Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveittu gleðina í þjónustu Jehóva

Varðveittu gleðina í þjónustu Jehóva

Varðveittu gleðina í þjónustu Jehóva

„Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 4:4.

1, 2. Hvernig gátu bróðir nokkur og fjölskylda hans haldið gleði sinni þótt þau misstu aleiguna?

JAMES, sjötugur kristinn maður í Síerra Leóne, hafði verið iðjusamur alla ævi. Það er hægt að ímynda sér gleði hans er hann var loksins búinn að leggja nógu mikið fyrir til að geta keypt sér látlaust, fjögurra herbergja hús. En nokkru eftir að fjölskyldan flutti inn braust út borgarastríð í landinu og húsið brann til grunna. Þau misstu húsið en héldu gleði sinni. Hvers vegna?

2 James og fjölskylda hans einblíndu ekki á það sem þau misstu heldur það sem þau áttu. „Jafnvel meðan skelfingin var mest héldum við samkomur, lásum í Biblíunni, báðum saman og deildum með öðrum því litla sem við áttum,“ segir hann. „Við gátum haldið gleði okkar af því að við einbeittum okkur að hinu dýrmæta sambandi við Jehóva.“ Þessir dyggu kristnu menn gátu „verið glaðir“ af því að þeir minntust þess sem þeir áttu Jehóva fyrir að þakka, einkum þess að eiga náið einkasamband við hann. (2. Korintubréf 13:11) Erfiðleikarnir voru auðvitað verulegir en þau hættu ekki að gleðjast í Jehóva.

3. Hvernig gátu frumkristnir haldið gleði sinni í andstreymi lífsins?

3 Frumkristnir menn lentu í sambærilegum þrengingum og James og fjölskylda hans. En Páll postuli skrifaði kristnum Hebreum: „Þér . . . tókuð því með gleði, er þér voruð rændir eignum yðar,“ og benti síðan á af hverju gleðin væri sprottin: „Þér vissuð, að þér áttuð sjálfir betri eign og varanlega.“ (Hebreabréfið 10:34) Þessir frumkristnu menn áttu sér bjargfasta von. Þeir hlökkuðu til þess að hljóta eign sem ekki var hægt að ræna — hina ófölnandi „kórónu lífsins“ í himnesku ríki Guðs. (Opinberunarbókin 2:10) Hin kristna von, hvort heldur hún er himnesk eða jarðnesk, getur hjálpað okkur að varðveita gleðina í andstreymi lífsins.

„Verið glaðir í voninni“

4, 5. (a) Af hverju var það mjög tímabært að Páll skyldi ráðleggja Rómverjum að vera „glaðir í voninni“? (b) Af hvaða sökum gæti kristinn maður misst sjónar á voninni?

4 Páll postuli hvatti trúbræður sína í Róm til að vera „glaðir í voninni“ um eilífa lífið. (Rómverjabréfið 12:12) Rómverjar þurftu á þessari hvatningu að halda. Það var ekki liðinn áratugur frá því að Páll skrifaði þeim er þeir sættu grimmilegum ofsóknum og sumir voru pyndaðir til dauða að skipun Nerós keisara. Sú trú að Guð myndi gefa þeim kórónu lífsins hefur eflaust haldið þeim uppi í þjáningunum. En hvað um okkur?

5 Við búumst líka við ofsóknum af því að við erum kristin. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Og okkur er ljóst að „tími og tilviljun“ mætir öllum. (Prédikarinn 9:11) Ástvinur deyr af slysförum. Banvænn sjúkdómur verður foreldri eða nánum vini að aldurtila. Við gætum verið í andlegri hættu þegar slíkar prófraunir ber að garði, nema við höldum Guðsríkisvoninni í brennidepli. Við ættum því að spyrja okkur: ‚Gleðst ég í voninni? Hve oft tek ég mér tíma til að hugleiða hana? Er paradís framtíðarinnar raunveruleg fyrir mér? Sé ég sjálfan mig þar? Bíð ég jafnspenntur eftir nýja heiminum núna eins og ég gerði þegar ég tók við sannleikanum?‘ Síðasta spurningin er mjög umhugsunarverð vegna þess að við gætum, að minnsta kosti um stundarsakir, misst sjónar á því hversu brýn þörf er fyrir nýja heiminn, ekki síst ef við erum heilsugóð, höfum þokkalegar tekjur og búum í landi sem er að mestu leyti laust við stríð, matvælaskort eða náttúruhamfarir.

