Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verðið ekki gleymnir heyrendur

Verðið ekki gleymnir heyrendur

Verðið ekki gleymnir heyrendur

„Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 1:22.

1. Hvaða kraftaverk fengu Ísraelsmenn að sjá forðum daga?

ORÐIÐ „ógleymanlegt“ er ágæt lýsing á kraftaverkunum sem Jehóva vann í Egyptalandi forðum daga. Plágurnar tíu voru óneitanlega ógnvekjandi, hver um sig, og áfall fyrir Egypta. Hin ótrúlega frelsun Ísraelsmanna kom svo í kjölfarið, er Jehóva klauf Rauðahafið og þeir gengu yfir. (5. Mósebók 34:10-12) Ef þú hefðir verið sjónarvottur að þessum atburðum hefðirðu vonandi aldrei gleymt því hver stóð að baki þeim. Sálmaskáldið söng eigi að síður: „Þeir [Ísraelsmenn] gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi, dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.“ — Sálmur 106:21, 22.

2. Hvað sýnir að Ísraelsmenn voru fljótir að gleyma máttarverkum Guðs?

2 Eftir förina yfir Rauðahafið „óttaðist fólkið [Jehóva], og þeir trúðu á [Jehóva].“ (2. Mósebók 14:31) Karlmennirnir sungu Jehóva sigursöng ásamt Móse, og Mirjam og aðrar konur dönsuðu og léku á bjöllutrommur. (2. Mósebók 15:1, 20) Þjóð Guðs var djúpt snortin af máttarverkum hans. En það entist ekki lengi. Skömmu síðar var engu líkara en að þeir hefðu verið slegnir stórkostlegu minnisleysi því að margir mögluðu og gerðu kurr gegn Jehóva. Sumir gerðu sig jafnvel seka um skurðgoðadýrkun og kynferðislegt siðleysi. — 4. Mósebók 14:27; 25:1-9.

Hvað gæti gert okkur gleymin?

3. Hverju gætum við gleymt vegna ófullkomleikans?

3 Vanþakklæti Ísraelsmanna er vissulega vandskilið. Hið sama gæti þó hent okkur. Við höfum að vísu ekki séð Guð vinna kraftaverk, en margt ógleymanlegt hlýtur engu að síður að hafa gerst í samskiptum okkar við hann. Sumir muna ef til vill eftir því þegar þeir tóku við sannleika Biblíunnar. Margir minnast kannski þeirrar gleðistundar er þeir vígðust Jehóva í bæn og tóku kristinni skírn. Mörg okkar hafa fundið fyrir hjálparhönd Guðs einhvern tíma á ævinni. (Sálmur 118:15) Og öðru fremur hefur fórnardauði Jesú Krists, sonar Guðs, veitt okkur von um hjálpræði. (Jóhannes 3:16) En sökum ófullkomleikans er ósköp auðvelt að gleyma því góða sem Jehóva hefur gert fyrir okkur, þegar rangar langanir eða áhyggjur lífsins steðja að.

4, 5. (a) Hvernig varar Jakob við hættunni á því að verða gleymnir heyrendur? (b) Hvernig getum við heimfært líkingu Jakobs með manninn og spegilinn upp á okkur?

4 Í bréfi til trúbræðra sinna varaði Jakob, hálfbróðir Jesú, við hættunni á því að verða gleyminn heyrandi. Hann skrifaði: „Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður. Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli. Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var.“ (Jakobsbréfið 1:22-24) Hvað átti Jakob við?

5 Þegar við förum á fætur á morgnana lítum við yfirleitt í spegil til að athuga hvað við þurfum að gera til að hressa upp á útlitið. Svo snúum við okkur að ýmsu öðru og hættum að hugsa um það sem við sáum í speglinum. Þetta getur líka gerst í andlegum skilningi. Þegar við lesum í Biblíunni getum við borið okkur saman við það sem Jehóva ætlast til af okkur. Við stöndum þá augliti til auglitis við veikleika okkar og það ætti að kveikja löngun til að bæta okkur. En í dagsins önn og í glímunni við dagleg vandamál gætu andlegu málin auðveldlega gleymst. (Matteus 5:3; Lúkas 21:34) Það er eins og við gleymum kærleiksverkum Guðs í okkar þágu. Ef það gerist verðum við berskjalda fyrir syndsamlegum tilhneigingum.

