Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Geturðu ‚greint gott frá illu‘?

Geturðu ‚greint gott frá illu‘?

Geturðu ‚greint gott frá illu‘?

„Metið rétt, hvað Drottni þóknast.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:10.

1. Hvernig og hvers vegna er lífið stundum flókið?

„ÉG VEIT, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Þessi skarplega ábending Jeremía á enn betur við nú á tímum en forðum daga vegna þess að við lifum „örðugar tíðir“ eins og spáð var í Biblíunni. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Við lendum daglega í flóknum aðstæðum þar sem við þurfum að taka ákvarðanir. Þessar ákvarðanir eru mismikilvægar en geta haft afdrifarík áhrif á líkamlega, andlega og trúarlega velferð okkar.

2. Hvað geta þótt smávægilegar ákvarðanir en hvernig líta vígðir kristnir menn á þær?

2 Við eigum um margt að velja dags daglega sem kalla má hversdagslegt eða smávægilegt. Til dæmis þurfum við á hverjum degi að ákveða hvaða fötum við klæðumst, hvað við borðum, hverja við ætlum að hitta og svo framvegis. Við ákveðum þetta næstum ósjálfrátt, án umhugsunar. En eru þetta allt smáatriði? Það skiptir miklu máli fyrir vígða kristna menn að klæðnaður þeirra og útlit, tal og hegðun og matur og drykkur beri öllum stundum vitni um að þeir séu þjónar hins hæsta, Jehóva Guðs. Þetta minnir á orð Páls postula: „Hvort sem þér . . . etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ — 1. Korintubréf 10:31; Kólossubréfið 4:6; 1. Tímóteusarbréf 2:​9, 10.

3. Nefndu dæmi um ákvarðanir sem eru mjög alvarlegs eðlis.

3 Sumar ákvarðanir eru af mun alvarlegra tagi. Það hefur til dæmis djúpstæð og varanleg áhrif á líf manns hvort maður ákveður að giftast eða vera einhleypur. Og ekki er síður mikilvægt að velja rétt þegar maður velur sér lífsförunaut. * (Orðskviðirnir 18:22) Val á vinum, menntun, atvinnu, skemmtun og afþreyingu hefur mikil áhrif, jafnvel úrslitaáhrif, á andlegt hugarfar okkar og eilífa velferð. — Rómverjabréfið 13:​13, 14; Efesusbréfið 5:​3, 4.

4. (a) Hvað er mjög eftirsóknarvert? (b) Hvaða spurningar þurfum við að skoða?

4 Í ljósi þessa er vissulega eftirsóknarvert að geta greint rétt frá röngu eða geta greint milli þess sem virðist vera rétt og þess sem er rétt í raun og veru. „Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum,“ segir Biblían í viðvörunartón. (Orðskviðirnir 14:12) Við gætum því spurt okkur hvernig við getum þroskað með okkur hæfileikann til að greina rétt frá röngu og gott frá illu. Hvar finnum við þá leiðsögn sem við þurfum til að taka viturlegar ákvarðanir? Hvað hefur fólk gert í þessum efnum fyrr og nú og með hvaða árangri?

‚Heimspeki og hégómavilla‘ heimsins

5. Í hvers konar heimi bjuggu frumkristnir menn?

5 Grísk-rómversk gildi og hugsjónir voru í hávegum höfð í heimi fyrstu aldar. Annars vegar þóttu lífshættir Rómverja öfundsverðir sökum munaðar og þæginda. Hins vegar var heimspeki Platóns og Aristótelesar haldið mjög á loft meðal menntamanna, einnig nýrri stefnum eins og kenningum epíkúringa og stóumanna. Þegar Páll postuli kom til Aþenu á annarri trúboðsferð sinni lenti hann í orðakasti við heimspekinga úr hópi epíkúringa og stóumanna sem töldu sig hafna yfir ‚skraffinninn‘ Pál, eins og þeir kölluðu hann. — Postulasagan 17:18.

6. (a) Hvað fannst sumum hinna frumkristnu freistandi? (b) Við hverju varaði Páll?

6 Það er því skiljanlegt að yfirlætislegt háttalag og líferni umheimsins hafi höfðað til sumra af hinum frumkristnu. (2. Tímóteusarbréf 4:10) Þeir sem voru í miðri hringiðu heimsins virtust hafa það gott og ákvarðanir þeirra virtust skynsamlegar. Svo var að sjá sem heimurinn hefði eitthvað verðmætt fram að færa sem trúrækni og hollusta kristinna manna bauð ekki upp á. En Páll postuli aðvaraði: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ (Kólossubréfið 2:8) Af hverju sagði Páll þetta?

