Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Origenes og áhrif hans á kenningar kirkjunnar

Origenes og áhrif hans á kenningar kirkjunnar

Origenes og áhrif hans á kenningar kirkjunnar

„Mesti leiðtogi kirkjunnar að postulunum gengnum.“ Það var þriðju aldar guðfræðingurinn Origenes sem fékk þessa einkunn hjá Híerónýmusi þeim er þýddi latnesku Vulgata-biblíuna. En það höfðu ekki allir svona mikið álit á Origenesi og sumir töldu hann upphafsmann alls konar trúvillu. Rithöfundur á 17. öld hafði eftir gagnrýnismönnum hans: „Kennisetning hans er fjarstæð og hættuleg þegar á heildina er litið, banvænt höggormseitur er hann spjó í heiminn.“ Origenes var reyndar formlega lýstur trúvillingur um þrem öldum eftir dauða sinn.

HVÍ skyldi Origenes hafa vakið bæði aðdáun og óvild? Og hvaða áhrif hafði hann á þróun hinna kirkjulegu kenninga?

Dyggur kirkjunnar maður

Origenes fæddist í Alexandríu í Egyptalandi um árið 185 eftir okkar tímatali. Hann hlaut góða menntun í grískum bókmenntum, en Leonídes, faðir hans, knúði hann til að verja jafnmiklum kröftum í ritningarnám. Þegar Origenes var 17 ára gaf Rómarkeisari út opinbera tilskipun þess efnis að það væri glæpur að skipta um trú. Föður Origenesar var varpað í fangelsi fyrir þá sök að hafa gerst kristinn. Origenes var uppfullur af ákafa æskumannsins og afréð að fylgja föður sínum í fangelsi og píslarvætti. En móðirin komst að raun um fyrirætlun sonarins og faldi föt hans til að hindra hann í að komast að heiman. Origenes sárbændi föður sinn í bréfi: „Gættu þess að skipta ekki um skoðun okkar vegna.“ Leonídes var staðfastur í trúnni og var tekinn af lífi. Fjölskyldan sat eftir slypp og snauð en Origenes var nógu langt kominn í námi sínu til að geta kennt grískar bókmenntir og séð móður sinni og sex yngri bræðrum farborða.

Keisarinn var staðráðinn í að stemma stigu við útbreiðslu kristninnar. Tilskipun hans náði jafnt til nemenda sem kennara svo að allir kristnir trúfræðarar flúðu Alexandríu. Ókristnir menn í leit að biblíufræðslu báðu hinn unga Origenes ásjár, og tók hann fúslega að sér að kenna þeim og leit á það sem köllun frá Guði. Margir af nemendum hans dóu píslarvættisdauða, sumir jafnvel áður en þeir luku námi. Origenes tók mikla áhættu með því að uppörva nemendur sína fyrir opnum tjöldum, hvort heldur var frammi fyrir dómara, í fangelsi eða rétt fyrir aftöku. Evsebíus, sagnaritari á fjórðu öld, segir að „Origenes hafi heilsað þeim djarfmannlega með kossi“ er þeir voru leiddir til aftöku.

Origenes kallaði yfir sig reiði margra ókristinna manna er sökuðu hann um að vera valdan að trúskiptum og dauða vina þeirra. Oft komst hann naumlega hjá skrílsárásum og dauða. Hann hætti ekki kennslustörfum þó að hann neyddist til að flytja stað úr stað til að komast undan þeim sem sátu um líf hans. Demetríus, biskup í Alexandríu, hreifst af hugdirfsku hans og kostgæfni og skipaði hann skólastjóra trúfræðiskóla í Alexandríu, aðeins 18 ára gamlan.