6. Hvaða biblíukafli getur forðað okkur frá því að gleyma orði Jehóva?

6 Í fyrra innblásna bréfinu til Korintusafnaðarins minnist Páll á gleymna Ísraelsmenn í eyðimörkinni. Orð hans geta forðað okkur frá því að gleyma orði Jehóva, ekkert síður en þau hjálpuðu kristnum mönnum á fyrstu öld. Við skulum því fara yfir 1. Korintubréf 10:1-12.

Afneitaðu veraldlegum girndum

7. Hvaða óyggjandi sönnun höfðu Ísraelsmenn fyrir kærleika Jehóva?

7 Umfjöllun Páls um Ísraelsmenn á dögum Móse er viðvörun fyrir kristna menn. Páll segir meðal annars: „Ég vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu og fóru allir yfir um hafið. Allir voru skírðir til Móse í skýinu og hafinu.“ (1. Korintubréf 10:1-4) Ísraelsmenn höfðu séð stórkostleg merki um mátt Guðs, þar á meðal hinn yfirnáttúrlega skýstólpa sem leiddi þá á daginn og hjálpaði þeim að komast undan gegnum Rauðahafið. (2. Mósebók 13:21; 14:21, 22) Þeir höfðu óyggjandi sannanir fyrir kærleika Jehóva til sín.

8. Hvaða afleiðingar hafði gleymska Ísraelsmanna?

8 „En samt hafði Guð enga velþóknun á flestum þeirra og þeir féllu í eyðimörkinni,“ heldur Páll áfram. (1. Korintubréf 10:5) Þetta var sorglegt. Flestir Ísraelsmenn, sem fóru frá Egyptalandi, urðu óhæfir til að ganga inn í fyrirheitna landið. Trúleysið kallaði yfir þá vanþóknun Guðs og þeir dóu í eyðimörkinni. (Hebreabréfið 3:16-19) Hvaða lærdóm getum við dregið af því? Páll segir: „Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það.“ — 1. Korintubréf 10:6.

9. Hvernig sá Jehóva fyrir Ísraelsmönnum en hvernig brugðust þeir við?

9 Ísraelsmenn höfðu allt sem þurfti í eyðimörkinni til að beina huganum að andlegu málunum. Þjóðin eignaðist sáttmálasamband við Jehóva og vígðist honum. Henni var gefin prestastétt, tjaldbúð sem tilbeiðslumiðstöð og fyrirkomulag til að færa Jehóva fórnir. En í stað þess að gleðjast yfir þessum andlegu gjöfum leyfðu Ísraelsmenn sér að verða óánægðir með það hvernig Jehóva sá fyrir efnislegum þörfum þeirra. — 4. Mósebók 11:4-6.

10. Af hverju ættum við alltaf að hafa Guð í huga?

10 Jehóva hefur velþóknun á fólki sínu nú á tímum, ólíkt því sem var með Ísraelsmenn í eyðimörkinni. En það er mikilvægt fyrir okkur öll að hafa hann nálægan í huga af því að það hjálpar okkur að hafna eigingjörnum löngunum sem gætu skert andlegu sjónina. Við verðum að vera harðákveðin í því að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum.“ (Títusarbréfið 2:12) Þeir sem hafa tilheyrt kristna söfnuðinum frá barnæsku ættu aldrei að láta sér detta í hug að þeir fari á mis við eitthvað gott. Ef sú hugsun kviknar einhvern tíma ættum við að minnast Jehóva og þeirra miklu blessunar sem hann ætlar að veita okkur. — Hebreabréfið 12:2, 3.

Alger hlýðni við Jehóva

11, 12. Hvernig getur maður gerst sekur um skurðgoðadýrkun án þess að dýrka beinlínis myndir eða líkneski?

11 Páll heldur varnaðarorðunum áfram: „Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: ‚Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika.‘“ (1. Korintubréf 10:7) Páll er að tala um það þegar Ísraelsmenn fengu Aron til að gera gullkálfinn. (2. Mósebók 32:1-4) Þó að ólíklegt sé að við förum út í beina skurðgoðadýrkun gætum við orðið henni að bráð ef við leyfðum eigingjörnum löngunum að trufla okkur svo að við þjónuðum ekki Jehóva af allri sálu. — Kólossubréfið 3:5.

