Ráðgátan um þjáningar mannkyns
Ráðgátan um þjáningar mannkyns
„AF HVERJU, GUÐ, AF HVERJU?“ Þessari spurningu var slegið upp í fyrirsögn á forsíðu útbreidds dagblaðs eftir jarðskjálfta sem olli mikilli eyðileggingu í Litlu-Asíu. Með greininni var mynd af örvilnuðum föður að bera slasaða dóttur sína út úr húsi fjölskyldunnar sem eyðilagðist í skjálftanum.
Stríð, hungur, farsóttir og náttúruhamfarir hafa valdið ólýsanlegum sársauka, óendanlegum tárum og óteljandi dauðsföllum. Nauðganir, kynferðisofbeldi gagnvart börnum og aðrir glæpir auka á kvölina. Umferðarslysin taka ógurlegan toll í meiðslum og mannslífum. Og svo bætist við sálarkvöl milljarða manna samfara veikindum, ellihrörnun og ástvinamissi.
Engin öld hefur þolað meiri þjáningar en sú tuttugasta. Næstum tíu milljónir hermanna féllu í fyrri heimsstyrjöldinni á árunum 1914 til 1918. Sumir sagnfræðingar segja að jafnmargir óbreyttir borgarar hafi fallið í stríðinu. Í síðari heimsstyrjöldinni féllu um 50 milljónir hermanna og óbreyttra borgara, þeirra á meðal milljónir varnarlausra kvenna, barna og roskinna karlmanna. Og milljónir til viðbótar létu lífið í þjóðarmorðum, byltingum og þjóðernisofbeldi síðustu aldar og af völdum hungurs og fátæktar. Í bókinni Historical Atlas of the Twentieth Century er áætlað að rösklega 180 milljónir manna hafi dáið af völdum þess konar „stórhörmunga.“
Spænska veikin á árunum 1918-19 varð 20 milljónum manna að aldurtila. Á síðastliðnum tveim áratugum hafa um 19 milljónir manna látist af völdum alnæmis og um 35 milljónir eru HIV-smitaðar. Milljónir barna hafa misst foreldra sína af völdum alnæmis. Og óteljandi börn hafa smitast í móðurkviði og eru að deyja úr alnæmi.
Börnin þjást af ýmsum öðrum orsökum. Enska dagblaðið Manchester Guardian Weekly birti eftirfarandi tölur frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna í árslok 1995: „Tvær milljónir barna féllu í styrjöldum síðasta áratugar, 4-5 milljónir urðu örkumla, 12 milljónir misstu heimili sín, rúmlega 1 milljón missti foreldra sína eða varð viðskila við þá, og 10 milljónir eru skaddaðar á sálinni.“ Við þetta má svo bæta fóstureyðingum sem taldar eru 40 til 50 milljónir í heiminum — á hverju ári!
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Margir kvíða framtíðinni. Hópur vísindamanna lét þetta
frá sér fara: „Athafnir mannanna . . . geta breytt lífheiminum svo að hann verði ófær um að viðhalda lífinu á þann hátt sem við þekkjum.“ Og áfram segja þeir: „Einn af hverjum fimm jarðarbúum er örbjarga um þessar mundir og fær ekki nægan mat, og einn af hverjum tíu er alvarlega vannærður.“ Vísindamennirnir notuðu tækifærið til að „vara mannkynið við því sem fram undan er“ og sögðu: „Ef takast á að afstýra stórkostlegri eymd í mannheimi og koma í veg fyrir að jörðinni verði misþyrmt svo illa að ekki verði aftur snúið, þarf ráðsmennska okkar yfir jörðinni og jarðlífinu að breytast verulega.“Af hverju hefur Guð leyft svona miklar þjáningar og mannvonsku? Hvernig ætlar hann að bæta ástandið? Og hvenær?
[Mynd credit line á blaðsíðu 3]
Efst, hjólastóll: UN/DPI Photo 186410C: P.S. Sudhakaran; miðja, sveltandi börn: WHO/OXFAM; neðst, tærður maður: FAO photo/B. Imevbore.