Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verið glaðir uppskerumenn

Verið glaðir uppskerumenn

Verið glaðir uppskerumenn

„Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ — MATTEUS 9:37, 38.

1. Hvað hjálpar okkur að halda ótrauð áfram við að gera vilja Guðs?

HVORT sem langt er liðið eða skammt síðan við vígðumst Jehóva og létum skírast getur okkur fundist eins og það hafi gerst í gær. Athygli okkar beindist öðru fremur að því að lofa hann. Við notuðum hverja stund til að boða öðrum guðsríkisboðskapinn og hjálpa þeim að taka við honum, og okkur var efst í huga að þjóna Jehóva með gleði. (Efesusbréfið 5:15, 16) Tíminn flýgur þegar við erum upptekin og ‚síauðug í verki Drottins.‘ (1. Korintubréf 15:58) Gleðin af að gera vilja Jehóva drífur okkur áfram þótt vandamál verði á veginum. — Nehemíabók 8:10.

2. Hvað stuðlar að gleði okkar í hinu táknræna uppskerustarfi?

2 Kristnir menn taka þátt í táknrænu uppskerustarfi. Jesús Kristur líkti samsöfnun fólks til eilífs lífs við uppskeru. (Jóhannes 4:35-38) Þar sem við erum í uppskeruvinnu er hvetjandi að lesa sér til um gleði hinna frumkristnu uppskerumanna. Við skulum skoða þrennt sem stuðlar að gleði okkar í uppskerustarfi nútímans: (1) vonarboðskapinn, (2) árangur leitarinnar og (3) friðsamlegt viðmót okkar.

Sendir út sem uppskerumenn

3. Hvað gladdi fyrstu fylgjendur Jesú?

3 Líf fyrstu uppskerumannanna — einkum 11 trúfastra postula Jesú Krists — breyttist til mikilla muna árið 33, daginn sem þeir fóru til fundar við hann upprisinn á fjalli í Galíleu. (Matteus 28:16) ‚Meira en fimm hundruð bræður‘ voru trúlega viðstaddir við þetta tækifæri. (1. Korintubréf 15:6) Fyrirmæli Jesú hljómuðu í eyrum þeirra: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Uppskerustarfið veitti þeim mikla gleði þrátt fyrir hatrammar ofsóknir og þeir sáu söfnuði fylgjenda Krists spretta upp víða. Þegar fram í sótti var ‚fagnaðarerindið prédikað fyrir öllu sem skapað er undir himninum.‘ — Kólossubréfið 1:23; Postulasagan 1:8; 16:5.

4. Við hvaða aðstæður voru lærisveinar Krists sendir út?

4 Fyrr á þjónustutíð sinni í Galíleu hafði Jesús kallað til sín postulana 12 og sent þá sérstaklega út til að prédika að ‚himnaríki væri í nánd.‘ (Matteus 10:1-7) Sjálfur hafði hann ‚farið um allar borgir og þorp og kennt í samkundum þeirra, flutt fagnaðarerindið um ríkið og læknað hvers kyns sjúkdóm og veikindi.‘ Hann kenndi í brjósti um mannfjöldann „því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ Síðan sagði hann við lærisveinana, djúpt snortinn: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar [Jehóva Guð] að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matteus 9:35-38) Jesús mat þörfina á uppskerumönnum í Júdeu eins, þegar aðeins sex mánuðir voru eftir af þjónustu hans hér á jörð. (Lúkas 10:2) Í bæði skiptin sendi hann fylgjendur sína út sem uppskerumenn. — Matteus 10:5; Lúkas 10:3.

Vonarboðskapurinn

5. Hvers konar boðskap færum við öðrum?

5 Nútímaþjónar Jehóva svara glaðir kallinu um fleiri uppskerumenn. Við færum vondaufum og niðurdregnum vonarboðskap sem stuðlar mjög að gleði okkar. Það eru mikil sérréttindi að mega færa þeim sem eru „hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa,“ raunverulegan vonarboðskap líkt og lærisveinar Jesú gerðu á fyrstu öld.

6. Í hvaða starfi tóku postularnir þátt á fyrstu öld?

6 Um miðja fyrstu öld var Páll postuli önnum kafinn við boðun fagnaðarerindisins. Og uppskeruvinnan bar árangur því að hann segir í bréfi til kristinna Korintumanna um árið 55: „Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í.“ (1. Korintubréf 15:1) Postularnir og aðrir frumkristnir menn voru iðnir við uppskeruna. Biblían getur þess ekki hve margir postular lifðu þá örlagatíma er enduðu með eyðingu Jerúsalem árið 70, en við vitum þó að Jóhannes postuli var enn að prédika um aldarfjórðungi síðar. — Opinberunarbókin 1:9.