7. Hvaða gildi hefur speki heimsins þegar grannt er skoðað?

7 Páll varaði við þessu vegna þess að hann gerði sér grein fyrir hættunni sem kristnir menn settu sig í ef þeim fannst heimurinn lokkandi. Það er sérstaklega eftirtektarvert að hann skuli nota orðin ‚heimspeki og hégómavilla.‘ Gríska orðið fílósófía merkir bókstaflega „viskuást og -leit.“ Hún getur í sjálfu sér verið gagnleg. Í Biblíunni, ekki síst Orðskviðunum, er mjög hvatt til þess að menn afli sér réttrar þekkingar og visku. (Orðskviðirnir 1:​1-7; 3:​13-18) En Páll tengdi „heimspeki“ við „hégómavillu.“ Með öðrum orðum leit hann svo á að viska heimsins byði ekki upp á annað en villu og hégóma. Hún væri eins og uppblásin blaðra; staðgóð á að líta en innihaldslaus. Það væri vita vonlaust, jafnvel stórhættulegt, að ákveða hvað sé gott og illt út frá nokkru jafninnihaldslausu og „heimspeki og hégómavillu“ heimsins.

Þeir sem kalla „hið illa gott og hið góða illt“

8. (a) Hvar leitar fólk ráða? (b) Hvers konar ráð eru gefin?

8 Ástandið er ósköp svipað núna. Það úir og grúir af sérfræðingum á nálega öllum sviðum. Allir eru tilbúnir að gefa ráð — hjóna- og fjölskylduráðgjafar, dálkahöfundar, sjálfskipaðir meðferðarfræðingar, stjörnuspámenn, andamiðlar — en gegn greiðslu. En hvers konar ráð eru í boði? Oft eru siðferðisreglur Biblíunnar látnar víkja fyrir hinu svokallaða nýja siðgæði. Tökum dæmi: Þegar kanadísk stjórnvöld neituðu að viðurkenna „hjónabönd samkynhneigðra“ tók dagblaðið The Globe and Mail, sem talið er aðhyllast ríkjandi samfélagsviðhorf, það til umfjöllunar í ritstjórnargrein. Þar stóð: „Það er fáránlegt árið 2000 að synja ástríku og trygglyndu pari um heitustu ósk sína fyrir það eitt að vera af sama kyni.“ Stefnan er sú að vera umburðarlyndur og dæma ekki náungann. Allt er álitið afstætt og ekkert talið afdráttarlaust rétt eða rangt. — Sálmur 10:​3, 4.

9. Hvað er algengt meðal þeirra sem njóta virðingar í samfélaginu?

9 Sumir horfa til þeirra sem hafa komist vel áfram félagslega og fjárhagslega — til hinna frægu og ríku — og leita fyrirmyndar hjá þeim að ákvörðunum sínum. Þótt hinir frægu og ríku njóti virðingar í samfélaginu er ekki þar með sagt að þeir hafi dyggðir eins og heiðarleika og trúnað í hávegum. Margir hafa ekki hið minnsta samviskubit yfir því að sniðganga lög og traðka á siðferðisreglum til að auka völd sín eða eignir. Sumir hafna hefðbundnum gildum og hegðunarreglum og tileinka sér afkáralega og hneykslanlega hegðun til að vekja á sér athygli og afla sér vinsælda. Útkoman er gróðahyggja og undanlátssemi sem gagnsýrir svo þjóðfélagið að kjörorðið er: „Allt er leyfilegt.“ Er það nokkur furða að fólk skuli vera vegvillt og ráðvillt gagnvart því hvað sé gott og hvað sé illt? — Lúkas 6:39.

10. Hvernig hafa orð Jesaja um gott og illt sannast?

10 Allt í kringum okkur blasa við átakanlegar afleiðingar slæmra ákvarðana sem byggðar eru á gallaðri leiðsögn — brostin hjónabönd og sundraðar fjölskyldur, ofdrykkja og fíkniefnaneysla, ofbeldisfull unglingagengi, lauslæti og samræðissjúkdómar, svo fáeinar séu nefndar. En er við nokkru öðru að búast þegar fólk lætur allar siðferðisreglur eða viðmið um gott og illt lönd og leið? (Rómverjabréfið 1:​28-32) Það fer á sömu leið og spámaðurinn Jesaja sagði: „Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku. Vei þeim, sem vitrir eru í augum sjálfra sín og hyggnir að eigin áliti.“ — Jesaja 5:​20, 21.

