Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fram til lokasigurs!

Fram til lokasigurs!

Fram til lokasigurs!

„Sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.“ — OPINBERUNARBÓKIN 6:2.

1. Hvað sá Jóhannes postuli í sýn?

JÓHANNESI postula var innblásið af Guði að horfa 1800 ár fram í tímann og lýsa því er Kristur yrði settur í konungshásæti. Jóhannes þurfti að vera trústerkur til að treysta því sem hann sá í sýninni. Við höfum greinilegar sannanir fyrir því núna að spádómurinn um þessa valdatöku hafi ræst árið 1914, og við sjáum með trúaraugum hvernig Jesús Kristur fer út „sigrandi og til þess að sigra.“

2. Hvernig brást djöfullinn við þegar Guðsríki var stofnsett og um hvað er það vísbending?

2 Satan var úthýst af himnum eftir að Guðsríki var stofnsett og í framhaldi af því barðist hann af enn meiri heift en fyrr, án þess þó að auka sigurlíkurnar. (Opinberunarbókin 12:7-12) Svo er reiði hans um að kenna að ástandið í heiminum hefur hríðversnað. Mannlegt samfélag virðist vera að liðast í sundur. Í augum votta Jehóva er þetta greinileg vísbending um að konungur þeirra sæki fram „til þess að sigra.“

Nýtt heimssamfélag myndast

3, 4. (a) Hvaða skipulagsbreytingar hafa átt sér stað í kristna söfnuðinum síðan Guðsríki var stofnsett og hvers vegna voru þær nauðsynlegar? (b) Hvernig hafa þessar breytingar reynst gagnlegar eins og Jesaja boðaði?

3 Eftir að Guðsríki var stofnsett og kristni söfnuðurinn endurreistur var tímabært að fela honum aukna ábyrgð, og nú þurfti að samræma hann betur því formi sem kristni söfnuðurinn á fyrstu öld starfaði eftir. Því var fjallað um það í Varðturninum 1. og 15. júní 1938 hvernig hið kristna skipulag ætti að starfa. Hinn 15. desember 1971 (1. júní 1972 á íslensku) komu síðan nánari skýringar í blaðinu á hlutverki hins stjórnandi ráðs okkar tíma, í grein sem hét „Hið stjórnandi ráð og hið löggilda félag tvennt ólíkt.“ Árið 1972 voru útnefnd öldungaráð til að fara með forystu safnaðanna á hverjum stað.

4 Kristni söfnuðurinn styrktist mjög við það að umsjóninni var komið í rétt horf. Hið stjórnandi ráð gerði jafnframt ráðstafanir til að fræða öldungana um skyldur þeirra, meðal annars um meðferð dómsmála, og það treysti einnig söfnuðina. Þessari framvindu hjá jarðnesku skipulagi Guðs og hinum jákvæðu áhrifum hennar hafði verið spáð í Jesaja 60:17: „Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.“ Þessar framfarir vitnuðu um blessun Guðs og voru merki þess að hann hefði velþóknun á þeim sem studdu ríki hans af heilum hug.

5. (a) Hvernig brást Satan við því að Jehóva skyldi blessa fólk sitt? (b) Hvernig hafa þjónar Jehóva brugðist við reiði Satans, í samræmi við Filippíbréfið 1:7?

5 Það fór ekki fram hjá Satan að Guð annaðist fólk sitt og leiðbeindi því eftir að ríkið var stofnsett. Líttu á eftirfarandi dæmi: Þessi fámenni hópur kristinna manna lýsti því opinberlega yfir árið 1931 að þeir væru ekki aðeins biblíunemendur heldur vottar Jehóva, í samræmi við Jesaja 43:10. Hvort sem það var tilviljun eða ekki réðst djöfullinn á þá með fordæmalausum ofsóknum í öllum heimshornum. Jafnvel í löndum þar sem trúfrelsi hafði verið í hávegum haft, svo sem Bandaríkjunum, Kanada og Þýskalandi, neyddust vottar Jehóva æ ofan í æ til að verja trúfrelsi sitt fyrir dómstólum. Árið 1988 var hæstiréttur Bandaríkjanna búinn að fjalla um 71 mál varðandi votta Jehóva og tveir af hverjum þrem dómum höfðu fallið vottunum í vil. Enn í dag er barátta háð víða um lönd með aðstoð dómstóla, í þeim tilgangi að „verja fagnaðarerindið og staðfesta það,“ líkt og gert var á fyrstu öld. — Filippíbréfið 1:7.

