Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?“

„Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?“

„Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?“

„Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 8:31.

1. Hverjir yfirgáfu Egyptaland með Ísraelsmönnum og hvað fékk þá til þess?

„MIKILL fjöldi af alls konar lýð“ var samferða Ísraelsmönnum þegar þeir yfirgáfu Egyptaland eftir 215 ára dvöl þar, lengst af í þrælkun. (2. Mósebók 12:38) Þetta fólk hafði orðið vitni að tíu ógurlegum plágum sem ollu mikilli eyðileggingu í Egyptalandi og gerðu falsguði þess að athlægi. Og það hafði einnig séð, einkum frá og með fjórðu plágunni, að Jehóva gat verndað fólk sitt. (2. Mósebók 8:23, 24) Þó að þekking þessa fólks á tilgangi Jehóva væri takmörkuð var það með eitt á hreinu: Guðir Egypta höfðu ekki getað verndað dýrkendur sína en Jehóva hafði reynst máttug vörn Ísraelsmanna.

2. Af hverju studdi Rahab ísraelsku njósnarana og af hverju var rétt af henni að treysta Guði þeirra?

2 Fjörutíu árum síðar sendi Jósúa, arftaki Móse, tvo menn til að kanna fyrirheitna landið, rétt áður en Ísraelsmenn héldu inn í það. Þeir hittu fyrir Rahab í Jeríkó, og hún hafði heyrt um þau máttarverk sem Jehóva vann til að vernda Ísraelsmenn á þeim 40 árum sem liðin voru frá burtförinni af Egyptalandi. Hún vissi að hún yrði að styðja þjóð hans ef hún vildi hljóta blessun hans. Hún tók viturlega ákvörðun svo að henni og heimili hennar var þyrmt þegar Ísraelsmenn tóku borgina nokkru síðar. Undraverð björgun þeirra sannaði ótvírætt að Guð var með þeim. Það var augljóslega rétt af Rahab að treysta Guði Ísraelsmanna. — Jósúabók 2:1, 9-13; 6:15-17, 25.

3. (a) Hvaða kraftaverk vann Jesús í grennd við Jeríkó og hvernig brugðust klerkar Gyðinga við? (b) Hvað skildu sumir Gyðingar og síðar margir af öðru þjóðerni?

3 Fimmtán öldum síðar læknaði Jesús Kristur blindan betlara í grennd við Jeríkó sem hafði þá verið endurbyggð. (Markús 10:46-52; Lúkas 18:35-43) Maðurinn sárbændi Jesú um að miskunna sér, sem vitnaði um það að hann treysti að Jesús hefði stuðning Guðs. Trúarleiðtogar Gyðinga og fylgjendur þeirra aftóku hins vegar á heildina litið að viðurkenna kraftaverk Jesú sem sönnun fyrir því að hann ynni verk Guðs. Þeir fundu honum allt til foráttu. (Markús 2:15, 16; 3:1-6; Lúkas 7:31-35) Þegar sú staðreynd blasti við að Guð hefði reist Jesú upp frá dauðum eftir að þeir tóku hann af lífi vildu þeir ekki einu sinni viðurkenna það heldur ofsóttu fylgjendur hans og reyndu að hindra að þeir boðuðu „fagnaðarerindið um Drottin Jesú.“ En sumir Gyðingar gáfu þessum atburðum gaum og drógu réttar ályktanir, og síðar gerðu margir af þjóðunum það sömuleiðis. Þeim fannst augljóst að Guð hefði hafnað hinum sjálfbirgingslegu Gyðingaleiðtogum og styddi nú auðmjúka fylgjendur Jesú Krists. — Postulasagan 11:19-21.

Hverjir njóta stuðnings Guðs núna?

4, 5. (a) Hvernig líta sumir á það að velja sér trú? (b) Hver er kjarni málsins ef við viljum ganga úr skugga um hver sé hin sanna trú?

