Hvers vegna ættirðu að kynna þér Biblíuna?
Hvers vegna ættirðu að kynna þér Biblíuna?
BILL var ungur, stæltur, menntaður og vel stæður. En hann var ekki ánægður. Hann hafði enga sérstaka stefnu í lífinu og það angraði hann verulega. Hann kynnti sér ýmis trúarbrögð til að reyna að finna tilgang í lífinu en án árangurs. Árið 1991 hitti hann einn af vottum Jehóva. Votturinn gaf honum bók sem fjallaði um tilgang lífsins frá sjónarhóli Biblíunnar. Biblíunámskeið var ákveðið svo að Bill gæti kynnt sér þetta mál og ýmislegt fleira.
„Í fyrstu námsstundinni var vitnað svo oft í Biblíuna að ég vissi strax að þetta var það sem ég hafði verið að leita að,“ segir Bill. „Svör Biblíunnar voru mjög spennandi. Eftir þessa námsstund keyrði ég upp til fjalla, stöðvaði trukkinn, fór út úr honum og æpti af einskærri gleði. Ég var svo gagntekinn af því að ég skyldi loksins fá svör við spurningum mínum.“
Það reka auðvitað ekki allir upp fagnaðaróp þegar þeir finna sannleika Biblíunnar, en mörgum finnst ákaflega gleðilegt að fá svör við stóru spurningunum í lífinu. Þeim líður eins og manninum í dæmisögu Jesú sem fann fjársjóð falinn á akri. „Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann,“ sagði Jesús. —Lykillinn að tilgangi í lífinu
Bill hafði velt fyrir sér þeirri stóru spurningu hver væri tilgangur lífsins. Heimspekingar, guðfræðingar og vísindamenn hafa glímt við þessa spurningu um árþúsundir. Ótal bækur hafa verið skrifaðar til að reyna að svara henni en án árangurs. Margir hafa komist að þeirri niðurstöðu að spurningunni verði aldrei svarað. En svarið er til. Það er djúptækt en ekki flókið. Og það er að finna í Biblíunni. Lykillinn að hamingjusömu og innihaldsríku lífi er sá að eiga viðeigandi samband við Jehóva, skapara okkar og föður á himni. Hvernig eignumst við það?
Til að eignast náið samband við Guð þurfum við bæði að elska hann og óttast, og fljótt á litið virðist vera ákveðin mótsögn í því. Við skulum líta á tvo ritningarstaði sem styðja þetta. Salómon konungur gerði ítarlega rannsókn á mannkyninu og niðurstöður hans eru skráðar í Prédikaranum í Biblíunni. Niðurstaða hans er í stuttu máli þessi: „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ (Prédikarinn 12:13) Öldum síðar var Jesús spurður hvert væri mesta boðorð Móselaganna. Hann svaraði: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:37) Hljómar það undarlega að okkur beri bæði að óttast Guð og elska hann? Við skulum kanna hve mikilvægt það er bæði að óttast og elska og skoða hvernig það vinnur saman að góðu og ánægjulegu sambandi við Guð.
Hvað er guðsótti?
Lotningarblandinn ótti er nauðsynlegur til að tilbiðja Guð þóknanlega. „Upphaf speki er ótti [Jehóva],“ segir Biblían. (Sálmur 111:10) „Skulum vér . . . þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta,“ skrifaði Páll postuli. (Hebreabréfið 12:28) Jóhannes postuli sér engil í sýn sem flýgur um háhvolf himins og boðar fagnaðarboðskap. Hann hefur boðunina með orðunum: „Óttist Guð og gefið honum dýrð.“ — Opinberunarbókin 14:6, 7.
Þessi guðsótti, sem er nauðsynlegur til að lífið hafi tilgang, á ekkert skylt við sjúklega skelfingu eða hræðslu. Við yrðum eflaust hrædd ef grimmur og hættulegur glæpamaður ógnaði okkur. En guðsótti er djúp lotning fyrir skaparanum. Hann er heilbrigður ótti við að misþóknast hinum alvalda og æðsta dómara sem hefur bæði vald og getu til að refsa þeim sem óhlýðnast.
Ótti og kærleikur vinna saman
En Jehóva vill ekki að fólk þjóni sér aðeins vegna lotningar fyrir almætti hans. Hann er öðru fremur Guð kærleikans. „Guð er kærleikur,“ skrifaði Jóhannes postuli. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Jehóva Guð hefur sýnt mannkyni mikinn kærleika og vill að fólk elski sig á móti. En hvernig getur kærleikur farið saman við guðsótta? Í rauninni er það nátengt eins og sálmaritarinn skrifaði: „[Jehóva] sýnir trúnað þeim er óttast hann.“ — Sálmur 25:14.
Hugsaðu um virðingu og lotningu barns fyrir sterkum og vitrum föður. En barnið bregst líka vel við kærleika hans. Það treystir honum og reiðir sig á leiðsögn hans. Það veit að hún er alltaf til góðs. Ef við elskum Jehóva og óttumst hann, þá hlýðum við fyrirmælum hans og það er okkur til góðs. Tökum eftir orðum hans um Ísraelsmenn: „Ó, að þeir hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga, svo að þeim vegni vel og börnum þeirra um aldur og ævi.“ —Guðsótti er ekki fjötur heldur frelsi, hann er ekki sorg heldur gleði. Jesaja spáði um Jesú: „Unun hans mun vera að óttast [Jehóva].“ (Jesaja 11:3) Og sálmaritarinn skrifaði: „Sæll er sá maður, sem óttast [Jehóva] og hefir mikla unun af boðum hans.“ — Sálmur 112:1.
Það er augljóst að við getum hvorki óttast Guð né elskað hann ef við þekkjum hann ekki. Þess vegna er mjög þýðingarmikið að kynna sér Biblíuna. Biblíunám veitir okkur innsýn í persónuleika Guðs og við skiljum viskuna í því að fylgja leiðsögn hans og fyrirmælum. Þegar við styrkjum tengslin við Guð langar okkur til að gera vilja hans og halda boðorð hans, vitandi að það er okkur til góðs. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
Það er ánægjulegt fyrir okkur að vita til þess að við séum á réttri braut í lífinu. Bill, sem getið var í byrjun greinarinnar, var þannig innanbrjósts. Hann sagði nýlega: „Samband mitt við Jehóva hefur styrkst á þeim níu árum sem liðin eru frá fyrstu biblíunámsstundinni. Gleðikastið, sem ég fékk í upphafi, hefur þróast upp í langvinna gleði. Ég er bjartsýnn að staðaldri. Ég er upptekinn af gefandi starfi, ekki tilgangslausri leit að skemmtun. Ég sé Jehóva sem raunverulega persónu og ég veit að hann ber hag minn fyrir brjósti.“
Í greininni á eftir er fjallað nánar um það hvernig þekking á Jehóva gleður þá sem fara eftir henni og hvernig hún er þeim til góðs.
[Innskot á blaðsíðu 5]
Við þurfum bæði að elska Guð og óttast til að eiga náið samband við hann.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Jesús var bæði glaður og guðhræddur.