6. Var hægt að stöðva fólk Jehóva með því að banna starf þeirra eða leggja hömlur á það? Lýstu með dæmi.

6 Einræðisstjórnir í Þýskalandi, á Spáni og í Japan, svo aðeins þrjú dæmi séu nefnd, bönnuðu starf votta Jehóva eða settu hömlur á það á fjórða áratugnum, þegar síðari heimsstyrjöldin var í aðsigi. En árið 2000 voru nærri 500.000 virkir boðberar Guðsríkis í þessum þrem löndum, næstum tífalt fleiri en vottarnir voru í öllum heiminum árið 1936! Augljóst er að hömlur og bönn geta ekki hindrað að fólk Jehóva sæki fram undir stjórn hins sigursæla leiðtoga, Jesú Krists.

7. Hvaða einstæður viðburður átti sér stað árið 1958 og hvaða stórbreyting hefur orðið síðan?

7 Alþjóðamótið „Vilji Guðs“ var haldið í New York árið 1958 og var greinilegt dæmi um þessa framsókn votta Jehóva. Þetta var fjölmennasta mót, sem þeir höfðu nokkru sinni haldið, en mótsgestir voru 253.922 þegar flestir voru. Árið 1970 var vottum Jehóva orðið frjálst að starfa í löndunum þrem, sem nefnd voru hér á undan, nema í Austur-Þýskalandi sem þá var. En starf þeirra var enn bannað í gervöllum Sovétríkjunum og í öllum bandalagsríkjum þess sem áttu aðild að Varsjárbandalaginu. Núna er rúmlega hálf milljón starfandi votta í þessum fyrrverandi kommúnistaríkjum.

8. Hvaða áhrif hefur blessun Jehóva haft á fólk hans og hvað sagði Varðturninn um málið árið 1950?

8 Vottum Jehóva hefur fjölgað af því að þeir hafa haldið áfram að ‚leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis.‘ (Matteus 6:33) Spádómur Jesaja hefur nú þegar ræst bókstaflega á þeim: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ (Jesaja 60:22) Og vextinum er ekki lokið enn. Á síðasta áratug fjölgaði virkum málsvörum Guðsríkis um rúmlega 1.750.000 manns. Þeir hafa af eigin hvötum gerst aðilar að samfélagi sem Varðturninn lýsti svo árið 1950: „Guð er nú að undirbúa nýtt heimssamfélag. . . . Þessi hópur kemst í gegnum Harmagedón . . . og verður fyrstur á vettvangi á ‚nýju jörðinni‘ . . . guðræðislega skipulagður og kann að beita guðræðislegum aðferðum.“ Í lok greinarinnar sagði: „Sækjum því öll fram sem nýtt heimssamfélag.“

9. Hvað hafa vottar Jehóva lært smám saman og hvernig hefur það reynst gagnlegt?

9 Þetta vaxandi samfélag nýja heimsins hefur smám saman aflað sér kunnáttu sem hefur reynst ómetanleg og verður það kannski einnig við endurreisnarstarfið eftir Harmagedón. Vottarnir hafa til dæmis lært að skipuleggja stórmót, veita skjóta neyðaraðstoð og reisa hús með hraði, og þetta hefur vakið aðdáun og virðingu margra.

Að leiðrétta ranghugmyndir

10, 11. Nefndu dæmi um að ranghugmyndir um votta Jehóva hafi verið leiðréttar.

10 Engu að síður er til fólk sem sakar votta Jehóva um að vera ekki í takt við mannlegt samfélag. Það má einkum rekja til afstöðu vottanna gagnvart blóðgjöfum, hlutleysi, reykingum og siðferðismálum sem þeir byggja á biblíulegum forsendum. En almenningur er farinn að viðurkenna að vottarnir hafa mikið til síns máls. Læknir í Póllandi hringdi til dæmis til skrifstofu votta Jehóva þar í landi og sagðist hafa átt nokkurra klukkustunda umræður við starfsbræður sína um blóðgjafir. Kveikja umræðnanna hafði verið grein sem birtist fyrr um daginn í pólska dagblaðinu Dziennik Zachodni. „Ég harma það að blóðgjafir skuli vera ofnotaðar,“ viðurkenndi læknirinn. „Þetta þarf að breytast og ég fagna því að einhver skuli hafa vakið máls á þessu. Mér þætti vænt um að fá nánari upplýsingar.“