11. Af hverju er óskynsamlegt að treysta sjálfum sér til að ákveða hvað sé gott og illt?

11 Sú staðreynd að Guð kallaði þessa Gyðinga, sem voru „hyggnir að eigin áliti,“ til ábyrgðar minnir á hve mikilvægt það er að treysta ekki á sjálfan sig þegar greina þarf milli góðs og ills. Margir aðhyllast þá hugmynd að „láta hjartað ráða“ eða „gera það sem manni finnst vera rétt.“ En er það skynsamleg afstaða? Ekki að sögn Biblíunnar sem segir skýrt og skorinort: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?“ (Jeremía 17:9) Myndirðu treysta svikulum og spilltum manni til að leiðbeina þér þegar þú tekur ákvarðanir? Eflaust ekki. Sennilega myndirðu gera þveröfugt við það sem slíkur maður segði þér. Þess vegna segir Biblían í áminningartón: „Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi, en sá sem breytir viturlega, mun undan komast.“ — Orðskviðirnir 3:​5-7; 28:26.

Lærum hvað Guði þóknast

12. Hvers vegna þurfum við að reyna hver sé „vilji Guðs“?

12 Hvað eigum við að gera fyrst við getum hvorki treyst visku heimsins né sjálfum okkur til að ákveða hvað sé gott og hvað sé illt? Sjáðu þessar skýru og skilmerkilegu ráðleggingar Páls postula: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:2) Af hverju þurfum við að reyna hver sé vilji Guðs? Hann tilgreinir sjálfur hver ástæðan er og hún er einföld en veigamikil: „Svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.“ (Jesaja 55:9) Við erum hvött til að reiða okkur ekki á svokallaða heilbrigða skynsemi eða brjóstvitið heldur er okkur ráðlagt að ‚meta rétt hvað Drottni þóknast.‘ — Efesusbréfið 5:10.

13. Hvernig undirstrika orð Jesú í Jóhannesi 17:3 að við þurfum að vita hvað er Guði þóknanlegt?

13 Jesús Kristur lagði áherslu á þetta er hann sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Gríska sögnin, sem þýdd er „að þekkja,“ hefur mjög djúpstæða merkingu. Að sögn Vine’s Expository Dictionary „lætur hún í ljós samband milli þess sem þekkir og hins þekkta; að þessu leyti er þekkingin verðmæt eða mikilvæg fyrir þann sem hefur hana og þess vegna er sambandið það einnig.“ Að eiga samband við einhvern er meira en að vita aðeins hver hann er eða hvað hann heitir. Það felur í sér að vita hvað geðjast honum og hvað ekki, þekkja gildismat hans og siðferðiskröfur — og virða þær. — 1. Jóhannesarbréf 2:3; 4:8.

Að þjálfa skilningarvitin

14. Hver er meginmunurinn á andlegum börnum og andlega fullorðnum, að sögn Páls?

14 Hvernig getum við þá lært að greina gott frá illu? Páll svaraði því í bréfinu til kristinna Hebrea á fyrstu öld. Hann skrifaði: „Hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins. Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ Páll ber hér saman ‚mjólkina,‘ sem hann kallaði „undirstöðuatriði Guðs orða“ í versinu á undan, og ‚föstu fæðuna‘ sem er fyrir „fullorðna“ er hafa „tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ — Hebreabréfið 5:​12-14.

15. Hvers vegna þurfum við að leggja hart að okkur til að fá nákvæma þekkingu á Guði?

15 Þetta þýðir í fyrsta lagi að við þurfum að leggja hart að okkur til að skilja vel og nákvæmlega hvaða hegðunarreglur Guð setur í orði sínu, Biblíunni. Við erum ekki að leita að skrá um það hvað við megum gera og hvað ekki. Biblían er ekki þess konar reglubók heldur sagði Páll: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ (2. Tímóteusarbréf 3:​16, 17) Við þurfum að beita huganum og hugsuninni til að nýta okkur þessa fræðslu, umvöndun og menntun. Þetta kostar vinnu en árangurinn — að vera „albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks“ — er vel þess virði. — Orðskviðirnir 2:​3-6.

