Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Rétturinn til að trúa

Rétturinn til að trúa

Rétturinn til að trúa

Líklega finnst þér mikils virði að hafa rétt til að trúa því sem þér þóknast. Það finnst flestum. Þessi réttindi hafa orðið til þess að hinir sex milljarðar manna, sem byggja jörðina, hafa tekið upp furðulega fjölskrúðugan átrúnað. Það er eins með ólíkan átrúnað og blæbrigði á lit, formi, áferð, bragði, ilmi og hljóði í sköpunarverkinu, þau geta gert lífið áhugaverðara, ánægjulegra og skemmtilegra. Vissulega getur slíkur fjölskrúðugleiki kryddað lífið. — Sálmur 104:24.

EN varúðar er þörf. Sumt af því sem fólk trúir á er ekki einungis ólíkt heldur einnig hættulegt. Snemma á tuttugustu öldinni kom upp sá kvittur að Gyðingar og frímúrarar hyggðust „sundra kristinni menningu og koma á fót alheimsþjóðríki undir sameinaðri stjórn.“ Þessi hugmynd átti meðal annars rætur að rekja til smárits sem kallað var Protocols of the Learned Elders of Zion og var fjandsamlegt Gyðingum. Í ritinu var fullyrt að stefnt yrði að gegndarlausri skattlagningu, aukinni vopnaframleiðslu og risaeinokun þar sem ‚hægt væri að eyða auðæfum villutrúarmanna í einni svipan.‘ Einnig var dylgjað um hagræðingu menntakerfisins á þann veg að ‚villutrúarmönnum yrði breytt í hugsunarskertar skepnur,‘ og meira að segja yrðu lagðar neðanjarðarjárnbrautalestir milli helstu borga svo að gyðingaöldungarnir gætu ‚bælt niður sérhvern andófsmann með því að láta hann hverfa.‘

Auðvitað voru þetta ósannindi sem ætluð voru til að blása að glæðum gyðingahaturs. Mark Jones hjá British Museum segir að ‚þessi fráleiti tilbúningur hafi breiðst út til annarra landa frá Rússlandi‘ þar sem hann birtist fyrst í dagblaðagrein árið 1903. Hann komst í Lundúnarblaðið The Times 8. maí 1920. Meira en ári síðar var ljóstrað upp í The Times að þetta væri tilbúningur. En skaðinn var skeður. Jones segir ‚að svona lygar sé erfitt að þagga niður.‘ Um leið og þær hafa náð til fólks vekja þær upp mjög fordómafullar, eiturmagnaðar og hættulegar hugmyndir, oft með hörmulegum afleiðingum eins og saga 20. aldarinnar hefur sýnt. — Orðskviðirnir 6:16-19.

Trú eða sannleikur

Að sjálfsögðu þarf ekki vísvitandi lygi til að valda rangri skoðanamyndun. Stundum er um misskilning að ræða. Hve margir hafa ekki dáið langt um aldur fram af því að þeir álitu að þeir væru að gera rétt? Oft er það svo að við trúum einhverju af því að okkur langar bara til þess. Haft er eftir prófessor nokkrum að jafnvel vísindamenn „verði oft ástfangnir af hugarsmíð sinni.“ Trú þeirra varpar skugga á gagnrýna hugsun. Síðan eyða þeir allri ævinni í að reyna árangurslaust að verja það sem þeir hafa ranglega lagt trúnað á. — Jeremía 17:9.

Svipað hefur átt sér stað með trúarbrögðin, en þar eru mótsagnirnar gífurlegar. (1. Tímóteusarbréf 4:1; 2. Tímóteusarbréf 4:3, 4) Einhver trúir af einlægni á Guð. Annar segir að það séu engin rök séu fyrir því að trúa á Guð. Einn heldur því fram að sálin sé ódauðleg og lifi af líkamsdauðann. Annar trúir því að við dauðann sé allri tilveru endanlega lokið. Það er augljóst að svona ósamhljóma trú getur ekki öll verið sönn. Er þá ekki skynsamlegt að ganga úr skugga um að það sem þú leggur trúnað á sé í raun og veru sannleikur en ekki bara eitthvað sem þig langar til að leggja trúnað á? (Orðskviðirnir 1:5) Hvernig er það hægt? Í næstu grein verður grafist fyrir um það.

[Mynd á blaðsíðu 3]

Grein frá 1921 sem afhjúpar smáritið „Protocols of the Learned Elders of Zion.“