Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Haldið ótrauðir áfram í uppskerustarfinu

Haldið ótrauðir áfram í uppskerustarfinu

Haldið ótrauðir áfram í uppskerustarfinu

„Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.“ — SÁLMUR 126:5.

1. Hvers vegna ættum við að ‚biðja herra uppskerunnar að senda verkamenn‘?

EFTIR þriðju boðunarferð sína um Galíleu sagði Jesús Kristur við lærisveinana: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir.“ (Matteus 9:37) Ástandið var eins í Júdeu. (Lúkas 10:2) En hver er staðan núna fyrst hún var svona fyrir næstum 2000 árum? Meira en 6.000.000 votta Jehóva héldu ótrauðir áfram í hinu táknræna uppskerustarfi á síðasta þjónustuári meðal 6.000.000.000 íbúa jarðar sem eru margir hverjir „hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ Hvatning Jesú um að biðja „herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar“ á jafnmikinn rétt á sér núna og fyrir mörgum öldum. — Matteus 9:36, 38.

2. Hvað vekur athygli fólks á okkur?

2 Herra uppskerunnar, Jehóva Guð, hefur svarað beiðninni um fleiri verkamenn og það er gleðiefni að mega taka þátt í uppskerustarfinu sem hann stýrir. Við erum ekki fjölmenn miðað við þjóðirnar en kostgæfni okkar við að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum vekur athygli umheimsins. Okkar er oft getið í fjölmiðlum víða um lönd. Þegar hringt er dyrabjöllu í sjónvarpsmynd er kannski sagt að þarna séu vottar Jehóva á ferð. Hið táknræna uppskerustarf okkar er vel þekkt nú á 21. öld.

3. (a) Hvernig vitum við að prédikun Guðsríkis á fyrstu öld vakti athygli manna? (b) Hvers vegna má segja að englarnir styðji boðunarstarf okkar?

3 Heimurinn veitti líka boðunarstarfinu á fyrstu öld athygli og ofsótti boðbera fagnaðarerindisins. Páll postuli skrifaði fyrir vikið: „Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.“ (1. Korintubréf 4:9) Þolgæði okkar í boðunarstarfinu, þrátt fyrir ofsóknir, vekur líka athygli heimsins og skiptir englana máli. Opinberunarbókin 14:6 segir: „Ég [Jóhannes postuli] sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ Englarnir styðja okkur í uppskerustarfinu. — Hebreabréfið 1:13, 14.

„Hataðir af öllum“

4, 5. (a) Við hverju varaði Jesús lærisveinana? (b) Hvers vegna eru nútímaþjónar Guðs „hataðir af öllum“?

4 Þegar postular Jesú voru sendir út af örkinni til uppskerustarfa voru þeir „kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur“ eins og Jesús hafði mælst til. Hann bætti við: „Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum. Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar. . . . Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — Matteus 10:16-22.

5 Við erum „hataðir af öllum“ vegna þess að „allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ Satans djöfulsins sem er höfuðandstæðingur Guðs og þjóna hans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Óvinirnir sjá andlega velmegun okkar en neita að eigna Jehóva hana. Andstæðingarnir sjá okkur brosandi og ánægð í uppskerustarfinu. Þeir dást að einingu okkar og viðurkenna hana jafnvel með semingi þegar þeir ferðast til annarra landa og komast að raun um að vottarnir þar vinna nákvæmlega sama verk og í heimalandi þeirra. Jehóva er bakhjarl okkar og einingarafl og við vitum að á tilsettum tíma gerir hann sig kunnan, jafnvel óvinum okkar. —  Esekíel 38:10-12, 23.

6. Um hvað erum við fullvissuð varðandi uppskerustarfið en hvaða spurning vaknar?

6 Herra uppskerunnar hefur veitt syni sínum, Jesú Kristi, „allt vald . . . á himni og jörðu.“ (Matteus 28:18) Jehóva notar Jesú til að stjórna uppskerustarfinu fyrir atbeina engla á himni og hins smurða ‚trúa og hyggna þjóns‘ á jörð. (Matteus 24:45-47; Opinberunarbókin 14:6, 7) En hvernig getum við staðist andstöðu óvina og samt haldið gleði okkar í uppskerustarfinu?