Origenes varð kunnur fræðimaður og afkastamikill rithöfundur. Sagt var að hann hefði skrifað 6000 bækur en það er líklega orðum aukið. Kunnasta verk hans er Hexapla, risavaxið verk í 50 bindum með texta Hebresku ritninganna. Bókin var sett upp í sex samsíða dálka með (1) hebreska og arameíska textanum, (2) umritun textans á grísku, (3) grískri þýðingu Akvílasar, (4) grískri þýðingu Symmakosar, (5) grísku Sjötíumannaþýðingunni sem Origenes endurskoðaði svo að hún samsvaraði hebreska textanum betur og (6) grískri þýðingu Þeódótíons. Biblíufræðingurinn John Hort bendir á að „Origenes hafi haft það markmið með því að sameina textana að varpa ljósi á merkingu margra ritningargreina þar sem grískur lesandi hefði annaðhvort ekki botnað neitt í neinu eða farið afvega ef hann hefði ekkert nema Sjötíumannaþýðinguna við höndina.“

‚Að fara lengra en ritað er‘

En trúarringulreið þriðju aldar hafði djúpstæð áhrif á aðferðir Origenesar við ritningarkennsluna. Þó svo að kristnin væri enn á barnsaldri var búið að menga hana óbiblíulegum trúarhugmyndum, og hinar dreifðu kirkjur kenndu margar ólíkar kennisetningar.

Origenes aðhylltist sumar af þessum óbiblíulegu kenningum og kallaði þær postulakenningar. En hann leyfði sér einnig ýmsar getgátur. Margir af nemendum hans áttu í glímu við heimspekikenningar samtíðarinnar. Origenes kynnti sér þær heimspekistefnur, sem höfðu áhrif á hugsun hinna ungu nemenda, í von um að geta liðsinnt þeim. Hann hugðist veita þeim fullnægjandi svör við spurningum þeirra um heimspekileg efni.

Origenes vildi freista þess að samrýma Biblíuna heimspekinni og reiddi sig mjög á táknsögulegar aðferðir við biblíutúlkun. Hann gekk út frá því að Ritningin hefði alltaf andlega merkingu en ekki endilega bókstaflega. Eins og fræðimaður nokkur benti á gaf þetta Origenesi „svigrúm til að túlka Biblíuna á hvaða óbiblíulegan hátt, sem féll að guðfræðikerfi hans, en jafnframt gat hann haldið því fram (og eflaust ímyndað sér það í einlægni) að hann væri sérlega ákafur og trúr túlkunarmaður biblíulegra hugmynda.“

Bréf Origenesar til eins af nemendum sínum gefur innsýn í hugsunarhátt hans. Þar bendir hann á að Ísraelsmenn hafi búið til áhöld fyrir musteri Jehóva úr egypsku gulli. Þar taldi hann sig hafa fundið táknsögulegan stuðning fyrir því að beita grískri heimspeki við kristnikennslu. Hann skrifaði: „Ísraelsmenn höfðu meðferðis frá Egyptalandi hluti, sem reyndust nytsamlegir fyrir þá. Egyptar höfðu ekki notað þá rétt en Hebrear höfðu visku Guðs að leiðarljósi og notuðu þá í þjónustu hans.“ Origenes hvatti nemanda sinn þannig til að „vinsa hvaðeina úr grískri heimspeki sem getur reynst gagnlegt við nám í kristninni eða til undirbúnings fyrir hana.“

Við þessa frjálslegu túlkunaraðferð á Biblíunni urðu mörkin milli kristinnar kenningar og grískrar heimspeki óskýr. Í bók sinni Origen de Principiis lýsti Origenes Jesú til dæmis sem ‚hinum eingetna syni er fæddist en án upphafs.‘ Og hann bætti við: ‚Tilurð hans er eilíf og ævarandi. Hann varð ekki sonur með því að fá lífsandann, ekki fyrir nein ytri áhrif, heldur fyrir sjálft guðseðlið.‘

Þessa hugmynd fann Origenes ekki í Biblíunni því að hún kennir að eingetinn sonur Guðs sé „frumburður allrar sköpunar“ og „upphaf sköpunar Guðs.“ (Kólossubréfið 1:15; Opinberunarbókin 3:14) Trúarsagnfræðingurinn August Neander heldur því fram að Origenes hafi fengið hugmyndina um „eilífa tilurð“ af „heimspekinámi við platónska skólann.“ Þar með braut Origenes eina grundvallarreglu Biblíunnar sem hljóðar svo: „Farið ekki lengra en ritað er.“ — 1. Korintubréf 4:6.

