Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Njóttu gleðinnar af því að gefa!

Njóttu gleðinnar af því að gefa!

Njóttu gleðinnar af því að gefa!

„Sælla er að gefa en þiggja.“ — POSTULASAGAN 20:35.

1. Hvernig sýnir Jehóva að hann nýtur þess að gefa?

GLEÐIN af því að þekkja sannleikann og blessunin, sem fylgir því, er hvort tveggja Guðs gjöf. Þeir sem hafa kynnst Jehóva hafa margar ástæður til að gleðjast. En þótt það sé ánægjulegt að fá gjöf er líka ánægjulegt að gefa. Jehóva Guð gefur ‚sérhverja góða gjöf og sérhverja fullkomna gáfu‘ og hann er ‚sæll Guð.‘ (Jakobsbréfið 1:17; 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Hann miðlar öllum, sem hlusta, heilnæmri kenningu og hann hefur yndi af hlýðni þeirra, líkt og foreldrar gleðjast að sjá börnin taka við leiðbeiningum og fræðslu. — Orðskviðirnir 27:11.

2. (a) Hvað sagði Jesús um það að gefa? (b) Hvaða gleði höfum við af því að kenna öðrum sannleika Biblíunnar?

2 Jesús gladdist sömuleiðis að sjá fólk taka vel við kennslu sinni. Páll postuli hafði eftir honum að ‚sælla væri að gefa en þiggja.‘ (Postulasagan 20:35) Ánægjan, sem við höfum af því að kenna öðrum sannleika Biblíunnar, er ekki einvörðungu fólgin í því að þeir skuli fallast á trúarskoðanir okkar. Gleðin er miklu fremur fólgin í þeirri vitneskju að gjöfin hefur mikið og varanlegt gildi. Með því að gefa andlegar gjafir getum við hjálpað fólki að gera sjálfu sér gott, bæði nú og að eilífu. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

Að gefa er gleðilegt

3. (a) Hvernig lýstu postularnir Páll og Jóhannes yfir ánægju sinni með að fræða aðra um sannleikann? (b) Af hverju er það kærleiksmerki að kenna börnum sínum sannleikann?

3 Kristnir menn njóta þess að gefa andlegar gjafir, ekkert síður en Jehóva og Jesús. Páll postuli naut þess að vita að hann hefði hjálpað öðrum að kynnast sannleikanum í orði Guðs. Hann skrifaði söfnuðinum í Þessaloníku: „Hver er von vor eða gleði vor eða sigursveigurinn, sem vér hrósum oss af? Eruð það ekki einmitt þér, frammi fyrir Drottni vorum Jesú við komu hans? Jú, þér eruð vegsemd vor og gleði.“ (1. Þessaloníkubréf 2:19, 20) Jóhannes postuli tók í svipaðan streng og talaði um andleg börn sín: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.“ (3. Jóhannesarbréf 4) Og hugsaðu þér gleðina sem fylgir því að hjálpa sínum eigin börnum að verða andleg börn sín! Það er merki um kærleika foreldranna að ala börnin upp „með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Þannig sýna foreldrar að þeir láta sér annt um eilífa velferð barnanna og það er mjög gleðilegt fyrir þá að sjá börnin taka við kennslunni.

4. Hvaða dæmi lýsir vel gleðinni af því að gefa?

4 Dell er fimm barna móðir og boðberi í fullu starfi. „Ég get hæglega sett mig inn í tilfinningar Jóhannesar postula vegna þess að ég er mjög þakklát fyrir að fjögur af börnum mínum skuli ‚lifa í sannleikanum.‘ Ég veit að það er Jehóva til heiðurs og lofs að fjölskyldur séu sameinaðar í sannri tilbeiðslu, þannig að mér finnst ákaflega gleðilegt að sjá hann blessa viðleitni mína til að innræta börnunum sannleikann. Sú framtíðarsýn að fá að lifa að eilífu í paradís ásamt fjölskyldunni veitir mér von og hvetur mig til að halda áfram þrátt fyrir erfiðleika og tálma.“ Því miður var einni af dætrum Dell vikið úr söfnuðinum vegna ókristilegrar breytni. En Dell leggur sig fram um að vera jákvæð. „Ég vona að dóttir mín snúi einhvern tíma aftur til Jehóva í auðmýkt og einlægni,“ segir hún. „En ég get verið Guði þakklát fyrir að hin börnin mín skuli þjóna honum í trúfesti. Gleðin er mikill styrkur.“ — Nehemíabók 8:10.

