Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hvað er á seyði í Frakklandi?“

„Hvað er á seyði í Frakklandi?“

„Hvað er á seyði í Frakklandi?“

„Liberté, liberté chérie,“ eða „frelsi, ástkæra frelsi,“ segir í þjóðsöng Frakka, „La Marseillaise.“ Engum blandast hugur um það að frelsi er ákaflega verðmætt. En atburðir síðustu missera í Frakklandi vekja ugg í brjósti margra um að vegið sé að grundvallarfrelsi manna. Þess vegna héldu tugþúsundir votta Jehóva út á stræti og götur föstudaginn 3. nóvember 2000 og dreifðu 12 milljónum eintaka af sérstöku flugriti sem nefndist: „Hvað er á seyði í Frakklandi? Er frelsi á undanhaldi?“

VOTTAR Jehóva í Frakklandi hafa um nokkurra ára skeið sætt árásum ýmissa stjórnmálamanna og baráttuhópa gegn sértrúarreglum. Þetta hefur valdið þeim erfiðleikum á einstaklings- og safnaðargrundvelli og einnig á landsvísu. En 23. júní 2000 felldi æðsti stjórnlagadómstóll Frakklands, Conseil d’État, tímamótaúrskurð þar sem staðfest var ríkjandi álit 31 undirréttar í rösklega 1100 málum. Stjórnlagadómstóllinn staðfesti að trúariðkun votta Jehóva sé í fullkomnu samræmi við frönsk lög og að ríkissalir þeirra falli undir sömu skattalegu undanþágur og önnur trúfélög njóta.

En franska fjármálaráðuneytið hunsar þennan úrskurð og synjar vottunum enn um það skattfrelsi sem trúfélög eiga rétt á lögum samkvæmt. Ráðuneytið hefur lagt 60 prósenta skatt á framlög vottanna og velunnara þeirra í 1500 söfnuðum í Frakklandi. Málið er til meðferðar hjá dómstólum.

Markmið hinnar áðurnefndu herferðar var að afhjúpa þessa þversögn og benda á hætturnar sem eru fólgnar í gerræðislegri skattheimtu af þessu tagi og fyrirhuguðum lögum sem myndu skerða trúfrelsi allra. *

Langur starfsdagur

Sumir söfnuðir Votta Jehóva hefja dreifingu flugritsins klukkan tvö að nóttu fyrir utan járnbrautarstöðvar og verksmiðjur og síðan á flugvöllum. París vaknar af svefni klukkan sex að morgni. Um 6000 sjálfboðaliðar koma sér fyrir á heppilegum stöðum til að hitta fólk á leið til vinnu. Ung kona segir: „Þið eigið hrós skilið fyrir framlag ykkar til trúfrelsis. Þetta snýst ekki bara um Votta Jehóva.“ Rúmlega 350 vottar dreifa flugritinu á neðanjarðarlestarstöðvum og götum í Marseilles. Útvarpsstöð fyrir allt Frakkland segir frá dreifingarátakinu áður en klukkustund er liðin og bendir hlustendum á að láta sér ekki bregða þótt Vottar Jehóva taki þá tali. Í Strasbourg, þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur aðsetur, standa ferðamenn þolinmóðir í biðröð til að fá eintak af flugritinu. Lögfræðingur lætur þau orð falla að hann aðhyllist að vísu ekki trú okkar en fylgist þó með málinu af athygli af því að barátta okkar sé þýðingarmikil og málstaðurinn réttur.

Klukkan er átta að morgni. Fimm hundruð og sjö vottar kemba göturnar í Alpaborginni Grenoble, þrátt fyrir úrhellisrigningu, og stinga flugritum í póstkassa. Bifreiða- og sporvagnsstjórar sjá að eitthvað er á seyði og nema staðar til að biðja um eintak. Komufarþegar á lestarstöð í borginni Poitiers í vesturhluta Frakklands voru búnir að fá flugritið á brottfararstað. Í Mulhouse, nálægt þýsku landamærunum, er 40.000 eintökum dreift.

Klukkan tíu að morgni eru margir söfnuðir búnir að dreifa helmingi þeirra flugrita sem þeim var úthlutað. Mjög fáir hafa afþakkað ritið og skemmtilegar samræður hafa oft spunnist af dreifingu þess. Ungur maður í Besançon, um 80 kílómetrum frá svissnesku landamærunum, lætur í ljós áhuga á Biblíunni og spyr hvers vegna Guð leyfi þjáningar. Votturinn býður honum að halda samræðunum áfram í ríkissalnum þar rétt hjá og biblíunámskeið er hafið með hjálp bæklingsins Hvers krefst Guð af okkur?