Fordæmdur sem trúvillingur

Kirkjuþing í Alexandríu svipti Origenes prestsembætti snemma á kennsluferli hans. Ástæðan var trúlega sú að Demetríus biskup öfundaði hann af vaxandi frægð hans. Origenes fluttist til Palestínu þar sem hann hélt áfram prestskap og var dáður takmarkalaust sem virtur verjandi kristinnar kenningar. Þegar „villutrú“ braust út í austri var hann meira að segja fenginn til að telja biskupa, er villst höfðu af leið, á að snúa aftur til rétttrúnaðar. En Origenes fékk sérstaklega á sig óorð eftir dauða sinn árið 245. Af hverju var það?

Eftir að svokölluð kristni var orðin útbreidd var farið að skilgreina rétttrúnaðarkenningarnar fremur þröngt. Komandi kynslóðir guðfræðinga höfnuðu mörgum af fræðilegum og stundum ónákvæmum heimspekihugmyndum Origenesar. Kenningar hans kveiktu því harðvítugar deilur innan kirkjunnar. Kirkjan dæmdi hann formlega sekan um trúvillu í von um að setja niður deilurnar og varðveita einingu sína.

Origenes var hvergi nærri einn um villukenningar. Biblían hafði reyndar sagt fyrir um almennt fráhvarf frá hinni hreinu kenningu Krists. Þetta fráhvarf tók að blómstra undir lok fyrstu aldar, eftir að postular Jesú voru dánir. (2. Þessaloníkubréf 2:6, 7) Að lokum lýstu vissir hópar, sem kölluðu sig kristna, því yfir að þeir væru „rétttrúaðir“ og fordæmdu alla aðra sem „trúvillinga.“ En í verunni var þessi svokallaða kristni orðin býsna fjarlæg sannkristinni trú.

‚Rangnefnd þekking‘

Þrátt fyrir hinar mörgu getgátur Origenesar er sitthvað gagnlegt að finna í verkum hans. Til dæmis má nefna að Hexapla innihélt nafn Guðs, hið svonefnda fjórstafanafn, í frumhebreskri mynd. Þetta er mikilvæg vísbending um að frumkristnir menn hafi þekkt einkanafn Guðs, Jehóva, og notað það. En Þeófílus, kirkjufaðir á fimmtu öld, sagði einu sinni í viðvörunartón: „Verk Origenesar eru eins og engi með alls konar blómum. Finni ég þar fallegt blóm tíni ég það en ef mér sýnist eitthvað vera þyrnótt forðast ég það eins og brodd.“

Guðfræði Origenesar er villum stráð sökum þess að hann blandaði saman biblíukenningum og grískri heimspeki. Þetta hafði afar slæmar afleiðingar fyrir hina svokölluðu kristni. Flestum af hinum tilhæfulausu getgátum hans var hafnað um síðir en hugmyndir hans um „eilífa tilurð“ Krists áttu sinn þátt í tilkomu þrenningarkenningar sem á sér enga stoð í Biblíunni. Í bókinni The Church of the First Three Centuries er bent á eftirfarandi: „Dálætið á heimspeki [sem Origenes var upphafsmaður að] átti eftir að viðhaldast um langt skeið“ með þeim afleiðingum að „einfaldleiki kristninnar spilltist og óendanlegar villur streymdu inn í kirkjuna.“

Ef Origenes hefði hlýtt áminningu Páls postula um að „forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar“ hefði hann sneitt hjá aðild að þessu fráhvarfi. En með því að byggja kenningar sínar svo mjög á slíkri ‚þekkingu‘ varð Origenes ‚frávillingur í trúnni.‘ — 1. Tímóteusarbréf 6:20, 21; Kólossubréfið 2:8.

[Mynd á blaðsíðu 31]

„Hexapla“ Origenesar bendir til þess að nafn Guðs hafi verið notað í kristnu Grísku ritningunum.

[Credit line]

Birt með leyfi Syndics of Cambridge University Library, T-S 12.182.

[Mynd credit line á blaðsíðu 29]

Culver Pictures