Að eignast eilífa vini

5. Hvað er sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur þegar við gefum af okkur við boðun og kennslu?

5 Jesús sagði fylgjendum sínum að gera menn að lærisveinum og fræða þá um Jehóva og kröfur hans. (Matteus 28:19, 20) Bæði Jehóva og Jesús hafa af mikilli óeigingirni hjálpað fólki að kynnast vegi sannleikans. Þegar við leggjum okkur fram við að gera menn að lærisveinum njótum við þeirrar ánægju að vita að við erum að líkja eftir Jehóva og Jesú eins og hinir frumkristnu. (1. Korintubréf 11:1) Að vinna með alvöldum Guði og ástkærum syni hans gefur lífinu mikið gildi. Það er ekki lítið gleðiefni að teljast ‚samverkamaður‘ Guðs. (1. Korintubréf 3:9) Og er það ekki hrífandi tilhugsun að englarnir skuli jafnvel taka þátt í boðun fagnaðarerindisins? — Opinberunarbókin 14:6, 7.

6. Hverjir verða vinir okkar þegar við gefum andlegar gjafir?

6 Að gefa andlegar gjafir getur gefið okkur meira en það að verða samverkamenn Guðs — við getum líka eignast eilífa vináttu hans. Abraham var kallaður vinur Jehóva vegna trúar sinnar. (Jakobsbréfið 2:23) Við getum líka orðið vinir Guðs þegar við leggjum okkur fram um að gera vilja hans. Ef við gerum það verðum við einnig vinir Jesú. Hann sagði lærisveinunum: „Ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.“ (Jóhannes 15:15) Margir hafa yndi af því að teljast vinir áhrifamanna eða háttsettra embættismanna, en við getum talist vinir tveggja æðstu tignarpersóna alheimsins!

7. (a) Hvernig eignaðist kona nokkur góða vinkonu? (b) Geturðu sagt frá einhverju svipuðu?

7 Þeir sem við aðstoðum við að kynnast Guði verða líka vinir okkar og það er sérstakt ánægjuefni. Joan, sem búsett er í Bandaríkjunum, tók að fræða Thelmu um Biblíuna. Fjölskylda Thelmu var mjög mótsnúin biblíunámi hennar en hún hélt ótrauð áfram og lét skírast ári síðar. „Sambandi okkar lauk ekki með því,“ skrifar Joan, „heldur bundumst við vináttuböndum sem hafa enst í 35 ár. Við höfum oft farið saman í boðunarstarfið og sótt mót saman. Seinna flutti ég 800 kílómetra í burtu. En Thelma heldur áfram að senda mér hlýleg og uppörvandi bréf og nefnir oft hve vænt sér þyki um mig og þakkar mér fyrir vináttuna og fordæmi mitt og það að kenna sér sannleika Biblíunnar. Að eiga svona kæra vinkonu er ólýsanleg umbun fyrir það sem ég lagði á mig til að fræða hana um Jehóva.“

8. Hvaða afstaða hjálpar okkur í boðunarstarfinu?

8 Vonin um að finna einhvern, sem vill læra sannleikann, getur haldið okkur gangandi þegar flestir, sem við hittum, sýna lítinn eða engan áhuga á orði Jehóva. Slíkt áhugaleysi getur reynt á trúna og þolgæðið. En jákvæðni gerir gott. Fausto er frá Gvatemala. Hann segir: „Þegar ég segi öðrum frá sannleikanum hugsa ég með mér hve frábært það yrði ef viðmælandi minn ætti eftir að verða andlegur bróðir eða systir. Ég hugsa sem svo að einhver hljóti að minnsta kosti að taka við sannleikanum í orði Guðs fyrr eða síðar. Tilhugsunin gleður og heldur mér gangandi.“

Að eignast fjársjóði á himnum

9. Hvað sagði Jesús um fjársjóði á himni og hvað má læra af því?

9 Það er ekki alltaf auðvelt að gera menn að lærisveinum, og gildir þá einu hvort börn okkar eða aðrir eiga í hlut. Það getur tekið tíma og reynt á þolinmæðina og þrautseigjuna. En munum að margir eru tilbúnir til að leggja hart að sér við að safna í kringum sig forgengilegum hlutum sem þeir hafa yfirleitt enga ánægju af. Jesús sagði áheyrendum sínum að það væri betra að sækjast eftir andlegum verðmætum. Hann sagði: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.“ (Matteus 6:19, 20) Með því að keppa að andlegum markmiðum — meðal annars því mikilvæga starfi að gera menn að lærisveinum — njótum við þeirrar gleði að vita að við erum að gera vilja Guðs og að hann umbunar okkur. Páll postuli skrifaði: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ — Hebreabréfið 6:10.

