Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gerðu framför þína augljósa

Gerðu framför þína augljósa

Gerðu framför þína augljósa

„Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:15.

1. Hvernig veistu hvenær ávöxtur er þroskaður og tilbúinn til neyslu?

SJÁÐU fyrir þér uppáhaldsávöxtinn þinn — banana, peru, melónu eða hver sem hann nú er. Veistu hvenær hann er þroskaður og tilbúinn til neyslu? Áreiðanlega. Ilmurinn, liturinn og viðkoman segja þér að gómsætur biti bíði þín. Þú sekkur tönnunum í hann og dæsir af ánægju. Ljúffengur er hann og sætur! Þú nýtur hans út í ystu æsar.

2. Hvernig birtist andlegur þroski og hvaða áhrif hefur hann á samskipti manna?

2 Þessi hversdagslega en ánægjulega reynsla á sér hliðstæður á öðrum sviðum í lífinu. Andlegur þroski sýnir sig til dæmis á mismunandi vegu, ekkert síður en þroski ávaxtar. Góð dómgreind, innsæi, viska og fleira ber vott um að maður sé þroskaður. (Jobsbók 32:7-9) Það er afskaplega ánægjulegt að umgangast og vinna með þeim sem sýna slíka eiginleika í viðhorfum sínum og framkomu. — Orðskviðirnir 13:20.

3. Hvað segir lýsing Jesú um þroska samtíðarmanna?

3 Líkamlega fullþroska maður getur hins vegar afhjúpað með tali sínu og hegðun að hann sé tilfinningalega og andlega óþroskaður. Jesús Kristur sagði til dæmis um rangsnúna kynslóð síns tíma: „Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: ‚Hann hefur illan anda.‘ Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: ‚Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!‘“ Jesús sagði að þetta fólk hegðaði sér eins og ‚börn‘ þó að það væri líkamlega þroskað, og bætti svo við að ‚spekin sannaðist af verkum sínum.‘ — Matteus 11:16-19.

4. Á hvaða vegu birtist framför og þroski?

4 Orð Jesú bera með sér að verk manns og árangurinn af þeim sé mælikvarði á það hvort hann búi yfir sannri visku en hún er skýrt þroskamerki. Ráðleggingar Páls til Tímóteusar eru í svipuðum dúr. Eftir að hafa tíundað hvað Tímóteus ætti að iðka sagði hann: „Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ (1. Tímóteusarbréf 4:15) Framför kristins manns til þroska er „augljós“ eða greinileg. Kristinn þroski er ekki ósýnilegur eða falinn heldur áberandi eins og skært ljós. (Matteus 5:14-16) Við skulum því líta nánar á það hvernig framför og þroski geta birst með tvennum hætti: (1) í aukinni þekkingu, skilningi og visku og (2) í því að bera ávöxt andans.

Eining í trú og þekkingu

5. Hvernig er hægt að skilgreina þroska?

5 Orðabækur skýra þroska sem það að vera, fullorðinn, fullvaxinn, fullmótaður og hafa góða andlega og líkamlega eiginleika. Ávöxtur er þroskaður, eins og áður var nefnt, þegar hann hefur lokið eðlilegu vaxtarskeiði, og útlit, ilmur, litur og bragð hefur náð ákveðnu stigi sem talið er gott eða æskilegt. Það má því segja að þroski sé sama og ágæti, algerleiki eða jafnvel fullkomnun. — Jesaja 18:5; Matteus 5:45-48; Jakobsbréfið 1:4.

6, 7. (a) Hvað sýnir að Jehóva er mikið í mun að allir dýrkendur hans nái andlegum þroska? (b) Hverju er andlegur þroski nátengdur?

6 Jehóva Guði er mikið í mun að allir dýrkendur hans nái andlegum þroska og hefur gert ráðstafanir til þess innan kristna safnaðarins. Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Efesus: „Frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar, þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar. Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.“ — Efesusbréfið 4:11-14.