4 Prestur einn sagði fyrir nokkru í sjónvarpsviðtali og var þá að tala um sanna trú: „Ég held því fram að trú sé sönn ef hún gerir þann sem lifir eftir henni að betri manneskju.“ Sönn trú gerir fólk vissulega að betri manneskjum, en er það eitt trygging fyrir því að Guð standi að baki henni? Er það eini mælikvarðinn á það hvort trú sé sönn?

5 Öllum þykir verðmætt að hafa valfrelsi, þar á meðal frelsi til að velja sér trú. En frelsið til að velja er engin trygging fyrir því að maður taki rétta ákvörðun. Sumir velja sér trúfélag eftir stærð þess, fjárhag, viðhafnarsiðum eða fjölskyldutengslum. Ekkert af þessu hefur nokkuð með það að gera hvort trú sé sönn eða ekki. Kjarni málsins er þessi: Hvaða trú hvetur áhangendur sína til að gera vilja Guðs og ber skýr merki þess að Guð standi að baki henni þannig að þeir geti sagt með vissu: „Guð er með oss“?

6. Hvað sagði Jesús sem varpar ljósi á það hvað sé sönn trú og hvað fölsk?

6 Jesús lét í té reglu til að gera greinarmun á sannri trú og falskri. Hann sagði: „Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“ (Matteus 7:15, 16; Malakí 3:18) Lítum á nokkra af „ávöxtum“ eða auðkennum sannrar trúar til að ganga úr skugga um hvaða trú nýtur stuðnings Guðs núna.

Auðkenni þeirra sem Guð styður

7. Hvað merkir það að kenna einungis það sem Biblían segir?

7 Þeir byggja kenningar sínar á Biblíunni. Jesús sagði: „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig. Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.“ Og einnig: „Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð.“ (Jóhannes 7:16, 17; 8:47) Það er rökrétt að þeir sem vilja eiga stuðning Guðs verði að hafna kenningum, sem byggðar eru á hugmyndum eða erfikenningum manna, og kenna einungis það sem Guð opinberar í orði sínu. — Jesaja 29:13; Matteus 15:3-9; Kólossubréfið 2:8.

8. Hvers vegna er mikilvægt að nota nafn Guðs í tilbeiðslunni?

8 Þeir nota nafn Guðs, Jehóva, og vekja athygli á því. Jesaja boðaði: „Á þeim degi munuð þér segja: ‚Lofið [Jehóva], ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið [Jehóva], því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.‘“ (Jesaja 12:4, 5) Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Kristnir menn áttu því að ‚vera lýður er bæri nafn Guðs,‘ hvort sem þeir voru Gyðingar eða ekki. (Postulasagan 15:14) Guð er augljóslega fús til að styðja þá sem eru stoltir af því að bera nafn hans.

9. (a) Af hverju er gleði áberandi í fari þeirra sem iðka sanna trú? (b) Hvernig ber Jesaja saman sanna trú og falska?

9 Þeir endurspegla glaðlyndan persónuleika Guðs. Jehóva er ‚sæll Guð,‘ enda höfundur ‚fagnaðarerindis.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Hvernig geta dýrkendur hans þá verið vansælir eða bölsýnir að eðlisfari? Þrátt fyrir þrengingarnar í heiminum og eigin vandamál eru sannkristnir menn glaðlyndir af því að þeir nærast að jafnaði á staðgóðri andlegri fæðu. Jesaja bendir á hvernig þeir stingi í stúf við falstrúariðkendur: „Fyrir því segir hinn alvaldi [Jehóva] svo: Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna, sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl.“ — Jesaja 65:13, 14.

10. Hvernig geta þeir sem fylgja hinni sönnu trú umflúið það að læra flesta hluti í hörðum skóla reynslunnar?

10 Þeir byggja hegðun sína og ákvarðanir á meginreglum Biblíunnar. „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit,“ ráðleggur ritari Orðskviðanna. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Guð styður við bakið á þeim sem reiða sig á handleiðslu hans í stað þess að fylgja mótsagnakenndum hugmyndum manna er hunsa visku hans. Sá sem er fús til að laga líf sitt eftir orði Guðs þarf minna að læra í hörðum skóla reynslunnar. — Sálmur 119:33; 1. Korintubréf 1:19-21.