12 Við annað tækifæri minntist Páll á menn sem hugsuðu fyrst og fremst um efnislega hluti en létu andlegu málin sitja á hakanum. Hann kallaði þá ‚óvini kross Krists‘ og sagði: „Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn.“ (Filippíbréfið 3:18, 19) Þeir dýrkuðu ekki bókstafleg skurðgoð heldur girntust efnislega hluti. Langanir og þrár þurfa ekki endilega að vera rangar. Jehóva áskapaði okkur mannlegar þarfir og hæfileikann til að njóta. En þeir sem taka nautnina fram yfir sambandið við Guð gera sig svo sannarlega að skurðgoðadýrkendum. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

13. Hvað getum við lært af frásögunni um gullkálfinn?

13 Ísraelsmenn gerðu sér gullkálf til að tilbiðja eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland. Frásagan af því er viðvörun gegn skurðgoðadýrkun, en það er annar mikilvægur lærdómur fólginn í henni. Ísraelsmenn óhlýðnuðust skýrum fyrirmælum Jehóva. (2. Mósebók 20:4-6) Þeir ætluðu sér ekki að hafna honum sem Guði. Þeir færðu gullkálfinum fórnir og kölluðu það ‚hátíð Jehóva.‘ Einhvern veginn blekktu þeir sjálfa sig og töldu sér trú um að Guð léti sem hann sæi ekki óhlýðni þeirra. En þetta var móðgun við Guð og hann reiddist stórlega. — 2. Mósebók 32:5, 7-10; Sálmur 106:19, 20.

14, 15. (a) Af hverju höfðu Ísraelsmenn enga afsökun fyrir því að verða gleymnir heyrendur? (b) Hvernig lítum við á boðorð Jehóva ef við erum ákveðin í að verða ekki gleymnir heyrendur?

14 Það væri í hæsta máta óvenjulegt ef vottur Jehóva snerist til einhverrar falstrúar. En sumir gætu hafnað handleiðslu Jehóva á aðra vegu en verið áfram í söfnuðinum. Ísraelsmenn höfðu enga afsökun fyrir því að verða gleymnir heyrendur. Þeir heyrðu boðorðin tíu og voru viðstaddir þegar Móse flutti þeim fyrirskipun Guðs: „Þér skuluð eigi til búa aðra guði jafnhliða mér. Guði af silfri eða guði af gulli skuluð þér ekki búa yður til.“ (2. Mósebók 20:18, 19, 22, 23) Samt sem áður tilbáðu þeir gullkálfinn.

15 Við höfum ekki heldur boðlega afsökun fyrir því að verða gleymnir heyrendur. Í Biblíunni er að finna fyrirmæli Guðs um fjölmarga þætti lífsins. Orð hans fordæmir til dæmis að taka lán en endurgreiða það ekki. (Sálmur 37:21) Börnum er sagt að hlýða foreldrum sínum og feður eiga að ala börnin upp með ‚aga og umvöndun Jehóva.‘ (Efesusbréfið 6:1-4) Einhleypir kristnir menn eiga að giftast ‚aðeins í Drottni‘ og giftum þjónum Guðs er sagt: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (1. Korintubréf 7:39; Hebreabréfið 13:4) Ef við erum ákveðin í að verða ekki gleymnir heyrendur tökum við þessi og önnur fyrirmæli Guðs háalvarlega og fylgjum þeim.

16. Hvaða afleiðingar hafði dýrkun gullkálfsins?

16 Jehóva sætti sig ekki við það að Ísraelsmenn tilbæðu hann samkvæmt eigin skilyrðum. Þrjú þúsund voru líflátnir, sennilega forsprakkar þeirrar uppreisnar að tilbiðja gullkálfinn. Aðrir syndarar fengu yfir sig plágu frá Jehóva. (2. Mósebók 32:28, 35) Þetta er verðmæt lexía fyrir alla sem lesa orð Guðs en velja svo úr það sem þeir vilja hlýða!

„Flýið saurlifnaðinn“

17. Um hvaða atburð er talað í 1. Korintubréfi 10:8?

17 Páll nefnir annað svið þar sem langanir holdsins geta orsakað andlega gleymsku. Hann segir: „Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.“ (1. Korintubréf 10:8) Páll er að tala hér um atburð sem átti sér stað á Móabsheiðum undir lok 40 ára göngu Ísraelsmanna um eyðimörkina. Þeir voru nýlega búnir að fá hjálp Jehóva til að vinna landið austanmegin Jórdanar en margir reyndust gleymnir og vanþakklátir. Við landamæri fyrirheitna landsins létu þeir tælast út í kynferðislegt siðleysi og óhreina dýrkun á Baal-Peór. Um 24.000 tortímdust, þar af 1000 forsprakkar. — 4. Mósebók 25:9.

