Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Ástundið frið og keppið eftir honum‘

‚Ástundið frið og keppið eftir honum‘

‚Ástundið frið og keppið eftir honum‘

„Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:18.

1, 2. Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að friður af mannavöldum endist aldrei.

MYNDI þig langa til að flytja í hús á veikum grunni, með fúnum bjálkum og signu þaki? Myndi þig langa til að búa þér heimili þar? Sennilega ekki. Engu breytti þótt húsið væri málað; það yrði ekki traustara. Eflaust hrynur það fyrr eða síðar.

2 Hver sá friður, sem á upptök sín í þessum heimi, er eins og umrætt hús. Hann stendur á veikum grunni — á loforðum og áformum manna „sem enga hjálp geta veitt.“ (Sálmur 146:3) Mannkynssagan segir frá endalausum átökum milli þjóða, þjóðarbrota og ættflokka. Að vísu hafa komið stutt friðartímabil inn á milli, en hvers konar friður hefur það verið? Hvers konar friður er það ef tvær þjóðir eiga í stríði og síðan er lýst yfir friði eftir að önnur þjóðin bíður ósigur eða eftir að hvorug sér nokkurn frekari ávinning að því að halda átökunum áfram? Hatrið, tortryggnin og öfundin, sem voru kveikja átakanna, eru enn fyrir hendi. Að ‚mála yfir‘ fjandskapinn er ekki haldgóður friður. — Esekíel 13:10.

3. Hvers vegna er friður Guðs ólíkur friði af mannavöldum?

3 En sannur friður er engu að síður til í stríðshrjáðum heimi. Hvar þá? Meðal sannkristinna manna, fylgjenda Jesú Krists sem hlýða honum og kappkosta að feta í fótspor hans. (1. Korintubréf 11:1; 1. Pétursbréf 2:21) Þó að þeir séu af ólíkum kynþáttum, stéttum og þjóðerni er friðurinn á meðal þeirra ósvikinn vegna þess að hann er sprottinn af friðsamlegu sambandi við Guð sem byggist á trú þeirra á lausnarfórn Jesú Krists. Þessi friður er gjöf frá Guði en ekki upphugsaður af mönnum. (Rómverjabréfið 15: 33; Efesusbréfið 6:23, 24) Hann er tilkominn af því að þeir lúta ‚Friðarhöfðingjanum,‘ Jesú Kristi, og tilbiðja Jehóva, „Guð kærleikans og friðarins.“ — Jesaja 9:6; 2. Korintubréf 13:11.

4. Hvernig ‚ástundar‘ kristinn maður frið?

4 Ófullkomnir menn öðlast ekki frið fyrirhafnarlaust. Þess vegna sagði Pétur að sérhver kristinn maður þyrfti að ‚ástunda frið og keppa eftir honum.‘ (1. Pétursbréf 3:11) Hvernig getum við það? Ævaforn spádómur svarar því óbeint. Jehóva sagði fyrir munn Jesaja: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ (Jesaja 54:13; Filippíbréfið 4:9) Þeir sem taka við kennslu Jehóva njóta ósvikins friðar. Og friður er ávöxtur anda Guðs ásamt ‚kærleika, gleði, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi.‘ (Galatabréfið 5:22, 23) Kærleikslaus, gleðivana, óþolinmóður, óvinsamlegur, illur, ótrúr, grimmur og agalaus maður nýtur ekki friðar.

‚Friður við alla menn‘

5, 6. (a) Hver er munurinn á því að vera friðsamur og friðflytjandi? (b) Gagnvart hverjum reyna kristnir menn að vera friðflytjendur?

5 Friður hefur verið skilgreindur sem kyrrð og ró. Þessi skilgreining nær yfir margs konar ástand þar sem ekki eru átök eða stríð. Það má jafnvel segja að látinn maður hvíli í friði. En til að njóta raunverulegs friðar er ekki nóg að vera aðeins friðsamur að eðlisfari. Jesús sagði í fjallræðunni: „Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“ (Matteus 5:9) Jesús var að tala um fólk sem fengi síðar meir tækifæri til að verða andleg börn Guðs og hljóta ódauðleika á himnum. (Jóhannes 1:12; Rómverjabréfið 8:14-17) Og að síðustu munu allir trúfastir menn, sem hafa ekki himneska von, hljóta ‚dýrðafrelsi Guðs barna.‘ (Rómverjabréfið 8:21) Engir geta átt slíka von nema „friðflytjendur.“ Það getur verið munur á því að vera friðsamur og friðflytjandi. Gríska orðið, sem svo er þýtt, merkir bókstaflega að stuðla að friði, jafnvel að koma á friði þar sem hann vantaði.

