Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Notaðu unglingsárin vel

Notaðu unglingsárin vel

Notaðu unglingsárin vel

ÍBÚAR eins Evrópulands voru beðnir að velja milli þess að vera fallegir ríkir eða ungir. Flestir vildu vera ungir. Öllum aldurshópum finnst unglingsárin og árin fram yfir tvítugt greinilega eftirsóknarverður aldur. Og allir vilja að unglingar fullorðnist vel og komist klakklaust gegnum unglingsárin. En hvernig geta þeir gert það?

Getur Biblían hjálpað? Svarið er afdráttarlaust já. Við skulum skoða tvö svið þar sem hún getur jafnvel hjálpað ungu fólki enn meira en öðrum aldurshópum.

Að eiga góð samskipti við aðra

Jugend 2000 er skýrsla byggð á víðtækri könnun á viðhorfum, gildum og hegðun yfir 5000 unglinga í Þýskalandi. Könnunin leiddi í ljós að unglingar eru næstum alltaf með öðru fólki þegar þeir gera eitthvað sér til afþreyingar hvort sem þeir eru að hlusta á tónlist, stunda íþróttir eða bara slæpast. Unglingar hafa kannski meiri þörf fyrir að vera með jafnöldrum sínum en nokkur annar aldurshópur. Að eiga góð samskipti við aðra hlýtur því að vera lykill að velgengni á unglingsárunum.

En það er ekki alltaf auðvelt að láta sér lynda við aðra. Ungt fólk viðurkennir að það eigi oft í vandræðum með mannleg samskipti. En Biblían getur hjálpað því. Hún veitir ungu fólki grundvallarleiðbeiningar um það hvernig hægt sé að byggja upp gott samband við aðra. Hvað segir hún?

Ein helsta meginreglan um mannleg samskipti er gullna reglan: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Ef þú sýnir öðrum tillitssemi, virðingu og góðvild hvetur það þá til að koma eins fram við þig. Góðvild getur dregið úr ósamlyndi og streitu. Það eru meiri líkur á að þú fáir viðurkenningu annarra ef þú ert þekktur fyrir tillitssemi. Meturðu ekki viðurkenningu annarra mikils? — Matteus 7:12.

Biblían hvetur þig til að „elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þú verður að elska sjálfan þig í þeim skilningi að þú hugsir vel um þig og hafir hæfilegt sjálfsálit, ekki of mikið og ekki of lítið. Hvernig kemur það að gagni? Ef þú ert óánægður með sjálfan þig gætirðu orðið of gagnrýninn á aðra og það stuðlar ekki að góðum samskiptum. En hæfileg sjálfsvirðing er grunnur sem hægt er að byggja góð vinasambönd á. — Matteus 22:39.

Þegar vinasamband þroskast þurfa báðir aðilar að leggja eitthvað af mörkum til að styrkja það. Okkur ætti að líða vel ef við gefum vinum okkar tíma því að „sælla er að gefa en þiggja.“ Við gefum líka með því að fyrirgefa, horfa fram hjá minniháttar mistökum og ætlast ekki til þess að aðrir séu fullkomnir. Biblían segir: „Látið sanngirni ykkar verða kunnuga öllum mönnum.“ Við skulum ‚hafa frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á okkar valdi.‘ Hvað nú ef vinur bendir þér á veikleika í fari þínu? Hvernig bregstu við? Biblían gefur þetta góða ráð: „Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast“ því að „vel meint eru vinar sárin.“ Hafa ekki vinirnir áhrif á hugsanir þínar, tal og hegðun? Biblían aðvarar: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ En ef við ‚höfum umgengni við vitra menn, þá verðum við vitur.‘ — Postulasagan 20:35; Filippíbréfið 4:5, NW; Rómverjabréfið 12:17, 18; Prédikarinn 7:9; Orðskviðirnir 13:20; 27:6; 1. Korintubréf 15:33.

