Celofrith dó árið 716 í Langres í Frakklandi á leiðinni til Rómar. En biblían hélt ferðinni áfram með föruneyti hans. Henni var að lokum komið fyrir í bókasafninu við klaustrið sem kennt er við Amiata-fjall á Mið-Ítalíu, og þaðan er nafnið Codex Amiatinus komið. Árið 1782 var handritið flutt til Medicea Laurenziana bókasafnsins í Flórens á Ítalíu og er talið einn mesti dýrgripur þess.

Hvaða áhrif hefur Codex Grandior haft á okkur? Allt frá tímum Cassíódórusar hafa afritunarmenn og prentarar hallast æ meira að því að gefa Biblíuna út í einu bindi. Æ síðan hefur það auðveldað fólki að fletta upp í henni og þar með aukið áhrifamátt hennar í lífi þess. — Hebreabréfið 4:12.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Grískar biblíur í einu bindi virðast hafa verið í notkun frá fjórðu eða fimmtu öld.

[Kort á blaðsíðu 30]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Ferð Codex Grandior

Vivaríumklaustrið

Róm

Jarrow

Wearmouth

Ferð Codex Amiatinus

Jarrow

Wearmouth

Amiatafjall

Flórens

[Credit line]

Mountain High Maps® Copyright © 1997 Digital Wisdom, Inc.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Að ofan: Codex Amiatinus. Til vinstri: Mynd af Esra í Codex Amiatinus.

[Credit line]

Biblioteca Medicea Laurenziana, Firenze.