Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gleðstu með hinum sæla Guði

Gleðstu með hinum sæla Guði

Gleðstu með hinum sæla Guði

„Að öðru leyti, bræður, verið glaðir, . . . þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.“ — 2. KORINTUBRÉF 13:11.

1, 2. (a) Af hverju eru margir gleðivana? (b) Hvað er gleði og hvernig getum við örvað hana?

MÖRGUM þykir lítil ástæða til að vera glaðir, enda útlitið ekki bjart. Þegar harmleik ber að garði hjá þeim eða ástvinum þeirra er þeim innanbrjósts eins og fortíðarmanninum Job er hann sagði: „Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi.“ (Jobsbók 14:1) Trúir þjónar Jehóva eru ekki ónæmir fyrir álagi og streitu hinna ‚örðugu tíða,‘ svo að það er ekkert undarlegt að þeir verði stundum niðurdregnir. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

2 En kristnir menn geta samt verið glaðir, jafnvel í prófraunum. (Postulasagan 5:40, 41) Til að skilja hvernig það er hægt er nauðsynlegt að átta sig á því hvað gleði er. Hún er „sú tilfinning sem vaknar við það að hljóta eitthvað gott eða vænta þess.“ * Við getum því verið glöð ef við minnumst þess sem við eigum Guði fyrir að þakka og hugsum til gleðinnar sem bíður okkar í nýja heiminum.

3. Hvers vegna má segja að allir hafi að minnsta kosti einhverja ástæðu til að vera glaðir?

3 Allir eiga Guði eitthvað fyrir að þakka. Fjölskyldufaðir missir vinnuna. Hann er eðlilega áhyggjufullur af því að hann vill sjá ástvinum sínum farborða. En ef hann er hraustur og sterkur má hann vera þakklátur fyrir það því að hann getur þá lagt hart að sér ef honum tekst að fá aðra vinnu. Kristin kona er haldin lamandi sjúkdómi en er þakklát fyrir stuðning ástríkra vina og ættingja sem hjálpa henni að takast á við sjúkdóminn með hugrekki og reisn. Og óháð aðstæðum geta allir kristnir menn glaðst yfir því að mega þekkja Jehóva, ‚hinn sæla Guð,‘ og Jesú Krist, ‚hinn sæla og eina alvald.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11; 6:15, Biblían 1912) Jehóva Guð og Jesús Kristur eru sælir í æðsta skilningi orðsins. Þeir halda gleði sinni þó að ástand mála á jörðinni sé gerólíkt því sem Jehóva ætlaðist fyrir í upphafi. Margt má læra af fordæmi þeirra um það að varðveita gleði sína.

Þeir hafa aldrei misst gleðina

4, 5. (a) Hvernig brást Jehóva við þegar fyrstu mennirnir gerðu uppreisn? (b) Hvernig var Jehóva jákvæður gagnvart mannkyninu?

4 Adam og Eva voru stálhraust meðan þau voru í Eden og hugur þeirra fullkominn. Þau höfðu skapandi verk að vinna og kjöraðstæður til að skila því vel af hendi. Best var þó það að þau gátu talað reglulega við Jehóva Guð. Hann ætlaði þeim gæfuríka framtíð. En foreldrar mannkyns gerðu sig ekki ánægða með allar þessar góðu gjafir og stálu forboðna ávextinum af „skilningstrénu góðs og ills.“ Óhlýðni þeirra varð kveikja allrar þeirrar óhamingju sem við, afkomendur þeirra, megum þola núna. — 1. Mósebók 2:15-17; 3:6; Rómverjabréfið 5:12.

5 En Jehóva lét ekki vanþakklæti Adams og Evu ræna sig gleðinni. Hann vissi að í það minnsta sumir af afkomendum þeirra myndu þjóna sér. Hann var svo öruggur um það að áður en Adam og Eva eignuðust fyrsta barnið var hann búinn að tilkynna að hann myndi endurleysa hlýðna afkomendur þeirra. (1. Mósebók 1:31; 3:15) Næstu aldirnar fetuðu flestir í fótspor Adams og Evu. Jehóva sneri þó ekki baki við mannkyninu þrátt fyrir útbreidda óhlýðni heldur beindi athygli sinni að körlum og konum sem ‚glöddu hjarta hans,‘ elskuðu hann og lögðu sig í líma við að þóknast honum. — Orðskviðirnir 27:11; Hebreabréfið 6:10.

6, 7. Hvað hjálpaði Jesú að varðveita gleði sína?

