Af hverju trúirðu því sem þú trúir?
Af hverju trúirðu því sem þú trúir?
Að trúa hefur verið skilgreint að ‚taka sem sannleik, hafa fyrir satt, bera traust til.‘ Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um að allir menn „skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar.“ Í þessum réttindum felst „frjálsræði til að skipta um trú eða játningu,“ ef óskað er.
HVERS vegna skyldi einhver vilja skipta um trú eða játningu? „Ég hef mína eigin trú og ég er ánægður með hana,“ er algengasta viðhorfið. Margir álíta meira að segja að trú byggð á röngum forsendum skaði engan. Það er til dæmis ekki sennilegt að sá sem trúir að jörðin sé flöt skaði sjálfan sig eða aðra. „Við ættum að vera sammála um að hafa skiptar skoðanir,“ segja sumir. En er það alltaf skynsamlegt? Ætti læknir að láta það viðgangast ef samstarfsmaður áliti sig statt og stöðugt geta farið beint frá störfum í líkhúsi yfir á sjúkrahúsdeild til að rannsaka sjúklinga?
Mannkynssagan sýnir að rangar trúarhugmyndir hafa valdið miklum skaða. Minnumst skelfinganna er trúarleiðtogar „innblésu kristnum ofstækismönnum vægðarlausu ofbeldi“ á tímum hinna svokölluðu heilögu krossferða á miðöldum. Eða hvað um „kristna“ byssubófa í nýafstöðnu borgarastríði sem „höfðu fest myndir af Maríu mey á riffilskeftin, líkt og stríðsmenn miðalda höfðu nöfn dýrlinga á sverðslíðrunum.“ Allir þessir ofstækismenn trúðu því að þeir væru að gera rétt. Samt er augljóst að eitthvað mikið var að hjá þeim sem tóku þátt í þessum trúarátökum og öðrum.
Af hverju stafar öll þessi ringulreið og allur þessi ágreiningur? Svarið, sem Biblían veitir, er að Satan djöfullinn „afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ (Opinberunarbókin 12:9; 2. Korintubréf 4:4; 11:3) Páll postuli varaði við því að margir trúaðir myndu því miður „glatast“ af því að Satan blekkir þá með „lygatáknum og undrum.“ Hann sagði að slíkir menn „veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir,“ þannig að þeir myndu ‚trúa lyginni.‘ (2. Þessaloníkubréf 2:9-12) Hvernig er hægt að draga sem mest úr hættunni á því að trúa lyginni? Af hverju trúirðu eiginlega því sem þú trúir?
Alinn upp í trúnni
Vera má að þú sért alinn upp í sömu trú og fjölskylda þín. Það getur verið gott og gilt. Guð vill að foreldrar fræði börnin. (5. Mósebók 6:4-9; 11:18-21) Ungur að árum hafði Tímóteus til dæmis mikið gagn af því að hlusta á móður sína og ömmu. (2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15) Biblían hvetur börn til að virða trú foreldranna. (Orðskviðirnir 1:8; Efesusbréfið 6:1) En ætlast skaparinn til að þú trúir því sama og foreldrarnir, einfaldlega af því að þeir trúa því? Það getur reyndar verið hættulegt að aðhyllast hugsunarlaust það sem fyrri kynslóðir trúðu og gerðu. — Sálmur 78:8; Amos 2:4.
Samversk kona, sem hitti Jesú Krist, hafði verið alin upp í trú Samverja. (Jóhannes 4:20) Jesús virti frelsi hennar til að trúa því sem hún óskaði en benti henni jafnframt á að hún ‚tilbæði það sem hún þekkti ekki.‘ Margt í trúarbrögðum hennar var í raun og veru rangt og hann sagði henni að hún yrði að gera breytingar á trú sinni ef hún ætlaði sér að tilbiðja Guð á velþóknanlegan hátt — „í anda og sannleika.“ Með tímanum yrðu hún og aðrir að snúast „til hlýðni við trúna“ sem Jesús opinberaði en halda ekki fast við þá trú sem henni var vafalaust kær. — Jóhannes 4:21-24, 39-41; Postulasagan 6:7.
Fræddur í trú
Kennarar og sérmenntað fólk á ýmsum þekkingarsviðum verðskulda virðingu okkar. Mannkynssagan er samt uppfull af dæmum um nafntogaða kennara sem höfðu algerlega á röngu að standa. Sem dæmi má nefna að sagnfræðingurinn Bertrand Russell sagði um tvær bækur eftir gríska heimspekinginn Aristóteles, sem fjalla um vísindaleg efni, að „varla sé hægt að viðurkenna eina einustu setningu í þeim í ljósi nútímavísinda.“ Og það þarf ekki að fara svona langt aftur í tímann til að finna dæmi um að sérfróðir menn hafi haft algerlega rangt fyrir sér. Breski vísindamaðurinn Kelvin lávarður fullyrti árið 1895 öruggur með sig: „Loftför þyngri en andrúmsloftið munu aldrei geta flogið.“ Skynsamur maður trúir þess vegna ekki í blindni að eitthvað sé rétt eingöngu vegna þess að einhver áhrifamikill heimildarmaður segir svo vera. — Sálmur 146:3.