7, 8. Hvaða vonarboðskap boða þjónar Jehóva af meiri ákafa en nokkru sinni áður?

7 Síðan tóku við margra alda yfirráð klerkastéttar fráhvarfskristninnar, ‚lögleysingjans.‘ (2. Þessaloníkubréf 2:3, neðanmáls) En undir lok 19. aldar tóku þeir sem leituðust við að fylgja fyrirmynd frumkristninnar að boða vonarboðskapinn og kunngera ríkið. Allar götur síðan fyrsta tölublað þessa tímarits kom út (í júlí 1879) hafa orðin „boðberi nærveru Krists,“ „boðberi ríkis Krists“ eða „kunngerir ríki Jehóva“ verið hluti af heiti þess.

8 Ríki Guðs í höndum Jesú Krists var stofnsett á himni árið 1914 og nú boðum við vonarboðskapinn af meiri ákafa en nokkru sinni fyrr. Hvers vegna? Vegna þess að eitt af því sem stjórn Guðsríkis ætlar að gera bráðlega er að binda enda á hið núverandi illa heimskerfi. (Daníel 2:44) Hvaða betri boðskapur er til? Og getur nokkuð veitt okkur meiri gleði en að kunngera ríkið áður en ‚þrengingin mikla‘ skellur á? — Matteus 24:21; Markús 13:10.

Árangursrík leit

9. Hvaða fyrirmæli gaf Jesús lærisveinunum og hvernig brást fólk við boðskapnum um Guðsríki?

9 Annað, sem stuðlar að gleði í uppskerustarfinu, er árangur leitarinnar að fleiri uppskerumönnum. Árið 31 eða 32 sagði Jesús við lærisveinana: „Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur.“ (Matteus 10:11) Það voru ekki allir verðugir eins og sjá mátti af viðbrögðum þeirra við guðsríkisboðskapnum. Engu að síður boðuðu lærisveinar Jesú fagnaðarerindið af kostgæfni hvar sem fólk var að finna.

10. Hvernig leitaði Páll að verðugum?

10 Leitin að verðugum hélt áfram af krafti eftir dauða og upprisu Jesú. Páll ræddi við Gyðinga í samkundunni og við þá sem hann hitti á markaðstorginu í Aþenu. Þegar hann vitnaði á Aresarhæð þar í borg „slógust [nokkrir menn] í fylgd hans. Þeir tóku trú. Meðal þeirra var Díónýsíus, einn úr Areopagus-dóminum, og kona nokkur, Damaris að nafni, og aðrir fleiri.“ Hvert sem Páll fór var hann einnig til fyrirmyndar í að prédika „opinberlega og í heimahúsum.“ — Postulasagan 17:17, 34; 20:20.

11. Hvaða boðunaraðferðum var beitt fyrir mörgum árum?

11 Á síðustu áratugum 19. aldar leituðu smurðir kristnir menn logandi ljósi að verðugum. Í greininni „Smurðir til að prédika“ í Varðturni Síonar frá júlí/ágúst 1881 stóð: „Fagnaðarerindið er boðað ‚auðmjúkum mönnum,‘ þeim sem vilja og geta heyrt, í þeim tilgangi að mynda af þeim líkama Krists, samerfingja hans.“ Uppskerumenn Guðs hittu oft kirkjugesti á leið frá messu og gáfu þeim smárit með biblíuboðskap sem átti að vekja áhuga verðugra. Eftir að árangur þessarar boðunaraðferðar hafði verið endurmetinn var hvatt til þess í Varðturninum 15. maí 1903 að uppskerumenn dreifðu smáritum „hús úr húsi árdegis á sunnudögum.“

12. Hvernig höfum við bætt árangur boðunarstarfsins? Útskýrðu svarið.

12 Á síðari árum höfum við fært út kvíarnar í þjónustunni með því að hitta fólk annars staðar en heima við. Þetta hefur reynst mjög vel í löndum þar sem efnahagsástand og tómstundaiðkanir halda fólki að heiman á þeim tímum sem við erum yfirleitt á ferðinni. Þegar vottur á Englandi og félagi hennar sáu aðkomufólk fara burt með jöfnu millibili á rútubílum eftir að hafa eytt notalegum degi á ströndinni, hertu þær upp hugann, stigu upp í vagnana og buðu farþegunum eintök af Varðturninum og Vaknið! Á einum mánuði tókst þeim að dreifa 229 blöðum. Þær segja: „Við erum óhræddar við að bera vitni á ströndinni, á viðskiptasvæðum eða við aðrar krefjandi aðstæður því að við vitum að Jehóva er alltaf með okkur.“ Þær komu af stað blaðaleið og biblíunámskeiði og hafa báðar verið aðstoðarbrautryðjendur.