7. Hvaða viðhorf ættum við að reyna að sýna þegar við erum ofsótt eða mætum andstöðu?

7 Leitum hjálpar Guðs þegar við mætum andstöðu eða beinum ofsóknum, svo að við getum varðveitt sama viðhorf og Páll. Hann skrifar: „Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér.“ (1. Korintubréf 4:13) Þetta hugarfar og háttvísi okkar í boðunarstarfinu meðal almennings getur stundum breytt afstöðu andstæðinganna.

8. Hvernig eru orð Jesú í Matteusi 10:28 hughreystandi fyrir þig?

8 Lífsháski getur ekki einu sinni dregið úr kostgæfni okkar í uppskerustarfinu. Við kynnum boðskapinn um Guðsríki af hugrekki eins opinskátt og hægt er. Og orð Jesú hughreysta okkur og hvetja: „Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti“ eða „Gehenna“ samkvæmt frummálinu. (Matteus 10:28) Við vitum að lífið er frá föður okkar á himni. Hann umbunar þeim sem eru ráðvandir gagnvart honum og halda trúfastir og ótrauðir áfram í uppskerustarfinu.

Boðskapur til bjargar mannslífum

9. Hvernig brugðust sumir við orðum Esekíels og hvernig er staðan núna?

9 Sumir tóku Esekíel spámanni vel er boðaði ‚hinum fráhorfnu‘ þjóðum, konungsríkjunum Ísrael og Júda, boðskap Jehóva djarflega. (Esekíel 2:3) „Sjá,“ sagði Jehóva, „þú ert þeim eins og ástarkvæði, eins og sá, er hefir fagra söngrödd og vel leikur á strengina.“ (Esekíel 33:32) En þeir breyttu ekki eftir orðum Esekíels þótt þeim féllu þau vel í geð. Hvað um okkar tíma? Sumum finnst gaman að heyra hinar smurðu leifar og félaga þeirra boða blessunarfyrirheit Guðsríkis, en þeir taka ekki við boðskapnum með því að gerast lærisveinar og taka þátt í uppskerustarfinu.

10, 11. Hvað var gert á fyrri hluta 20. aldar til að auglýsa boðskapinn og með hvaða árangri?

10 Margir hafa hins vegar tekið boðskap Guðs vel og átt þátt í að koma honum á framfæri. Á umdæmismótaröðinni 1922 til 1928 voru til dæmis boðaðir skýrir dómar yfir óguðlegu heimskerfi Satans. Útvarpsstöðvar útvörpuðu fordæmingunum, sem lesnar voru upp á mótunum, og í kjölfarið dreifðu þjónar Guðs þeim á prenti í milljónatali.

11 Síðla á fjórða áratugnum opnaðist önnur boðunarleið. Þá fóru þjónar Jehóva að ganga fylktu liði um götur með spjöld á lofti. Í fyrstu auglýstu þeir opinbera fyrirlestra. Síðar báru þeir spjöld með slagorðum eins og „Trúarbrögð eru snara og svikamylla“ og „Þjónið Guði og konunginum Kristi,“ og vöktu athygli vegfarenda er þeir gengu fylktu liði um göturnar. ‚Vottar Jehóva komust mjög í sviðsljósið með þessu móti og það hleypti í þá kjarki,‘ segir bróðir sem tók reglulega þátt í þessu starfi á fjölförnum götum Lundúna.

12. Hvað annað en dómsboðskap Guðs höfum við kunngert og hverjir eru sameinaðir við boðun fagnaðarerindisins?

12 Við beinum líka athyglinni að blessunarfyrirheitunum þegar við kunngerum dómsboðskap Guðs. Hugrökk boðun okkar frammi fyrir heiminum gerir okkur kleift að hafa upp á hinum verðugu. (Matteus 10:11) Flestir, sem eftir voru af hinum smurðu, svöruðu hinu hreina og tæra uppskerukalli á þriðja og fjórða áratugnum. Á móti árið 1935 heyrðust síðan þau stórkostlegu tíðindi að „mikill múgur“ ‚annarra sauða‘ ætti fyrir höndum blessunarríka framtíð í paradís á jörð. (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Þeir hafa tekið dómsboðskap Guðs til sín og sameinast hinum smurðu í að boða fagnaðarerindið til bjargar mannslífum.

13, 14. (a) Hvaða hughreystingu er að finna í Sálmi 126:5, 6? (b) Hvað gerist ef við höldum áfram að sá og vökva?