Sömu varúðar er þörf gagnvart trúfræðslu. Páll postuli hlaut góða menntun hjá lærifeðrunum og var ákaflega ‚vandlætingasamur um erfikenningu forfeðra sinna.‘ En brennandi áhugi hans á erfikenningum þeirra kom honum samt sem áður í vandræði því að það leiddi til þess að hann „ofsótti söfnuð Guðs og vildi eyða honum.“ (Galatabréfið 1:13, 14; Jóhannes 16:2, 3) En það sem verra var; Páll hélt lengi áfram „að spyrna móti broddunum“ og standa gegn þeim áhrifum sem hefðu átt að leiða hann til trúar á Jesú Krist. Það varð til þess að Jesús þurfti sjálfur að grípa inn í á áhrifaríkan hátt og fá Pál til að leiðrétta trú sína. — Postulasagan 9:1-6; 26:14.
Undir áhrifum fjölmiðla
Vera má að fjölmiðlar hafi haft áhrif á trúarskoðanir þínar. Meginþorri manna er ánægður með málfrelsi í fjölmiðlum en það opnar leið að upplýsingum sem að gagni geta komið. En áhrifamikil öfl geta samt ráðskast með fjölmiðlana og gera það iðulega. Oft birtast í þeim hlutdrægar upplýsingar sem geta haft lævísleg áhrif á hugann.
Jesaja 5:20; 1. Korintubréf 6:9, 10.
Fjölmiðlar reyna auk þess að gera sér mat úr því sem er æsifengið og óhefðbundið til að höfða til fleiri. Það sem varla var hægt að vekja opinberlega máls á fyrir nokkrum árum eða þótti ekki birtingarhæft er núna daglegt brauð. Hægt og sígandi er grafið undan hefðbundnum hegðunarreglum. Hugarfari fólks hefur smám saman verið rangsnúið og það fer að trúa því að „hið illa [sé] gott og hið góða illt.“ —Að finna traustan trúargrundvöll
Sé byggt á hugmyndum og heimspeki manna er það líkt og að byggja á sandi. (Matteus 7:26; 1. Korintubréf 1:19, 20) Á hverju geturðu þá byggt trú þína svo öruggt sé? Guð hefur gefið okkur vit til að rannsaka heiminn í kringum okkur og afla okkur upplýsinga um andleg mál. Er þá ekki líklegt að við getum fengið nákvæm svör við spurningum okkar? (1. Jóhannesarbréf 5:20) Auðvitað. Hvernig geturðu gengið úr skugga um hvað sé sannleikur, hverju þú eigir að treysta og hvað þú eigir að hafa fyrir satt í trúmálum? Við höldum því hiklaust fram að orð Guðs, Biblían, sé eina leiðin til þess. — Jóhannes 17:17; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
„En bíddu nú hægur,“ segir einhver, „eru það ekki einmitt þeir, er hafa flíkað Biblíunni, sem hafa valdið mestum ágreiningi og uppnámi í heiminum?“ Jú, satt er það að trúarleiðtogar, sem segjast fara eftir Biblíunni, hafa tekið upp margar ruglingslegar og samhengislausar hugmyndir vegna þess að þeir hafa í rauninni ekki lagt Biblíuna til grundvallar trúnni. Pétur postuli kallar þá „falsspámenn“ og „falskennendur“ sem komi fram með ‚háskalegar villukenningar.‘ Pétur segir að verk þeirra leiði til þess að ‚vegi sannleikans muni verða hallmælt.‘ (2. Pétursbréf 2:1, 2) Engu að síður skrifar Pétur í framhaldinu að ‚enn þá áreiðanlegra sé oss nú hið spámannlega orð. Og það sé rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað.‘ — 2. Pétursbréf 1:19; Sálmur 119:105.
Í Biblíunni erum við hvött til að bera trú okkar saman við það sem hún kennir. (1. Jóhannesarbréf 4:1) Milljónir lesenda þessa tímarits geta borið vitni um að líf þeirra hafi fengið aukinn tilgang og jafnvægi við það að gera þetta. Líktu eftir Berojumönnum. ‚Rannsakaðu daglega ritningarnar‘ áður en þú ákveður hverju þú ættir að trúa. (Postulasagan 17:11) Vottar Jehóva veita þér aðstoð með ánægju. Auðvitað er það þér í sjálfsvald sett hverju þú vilt trúa en það er samt skynsamlegt að fullvissa sig um að trúin taki ekki mið af mannlegri visku og löngunum heldur opinberuðu sannleiksorði Guðs. — 1. Þessaloníkubréf 2:13; 5:21.
[Myndir á blaðsíðu 6]
Þér er óhætt að byggja trú þína á Biblíunni.