6 Með hliðsjón af þessu skulum við líta á leiðbeiningar Páls postula til kristinna manna í Róm: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ (Rómverjabréfið 12:18) Páll var ekki að segja þeim að vera einungis rólyndir, þó svo að það væri ágætt í sjálfu sér, heldur hvetja þá til að semja frið. Við hverja? Við „alla menn“ — ættingja, aðra safnaðarmenn og jafnvel þá sem væru annarrar trúar. Hann hvatti kristna menn í Róm til að semja frið við aðra ‚að því leyti sem það væri unnt og á þeirra valdi.‘ Þeir áttu auðvitað ekki að ganga á svig við trúarskoðanir sínar til semja frið heldur að nálgast aðra með friðsamlegu viðmóti og forðast að fá þá að óþörfu upp á móti sér. Þetta áttu þeir að gera bæði innan safnaðar og utan. (Galatabréfið 6:10) Annars staðar skrifaði Páll: „Keppið ávallt eftir hinu góða, bæði hver við annan og við alla aðra.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:15.

7, 8. Hvernig keppa kristnir menn eftir friði við þá sem eru annarrar trúar og hvers vegna?

7 Hvernig getum við keppt eftir friði við þá sem eru annarrar trúar en við eða eru jafnvel andsnúnir trú okkar? Meðal annars með því að vera ekki yfirlætisleg. Varla værum við að keppa eftir friði ef við töluðum niðrandi um vissa einstaklinga. Jehóva hefur opinberað dóma sína yfir ákveðnum stéttum og stofnunum en við höfum engan rétt til að tala um nokkurn mann eins og hann sé þegar fordæmdur. Við eigum ekki að dæma aðra, ekki einu sinni andstæðinga okkar. Eftir að Páll hafði sagt Títusi að leiðbeina kristnum mönnum á Krít um samskipti þeirra við mennsk yfirvöld bað hann hann að minna þá á að „lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn.“ — Títusarbréfið 3:1, 2.

8 Að keppa eftir friði við þá sem eru annarrar trúar stuðlar mjög að því að gera sannleikann aðlaðandi fyrir þá. Við stundum auðvitað ekki félagsskap sem „spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) En við getum verið kurteis, og við ættum að vera góðviljuð og virða alla menn. Pétur skrifaði: „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.“ — 1. Pétursbréf 2:12.

Að keppa eftir friði í boðunarstarfinu

9, 10. Hvernig er Páll góð fyrirmynd um að keppa eftir friði við vantrúaða?

9 Kristnir menn á fyrstu öld voru þekktir fyrir djarfmannlega framkomu. Þeir útvötnuðu ekki boðskapinn og voru staðráðnir í að hlýða Guði framar en mönnum þegar andstaða mætti þeim. (Postulasagan 4:29; 5:29) En þeir gerðu greinarmun á dirfsku og ókurteisi. Tökum sem dæmi hvernig Páll bar sig að er hann varði trú sína frammi fyrir Heródesi Agrippa konungi öðrum. Heródes Agrippa átti í sifjaspellssambandi við Berníke, systur sína. En Páll ætlaði sér ekki að lesa honum pistilinn í siðferðismálum heldur lagði áherslu á hluti sem þeir voru sammála um. Hann hrósaði Agrippa fyrir þekkingu á siðum Gyðinga og trú hans á spámennina. — Postulasagan 26:2, 3, 27.

10 Var þetta óeinlægt smjaður hjá Páli fyrir manni sem gat sleppt honum úr haldi? Nei, Páll talaði sannleikann eins og hann hafði sjálfur ráðlagt öðrum. Hann sagði ekkert ósatt við Heródes Agrippa. (Efesusbréfið 4:15) En Páll keppti eftir friði og kunni að ‚vera öllum allt.‘ (1. Korintubréf 9:22) Markmið hans var það að verja rétt sinn til að prédika um Jesú. Hann var góður kennari og hóf mál sitt á því að nefna eitthvað sem hann og Agrippa gátu verið sammála um. Þannig hjálpaði hann hinum siðlausa konungi að sjá kristnina í jákvæðara ljósi en ella hefði verið. — Postulasagan 26:28-31.