16. Hvað merkir það að hafa tamið skilningarvitin?

16 Þannig ‚temja þroskaðir menn skilningarvitin til að greina gott frá illu,‘ eins og Páll benti á. Hér erum við komin að kjarna málsins. Orðin „hafa tamið skilningarvitin“ merkja bókstaflega að „skilningarvitin hafa verið þjálfuð (eins og fimleikamaður).“ (Kingdom Interlinear Translation) Vanur fimleikamaður á slá eða í hringjum getur á sekúndubroti gert æfingar sem virðast brjóta í bága við þyngdarlögmálið eða önnur náttúrulögmál. Hann hefur alltaf fullkomna stjórn á útlimunum og skynjar næstum ósjálfrátt hvaða hreyfingar hann þarf að gera til að ljúka æfingunni. Þetta er árangur strangrar þjálfunar og þrotlausra æfinga.

17. Í hvaða skilningi þurfum við að vera eins og fimleikamaður?

17 Andlega séð þurfum við að vera eins og þjálfaður fimleikamaður ef við viljum taka heilbrigðar og skynsamlegar ákvarðanir. Við þurfum alltaf að hafa fulla stjórn á tilfinningum okkar og líkama. (Matteus 5:​29, 30; Kólossubréfið 3:​5-10) Agarðu til dæmis augun svo að þau horfi ekki á siðlaust myndefni og eyrun til að hlusta ekki á auvirðandi tónlist eða tal? Óheilnæmt efni af þessu tagi er allt í kringum okkur en það er eftir sem áður undir sjálfum okkur komið hvort við leyfum því að festa rætur í huganum og hjartanu. Við getum líkt eftir sálmaritaranum sem sagði: „Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga. . . . Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.“ — Sálmur 101:​3, 7.

Þjálfaðu skilningarvitin með því að nota þau

18. Hvernig þjálfum við skilningarvitin?

18 Við getum þjálfað skilningarvitin til að greina gott frá illu með því að nota þau. Með öðrum orðum ættum við, í hvert sinn sem við þurfum að taka ákvörðun, að temja okkur að beita huganum til að koma auga á hvaða biblíulegar meginreglur eigi við og hvernig eigi að heimfæra þær. Temdu þér að leita upplýsinga í biblíutengdum ritum sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur látið í té. (Matteus 24:45) Þú getur auðvitað leitað ráða hjá þroskuðum trúbróður, en það sem við leggjum á okkur sjálf til að nema orð Guðs, ásamt bæn um leiðsögn hans og anda, skilar sér ríkulega þegar til lengri tíma er litið. — Efesusbréfið 3:​14-19.

19. Hvaða blessun getum við hlotið ef við þjálfum skilningarvitin jafnt og þétt?

19 Markmið okkar með því að þjálfa skilningarvitin jafnt og þétt er að „halda [ekki] áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.“ (Efesusbréfið 4:14) En ef við vitum og skiljum hvað er Guði þóknanlegt getum við tekið viturlegar ákvarðanir, í stóru og smáu, sem eru okkur til góðs, eru uppbyggjandi fyrir trúbræður okkar og, síðast en ekki síst, þóknanlegar föðurnum á himnum. (Orðskviðirnir 27:11) Það er mikil blessun og ómetanleg vernd á þeim örðugu tímum sem við lifum.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Dr. Thomas Holmes og dr. Richard Rahe tóku saman lista yfir 40 helstu streituvalda í lífi fólks. Að missa makann, skilja og slíta samvistum var í þrem efstu sætunum. Að giftast var í því sjöunda.

Geturðu svarað?

• Hvaða hæfileika þarf til að taka skynsamlegar ákvarðanir?

• Af hverju er óviturlegt að leita fyrirmyndar um rétt og rangt hjá þeim sem eru áberandi í heiminum?

• Hvers vegna ættum við að fullvissa okkur um hvað sé Guði þóknanlegt þegar við tökum ákvarðanir, og hvernig getum við gert það?

• Hvað merkir það að ‚hafa tamið skilningarvitin‘?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Það er gagnslaust að leita leiðsagnar hjá hinum ríku og frægu.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Við verðum að hafa fullkomna stjórn á tilfinningum okkar og líkama, líkt og fimleikamaður.