Marco talar fyrir munn margra þegar hann segir: „Meginreglur Biblíunnar hjálpa mér að eiga góð samskipti við aðra. Sumt fólk, sem ég þekki, lifir bara fyrir sjálft sig og það sem það getur fengið út úr lífinu. Biblían kennir okkur að hugsa minna um okkur sjálf og meira um aðra. Ég get ekki betur séð en að það sé besta leiðin til að stuðla að góðum samskiptum manna á milli.“

Það sem Biblían kennir ungu fólki eins og Marco hjálpar því ekki bara á æskuárunum heldur líka um ókomna framtíð. Og Biblían getur líka hjálpað yngri kynslóðinni á sviði sem tengist einmitt framtíðinni.

Áhyggjur af framtíðinni

Margt ungt fólk er spurult. Það hefur jafnvel meiri þörf en aðrir aldurshópar fyrir að vita hvað er að gerast og af hverju. Biblían útskýrir betur en nokkur önnur bók af hverju ástandið í heiminum er eins og það er og hún segir okkur hvers við eigum að vænta í framtíðinni. Þetta er það sem unga kynslóðin vill vita. Hvernig getum við verið viss um það?

Margir halda að unglingar lifi bara fyrir líðandi stund en ýmsar kannarnir leiða annað í ljós. Þær sýna að unglingar taka oft vel eftir því sem gerist í kringum þá og draga síðan eigin ályktanir um það hvernig lífið gæti orðið í framtíðinni. Sú staðreynd að 3 af hverjum 4 ungmennum hugsa „oft“ eða „mjög oft“ um framtíðina ber vitni um það. Og þó að ungt fólk sé á heildina litið jákvætt hefur meirihluti þeirra einhverjar áhyggjur af framtíðinni.

Af hverju eru þau áhyggjufull? Glæpir, ofbeldi og fíkniefnaneysla er vaxandi vandamál meðal unglinga. Þjóðfélagið einkennist af mikilli samkeppni og ungt fólk hefur áhyggjur af því að fá ekki fasta vinnu. Það er undir miklum þrýstingi að fá góðar einkunnir í skóla eða ná framúrskarandi árangri í vinnu. „Við búum í miskunnarlausu og sjálfselsku þjóðfélagi,“ sagði 17 ára stúlka mæðulega. „Allir reyna að fá sínu framgengt. Maður þarf alltaf að vera að sanna sig og ég er orðin hundleið á því.“ Tuttugu og tveggja ára maður sagði: „Athafnamennirnir komast áfram í lífinu og geta haft það gott. En hinir óheppnu, sem geta einhverra hluta vegna ekki haldið í við hina, verða bara eftir.“ Af hverju er samkeppnin svona mikil? Á lífið alltaf eftir að vera svona?

Raunhæfar útskýringar

Þegar ungu fólki er órótt og það hefur áhyggjur af þjóðfélaginu er það vitandi eða óafvitandi að taka undir það sem Biblían segir. Orð Guðs sýnir fram á að þetta miskunnarlausa og sjálfselska þjóðfélag sé tímanna tákn. Páll postuli talaði um okkar daga í bréfi sem hann skrifaðu ungum manni sem hét Tímóteus. Hann sagði að þá ‚myndu koma örðugar tíðir.‘ Af hverju áttu þessir tímar að vera erfiðir? Páll svaraði því þegar hann hélt áfram og sagði að menn yrðu „sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, . . . vanþakklátir, vanheilagir, . . . grimmir.“ Finnst þér þetta ekki vera nákvæm lýsing á því hvernig margir hegða sér nú á dögum? — 2. Tímóteusarbréf 3:1-3.