7 Hérna bendir Páll á að Guð hafi meðal annars gert þessar ráðstafanir innan safnaðarins til þess að allir verði „einhuga í trúnni og þekkingunni,“ verði „fullþroska“ og nái „vaxtartakmarki Krists.“ Þá fyrst verðum við óhult fyrir röngum hugmyndum og falskenningum svo að við hrekjumst ekki fram og aftur eins og andleg börn. Við sjáum hve náið samband er milli þess að ná kristnum þroska og að verða „einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs.“ Það er margt í ráðleggingum Páls sem við ættum að taka til okkar.

8. Hvað er nauðsynlegt til að vera „einhuga“ í trú og nákvæmri þekkingu?

8 Í fyrsta lagi segir Páll að þroskaðir kristnir menn eigi að vera „einhuga,“ þannig að þeir þurfa að vera fullkomlega samstiga og sammála í trú og þekkingu. Þeir túlka Biblíuna ekki eftir eigin geðþótta eða halda fram sínum eigin hugmyndum heldur treysta sannleikanum fullkomlega eins og Jehóva Guð hefur opinberað hann fyrir atbeina sonar síns, Jesú Krists, og ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ Ef við neytum reglulega hinnar andlegu fæðu, sem okkur er gefin „á réttum tíma“ í biblíunámsritum, á samkomum og á mótum, getum við verið viss um að við og allt bræðrafélagið séum „einhuga“ í trú og þekkingu. — Matteus 24:45.

9. Hvað er átt við með orðinu ‚trúin‘ í bréfi Páls til Efesusmanna?

9 Í öðru lagi er orðið ‚trúin‘ ekki notað um þá sannfæringu sem hver og einn játar heldur heild þess sem við trúum í allri sinni ‚vídd og lengd, hæð og dýpt.‘ (Efesusbréfið 3:18; 4:5; Kólossubréfið 1:23; 2:7) Hvernig geta kristnir menn verið einhuga ef þeir trúa eða viðurkenna aðeins vissa hluta ‚trúarinnar‘? Þetta merkir að við getum ekki gert okkur ánægð með að þekkja aðeins undirstöðukenningar Biblíunnar eða að hafa einungis óljósa eða takmarkaða þekkingu á sannleikanum. Við ættum að vera áfram um að notfæra okkur allar gjafir og ráðstafanir Jehóva, sem skipulag hans miðlar, til að kafa djúpt ofan í orð hans. Við verðum að leggja okkur fram um að skilja vilja hans og ásetning eins vel og nákvæmlega og við getum. Til þess að gera það þurfum við að taka okkur tíma til að lesa í Biblíunni og biblíunámsritum, biðja Guð um hjálp hans og leiðsögn, sækja safnaðarsamkomur að staðaldri og taka heilshugar þátt í boðunar- og kennslustarfinu. — Orðskviðirnir 2:1-5.

10. Hvað þýða orðin „þangað til vér verðum allir einhuga“ eins og þau standa í Efesusbréfinu 4:13?

10 Í þriðja lagi hafði Páll formálsorð að hinu þríþætta markmiði: „Þangað til vér verðum allir einhuga,“ sagði hann. Biblíuhandbók segir að með orðunum ‚vér allir‘ sé „ekki átt við alla sem einstaklinga heldur alla sem heild.“ Með öðrum orðum ætti hver og einn að leggja sig fram við að ná kristnum þroska ásamt öllu bræðrafélaginu. The Interpreter’s Bible segir: „Einstaklingurinn á ekki að taka út fyllingu hins andlega vaxtar einsamall því að einn limur líkamans getur ekki náð þroska nema allur líkaminn haldi áfram heilbrigðum vexti.“ Páll minnti kristna menn í Efesus á að þeir ættu að kappkosta, „ásamt öllum heilögum,“ að skilja inntak trúarinnar í allri sinni vídd og breidd. — Efesusbréfið 3:18a.

11. (a) Hvað er ekki átt við með því að taka andlegum framförum? (b) Hvað þurfum við að gera til að taka framförum?