6. (a) Um hvað hugsuðu þeir Páll og Sílas í þjáningunni? (b) Hvernig getur fordæmi Páls og Sílasar verið okkur til hvatningar?

6 Og Páll ráðlagði Rómverjum að vera „þolinmóðir í þjáningunni.“ (Rómverjabréfið 12:12) Sjálfur var hann vel kunnugur þjáningum. Einu sinni sá hann mann í sýn sem hvatti hann til að ‚koma yfir til Makedóníu‘ til að fræða fólk um Jehóva. (Postulasagan 16:9) Páll, Lúkas, Sílas og Tímóteus sigldu tafarlaust til Evrópu. Og hvað beið þessara kappsömu trúboða þar? Þjáningar! Eftir að hafa prédikað í borginni Filippí í Makedóníu voru Páll og Sílas húðstrýktir og þeim varpað í fangelsi. Sumir Filippíbúar voru greinilega meira en áhugalausir um guðsríkisboðskapinn — þeir voru hreinir fjandmenn hans. En misstu hinir kappsömu trúboðar gleðina? Nei, eftir að Páll og Sílas höfðu verið húðstrýktir og þeim varpað í fangelsi ‚báðust þeir fyrir um miðnætti og lofsungu Guði.‘ (Postulasagan 16:25, 26) Sársaukinn eftir barsmíðina hefur auðvitað ekki verið gleðilegur fyrir trúboðana tvo en þeir einblíndu ekki á það heldur hugsuðu til Jehóva og til þess hvernig hann blessaði þá. Með því að vera „þolinmóðir í þjáningunni“ voru þeir Páll og Sílas gott fordæmi fyrir bræður sína í Filippí og annars staðar.

7. Af hverju ætti þakkargerð að vera þáttur í bænum okkar?

7 „Verið . . . staðfastir í bæninni,“ skrifaði Páll. (Rómverjabréfið 12:12) Biðurðu þegar þú ert kvíðinn? Um hvað biðurðu? Trúlega minnist þú á vandamál þín og biður Jehóva um hjálp. En þú getur líka þakkað honum þá blessun sem þú nýtur. Að hugsa um gæsku Jehóva í erfiðleikum er hjálp til að ‚gleðjast í voninni.‘ Davíð lenti í margs konar erfiðleikum á lífsleiðinni. Hann skrifaði: „Mörg hefir þú, [Jehóva], Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.“ (Sálmur 40:6) Við getum ekki annað en verið glöð ef við hugleiðum daglega þá blessun sem við fáum frá Jehóva, líkt og Davíð gerði.

Vertu jákvæður

8. Hvað hjálpar kristnum manni að vera glaður í ofsóknum?

8 Jesús hvatti fylgjendur sína til að vera jákvæðir í prófraunum. „Sælir eruð þér,“ segir hann, „þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.“ (Matteus 5:11) Hvaða ástæða er til að vera sæll við slíkar aðstæður? Að geta staðist andstöðu sannar að andi Jehóva hvílir á okkur. Pétur postuli sagði trúbræðrum sínum: „Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.“ (1. Pétursbréf 4:13, 14) Með anda sínum hjálpar Jehóva okkur að halda út og varðveita gleðina.