6 Hvað um Jesú — hvernig varðveitti hann gleðina? Jesús var voldugur andi á himnum og í bestu aðstöðu til að fylgjast með athöfnum manna á jörðinni. Honum þótti vænt um mennina þrátt fyrir augljósa galla þeirra. (Orðskviðirnir 8:31) Síðar kom hann til jarðar og „bjó með“ þeim en það breytti engu um afstöðu hans til mannkyns. (Jóhannes 1:14) Hvernig gat fullkominn sonur Guðs verið svona jákvæður í garð syndugra manna?

7 Í fyrsta lagi gerði hann sanngjarnar kröfur til sjálfs sín og annarra. Hann vissi að sér tækist ekki að snúa heiminum til trúar. (Matteus 10:32-39) Þess vegna gladdist hann jafnvel yfir því þegar einn einlægur maður tók við boðskapnum um ríkið. Þó að hegðun og hugarfari lærisveinanna hefði stundum verið ábótavant vissi Jesús að innst inni vildu þeir gera vilja Guðs, og hann elskaði þá fyrir það. (Lúkas 9:46; 22:24, 28-32, 60-62) Það er eftirtektarvert hvernig hann lýsir heillavænlegri stefnu lærisveinanna í bæn til föður síns á himnum. Hann sagði: „Þeir hafa varðveitt þitt orð.“ — Jóhannes 17:6.

8. Nefndu nokkur dæmi um hvernig hægt er að varðveita gleðina með því að líkja eftir Jehóva og Jesú.

8 Við höfum áreiðanlega öll gott af því að hugleiða þetta fordæmi Jehóva Guðs og Jesú Krists. Getum við líkt betur eftir Jehóva, til dæmis með því að vera ekki óþarflega áhyggjufull þegar hlutirnir ganga ekki alveg eins og við vonuðumst til? Getum við fetað betur í fótspor Jesú með því að líta jákvætt á aðstæður okkar og vera sanngjörn í væntingum til sjálfra okkar og annarra? Athugum hvernig hægt er að beita sumu af þessu í boðunarstarfinu sem er öllum dyggum kristnum mönnum ákaflega kært.

Verum jákvæð gagnvart boðunarstarfinu

9. Hvernig glæddi Jeremía gleði sína á nýjan leik og hvað lærum við af dæmi hans?

9 Jehóva vill að við séum glöð í þjónustu hans. Gleðin ætti ekki að vera háð árangri. (Lúkas 10:17, 20) Jeremía spámanni varð lítið ágengt þó að hann prédikaði árum saman. Hann missti gleðina þegar hann einblíndi á neikvæð viðbrögð fólks en glæddi hana á ný þegar hann hugleiddi fegurð boðskaparins. Hann sagði við Jehóva: „Kæmu orð frá þér, gleypti ég við þeim, og orð þín voru mér unun og fögnuður hjarta míns, því að ég er nefndur eftir nafni þínu, [Jehóva], Guð allsherjar.“ (Jeremía 15:16; 20:8) Jeremía fagnaði því að mega prédika orð Guðs og það getum við líka.

10. Hvernig getum við haldið gleði okkar í þjónustunni, jafnvel þótt árangur virðist ekki mikill?

10 Jafnvel þótt meirihluti manna sýni fagnaðarerindinu engan áhuga höfum við fullt tilefni til að vera glöð í boðunarstarfinu. Munum að Jehóva treysti því greinilega að sumir menn myndu vilja þjóna honum. Líkjum eftir honum og gefum aldrei upp vonina um að einhverjir átti sig fyrr eða síðar á deilumálinu um drottinvaldið og taki við boðskapnum um ríkið. Gleymum ekki að aðstæður fólks breytast. Óvæntur missir eða kreppa getur knúið sjálfsánægðasta mann til að fara að hugsa alvarlega um tilgang lífsins. Verður þú tiltækur þegar slíkur maður vaknar til vitundar um „andlega þörf sína“? (Matteus 5:3, NW) Kannski eru sumir á starfssvæðinu reiðubúnir að hlusta á boðskapinn næst þegar þú bankar upp á.

11, 12. Hvað átti sér stað í litlum bæ og hvaða lærdóm má draga af því?

11 Það geta líka orðið breytingar á svæðinu með tímanum. Tökum dæmi: Í litlum bæ bjó samheldinn hópur ungra hjóna ásamt börnum sínum. Þegar vottar Jehóva knúðu dyra var svarið alltaf það sama: „Við höfum ekki áhuga.“ Ef einhver sýndi ríkisboðskapnum áhuga voru nágrannarnir fljótir til að letja hann þess að hafa meira samband við vottana. Það var enginn hægðarleikur að prédika í þessum bæ. En vottarnir héldu ótrauðir áfram að boða trúna þar. Með hvaða árangri?