11 Á ráðstefnu, sem haldin var í Sviss á síðasta ári, fjölluðu sérfræðingar frá Bandaríkjunum, Evrópu, Ísrael og Kanada um leiðir til að veita læknismeðferð án blóðgjafa. Á ráðstefnunni var bent á að dánartíðni sjúklinga, sem fengju blóðgjöf, væri hærri en hinna sem fengju ekki blóðgjöf, gagnstætt því sem almennt er talið. Sjúklingar úr röðum vottanna gætu yfirleitt útskrifast af spítala fyrr en sjúklingar sem fengju blóðgjöf, og það drægi úr meðferðarkostnaði.

12. Hvernig hafa áhrifamenn lokið lofsorði á votta Jehóva fyrir hlutleysi þeirra?

12 Margir hafa einnig lokið lofsorði á hlutleysi votta Jehóva fyrir síðari heimsstyrjöldina og meðan hún stóð yfir, en þeir voru grimmilega ofsóttir á valdatíma nasista. Myndbandið Staðfesta votta Jehóva í ofsóknum nasista, sem vottarnir hafa látið gera, hefur fengið mjög jákvæða dóma. Það var frumsýnt 6. nóvember 1996 þegar opnuð var sýning við fangabúðirnar í Ravensbrück. Svipuð sýning var opnuð hinn 18. apríl 1998 við hinar illræmdu Bergen-Belsen-fangabúðir. Dr. Wolfgang Scheel, forstöðumaður Pólitískrar fræðslumiðstöðvar í Neðra-Saxlandi, sagði við það tækifæri: „Það er söguleg staðreynd en vandræðaleg að vottar Jehóva höfnuðu þjóðernissósíalismanum af miklu meiri festu en hinar kristnu kirkjur. . . . Hvað sem okkur finnst um kenningar og trúrækni votta Jehóva ber að virða þá fyrir staðfestu þeirra á valdatíma nasista.“

13, 14. (a) Hvaða hyggileg ábending um frumkristna menn kom úr óvæntri átt? (b) Nefndu dæmi um jákvæð ummæli í garð þjóna Guðs nú á tímum.

13 Áhrifamenn og dómstólar geta eytt fordómum í garð votta Jehóva og dregið upp jákvæðari mynd af þeim þegar þeir taka afstöðu með þeim í umdeildum málum. Oft opnar þetta vottunum dyr til að tala við fólk sem vildi ekki hlusta áður. Þess vegna meta vottar Jehóva það mikils þegar áhrifamenn og dómstólar taka slíka afstöðu. Þetta minnir á atburð sem átti sér stað í Jerúsalem á fyrstu öld. Kristnir menn prédikuðu af miklu kappi og fyrir vikið vildi æðstaráðið, sem var hæstiréttur Gyðinga, útrýma þeim. En Gamalíel, „kennari í lögmálinu, virtur af öllum lýð,“ varaði við því: „Ísraelsmenn, athugið vel, hvað þér gjörið við þessa menn. . . . Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu, en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð.“ — Postulasagan 5:33-39.

14 Ýmsir framámenn hafa undanfarið mælt með því að vottar Jehóva njóti trúfrelsis, líkt og Gamalíel gerði. Fyrrverandi formaður Alþjóðaakademíu um trúfrelsi sagði til dæmis: „Það ætti ekki að neita trúfélagi um trúarleg réttindi aðeins vegna þess að þjóðfélagið álítur kenningar þess ótækar eða óhefðbundnar.“ Og prófessor í trúarlegum fræðum við háskólann í Leipzig varpaði fram viðeigandi spurningu um stjórnskipaða nefnd sem falið var að rannsaka svokallaðar sértrúarhreyfingar í Þýskalandi: „Af hverju á einungis að rannsaka trúarlega minnihlutahópa en ekki stóru kirkjudeildirnar tvær [rómversk-kaþólsku kirkjuna og lútersku kirkjuna]?“ Svarið er ekki vandfundið því að fyrrverandi embættismaður í Þýskalandi skrifaði: „Enginn vafi leikur á því að öfgamenn innan kirkjunnar fyrirskipuðu bak við tjöldin hvaða pólitíska stefnu hin stjórnskipaða nefnd ætti að taka.“

Hvaðan væntum við lausnar?