9. Yfir hverju gat hópur bræðra glaðst í fangelsi?

9 Við höfum ýmsar ástæður til að halda gleði okkar, jafnvel við skelfilegustu aðstæður. Adolf komst að raun um það. Hann býr í landi þar sem starf votta Jehóva var bannað í mörg ár. Hann var handtekinn ásamt nokkrum félögum sínum og þeir voru dæmdir til langrar fangavistar fyrir að vilja ekki afneita trú sinni á Biblíuna. Fangavistin var erfið, en Adolf og félagar höfðu ýmsar ástæður til að þakka Guði, líkt og þeir Páll og Sílas. Þeir benda á að fangavistin hafi styrkt trú þeirra og þroskað með þeim góða kristna eiginleika, svo sem örlæti, samkennd og bróðurást. Þegar fangi fékk sendan pakka að heiman var hann til dæmis vanur að deila innihaldinu með trúbræðrum sínum, og þeir litu á þessa aukagetu sem gjöf frá Jehóva, enda er „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ frá honum. Slík góðverk glöddu bæði gefandann og þiggjendurna. Fangavistin, sem átti að brjóta niður trú þeirra, gerði hið gagnstæða — hún styrkti hana! — Jakobsbréfið 1:17; Postulasagan 20:35.

10, 11. Hvernig brást systir nokkur við vægðarlausum yfirheyrslum og langri fangavist?

10 Ella býr einnig í landi þar sem starfsemi Guðsríkis sætti löngu banni, og hún var handtekin fyrir að segja öðrum frá kristinni von sinni. Í átta mánuði var hún yfirheyrð vægðarlaust. Loks var hún leidd fyrir rétt og dæmd til tíu ára fangavistar í fangelsi þar sem hún var eini vottur Jehóva. Hún var þá aðeins 24 ára.

11 Ellu hlakkaði auðvitað ekki til þess að eyða tíu af bestu árum ævinnar í fangelsi. En fyrst hún gat engu um það breytt ákvað hún að breyta um afstöðu. Hún ákvað að líta á fangelsið sem boðunarsvæði sitt. „Ég var svo upptekin af því að prédika að árin liðu mjög hratt,“ segir hún. Eftir rösklega fimm ára fangavist var Ella yfirheyrð á nýjan leik. Þegar yfirheyrendurnir uppgötvuðu að fangavistin hafði ekki rænt hana trúnni sögðu þeir: „Við getum ekki látið þig lausa; þú hefur ekkert breyst.“ „En ég hef breyst,“ svaraði Ella ákveðin í bragði. „Ég er jákvæðari manneskja núna en ég var þegar ég var hneppt í fangelsi og trú mín er miklu sterkari en áður.“ Og hún bætti við: „Ef þið viljið ekki láta mig lausa verð ég hér þangað til Jehóva vill frelsa mig.“ Fimm og hálfs árs fangavist hafði ekki rænt Ellu gleðinni. Hún lærði að vera ánægð við þær aðstæður sem hún var í. Geturðu lært eitthvað af dæmi hennar? — Hebreabréfið 13:5.

12. Hvað getur veitt kristnum manni hugarró við erfiðar aðstæður?

12 Ella býr ekki yfir einhverjum óvenjulegum hæfileika til að standast þrautir sem þessar. Hún viðurkennir að þá mánuði sem verið var að yfirheyra hana áður en hún fékk dóminn hafi hún verið eins og hræddur spörvi og oft hafi tennurnar glamrað í munni hennar. En trúin á Jehóva er sterk. Hún hefur lært að setja traust sitt á hann. (Orðskviðirnir 3:5-7) Þar af leiðandi er Guð raunverulegri fyrir henni en áður. „Það kom einhver friður yfir mig í hvert sinn sem ég kom inn í yfirheyrsluherbergið,“ segir hún. „Því óttalegri sem staðan var, þeim mun dýpri varð friðurinn.“ Þessi friður var frá Jehóva. Páll postuli segir: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.