12 Börnin í bænum uxu úr grasi, og mörg þeirra giftust og stofnuðu eigin heimili þar. Sum þeirra áttuðu sig á því að þau höfðu ekki höndlað hamingjuna og fóru að leita að sannleikanum. Og þau fundu sannleikann þegar þau tóku við fagnaðarerindinu sem vottarnir boðuðu. Litli söfnuðurinn dafnaði því með tíð og tíma. Þú getur rétt ímyndað þér gleði boðberanna sem gáfust ekki upp. Höldum þrautseig áfram að boða hinn dýrlega boðskap um ríkið og njótum gleðinnar sem fylgir því.

Trúfélagar styðja þig

13. Hvert getum við leitað þegar við erum niðurdregin?

13 Hvar geturðu leitað hughreystingar þegar álagið eykst eða þú verður fyrir alvarlegu áfalli í lífinu? Milljónir vígðra þjóna Jehóva leita fyrst til hans í bæn og síðan til kristinna bræðra sinna og systra. Jesús kunni að meta stuðning lærisveinanna þegar hann var á jörðinni. Kvöldið áður en hann dó hafði hann á orði að þeir ‚hefðu verið stöðugir með honum í freistingum hans.‘ (Lúkas 22:28) Lærisveinarnir voru auðvitað ófullkomnir en hollusta þeirra var hughreystandi fyrir son Guðs. Við getum líka sótt styrk til trúfélaga okkar.

14, 15. Hvað hjálpaði hjónum þegar þau misstu son sinn og hvaða lærdóm dregurðu af reynslu þeirra?

14 Hjónin Michel og Diane kynntust því af eigin raun hve mikils virði stuðningur kristinna bræðra og systra getur verið. Jonathan, sonur þeirra, var tápmikill drengur og átti lífið fyrir sér. En tvítugur að aldri greindist hann með heilaæxli. Læknar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga honum en honum hrakaði smám saman uns hann sofnaði dauðasvefni síðla dag nokkurn. Michel og Diane voru niðurbrotin. Þau vissu að þjónustusamkoma kvöldsins var næstum á enda. En þau sárvantaði hughreystingu og báðu öldunginn, sem var hjá þeim, að fylgja sér í ríkissalinn. Þau voru rétt komin í salinn þegar söfnuðinum var tilkynnt að Jonathan væri látinn. Bræður og systur umkringdu tárvota foreldrana eftir samkomuna, föðmuðu þau og reyndu að hughreysta. „Við vorum niðurbrotin þegar við komum í salinn,“ sagði Diane síðar, „en hughreysting bræðranna var afskaplega uppörvandi. Þeir gátu ekki tekið burt sársaukann en þeir hjálpuðu okkur að rísa undir álaginu.“ — Rómverjabréfið 1:11, 12; 1. Korintubréf 12:21-26.

15 Raunir Michels og Diane styrktu tengsl þeirra við bræðurna en einnig hvort við annað. „Mér þykir enn vænna um konuna mína en áður,“ segir Michel. „Þegar við erum niðurdregin tölum við um sannleika Biblíunnar og um það hvernig Jehóva heldur okkur uppi.“ „Guðsríkisvonin er okkur enn meira virði en áður,“ bætir Diane við.

16. Af hverju er mikilvægt að láta bræðurna vita hvers við þörfnumst?

16 Bræður okkar og systur í söfnuðinum geta verið okkur „til huggunar“ í mótlæti og hjálpað okkur að varðveita gleðina. (Kólossubréfið 4:11) Þau geta auðvitað ekki lesið hugsanir okkar. Þess vegna ættum við að láta þau vita þegar við þurfum á stuðningi að halda. Síðan getum við sýnt þakklæti okkar fyrir þá huggun, sem bræðurnir geta veitt, og við megum líta svo á að hún sé frá Jehóva. — Orðskviðirnir 12:25; 17:17.