13. Hvaða breytingar hefur þurft að gera sums staðar á boðuninni?

13 Leitin að verðugum heldur áfram. Stundum gætum við þó þurft að endurmeta boðunaraðferðir okkar. Margir vottar hafa haft það fyrir venju að prédika hús úr húsi á sunnudagsmorgnum, en sums staðar ber það ekki lengur eins góðan árangur því að húsráðendur eru enn sofandi. Margir hafa því breytt áætlun sinni og fara á stúfana síðar þennan dag, til dæmis eftir samkomu. Og leitin hefur sannarlega borið árangur. Á síðasta ári fjölgaði boðberum Guðsríkis um 2,3 af hundraði á heimsvísu. Það er gleðiefni og herra uppskerunnar til heiðurs.

Vertu friðsamur við uppskerustörfin

14. Með hvaða hugarfari kynnum við boðskapinn og hvers vegna?

14 Annar gleðigjafi tengist friðsamlegu viðmóti okkar í uppskerustarfinu. „Þegar þér komið í hús,“ sagði Jesús, „þá árnið því góðs, og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það.“ (Matteus 10:12, 13) Hebreska kveðjan og samsvarandi orð á biblíugrísku merkja ‚Farnist þér vel.‘ Við höfum þetta að leiðarljósi þegar við færum öðrum fagnaðarerindið. Það er von okkar að þeir taki við guðsríkisboðskapnum, sættist við Guð, iðrist synda sinna, snúi sér og geri vilja hans. Friður við Guð leiðir síðan til eilífs lífs. — Jóhannes 17:3; Postulasagan 3:19, 20; 13:38, 48; 2. Korintubréf 5:18-20.

15. Hvernig getum við verið friðsöm þegar fólk tekur boðun okkar illa?

15 Hvernig getum við verið friðsöm þegar viðbrögð manna eru neikvæð? Jesús sagði: „Sé [húsið] ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar.“ (Matteus 10:13) Og þegar hann sendi lærisveinana 70 út af örkinni bætti hann við að sögn Lúkasar: „Sé þar friðar sonur, mun friður yðar hvíla yfir honum, ella hverfa aftur til yðar.“ (Lúkas 10:6) Það er því viðeigandi að færa fólki fagnaðarerindið á friðsaman og viðkunnanlegan hátt. Ef húsráðandi er áhugalaus, kvartandi eða óvinsamlegur verður það einungis til þess að friðarboðskapur okkar ‚hverfi aftur til okkar.‘ En það rænir okkur ekki friði sem er ávöxtur heilags anda Jehóva. — Galatabréfið 5:22, 23.

Verðugt markmið handa uppskerumönnum

16, 17. (a) Hvert er markmið okkar með endurheimsóknum? (b) Hvernig getum við hjálpað þeim sem hafa spurningar um Biblíuna?

16 Það er okkur uppskerumönnum mikið gleðiefni að geta tekið þátt í að safna fólki saman til eilífs lífs. Og það veitir okkur mikla gleði þegar húsráðandi tekur boðuninni vel, vill fræðast meira og reynist „friðar sonur.“ En hvað ef hann hefur margar spurningar um Biblíuna og ómögulegt eða óheppilegt er að svara þeim öllum í einni heimsókn? Við getum sett okkur sama markmið og mælt var með fyrir rösklega 60 árum.

17 „Allir vottar Jehóva eiga að vera reiðubúnir til að stjórna biblíunámskeiði,“ stendur í þriðja bæklingi ritraðarinnar Model Study (Fyrirmynd að námi) sem kom út á árunum 1937 til 1941. Síðan segir: „Allir boðberar [Guðsríkis] eiga að leggja sig fram á alla mögulega vegu um að hjálpa góðviljuðu fólki sem sýnir guðsríkisboðskapnum áhuga. Fara skal í endurheimsóknir til þeirra, svara spurningum . . . og síðan hefja námskeið . . . eins fljótt og auðið er.“ Markmið okkar með endurheimsóknum er að koma af stað reglulegu heimabiblíunámskeiði. * Vinsemd og umhyggja fyrir hinum áhugasama ætti að fá okkur til að undirbúa okkur vel og stjórna áhrifaríku námskeiði.