18. Hvað getur verið undanfari kynferðislegs siðleysis?

18 Fólk Jehóva nú á tímum er þekkt fyrir gott siðferði. En sumir þjónar Guðs hafa hætt að hugsa um hann og meginreglur hans þegar siðlausar freistingar hefur borið að garði. Þá urðu þeir gleymnir heyrendur. Fyrsta freistingin var kannski ekki fólgin í hórdómi heldur tilhneigingu til að skoða klámefni, taka þátt í óviðeigandi spaugi eða daðri eða nánu sambandi við einstaklinga sem voru veikir á svellinu í siðferðismálum. En þess háttar hefur reynst undanfari siðlausrar breytni af hálfu kristinna manna. — 1. Korintubréf 15:33; Jakobsbréfið 4:4.

19. Hvaða ráð Biblíunnar hjálpa okkur að ‚flýja saurlifnaðinn‘?

19 Ef okkar er freistað til siðlausrar breytni megum við ekki hætta að hugsa um Jehóva heldur verðum við að hlýða áminningum Biblíunnar. (Sálmur 119:1, 2) Flest okkar gera sitt ýtrasta til að halda sér siðferðilega hreinum. En að gera rétt í augum Guðs er þrotlaus vinna. (1. Korintubréf 9:27) Páll skrifaði kristnum mönnum í Róm: „Hlýðni yðar er alkunn orðin. Því gleðst ég yfir yður og ég vil, að þér séuð vitrir í því, sem gott er, en einfaldir í því, sem illt er.“ (Rómverjabréfið 16:19) Hórdómsmenn og aðrir syndarar verða bráðlega að taka út dóm Jehóva líkt og Ísraelsmennirnir 24.000 sem voru líflátnir fyrir syndir sínar. (Efesusbréfið 5:3-6) Við megum ekki vera gleymnir heyrendur heldur verðum við að halda áfram að ‚flýja saurlifnaðinn.‘ — 1. Korintubréf 6:18.

Vertu alltaf þakklátur fyrir gjafir Jehóva

20. Hvernig freistuðu Ísraelsmenn Jehóva og með hvaða afleiðingum?

20 Langsamlega flestir þjónar Guðs halda sér frá kynferðislegu siðleysi. En við þurfum að gæta þess að verða ekki möglunarsöm því að það gæti leitt til vanþóknunar Guðs. Páll hvetur: „Freistum ekki heldur [Jehóva], eins og nokkrir [Ísraelsmenn] freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum. Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum.“ (1. Korintubréf 10:9, 10) Ísraelsmenn mögluðu gegn Móse og Aroni — já, gegn Guði sjálfum — og kvörtuðu undan himnabrauðinu manna sem þeim var gefið með undraverðum hætti. (4. Mósebók 16:41; 21:5) Var möglið eitthvað skárra í augum Jehóva en hórdómurinn? Biblían greinir frá því að höggormar hafi drepið marga af möglurunum. (4. Mósebók 21:6) Við annað tækifæri fórust 14.700 uppreisnarmenn og möglarar. (4. Mósebók 16:49) Við skulum því ekki reyna á þolinmæði Jehóva með því að lítilsvirða það sem hann lætur í té.

21. (a) Hvaða hvatningu var Páli innblásið að skrifa? (b) Hvernig getum við verið gæfusöm, samkvæmt Jakobsbréfinu 1:25?

21 Páll lýkur viðvörun sinni með hvatningu: „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir. Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“ (1. Korintubréf 10:11, 12) Jehóva hefur blessað okkur á margan hátt, líkt og hann blessaði Ísraelsmenn. En við skulum aldrei vera vanþakklát og gleyma því góða sem Guð gerir fyrir okkur, eins og þeir gerðu. Þegar áhyggjur lífsins íþyngja okkur skulum við rifja upp hin dýrlegu fyrirheit í orði hans. Munum hve dýrmætt samband við eigum við Jehóva og höldum áfram að boða ríki hans eins og hann hefur falið okkur. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Það er okkur örugglega til gæfu því að Biblían lofar: „Sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.“ — Jakobsbréfið 1:25.

Hverju svarar þú?

• Hvernig gætum við orðið gleymnir heyrendur?

• Af hverju er mikilvægt að hlýða Guði í einu og öllu?

• Hvernig getum við ‚flúið saurlifnaðinn‘?

• Hvernig eigum við að líta á ráðstafanir Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Ísraelsmenn gleymdu máttarverkum Jehóva við sig.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Fólk Jehóva er staðráðið í því að halda háar siðferðiskröfur hans.