15, 16. (a) Af hverju var það takmarkað sem Gamalíel gat áorkað? (b) Af hverju var það takmarkað sem þrír aðrir áhrifamenn gátu gert fyrir Jesú?

15 Umsögn Gamalíels undirstrikar einungis að ekkert starf, sem Guð stendur að baki, getur farið út um þúfur. Orð hans við æðstaráðið hafa eflaust verið frumkristnum mönnum til góðs, en þeir gleymdu ekki að Jesús hafði sagt að fylgjendur sínir yrðu ofsóttir. Gamalíel kom í veg fyrir að trúarleiðtogarnir gerðu út af við þá, eins og þeir höfðu ætlað sér, en það stöðvaði ekki ofsóknirnar með öllu því að við lesum: „Þeir féllust á mál hans, kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa.“ — Postulasagan 5:40.

16 Pontíus Pílatus yfirheyrði Jesú en fann enga sök hjá honum og reyndi að láta hann lausan. En honum tókst það ekki. (Jóhannes 18:38, 39; 19:4, 6, 12-16) Tveir öldungar í æðstaráðinu, þeir Nikódemus og Jósef frá Arímaþeu, voru hliðhollir Jesú en máttu sín lítils til að hindra að rétturinn dæmdi hann. (Lúkas 23:50-52; Jóhannes 7:45-52; 19:38-40) Það er takmarkað sem menn geta áorkað með því að koma þjónum Jehóva til varnar þótt það sé góðra gjalda vert. Heimurinn heldur áfram að hata sanna fylgjendur Krists eins og hann hataði Krist sjálfan. Enginn nema Jehóva getur veitt fullkomna og endanlega lausn. — Postulasagan 2:24.

17. Við hverju búast vottar Jehóva og af hverju linast þeir ekki í þeim ásetningi að prédika fagnaðarerindið?

17 Vottar Jehóva eru raunsæir og búast við áframhaldandi ofsóknum. Andstöðunni linnir ekki fyrr en heimskerfi Satans er endanlega horfið af sjónarsviðinu. En þó svo að ofsóknirnar séu óþægilegar koma þær ekki í veg fyrir að vottarnir sinni því verkefni að boða Guðsríki. Hví skyldu þær gera það úr því að Guð er með þeim? Þeir taka hugrakkan leiðtoga sinn, Jesú Krist, til fyrirmyndar. — Postulasagan 5:17-21, 27-32.

18. Hvaða erfiðleikar bíða þjóna Jehóva en hvaða úrslit eru þeir öruggir um?

18 Sönn trú hefur mátt þola harða andstöðu allt frá upphafi. Innan skamms gerir Góg allsherjarárás á hana en svo er Satan nefndur eftir að honum var úthýst af himnum og hann niðurlægður. En sönn trú mun halda velli. (Esekíel 38:14-16) ‚Konungar allrar heimsbyggðarinnar‘ munu, undir forystu Satans, ‚heyja stríð við lambið. Og lambið mun sigra þá því að það er Drottinn drottna og konungur konunga.‘ (Opinberunarbókin 16:14; 17:14) Já, konungur okkar sækir fram til lokasigurs og hans er skammt að bíða. Það er mikill heiður að sækja fram ásamt honum, vitandi að innan skamms mun enginn nokkurn tíma framar andmæla tilbiðjendum Jehóva þegar þeir segja: „Guð er með oss.“ — Rómverjabréfið 8:31; Filippíbréfið 1:27, 28.

Geturðu svarað?

• Hvernig hefur Jehóva styrkt kristna söfnuðinn síðan Guðsríki var stofnsett?

• Hvernig hefur Satan reynt að hindra að Kristur vinni sigur og með hvaða árangri?

• Hvað vitum við þrátt fyrir jákvæðar aðgerðir annarra í okkar garð?

• Hvað gerir Satan bráðlega og hver verða úrslitin?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Mótin eru merki þess að fólk Jehóva sækir fram á við.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Hlutleysi vottanna í síðari heimsstyrjöldinni er Jehóva til lofs enn þann dag í dag.