10. (a) Hvers vegna átti Jesús andlega fjársjóði? (b) Hvernig gaf Jesús af sjálfum sér og hvaða gagn höfðu aðrir af því?

10 Ef við leggjum okkur fram um að gera menn að lærisveinum söfnum við okkur „fjársjóðum á himni“ í samræmi við orð Jesú. Það veitir okkur þá gleði að þiggja. Örlátir gjafarar auðga sjálfa sig. Jesús hafði þjónað Jehóva trúfastur um milljarða ára. Hugsaðu þér hvílíkum fjársjóðum hann hafði safnað á himni. En hann hugsaði ekki um eigin hag. Páll postuli skrifaði: „[Jesús] gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs vors og föður.“ (Galatabréfið 1:4) Jesús gaf ekki aðeins af sjálfum sér í boðunarstarfinu heldur gaf hann einnig líf sitt í lausnargjald til að aðrir gætu fengið tækifæri til að safna sér fjársjóðum á himni.

11. Hvers vegna eru andlegar gjafir betri en efnislegar?

11 Með því að fræða aðra um Guð sýnum við þeim fram á hvernig þeir geti líka safnað sér óforgengilegum, andlegum fjársjóðum. Er hægt að gefa betri gjöf? Vinur þinn yrði áreiðanlega glaður og þakklátur ef þú gæfir honum dýrt armbandsúr, bíl eða jafnvel hús, og þú myndir njóta gleðinnar að gefa. En hvernig verður gjöfin orðin eftir 20 ár? Eða 200 ár? Eða þá 2000 ár? En ef þú gefur af sjálfum þér til að hjálpa öðrum að þjóna Jehóva, þá geta þeir notið góðs af gjöfinni að eilífu.

Að leita að fólki sem þráir sannleikann

12. Hvernig hafa margir gefið af sjálfum sér til að fræða aðra?

12 Fólk Jehóva hefur gefið andlegar gjafir út til endimarka jarðar. Þúsundir manna hafa yfirgefið heimili og fjölskyldu og gerst trúboðar í löndum þar sem þeir hafa þurft að tileinka sér nýtt tungumál og framandi menningu. Sumir hafa flust innanlands þar sem meiri þörf var fyrir boðbera Guðsríkis. Og sumir hafa lært nýtt tungumál sem hefur boðið upp á ný tækifæri til að prédika á heimaslóð fyrir innflytjendum. Hjón í New Jersey í Bandaríkjunum ólu upp tvo drengi sem þjóna núna við aðalstöðvar votta Jehóva. Þau gerðust síðan brautryðjendur og lærðu kínversku. Á þriggja ára tímabili voru þau með 74 kínverskumælandi manneskjur í biblíunámi, en þetta var fólk sem sótti háskóla þar í grenndinni. Geturðu fært út kvíarnar á einhvern hátt þannig að þú getir átt meiri hlutdeild í því að gera menn að lærisveinum og notið gleðinnar sem fylgir því?

13. Hvað gætirðu gert ef þig langar til að sjá meiri árangur af boðunarstarfi þínu?

13 Kannski þráirðu að stjórna biblíunámskeiði en hefur ekki tekist að gera það enn. Í sumum löndum er erfitt að finna áhugasama. Kannski eru þeir sem þú hittir áhuglitlir um Biblíuna. Ef svo er geturðu ef til vill nefnt oftar í bænum þínum hvað þig langar til, vitandi að bæði Jehóva og Jesús Kristur hafa mikinn áhuga á starfi þínu og geta vísað þér á sauðumlíkan mann. Fáðu tillögur frá reyndari safnaðarmönnum sem ná betri árangri í starfinu en þú. Notfærðu þér þá kennslu og þær tillögur sem fram koma á safnaðarsamkomum. Nýttu þér leiðbeiningar farandumsjónarmanna og eiginkvenna þeirra. En umfram allt skaltu ekki gefast upp. Spekingurinn skrifaði: „Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi, því að þú veist ekki, hvað muni heppnast, þetta eða hitt, eða hvort tveggja verði gott.“ (Prédikarinn 11:6) Mundu eftir trúföstum mönnum eins og Nóa og Jeremía. Þjónusta þeirra var árangursrík þó að fáir tækju við boðskap þeirra. Þeir voru Jehóva þóknanlegir.