11. Hvernig getum við keppt eftir friði í boðunarstarfinu?

11 Hvernig getum við keppt eftir friði í boðunarstarfinu? Við ættum að forðast deilur eins og Páll gerði. Að sjálfsögðu þurfum við að „tala orð Guðs óttalaust“ og stundum að verja trúna djarfmannlega. (Filippíbréfið 1:14) En í flestum tilfellum er markmið okkar fyrst og fremst það að prédika fagnaðarerindið. (Matteus 24:14) Þegar einhver kemur auga á sannleikann um tilgang Guðs getur hann farið að losa sig við falstrúarhugmyndir og óhreint hátterni. Það er því gott að leggja áherslu á það sem höfðar til áheyrenda okkar og byrja á því sem er okkur sameiginlegt, að því marki sem hægt er. Við myndum spilla fyrir markmiðum okkar með því að fá einhvern upp á móti okkur sem kynni að hlusta á boðskapinn ef hann væri háttvíslega fram borinn. — 2. Korintubréf 6:3.

Að keppa eftir friði í fjölskyldunni

12. Hvernig getum við keppt eftir friði í fjölskyldunni?

12 Páll sagði að gifting hefði vissa ‚þrengingu‘ í för með sér. (1. Korintubréf 7:28) Ekkert hjónaband er algerlega laust við erfiðleika. Til dæmis má búast við því að hjón séu ekki alltaf sammála. Nauðsynlegt er að taka friðsamlega á ágreiningi. Sá sem keppir eftir friði reynir að koma í veg fyrir að ágreiningur stigmagnist. Hvernig þá? Í fyrsta lagi með því að gæta tungu sinnar. Sé þessi litli líkamshluti notaður til að segja meiðandi eða móðgandi orð getur hann orðið að „óhemju, sem er full af banvænu eitri.“ (Jakobsbréfið 3:8) Friðflytjandi notar tunguna til að byggja upp en ekki brjóta niður. — Orðskviðirnir 12:18.

13, 14. Hvernig getum við varðveitt friðinn þegar við segjum eitthvað rangt eða komumst í uppnám?

13 Þar sem við erum ófullkomin hættir okkur öllum til að segja eitt og annað sem okkur iðrar síðar. Þegar það gerist skulum við vera fljót til að bæta fyrir það — að semja frið. (Orðskviðirnir 19:11; Kólossubréfið 3:13) Festumst ekki í „orðastælum“ og ‚þjarki‘ heldur skyggnumst undir yfirborðið og reynum að skilja hvernig maka okkar er innanbrjósts. (1. Tímóteusarbréf 6:4, 5) Svaraðu ekki í sömu mynt ef maki þinn er hranalegur. Mundu að „mjúklegt andsvar stöðvar bræði.“ — Orðskviðirnir 15:1.

14 Stundum kann að vera rétt að fara eftir ráðleggingu Orðskviðanna 17:14 þar sem segir: „Lát . . . af þrætunni, áður en rifrildi hefst.“ Reyndu að líta hlutlægt á málið. Sennilega getið þið leyst málið í friði eftir að tilfinningaöldurnar hefur lægt. Stundum getur verið ráðlegt að leita aðstoðar hjá umsjónarmanni í söfnuðinum. Umsjónarmennirnir eru þroskaðir, reyndir og hluttekningarsamir, og hjálp þeirra getur verið mikils virði þegar friður hjónabandsins er í hættu. — Jesaja 32:1, 2.

Að keppa eftir friði í söfnuðinum

15. Hvaða slæm einkenni höfðu komið fram hjá sumum kristnum mönnum að sögn Jakobs, og af hverju eru þau „jarðnesk, andlaus“ og „djöfulleg“?

15 Því miður voru þess dæmi að frumkristnir menn sýndu að einhverju marki ofsa og eigingirni sem eru algerar andstæður friðar. Jakob sagði: „Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg. Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl.“ (Jakobsbréfið 3:14-16) Sumir telja að gríska orðið, sem þýtt er „eigingirni,“ gefi í skyn metorðagirnd og framapot. Það er ærin ástæða fyrir því að Jakob skuli kalla þetta hátterni ‚jarðneskt, andlaust og djöfullegt.‘ Stjórnendur heimsins hafa alla tíð sýnt eigingirni og barist hver gegn öðrum eins og villidýr. Eigingirni er svo sannarlega „jarðnesk“ og „andlaus.“ Hún er líka „djöfulleg.“ Sá fyrsti, sem sýndi þetta lævísa einkenni, var valdagráðugur engill sem snerist gegn Jehóva Guði og varð Satan, höfðingi illu andanna.

16. Hvernig sýndu sumir kristnir menn á fyrstu öld svipað hugarfar og Satan?

16 Jakob hvatti kristna menn til að sporna gegn eigingirni vegna þess að hún er friðarspillir. Hann skrifaði: „Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar?“ (Jakobsbréfið 4:1) ‚Girndirnar,‘ sem hér eru nefndar, gátu verið ágirnd á efnislegum hlutum eða áköf löngun eftir frama, yfirráðum eða áhrifum. Suma í söfnuðinum langaði sennilega frekar til að láta á sér bera eins og Satan en að vera ‚minnstir‘ eins og Jesús sagði að sannir fylgjendur sínir yrðu. (Lúkas 9:48) Slíkt hugarfar getur spillt friði safnaðarins.