11. (a) Hvers vegna getur söfnuður hinnar sönnu trúar ekki skipst í klerka og leikmenn? (b) Hvaða fordæmi eiga þeir sem fara með forystu hjarðarinnar að gefa?

11 Þeir skipuleggja söfnuðinn á sama hátt og gert var í frumkristninni. Jesús gaf meginregluna: „Þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur. Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar.“ (Matteus 23:8-11) Í söfnuði bræðra er ekki yfirlætisleg klerkastétt sem hleður á sig heiðurstitlum og upphefur sig yfir leikmennina. (Jobsbók 32:21, 22) Þeim sem gæta hjarðar Guðs er sagt að gera það „ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pétursbréf 5:2, 3) Sannir kristnir hirðar varast að drottna yfir trú annarra. Þeir eru samverkamenn þeirra í þjónustu Guðs og leggja sig einfaldlega fram um að vera góð fyrirmynd. — 2. Korintubréf 1:24.

12. Hvaða afstöðu eiga þjónar Guðs að hafa til mannlegra stjórnvalda?

12 Þeir eru undirgefnir stjórnum manna en eru samt hlutlausir. Sá sem hlýðir ekki „yfirvöldum“ getur ekki reiknað með stuðningi Guðs vegna þess að „þau [yfirvöld] sem til eru, þau eru skipuð af Guði. Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu.“ (Rómverjabréfið 13:1, 2) En Jesús vissi að það gæti komið til hagsmunaárekstra og sagði: „Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Markús 12:17) Þeir sem vilja hafa stuðning Guðs verða að ‚leita fyrst ríkis hans og réttlætis‘ en hlýða jafnframt þeim landslögum sem samrýmast hinni æðri ábyrgð þeirra gagnvart Guði. (Matteus 6:33; Postulasagan 5:29) Jesús lagði áherslu á hlutleysi lærisveina sinna er hann sagði um þá: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ Síðar sagði hann að ‚sitt ríki væri ekki af þessum heimi.‘ — Jóhannes 17:16; 18:36.

13. Hvað annað einkennir fólk Guðs?

13 Þeir fara ekki í manngreinarálit heldur „gjöra öllum gott.“ (Galatabréfið 6:10) Kristinn kærleikur er óhlutdrægur og viðurkennir alla menn óháð litarhætti, efnahag, þjóðfélagsstöðu, þjóðerni og tungu. Þeir sem Guð styður þekkjast meðal annars á því að þeir gera öllum gott en einkum trúbræðrum sínum. Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:35; Postulasagan 10:34, 35.

14. Er sjálfgefið að þeir sem Guð hefur velþóknun á njóti almennra vinsælda? Skýrðu svarið.

14 Þeir eru fúsir til að þola ofsóknir fyrir að gera vilja Guðs. Jesús varaði fylgjendur sína við ofsóknum: „Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður,“ sagði hann. „Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.“ (Jóhannes 15:20; Matteus 5:11, 12; 2. Tímóteusarbréf 3:12) Þeir sem Guð hefur velþóknun á hafa alltaf verið óvinsælir líkt og Nói sem fordæmdi heiminn með trú sinni. (Hebreabréfið 11:7) Þeir sem þrá hylli Guðs voga sér ekki að útvatna orð hans eða að fara á svig við meginreglur hans til að umflýja ofsóknir. En þeir vita að fólk ‚furðar sig á þeim og hallmælir þeim‘ meðan þeir þjóna Guði í trúfesti. — 1. Pétursbréf 2:12; 3:16; 4:4.

Að vega og meta staðreyndir

15, 16. (a) Hvaða spurningar auðvelda okkur að bera kennsl á þann trúarhóp sem Guð styður? (b) Að hvaða niðurstöðu hafa milljónir manna komist og hvers vegna?