13. Af hverju megum við vera viss um að við höfum styrk til að standast þær freistingar sem á vegi okkar verða?

13 Ella er laus úr fangelsi núna. Hún varðveitti gleðina í þrengingum sínum. En ekki í eigin krafti heldur þeim krafti sem Jehóva gaf henni. Páll postuli kynntist þessu líka af eigin raun og skrifaði: „Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér. . . . Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.“ — 2. Korintubréf 12:9, 10.

14. Lýstu með dæmi hvernig kristinn maður getur verið jákvæður við lýjandi aðstæður og hver árangurinn gæti orðið.

14 Álagið, sem þú þarft að standast, er trúlega eitthvað frábrugðið því sem hér hefur verið nefnt. En það er alltaf erfitt að standast álag, hvernig sem það er. Vinnuveitandinn finnur að vinnunni hjá þér — hann er miklu gagnrýnni á þig en hina starfsmennina sem eru annarrar trúar. Þú hefur kannski ekki tök á að skipta um vinnu. Hvernig geturðu haldið gleði þinni? Manstu eftir Adolf og félögum hans sem þroskuðu með sér góða eiginleika í fangelsi? Ef þú leggur þig fram um að þóknast vinnuveitandanum, jafnvel þótt hann sé ‚ósanngjarn,‘ þroskarðu með þér kristna eiginleika eins og þolgæði og langlyndi. (1. Pétursbréf 2:18) Og þú verður verðmætari starfskraftur sem eykur líkurnar á því að þú fáir skemmtilegri vinnu einhvern tíma síðar. Við skulum nú ræða um nokkrar aðrar leiðir til að halda gleðinni í þjónustu Jehóva.

Einföldun er gleðigjafi

15-17. Hvað var hjónum nokkrum ráðlagt að gera til að draga úr álagi, þó að þau gætu ekki losnað alveg við það?

15 Vera má að þú eigir ekki margra kosta völ í sambandi við vinnu og vinnustað, en kannski geturðu ráðið einhverju meiru um ýmislegt annað í lífinu. Lítum á eftirfarandi dæmi.

16 Kristin hjón buðu öldungi í mat til sín. Um kvöldið trúðu þau honum fyrir því að þeim fyndist álag lífsins vera orðið þjakandi upp á síðkastið. Bæði voru í fullu og krefjandi starfi en voru ekki í aðstöðu til að skipta um vinnu. Þau voru farin að velta fyrir sér hve lengi þau héldu þetta út.

17 „Einfaldið líf ykkar,“ svaraði öldungurinn þegar þau spurðu hann ráða. Hvernig? Hjónin þurftu að aka í allt að þrjár klukkustundir á dag til og frá vinnu. Öldungurinn, sem þekkti hjónin vel, stakk upp á að þau flyttu nær vinnustaðnum svo að þau þyrftu ekki að eyða svona miklum tíma í ferðir á hverjum degi. Tímann, sem þau spöruðu, gætu þau notað til að sinna öðrum mikilvægum málum — eða hreinlega til að hvílast. Ef álag lífsins er farið að ræna þig gleðinni, væri þá ekki ráð að kanna hvort hægt sé að draga úr því með því að breyta einhverju?