17. Hvernig geta kristnir menn keppt eftir friði í söfnuðinum?

17 Við verðum líka að forðast tilhneigingar í átt til efnishyggju, öfundar eða hégómlegrar metnaðargirndar. Ef við erum sannir friðflytjendur finnst okkur ekki að stöðu okkar sé ógnað ef einhverjir aðrir í söfnuðinum hafa meiri hæfileika en við á vissum sviðum, og við ófrægjum þá ekki heldur með því að véfengja hvatir þeirra. Ef við höfum sérstakan hæfileika notum við hann ekki til að sýnast betri en aðrir, rétt eins og söfnuðurinn dafni einungis vegna færni okkar og kunnáttu. Slíkt hugarfar myndi valda sundrung en ekki friði. Þeir sem keppa eftir friði flagga ekki hæfileikum sínum heldur nota þá hógværlega til að þjóna bræðrum sínum og heiðra Jehóva. Þeim er ljóst að aðalsmerki sannkristins manns er kærleikur en ekki hæfileikar. — Jóhannes 13:35; 1. Korintubréf 13:1-3.

‚Friðurinn að valdstjórn‘

18. Hvernig stuðla öldungar að friði sín á meðal?

18 Safnaðaröldungar ganga á undan með góðu fordæmi í því að keppa eftir friði. Jehóva sagði fyrir um fólk sitt: „Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.“ (Jesaja 60:17) Kristnir hirðar leggja sig fram um að stuðla að friði sín á meðal og innan hjarðarinnar, í samræmi við þessi spádómsorð. Þeir geta viðhaldið friði sín á meðal með því að sýna ‚spekina að ofan‘ sem er bæði friðsöm og ljúfleg. (Jakobsbréfið 3:17) Öldungar safnaðarins eru ekki alltaf sömu skoðunar enda eiga þeir ólíkan bakgrunn og búa að ólíkri reynslu. Merkir það að það sé ófriður á meðal þeirra? Nei, ekki ef rétt er á málum haldið. Friðflytjendur segja skoðun sína hæversklega og hlusta síðan kurteislega á sjónarmið annarra. Þeir heimta ekki að fá sínu framgengt heldur hugleiða viðhorf annarra og gera þau að bænarefni. Yfirleitt er svigrúm fyrir ólík sjónarmið, svo framarlega sem engar biblíulegar meginreglur eru brotnar. Sá sem keppir eftir friði lætur undan og styður ákvörðun meirihlutans þegar aðrir eru á annarri skoðun en hann. Þannig sýnir hann að hann er gæfur og sanngjarn maður. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 3) Reyndir umsjónarmenn vita að það er mikilvægara að varðveita friðinn en að fá sínu framgengt.

19. Hvernig stuðla öldungarnir að friði í söfnuðinum?

19 Öldungar stuðla að friði við aðra í söfnuðinum með því að styðja þá og gagnrýna þá ekki að óþörfu. Auðvitað getur stundum þurft að leiðrétta einstaka safnaðarmenn. (Galatabréfið 6:1) En hlutverk kristins umsjónarmanns er ekki fyrst og fremst fólgið í því að aga. Hann hrósar líka oft. Kærleiksríkir öldungar gera sér far um að sjá hið góða í fari annarra. Umsjónarmenn kunna að meta eljusemi trúsystkina sinna og treysta að þau séu að gera sitt besta. — 2. Korintubréf 2:3, 4.

20. Hvernig er það söfnuðinum til góðs ef allir keppa eftir friði?

20 Við keppum sem sagt eftir friði í fjölskyldunni, í söfnuðinum og í samskiptum við þá sem eru annarrar trúar. Við stuðlum að ánægju og gleði í söfnuðinum ef við leggjum okkur fram um að vera friðsöm. Það er okkur líka til verndar og styrktar á marga vegu eins og fram kemur í næstu grein.

Manstu?

• Hvað merkir það að vera friðflytjandi?

• Hvernig getum við keppt eftir friði í samskiptum við utansafnaðarmenn?

• Hvernig er hægt að keppa eftir friði í fjölskyldunni?

• Hvernig geta öldungar stuðlað að friði í söfnuðinum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Þeir sem keppa eftir friði forðast yfirlæti.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Kristnir menn keppa eftir friði í boðunarstarfinu, á heimilinu og í söfnuðinum.