11 Það er ljóst af orðum Páls að andlegar framfarir eru meira en það að fylla hugann þekkingu og lærdómi. Þroskaður kristinn maður reynir ekki að vekja undrun og aðdáun annarra fyrir snilld sína og þekkingu heldur segir Biblían: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ (Orðskviðirnir 4:18) Það er ‚gatan‘ en ekki einstaklingurinn sem verður „æ skærari.“ Við tökum andlegum framförum ef við leggjum okkur stöðugt fram um að fylgjast vel með hinum sívaxandi skilningi á Biblíunni sem Jehóva lætur fólki sínu í té. Að fylgjast vel með merkir í þessu sambandi að sækja fram á við og það getum við öll gert. — Sálmur 97:11; 119:105.

Að sýna ‚ávöxt andans‘

12. Hvers vegna er mikilvægt að sýna ávöxt andans þegar við tökum andlegum framförum?

12 Það er ekki síður mikilvægt að sýna ávöxt anda Guðs á öllum sviðum lífsins en að verða „einhuga í trúnni og þekkingunni.“ Af hverju? Af því að þroski er ekki ósýnilegur eða falinn, eins og fram hefur komið, heldur birtist í augljósum eiginleikum sem geta verið öðrum til góðs eða uppbyggingar. Við erum auðvitað ekki að reyna að taka framförum til að geta sýnst merkileg eða til að virka fáguð. En viðhorf okkar og hátterni breytist stórkostlega þegar við vöxum andlega, í samræmi við leiðsögn anda Guðs. „Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins,“ sagði Páll postuli. — Galatabréfið 5:16.

13. Hvaða breyting er skýrt framfaramerki?

13 Páll tíundaði síðan „holdsins verk“ sem eru mörg og „augljós.“ Áður en maður áttar sig á gildi þess að uppfylla kröfur Guðs er líf hans sniðið eftir háttalagi heimsins og einkennist kannski af sumu af því sem Páll nefnir: ‚frillulífi, óhreinleika, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskap, deilum, metingi, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadrætti, öfund, ofdrykkju, svalli og öðru þessu líku.‘ (Galatabréfið 5:19-21) En þegar hann tekur andlegum framförum sigrast hann smám saman á þessum óæskilegu ‚verkum holdins‘ og „ávöxtur andans“ kemur í staðinn. Þessi breyting er sýnileg og er skýrt merki þess að maðurinn sæki fram til kristins þroska. — Galatabréfið 5:22.

14. Útskýrðu hugtökin „holdsins verk“ og „ávöxtur andans.“

14 Við skulum taka eftir heitunum „holdsins verk“ og „ávöxtur andans.“ „Verk“ er afraksturinn af starfi manns eða iðju. Verk holdsins, sem Páll telur upp, eru annaðhvort afleiðing hins fallna holds eða þess sem maður velur að gera. (Rómverjabréfið 1:24, 28; 7:21-25) Orðalagið „ávöxtur andans“ gefur hins vegar í skyn að eiginleikarnir, sem upp eru taldir, séu ekki árangur svokallaðrar skapgerðarþjálfunar eða persónuleikaeflingar heldur tilkomnir fyrir áhrif anda Guðs á manneskjuna. Tré ber ávöxt sé rétt um það hirt, og maður ber ávöxt andans ef andinn fær að starfa óhindrað í lífi hans. — Sálmur 1:1-3.

15. Hvers vegna er mikilvægt að gefa gaum að öllum þáttum ‚ávaxtar andans‘?

15 Það er einnig umhugsunarvert að Páll skuli nota orðið „ávöxtur“ um alla þá æskilegu eiginleika sem hann nefnir. Andinn framkallar ekki margs konar ávexti sem við getum valið úr að vild. Allir eiginleikarnir sem Páll telur upp — kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi eða sjálfstjórn — eru jafnmikilvægir, og í sameiningu mynda þeir nýjan, kristinn persónuleika. (Efesusbréfið 4:24; Kólossubréfið 3:10) Persónuleiki okkar og tilhneigingar geta gert að verkum að sumir þessara eiginleika skeri sig úr í fari okkar, en það er samt sem áður mikilvægt að gefa gaum að öllu því sem Páll nefndi. Þannig getum við endurspeglað persónuleika Krists í lífi okkar. — 1. Pétursbréf 2:12, 21.