13 Uppskerumönnum Guðs er mikil hughreysting í Sálmi 126:5, 6, einkum þeir sem líða ofsóknir: „Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng. Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.“ Orð sálmaritarans um sáningu og uppskeru lýsa blessun og umhyggju Jehóva í garð leifanna sem sneru heim úr ánauð Forn-Babýlonar. Þær voru frelsinu fegnar en sáðu kannski grátandi í auðan jarðveginn sem legið hafði í órækt útlegðarárin 70. En þeir sem héldu ótrauðir áfram að sá og byggja uppskáru gleði og ávöxt erfiðis síns.

14 Við fellum kannski tár í prófraunum eða þegar við eða trúbræður okkar líða illt fyrir réttlætis sakir. (1. Pétursbréf 3:14) Við eigum kannski erfitt í uppskerustarfinu í fyrstu af því að við getum ekki sýnt fram á neinn árangur þrátt fyrir góða viðleitni við boðunina. En Guð gefur vöxtinn ef við höldum áfram að sá og vökva, og oft miklu meiri vöxt en við gerðum okkur vonir um. (1. Korintubréf 3:6) Þetta má glöggt sjá af því hverju dreifing biblía og biblíurita hefur komið til leiðar.

15. Nefnið dæmi um hvernig biblíuritin koma að góðum notum í uppskerustarfinu.

15 Tökum Jim sem dæmi. Þegar móðir hans dó fann hann bókina Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? í fórum hennar og las hana af áhuga. * Hann hitti vott á götu úti, ræddi við hann og þáði heimsókn og síðan biblíunámskeið. Hann tók skjótum andlegum framförum, vígðist Jehóva, lét skírast og sagði öðrum í fjölskyldunni frá því sem hann hafði lært. Það varð til þess að systir hans og bróðir gerðust vottar Jehóva. Síðar þjónaði hann í fullu starfi á Betel í Lundúnum.

Ofsóttir en glaðir

16. (a) Hvers vegna hefur uppskerustarfið borið árangur? (b) Hvaða áhrif gæti fagnaðarerindið haft, að sögn Jesú, og með hvaða hugarfari tökum við fólk tali?

16 Hvers vegna hefur uppskerustarfið borið svo góðan árangur? Vegna þess að smurðir kristnir menn og félagar þeirra hafa hlýtt fyrirmælum Jesú: „Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi.“ (Matteus 10:27) En við getum búist við erfiðleikum því að Jesús aðvarar: „Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.“ Síðan bætir hann við: „Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð.“ (Matteus 10:21, 34) Jesús ætlaði ekki vísvitandi að sundra fjölskyldum en fagnaðarerindið hafði stundum þau áhrif. Sama á við um þjóna Guðs núna. Við heimsækjum ekki fjölskyldur til að sundra þeim heldur viljum að allir taki við fagnaðarerindinu. Við reynum þess vegna að tala við alla í fjölskyldunni á vingjarnlegan og viðkunnanlegan hátt svo að boðskapurinn höfði til þeirra sem ‚hneigjast til eilífs lífs.‘ — Postulasagan 13:48, NW.

17. Hvað greinir þá sem styðja drottinvald Guðs frá öðrum? Nefndu dæmi.

17 Boðskapurinn um ríki Guðs greinir þá sem styðja drottinvald hans frá öðrum. Nefna má sem dæmi hvernig trúbræður okkar í Þýskalandi nasismans skáru sig úr hópnum af því að þeir ‚guldu keisaranum það sem keisarans var og Guði það sem Guðs var.‘ (Lúkas 20:25) Þjónar Jehóva voru staðfastir og neituðu að brjóta meginreglur Biblíunnar, ólíkt trúarleiðtogum og áhangendum kirkjufélaga kristna heimsins. (Jesaja 2:4; Matteus 4:10; Jóhannes 17:16) Prófessor Christine King segir í bókinni The Nazi State and the New Religions: „Aðeins gegn vottunum tókst stjórnvöldum [nasista] ekki það sem þau ætluðu sér, því að enda þótt þau hefðu drepið þúsundir þeirra hélt starfið áfram og í maí 1945 var hreyfing Votta Jehóva enn á lífi en nasisminn ekki.“