Líttu á söfnuðinn þinn

17. Lýstu því sem einstæð móðir á við að glíma. Hvernig lítur þú á hennar líka?

17 Því betur sem þú kynnist trúfélögum þínum, þeim mun meira lærirðu að meta þá og njóta þess að vera með þeim. Líttu á söfnuðinn þinn. Hvað sérðu? Sérðu einstæða móður sem stritar við að ala börnin upp í sannleikanum? Hefurðu velt fyrir þér hinu góða fordæmi hennar? Reyndu að gera þér í hugarlund sum af vandamálunum sem hún á við að etja. Jeanine er einstæð móðir og hún nefnir meðal annars einmanakennd, siðlausar umleitanir karlmanna á vinnustað og mjög þröngan fjárhag. En erfiðast finnst henni að fullnægja tilfinningaþörfum barnanna því að engin tvö börn eru eins. Og hún nefnir annað vandamál: „Það getur verið virkilega erfitt að sporna gegn þeirri tilhneigingu að láta soninn vera höfuð heimilisins til að bæta upp fyrir það að heimilisföðurinn vantar. Ég á dóttur og þarf að minna mig á að íþyngja henni ekki með því að trúa henni fyrir öllum vandamálum mínum.“ Jeanine vinnur fulla vinnu og annast heimilið líkt og þúsundir guðhræddra, einstæðra foreldra. Hún sér um biblíufræðslu barnanna, þjálfar þau í boðunarstarfinu og tekur þau með sér á safnaðarsamkomur. (Efesusbréfið 6:4) Ráðvendni þessarar fjölskyldu hlýtur að gleðja Jehóva dag hvern. Er ekki ánægjulegt að það skuli vera fólk af þessu tagi á meðal okkar? Jú, svo sannarlega.

18, 19. Hvernig getum við lært að meta aðra safnaðarmenn meira?

18 Líttu aftur á söfnuðinn. Þú sérð kannski trúfastar ekkjur eða ekkla sem láta sig aldrei vanta á safnaðarsamkomur. (Lúkas 2:37) Eru þau stundum einmana? Auðvitað. Þau sakna maka síns sárlega. En þau eru iðin í þjónustu Jehóva og áhugasöm um velferð annarra. Stöðuglyndi þeirra og jákvæðni stuðlar að gleði safnaðarins. Kristin kona, sem hefur verið boðberi í fullu starfi í meira en 30 ár, segir: „Mér finnst fátt gleðilegra en að sjá aldraða bræður og systur trúföst í þjónustu Jehóva, þótt þau hafi gengið gegnum alls konar prófraunir á lífsleiðinni.“ Hinir öldruðu í söfnuðinum eru mjög hvetjandi fyrir hina ungu.

19 Hvað um þá sem eru nýlega byrjaðir að sækja samkomur? Finnst okkur ekki hressandi að heyra þá tjá trú sína á samkomum? Hugsaðu um þær framfarir sem þeir hafa tekið síðan þeir byrjuðu að kynna sér Biblíuna. Jehóva hlýtur að vera mjög ánægður með þá. Hvað um okkur? Hrósum við þeim fyrir viðleitni þeirra?

20. Af hverju má segja að allir gegni þýðingarmiklu hlutverki í söfnuðinum?

20 Ertu kvæntur, gift, einhleypur, einhleyp eða einstætt foreldri? Ertu föðurlaus eða móðurlaus drengur eða stúlka, ekkja eða ekkill? Hefurðu tilheyrt söfnuðinum lengi eða stutt? Þú mátt treysta því að trúfesti þín er hvetjandi fyrir okkur öll. Og þegar þú syngur ríkissöngvana með söfnuðinum, þegar þú svarar á samkomum eða ert með verkefni í Guðveldisskólanum stuðlarðu að gleði okkar með framlagi þínu. Og síðast en ekki síst gleðurðu hjarta Jehóva.

21. Hvað höfum við ríka ástæðu til að gera en hvaða spurningar vakna?

21 Já, við getum verið glöð í tilbeiðslu okkar á hinum sæla Guði, jafnvel á þeim erfiðu tímum sem við lifum. Það er margt sem mælir með því að fara eftir hvatningu Páls: „Verið glaðir. . . . Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.“ (2. Korintubréf 13:11) En segjum að við lendum í náttúruhamförum, ofsóknum eða alvarlegum fjárhagsörðugleikum. Er hægt að halda gleði sinni við slíkar aðstæður? Lestu greinina á eftir og dragðu þínar eigin ályktanir.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Sjá Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 119, gefið út af vottum Jehóva.

Geturðu svarað?

• Hvað er gleði?

• Hvernig stuðlar jákvæðni að gleði?

• Hvað getur hjálpað okkur að vera jákvæð gagnvart fólki á starfssvæði safnaðarins?

• Hvað kanntu að meta í fari bræðra og systra í söfnuðinum?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 21]

Starfssvæðið getur breyst.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Hvað eiga bræður og systur í söfnuði þínum við að glíma?