16. Hvaða markmið höfum við með því að keppa eftir kristnum þroska og hvernig getum við náð því?

16 Við getum dregið þann mikilvæga lærdóm af orðum Páls að markmið okkar með því að ná kristnum þroska ætti hvorki að vera það að afla okkur mikillar þekkingar og lærdóms né leggja mikið upp úr fáguðum persónuleika. Markmiðið er það að gefa anda Guðs óhindraðan aðgang að okkur. Andlegi þroskinn stendur í beinu hlutfalli við það hve móttækileg við erum fyrir handleiðslu andans í hugsun og verki. Við þurfum að opna hjartað og hugann fyrir áhrifum anda Guðs með því að sækja safnaðarsamkomur dyggilega og taka þátt í þeim, og með því að nema orð hans reglulega og hugleiða það þannig að meginreglur hans geti leiðbeint okkur í samskiptum við aðra og í ákvörðunum okkar. Þá verður framför okkar augljós.

Taktu framförum Guði til dýrðar

17. Hvernig eru framfarir okkar tengdar því að vegsama föðurinn á himnum?

17 Með því að gera framför okkar augljósa erum við ekki að upphefja sjálf okkur heldur Jehóva, föðurinn á himnum, sem gerir okkur kleift að ná andlegum þroska. Jesús sagði lærisveinunum nóttina áður en hann dó: „Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir.“ (Jóhannes 15:8) Þeir vegsömuðu Jehóva bæði með því að bera ávöxt andans og ávöxt Guðsríkis í boðunarstarfinu. — Postulasagan 11:4, 18; 13:48.

18. (a) Hvaða gleðileg uppskera á sér stað núna? (b) Hvaða áskorun er fólgin í þessari uppskeru?

18 Jehóva blessar fólk sitt er það vinnur að hinu andlega uppskerustarfi um heim allan. Um nokkurra ára skeið hafa um 300.000 nýir lærisveinar vígst Jehóva og táknað vígsluna með niðurdýfingarskírn. Þetta er mjög gleðilegt fyrir okkur og eflaust gleður það einnig hjarta Jehóva. (Orðskviðirnir 27:11) En til að gleðin haldist og Jehóva vegsamist áfram þurfa allir þessir nýju lærisveinar að ‚lifa í Kristi, vera rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni.‘ (Kólossubréfið 2:6, 7) Í þessu er fólgin tvíþætt áskorun á þjóna Guðs. Annars vegar þurfa nýskírðir að leggja sig fram svo að ‚framför þeirra sé öllum augljós.‘ Hins vegar þurfa þeir sem hafa verið í sannleikanum um hríð að axla þá ábyrgð að gæta að andlegri velferð hinna nýju. Í báðum tilfellum er greinilega nauðsynlegt að sækja fram til þroska. — Filippíbréfið 3:16; Hebreabréfið 6:1.

19. Hvaða sérréttindi og blessun geturðu hlotið ef þú gerir framför þína augljósa?

19 Mikil blessun bíður allra sem leggja sig í líma við að gera framför sína augljósa. Mundu hvað Páll sagði eftir að hafa hvatt Tímóteus til að taka framförum: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Ef þú leggur þig vel fram um að gera framför þína augljósa geturðu líka átt hlutdeild í þeim sérréttindum að vegsama nafn Guðs og njóta blessunar hans.

Manstu?

• Hvernig getur andlegur þroski sýnt sig?

• Hvers konar þekking og skilningur endurspeglar þroska?

• Hvernig er „ávöxtur andans“ merki um andlegar framfarir?

• Hvaða áskorun ættum við að taka er við sækjum fram til þroska?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Þroski er auðsær.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Við tökum andlegum framförum með því að fylgjast vel með hinum opinberaða sannleika.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Bænin er hjálp til að bera ‚ávöxt andans.‘