Margir vottar nota hádegishléið til að prédika í eina eða tvær klukkustundir. Dreifingin heldur áfram allt síðdegið og margir söfnuðir ljúka henni milli klukkan þrjú og fjögur. Nokkrir einstaklingar í kampavínshöfuðborginni Reims segjast vilja endurnýja tengslin við söfnuðinn, en þeir höfðu einhvern tíma verið í biblíunámi eða sótt samkomur hjá Vottum Jehóva. Þrjú biblíunámskeið eru hafin í Bordeaux. Vottur þar í borg kemur inn í verslun til að kaupa dagblað og sér stafla af flugritunum á afgreiðsluborðinu. Verslunarmaðurinn, sem er fyrrverandi vottur, hafði fengið flugrit í hendur og ljósritað það til að dreifa því sjálfur þegar hann áttaði sig á þýðingu þess.

Kona í Le Havre í Normandí heyrði í útvarpi að verið væri að skattleggja framlög vottanna og er stórhneyksluð. Hún þiggur flugritið með þökkum og hrósar vottunum fyrir að andmæla óréttlætinu. Klukkan 19:20 segir fréttasjónvarpsstöð í Lyon frá dreifingarátakinu með þessum orðum: „Í morgun var auðveldara að víkja sér undan regndropunum en flugritunum sem Vottar Jehóva voru að dreifa.“ Tveir vottar eru teknir tali og þeir lýsa tilefni dreifingarátaksins.

Sumir vottar taka þátt í dreifingunni eftir vinnu og ná til fólks á heimleið frá vinnu eða stinga flugritum í póstkassa. Síðastir til að fá ritið í hendur eru líklega kvikmyndahúsagestir í bæjunum Brest og Limoges sem eru á heimleið klukkan ellefu um kvöldið. Þeim ritum, sem eftir eru, er safnað saman og þeim dreift morguninn eftir.

Árangurinn

Vottur skrifaði: „Óvinirnir halda að þeir dragi úr okkur kraftinn en það er þveröfugt.“ Í flestum söfnuðum tóku meira en tveir þriðju safnaðarmanna þátt í dreifingarátakinu þennan dag, og sumir voru að í 10, 12 eða 14 klukkustundir. Í borginni Hem í Norður-Frakklandi tók vottur til við að dreifa ritinu strax eftir næturvakt og var að frá því klukkan fimm að morgni til klukkan þrjú síðdegis. Sjötíu og fimm vottar í nágrannabænum Denain, þar sem hefur verið söfnuður allt frá 1906, notuðu samanlagt 200 klukkustundir til að dreifa ritinu þennan föstudag. Margir voru ákveðnir í að vera með, þrátt fyrir háan aldur, heilsubrest og slæmt veður. Í Le Mans dreifðu þrjár systur á níræðisaldri smáritum í póstkassa í tvær klukkustundir og vottur í hjólastól dreifði smáritum fyrir framan járnbrautarstöðina. Og það var sérstaklega ánægjulegt að sjá allmarga votta, sem verið höfðu óvirkir, taka þátt í þessu sérstaka átaki.

Dreifingarátakið hefur eflaust orðið til mikils vitnisburðar. Fólk af öllum stéttum fékk eintak, þar á meðal fólk sem vottunum tekst sjaldan að hitta heima. Fjölmargir höfðu á orði að þetta átak snerist ekki einvörðungu um það að standa vörð um hagsmuni vottanna heldur væri það varnaraðgerð í þágu samvisku- og trúfrelsis allra Frakka. Til vitnis um það má nefna að margir báðu um fleiri eintök til að gefa vinum, vinnufélögum eða ættingjum.

Vottar Jehóva í Frakklandi eru stoltir af því að mega kunngera nafn hans og verja hagsmuni ríkis hans. (1. Pétursbréf 3:15) Það er einlæg von þeirra að þeir geti haldið áfram að lifa „friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði,“ og að margar þúsundir til viðbótar megi slást í lið með þeim til að lofa föðurinn á himnum, Jehóva Guð. — 1. Tímóteusarbréf 2:2.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Sams konar kynningarátak var gert í janúar 1999 til að mótmæla trúarlegu misrétti. Sjá Varðturninn 1. september 1999, bls. 31, og Árbók votta Jehóva 2000, bls. 24-6.