18. Hvaða afstöðu sýna þjónar Jehóva þrátt fyrir ofsóknir?

18 Afstaða þjóna Jehóva er eftirtektarverð þegar ofsóknir eru annars vegar. Veraldleg yfirvöld hrífast kannski af trú okkar en furða sig á því að við berum engan kala eða illvilja í brjósti. Nefna má að vottar, sem lifðu helförina af, líta einatt tilbaka á reynslu sína með gleði og ánægju. Þeir vita að Jehóva veitti þeim „ofurmagn kraftarins.“ (2. Korintubréf 4:7) Hinir smurðu á meðal okkar hafa þá vissu að ‚nöfn þeirra eru skráð í himnunum.‘ (Lúkas 10:20) Þolgæði þeirra veitir þeim óbrigðula von, og trúfastir uppskerumenn með jarðneska von búa yfir sams konar sannfæringu. — Rómverjabréfið 5:4, 5.

Vertu þolgóður í uppskerustarfinu

19. Hvaða árangursríkum aðferðum hefur verið beitt í boðunarstarfinu?

19 Það á eftir að koma í ljós hve lengi Jehóva lætur hið táknræna uppskerustarf halda áfram. Uns það gerist skulum við hafa hugfast að uppskerumenn beita ákveðnum aðferðum við störf sín. Á sama hátt getum við verið viss um að árangur náist ef við notum dyggilega þrautreyndar boðunaraðferðir. Páll sagði við trúbræður sína: „Ég bið yður: Verið eftirbreytendur mínir.“ (1. Korintubréf 4:16) Þegar hann hitti öldungana frá Efesus í Míletus minnti hann þá á að hann hefði ekkert dregið undan er hann kenndi þeim „opinberlega og í heimahúsum.“ (Postulasagan 20:20, 21) Tímóteus, félagi hans, hafði kynnst aðferðum postulans af eigin raun og gat kennt Korintumönnum þær. (1. Korintubréf 4:17) Guð blessaði kennsluaðferðir Páls og blessar þolgæði okkar við boðun fagnaðarerindisins hús úr húsi, í endurheimsóknum, á heimabiblíunámskeiðum og hvar sem fólk er að finna. — Postulasagan 17:17.

20. Hvernig gaf Jesús til kynna að ríkuleg andleg uppskera væri í vændum og hvernig hafa það reynst orð að sönnu undanfarin ár?

20 Jesús minntist á andlegu uppskeruna eftir að hann hafði talað við samverska konu hjá Síkar árið 30. Hann sagði við lærisveinana: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker.“ (Jóhannes 4:34-36) Jesús hafði kannski þegar séð hvaða afleiðingar samtal hans við samversku konuna hafði haft því að margir tóku að trúa á hann vegna orða hennar. (Jóhannes 4:39) Á undanförnum árum hefur hömlum á starfi Votta Jehóva verið aflétt í ýmsum löndum eða þeir hlotið lagalega viðurkenningu, og þannig hafa nýir akrar opnast til uppskeru. Mikil andleg uppskera er nú í gangi. Við njótum reyndar ríkulegrar blessunar um heim allan í hinu andlega uppskerustarfi og tökum glöð þátt í því áfram.

21. Hvers vegna er ástæða til að vera glaður og halda ótrauður áfram í uppskerustarfinu?

21 Þegar korn er þroskað og tilbúið til uppskeru þurfa verkamenn að láta hendur standa fram úr ermum. Núna liggur mikið á og við þurfum að vinna hörðum höndum því að við lifum á ‚endalokatímanum.‘ (Daníel 12:4) Við mætum vissulega prófraunum en uppskeran er meiri en nokkru sinni fyrr. Þetta eru því gleðitímar. (Jesaja 9:3) Verum þess vegna glaðir verkamenn og höldum ótrauðir áfram í uppskerustarfinu.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Vottar Jehóva annast útgáfu og dreifingu bókarinnar.

Hvert er svarið?

Hvernig hefur herra uppskerunnar svarað beiðninni um fleiri verkamenn?

Hvaða afstöðu höfum við þótt við séum „hataðir af öllum“?

Hvers vegna erum við glöð þrátt fyrir ofsóknir?

Hvers vegna ríður á að vera þolgóð í uppskerustarfinu?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 24, 25]

Englarnir styðja þá sem taka þátt í hinu andlega uppskerustarfi.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Það vakti athygli margra á boðskap Guðsríkis þegar þjónar hans gengu fylktu liði um götur borga og bæja með spjöld á lofti.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Við gróðursetjum og vökvum en Guð gefur vöxtinn.