Biblían sagði að þessir erfiðu tímar myndu eiga sér stað á hinum „síðustu dögum,“ áður en miklar breytingar yrðu á högum mannkyns. Þessar breytingar hafa áhrif á alla, bæði unga og aldna. Hvers konar breytingar eru þetta? Himnesk ríkisstjórn mun innan skamms taka stjórn jarðarinnar í sínar hendur og þegnar hennar alls staðar njóta ‚ríkulegrar gæfu.‘ „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Áhyggjur og kvíði heyra þá fortíðinni til. — Sálmur 37:11, 29.

Biblían ein getur gefið okkur áreiðanlega innsýn í framtíðina. Þegar ungt fólk veit hvers það má vænta næstu árin getur það búið sig undir það sem í vændum er og fundist það öruggara og ráða meiru um líf sitt. Þessi tilfinning dregur líka úr streitu og áhyggjum. Þannig sinnir Biblían þessari sérstöku þörf ungu kynslóðarinnar fyrir að skilja þjóðfélagið og vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

Að nota unglingsárin vel

Hver er mælikvarðinn á velgengni á unglingsárunum? Framhaldsmenntun, efnislegar eigur og stór vinahópur? Margir telja að svo sé. Unglingsárin og árin fram yfir tvítugt ættu að veita fólki gott veganesti fyrir framtíðina. Með öðrum orðum getur velgengni á unglingsárunum verið vísbending um það sem seinna verður.

Eins og við höfum séð getur Biblían hjálpað ungu fólki að nota æskuárin vel. Margir unglingar hafa kynnst þessu af eigin raun. Þau lesa daglega í orði Guðs og fara eftir því sem þau læra. (Sjá „Ábending frá ungum þjóni Jehóva,“ á blaðsíðu 6.) Biblían er svo sannarlega bók fyrir ungmenni nú á tímum því að hún getur hjálpað þeim svo að þau verði ‚albúin og hæf til sérhvers góðs verks.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

[Innskot á blaðsíðu 5]

Góð samskipti við aðra er lykill að velgengni á unglingsárunum.

[Innskot á blaðsíðu 6]

Ungt fólk hefur jafnvel meiri þörf en aðrir aldurshópar fyrir að vita hvað er að gerast og af hverju.

[Rammagrein á blaðsíðu 6, 7]

Ábending frá ungum þjóni Jehóva

Alexander er 19 ára. Hann er alinn upp í vottafjölskyldu og nýtur þess að stunda trú sína af heilum hug. En það var ekki alltaf svo. Hann segir:

„Það kemur ykkur kannski á óvart en ég var óskírður unglingur í söfnuði votta Jehóva í meira en sjö ár. Á þeim tíma stundaði ég trúna bara af gömlum vana, ekki af áhuga. Ég held að ég hafi bara ekki þorað að gera heiðarlega sjálfsrannsókn.“

Síðan breyttist viðhorf hans. Hann heldur áfram:

„Foreldrar mínir og vinir í söfnuðinum voru alltaf að hvetja mig til að lesa í Biblíunni á hverjum degi svo að ég gæti kynnst Jehóva persónulega. Að lokum ákvað ég að prófa þetta. Ég fór að sitja minna við sjónvarpið og biblíulestur varð eitt af morgunverkunum. Loksins fór ég að skilja Biblíuna. Ég áttaði mig á því hvernig hún getur hjálpað mér persónulega. Og umfram allt skildi ég að Jehóva vill að ég kynnist sér. Þegar ég tók þetta til mín styrktist persónulegt sambandi mitt við hann og vinskapurinn við fólkið í söfnuðinum varð betri. Biblían hefur haft mikil áhrif á líf mitt. Ég hvet alla unga þjóna Jehóva til að lesa daglega í Biblíunni.“

Milljónir unglinga alls staðar í heiminum sækja samkomur hjá vottum Jehóva. Ert þú einn þeirra? Viltu njóta góðs af því að lesa reglulega í Biblíunni? Hvernig væri að fylgja fordæmi Alexanders og draga úr því sem ekki er eins mikilvægt og venja þig á að lesa daglega í Biblíunni. Þú munt örugglega njóta góðs af því.