15 Spyrðu þig hvaða trúarhópur sé annálaður fyrir að fylgja orði Guðs í hvívetna, jafnvel þar sem kenningar þess stinga í stúf við trú fjöldans. Hverjir leggja áherslu á einkanafn Guðs og kenna sig meira að segja við það? Hverjir benda á ríki Guðs sem einu lausnina á öllum vandamálum mannkyns? Hverjir fylgja hegðunarreglum Biblíunnar þótt sumir telji þær gamaldags? Hvaða hópur er þekktur fyrir að vera ekki með launaða prestastétt heldur eru allir safnaðarmenn prédikarar? Hverjir fá lof fyrir löghlýðni þótt þeir séu hlutlausir í stjórnmálum? Hverjir nota tíma sinn og fjármuni fúslega til að fræða aðra um Guð og tilgang hans? Og hverjir eru lítils metnir, hæddir og ofsóttir þrátt fyrir alla þessa jákvæðu þætti?

16 Milljónir manna um heim allan hafa vegið og metið staðreyndir og sannfærst um að vottar Jehóva séu þeir einu sem iðki sanna trú. Þeir hafa komist að þessari niðurstöðu eftir að hafa kynnt sér hvað vottarnir kenna og hvernig þeir hegða sér, og einnig tekið mið af því hvernig trúin hefur reynst þeim gagnleg. (Jesaja 48:17) Milljónir manna segja í reynd eins og spáð er í Sakaría 8:23: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“

17. Af hverju er það ekki hroki af hálfu votta Jehóva að benda á að þeir hafi hina sönnu trú?

17 Er það hroki af hálfu votta Jehóva að halda því fram að þeir einir njóti stuðnings Guðs? Nei, ekkert frekar en það hafi verið hroki af hálfu Gyðinga í Egyptalandi að halda því fram að Guð væri með þeim, hverju sem Egyptar trúðu, eða það hafi verið hroki af hálfu kristinna manna á fyrstu öld að halda því fram að Guð væri með þeim og útilokuða að hann væri með gyðingdómnum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Í 235 löndum vinna vottar Jehóva það verk sem Jesús spáði að sannir fylgjendur hans myndu vinna á endalokatímanum: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.

18, 19. (a) Hvers vegna hafa vottar Jehóva enga ástæðu til að hætta boðunarstarfi sínu, þótt þeir mæti andstöðu? (b) Hvernig kemur það fram í Sálmi 41:12 að Guð styður við bakið á vottunum?

18 Vottar Jehóva munu halda áfram að vinna þetta verk og ekki láta ofsóknir eða andstöðu tálma sér. Það þarf að vinna verk Jehóva og það verður unnið. Allar tilraunir manna á síðustu öld til að hindra vottana í að vinna verk Guðs hafa farið út um þúfur því að hann lofar: „Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður. Þetta er hlutskipti þjóna [Jehóva] og það réttlæti, er þeir fá hjá mér.“ — Jesaja 54:17.

19 Sú staðreynd að vottar Jehóva eru öflugri og starfssamari nú en nokkru sinni fyrr, þrátt fyrir andstöðu alls staðar í heiminum, sannar að Jehóva hefur velþóknun á verki þeirra. Davíð konungur sagði: „Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.“ (Sálmur 41:12; 56:10, 12) Óvinir Guðs geta aldrei yfirbugað fólk hans því að leiðtogi þess, Jesús Kristur, sækir fram til lokasigurs.

Geturðu svarað?

• Nefndu dæmi um fólk sem Guð hafði velþóknun á forðum daga.

• Lýstu nokkrum auðkennum sannrar trúar.

• Hvers vegna ertu sannfærður um að vottar Jehóva njóti velþóknunar hans?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Þeir sem þrá velþóknun Guðs verða að byggja kenningar sínar á orði hans að öllu leyti.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Kristnir öldungar eru fyrirmynd hjarðarinnar.