18. Hvernig getum við hjálpað nýjum að gerast lærisveinar Jesú Krists?

18 Við getum stjórnað áhrifaríkum heimabiblíunámskeiðum með hjálp bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs og bæklinga eins og Hvers krefst Guð af okkur? og þannig hjálpað áhugasömum að gerast lærisveinar. Þegar við leitumst við að líkjast kennaranum mikla, Jesú Kristi, er sennilegt að biblíunemendur okkar læri af friðsemd okkar og gleði, einlægni okkar og virðingu fyrir stöðlum og leiðbeiningum Jehóva. Þegar við hjálpum nýjum að finna svör við spurningum sínum skulum við jafnframt kenna þeim hvernig þeir geti svarað spurningum annarra. (2. Tímóteusarbréf 2:1, 2; 1. Pétursbréf 2:21) Við sem erum uppskerumenn í óeiginlegri merkingu hljótum að gleðjast yfir því að 4.766.631 heimabiblíunámskeið var haldið að jafnaði um heim allan á síðasta þjónustuári. Við gleðjumst sérstaklega ef við erum í hópi þeirra sem stjórna biblíunámskeiði.

Gleðstu áfram yfir uppskerunni

19. Hvers vegna var rík ástæða til að gleðjast yfir uppskerunni meðan á þjónustu Jesú stóð og skömmu eftir að henni lauk?

19 Það var ærin ástæða til að gleðjast yfir uppskerunni meðan á þjónustu Jesú stóð og skömmu eftir að henni lauk. Margir tóku við fagnaðarerindinu. Gleðin var sérstaklega mikil á hvítasunnu árið 33 þegar um 3000 manns hlýddu leiðbeiningum Péturs, fengu heilagan anda Jehóva og urðu hluti af hinni andlegu Ísraelsþjóð. Þeim fjölgaði stöðugt og þeir glöddust mjög er „[Jehóva] bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.“ — Postulasagan 2:37-41, 46, 47; Galatabréfið 6:16; 1. Pétursbréf 2:9.

20. Hvað veitir okkur mikla gleði í uppskerustarfinu?

20 Spádómur Jesaja rættist á þessum tíma: „Þú eykur stórum fögnuðinn [„þú gjörir þessa þjóð fjölmenna,“ Biblían 1859], þú gjörir gleðina mikla. Menn gleðja sig fyrir þínu augliti, eins og þegar menn gleðjast á kornskurðartímanum, eins og menn leika af fögnuði þegar herfangi er skipt.“ (Jesaja 9:3) Þótt þessi ‚fjölmenna þjóð‘ smurðra manna sé nánast fullskipuð ríkir mikil gleði því að öðrum uppskerumönnum fjölgar ár frá ári. — Sálmur 4:8; Sakaría 8:23; Jóhannes 10:16.

21. Um hvað verður rætt í næstu grein?

21 Við höfum vissulega ærna ástæðu til að gleðjast áfram yfir uppskerustarfinu. Vonarboðskapurinn, leitin að verðugum og friðsamlegt viðmót okkar gerir okkur að glöðum uppskerumönnum. En boðunin vekur hörð viðbrögð margra. Jóhannes postuli fékk að reyna þetta. Hann var hnepptur í fangelsi á eynni Patmos „fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú.“ (Opinberunarbókin 1:9) Hvernig getum við haldið gleðinni í ofsóknum og andstöðu? Hvað getur hjálpað okkur að þola síharðnandi afstöðu margra sem við prédikum fyrir? Næsta grein svarar þessum spurningum út frá Biblíunni.

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Námskeið voru fyrst haldin þar sem hægt var að safna saman hópum áhugasamra. En brátt voru þau einnig haldin fyrir einstaklinga og fjölskyldur. — Sjá bókina Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom, bls. 574, útgefin af Vottum Jehóva.

Hvert er svarið?

• Hvert er hið táknræna uppskerustarf?

• Hvers konar boðskap kunngerum við?

• Hvers vegna ber leitin að lærisveinum árangur?

• Hvers vegna erum við friðsöm í uppskerustarfinu?

• Hvers vegna gleðjumst við áfram yfir uppskerunni?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 20, 21]

Boðun fagnaðarerindisins á 1. og 20. öld.

[Myndir á blaðsíðu 21]

Uppskerumenn nútímans reyna að ná til fólks alls staðar líkt og Páll.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Vertu vinsamlegur í viðmóti við boðun fagnaðarerindisins.