Gerðu þitt besta

14. Hvernig lítur Jehóva á þá sem hafa þjónað honum fram á elliár?

14 Kannski geturðu ekki gert eins mikið og þú vildir í boðunarstarfinu sökum aðstæðna. Til dæmis getur ellin sett þér takmörk í þjónustu Jehóva. En mundu hvað spekingurinn skrifaði: „Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana.“ (Orðskviðirnir 16:31) Ævi í þjónustu Jehóva er fögur í augum hans. Og Ritningin segir enn fremur: „Allt til elliára er ég [Jehóva] hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum. Ég hefi gjört yður, og ég skal bera yður, ég skal bera yður og frelsa.“ (Jesaja 46:4) Hinn ástríki faðir á himnum lofar að halda dyggum þjónum sínum uppi og styðja þá.

15. Trúirðu að Jehóva skilji aðstæður þínar? Hvers vegna?

15 Ef til vill áttu við veikindi að stríða, andstöðu vantrúaðs maka, þunga fjölskylduábyrgð eða einhverja aðra erfiðleika. Jehóva þekkir aðstæður okkar og takmörk og elskar okkur fyrir að þjóna sér í einlægni, þó svo að við getum ekki gert jafnmikið og aðrir. (Galatabréfið 6:4) Hann veit að við erum ófullkomin og gerir ekki nema raunhæfar kröfur til okkar. (Sálmur 147:11) Ef við gerum okkar besta megum við treysta að við séum dýrmæt í augum hans og að hann gleymi ekki trúarverkum okkar. — Lúkas 21:1-4.

16. Hvernig á allur söfnuðurinn þátt í því að gera menn að lærisveinum?

16 Hafðu líka hugfast að það er samstarfsverkefni að gera fólk að lærisveinum. Enginn einn gerir annan mann að lærisveini frekar en einn vatnsdropi getur vökvað plöntu. Einn vottur finnur kannski áhugasaman mann og stjórnar biblíunámskeiði. En um leið og hinn nýi kemur í ríkissalinn tekur allur söfnuðurinn þátt í að sýna honum fram á sannleikann. Hlýja bræðrafélagsins ber vott um áhrif anda Guðs. (1. Korintubréf 14:24, 25) Börn og unglingar gefa hvetjandi svör sem sýnir hinum nýja fram á að unga fólkið í söfnuðinum sé ólíkt unga fólkinu í heiminum. Sjúkir, veikburða og aldraðir í söfnuðinum kenna nýjum hvað sé þolgæði. Óháð aldri eða takmörkum gegnum við öll mikilvægu hlutverki í því að hjálpa nýjum að dýpka kærleika sinn og þeim miðar í átt til skírnar. Klukkustund í boðunarstarfinu, ein endurheimsókn, eitt samtal við áhugasaman mann í ríkissalnum virðist skipta ósköp litlu máli eitt sér, en allt eru þetta þættir í miklu verki sem Jehóva er að vinna.

17, 18. (a) Hvernig getum við notið gleðinnar að gefa, auk þess að taka þátt í að kenna nýjum lærisveinum? (b) Hverjum líkjum við eftir með því að gefa?

17 Kristnir menn gefa auðvitað ýmsar aðrar gjafir en þær að kenna nýjum lærisveinum. Við getum lagt fram fé til stuðnings sannri tilbeiðslu og til að hjálpa þeim sem þurfandi eru. (Lúkas 16:9; 1. Korintubréf 16:1, 2) Við getum leitað færis að vera gestrisin við aðra. (Rómverjabréfið 12:13) Við getum kappkostað að „gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:10) Og við getum gefið öðrum á ýmsa einfalda en mikilvæga vegu — sent bréf, hringt, gefið gjöf, rétt hjálparhönd eða uppörvað.

18 Við sýnum að við líkjum eftir föðurnum á himnum með því að gefa. Við sýnum einnig bróðurkærleika sem er auðkenni sannkristinna manna. (Jóhannes 13:35) Ef við höfum þetta hugfast getur það hjálpað okkur að njóta gleðinnar af því að gefa.

Geturðu svarað?

• Hvernig eru Jehóva og Jesús fyrirmynd að því að gefa andlegar gjafir?

• Hvernig getum við eignast eilífa vini?

• Hvað getum við hugsanlega gert til að ná meiri árangri í þjónustunni?

• Hvernig geta allir safnaðarmenn notið gleðinnar af því að gefa?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 13]

Foreldrar gleðjast yfir að sjá börnin taka við leiðbeiningum og fræðslu.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Við getum eignast sanna vini þegar við kennum nýjum lærisveinum.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Jehóva ber okkur í ellinni.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Við getum notið gleðinnar af því að gefa á marga einfalda en mikilvæga vegu.