18. Af hverju er mikilvægt að hugsa sinn gang áður en maður tekur ákvarðanir?

18 Önnur leið til að draga úr álagi er fólgin í því að hugsa sig vandlega um áður en maður tekur ákvarðanir. Kristinn maður ákvað að byggja hús. Hann hafði aldrei byggt hús áður en valdi mjög flókna hönnun. Honum er það ljóst núna að hann hefði getað afstýrt óþarfa erfiðleikum ef hann hefði ‚athugað fótmál sín‘ áður en hann ákvað hvernig hús hann ætlaði að byggja. (Orðskviðirnir 14:15) Annar kristinn maður ákvað að ábyrgjast lán fyrir trúbróður sinn. Sem ábyrgðarmaður var hann skuldbundinn til að greiða lánið gæti lántakandinn það ekki. Allt gekk vel í fyrstu en þegar fram liðu stundir stóð lántakandinn ekki í skilum. Skuldareigandinn varð uggandi um hag sinn og krafðist þess að lánið yrði greitt upp. Þetta reyndist þung byrði fyrir ábyrgðarmanninn. Hefði hann getað komist hjá þessu ef hann hefði skoðað alla þætti betur áður en hann féllst á að ganga í ábyrgð fyrir skuldinni? — Orðskviðirnir 17:18.

19. Nefndu nokkrar leiðir til að draga úr streitu.

19 Þegar við þreytumst megum við aldrei hugsa sem svo að við getum minnkað álagið og endurheimt gleðina með því að draga úr einkabiblíunámi, boðunarstarfi og samkomusókn. Það er einmitt eftir þessum leiðum sem við getum fengið heilagan anda Jehóva og gleði er einn ávöxtur hans. (Galatabréfið 5:22) Kristin störf eru alltaf hressandi og yfirleitt ekki þreytandi um of. (Matteus 11:28-30) Það er miklu líklegra að það séu veraldleg störf eða afþreying sem lýir okkur en ekki andlegu hugðarefnin. Að fara hæfilega snemma í háttinn getur komið okkur aftur á réttan kjöl. Svolítil aukahvíld getur gert ótrúlega gott. Nathan H. Knorr, sem sat í hinu stjórnandi ráði votta Jehóva allt til dauðadags, var vanur að segja trúboðum: „Þegar þið verðið niðurdregin skuluð þið byrja á því að hvíla ykkur. Það á eftir að koma ykkur á óvart að næstum öll vandamál virðast minni eftir góðan nætursvefn!“

20. (a) Hvað getum við gert, í stuttu máli, til að halda gleði okkar? (b) Nefndu nokkrar ástæður til þess að vera glaður? (Sjá rammagrein á bls. 28.)

20 Kristnir menn njóta þess heiðurs að mega þjóna hinum ‚sæla Guði.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Eins og fram hefur komið getum við jafnvel haldið gleði okkar þegar alvarleg vandamál steðja að. Við skulum halda Guðsríkisvoninni vakandi, leiðrétta sjónarmið okkar þegar nauðsyn krefur og lifa einföldu lífi. Þá getum við gert eins og Páll postuli hvatti til, hverjar sem aðstæður eru: „Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.“ — Filippíbréfið 4:4.

Hugleiddu eftirfarandi spurningar:

• Af hverju ættu kristnir menn að hafa Guðsríkisvonina skýra í huga sér?

• Hvað getur hjálpað okkur að vera glöð við erfiðar aðstæður?

• Af hverju ættum við að reyna að einfalda líf okkar?

• Hvernig hafa sumir einfaldað líf sitt?

[Spurningar]

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 28]

Ýmsar ástæður til að vera glaður

Við sem erum kristin höfum margar ástæður til að vera glöð. Líttu á eftirfarandi dæmi:

1. Við þekkjum Jehóva.

2. Við höfum lært sannleikann í Biblíunni.

3. Við getum fengið syndafyrirgefningu vegna trúar á fórn Jesú.

4. Guðsríki er við völd og nýi heimurinn á næstu grösum.

5. Jehóva hefur leitt okkur inn í andlega paradís.

6. Við eigum heilnæman félagsskap við trúsystkini okkar.

7. Við fáum að taka þátt í prédikunarstarfinu.

8. Við erum lifandi og bærilega á okkur komin.

Geturðu nefnt fleiri ástæður til að vera glaður?

[Mynd á blaðsíðu 24]

Páll og Sílas héldu jafnvel gleði sinni í fangelsi.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Einbeitirðu þér að hinni gleðilegu framtíð sem bíður þín í nýjum heimi Guðs?