Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þreytumst ekki að gera gott

Þreytumst ekki að gera gott

Þreytumst ekki að gera gott

„Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ — Galatabréfið 6:9.

1, 2. (a) Hvers vegna þarf þolgæði til að þjóna Guði? (b) Hvernig sýndi Abraham þolgæði og hvað hjálpaði honum til þess?

VOTTAR Jehóva njóta þess að gera vilja hans og þeim finnst hvíld í því að bera það „ok“ að vera lærisveinar. (Matteus 11:29) En það er ekki alltaf auðvelt að þjóna Jehóva með Kristi. Páll postuli benti á það þegar hann hvatti trúsystkini sín og sagði: „Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.“ (Hebreabréfið 10:36) Þolgæði er nauðsynlegt vegna þess að það getur verið krefjandi að þjóna Guði.

2 Ævi Abrahams er skýrt dæmi um þetta. Oft var hann undir miklu álagi og þurfti að velja milli erfiðra kosta. Að yfirgefa hið þægilega líf í Úr var aðeins byrjunin. Skömmu síðar varð hallæri í landinu og nágrannar voru fjandsamlegir. Hann missti næstum konuna og lenti í útistöðum við ættingja og í hernaðarátökum. Og enn meiri prófraunir voru framundan. En Abraham þreyttist aldrei að gera það sem var gott. Það er eftirtektarvert í ljósi þess að hann hafði ekki Biblíuna eins og við. En eflaust þekkti hann fyrsta spádóminn þar sem Guð lýsti yfir: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis.“ (1. Mósebók 3:15) Sæðið átti að koma af Abraham, þannig að fjandskapur Satans hlaut að bitna sérstaklega á honum. Þessi vitneskja hefur eflaust hjálpað honum að halda gleði sinni í prófraununum.

3. (a) Af hverju ættu þjónar Jehóva að búast við erfiðleikum nú á tímum? (b) Hvaða hvatningu fáum við í Galatabréfinu 6:9?

3 Þjónar Jehóva ættu líka að búast við þrengingum nú á tímum. (1. Pétursbréf 1:6, 7) Opinberunarbókin 12:17 varar við því að Satan ‚heyi stríð‘ við hinar smurðu leifar, og vegna náinna tengsla hinna ‚annarra sauða‘ við þær lætur hann reiði sína einnig bitna á þeim. (Jóhannes 10:16) Auk þeirrar andstöðu, sem kristnir menn kunna að verða fyrir í boðunarstarfinu, mega þeir búast við ýmsum raunum og álagi í einkalífinu. Páll hvetur: „Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ (Galatabréfið 6:9) Satan er ákveðinn í því að spilla trú okkar þannig að við verðum að standa einbeitt gegn honum, stöðug í trúnni. (1. Pétursbréf 5:8, 9) Jakobsbréfið 1:2, 3 bendir á að trúfesti okkar geti skilað mjög góðum árangri: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði.“

Bein árás

4. Hvernig hefur Satan reynt að brjóta fólk Guðs á bak aftur með beinum árásum?

4 Ævi Abrahams er vissulega dæmi um „ýmiss konar raunir“ sem kristnir menn geta ratað í nú á dögum. Hann þurfti til dæmis að bregðast fljótt við innrásinni frá Sínear. (1. Mósebók 14:11-16) Ekki kemur á óvart að Satan skuli enn gera beinar árásir í mynd ofsókna. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa tugir þjóða bannað opinberlega hið kristna fræðslustarf sem Vottar Jehóva standa fyrir. Árbók Votta Jehóva 2001 segir frá ofbeldisverkum sem kristnir menn í Angóla máttu þola af hendi óvina sinna. Bræðurnir í þessum löndum hafa reitt sig á Jehóva og neitað staðfastlega að hætta starfsemi sinni. En þeir hafa ekki gripið til ofbeldis eða uppreisnar heldur haldið boðunarstarfinu áfram í kyrrþey. — Matteus 24:14.

5. Hvernig gætu kristnir unglingar orðið fyrir ofsóknum í skólanum?

5 En ofsóknir eru ekki allar í mynd ofbeldis. Abraham eignaðist tvo syni, þá Ísmael og Ísak. Fyrsta Mósebók 21:8-12 segir frá því að Ísmael hafi einhverju sinni ‚leikið‘ við (‚gert gys að,‘ NW) Ísak. En Páll bendir á í Galatabréfinu að þetta hafi ekki verið saklaus barnaleikur því að hann segir að Ísmael hafi ofsótt Ísak! (Galatabréfið 4:29) Það má réttilega segja að háðsglósur skólafélaga og hrakyrði andstæðinga séu ofsóknir. Ungur kristinn maður, sem Ryan heitir, minnist þess kvalræðis sem hann mátti þola af hendi bekkjarfélaganna. Hann segir: „Það tók korter að fara með skólavagninum til og frá skóla, en mér fannst ferðin taka klukkustundir af því að krakkarnir svívirtu mig. Þau hituðu pappírsklemmur með sígarettukveikjara og brenndu mig.“ Hvers vegna var hann svívirtur svona? „Ég skar mig úr vegna fræðslunnar sem ég fékk í skipulagi Guðs.“ En Ryan stóðst álagið með stuðningi foreldra sinna. Unglingar, hafa háðsglósur jafnaldranna dregið úr ykkur kjark? Gefist ekki upp! Ef þið eruð þolgóð og trúföst finnið þið orð Jesú uppfyllast á ykkur: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.“ — Matteus 5:11.

Daglegar áhyggjur

6. Hvað getur valdið spennu meðal kristinna manna?

6 Flestar prófraunir okkar eru fólgnar í hinum daglegu áhyggjum. Abraham þurfti að þola spennuna sem myndaðist milli fjárhirða sinna og fjárhirða Lots, frænda síns. (1. Mósebók 13:5-7) Árekstrar og ómerkileg öfund geta valdið spennu og jafnvel ógnað friði safnaðarins. „Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl.“ (Jakobsbréfið 3:16) Það er ákaflega mikilvægt að gefast ekki upp heldur kyngja stoltinu í þágu friðarins, líkt og Abraham gerði, og hugsa um hag annarra. — 1. Korintubréf 13:5; Jakobsbréfið 3:17.

7. (a) Hvað ættum við að gera ef trúbróðir særir okkur? (b) Hvernig gaf Abraham prýðisfordæmi um að varðveita gott samband við aðra?

7 Það getur verið þrautin þyngri að vera friðsamur þegar okkur finnst trúsystkini hafa beitt okkur ranglæti. Orðskviðirnir 12:18 segja að ‚þvaður sumra manna sé sem spjótsstungur en tunga hinna vitru græði.‘ Vanhugsuð orð geta sært mann djúpt, jafnvel þótt þau séu ekki illa meint. Og sársaukinn er því meiri ef okkur finnst við hafa verið rægð eða hafa orðið fyrir illu slúðri. (Sálmur 6:7, 8) En kristinn maður má ekki gefast upp vegna særðra tilfinninga. Ef svona lagað gerist er gott að eiga frumkvæðið og tala vingjarnlega við hinn brotlega. (Matteus 5:23, 24; Efesusbréfið 4:26) Vertu tilbúinn til að fyrirgefa honum. (Kólossubréfið 3:13) Ef við látum af gremjunni er bæði hægt að lækna tilfinningar okkar og sambandið við bróður okkar. Abraham ól ekki með sér gremju í garð Lots heldur hraðaði sér til að verja hann og fjölskyldu hans. — 1. Mósebók 14:12-16.

Sjálfskapaðar prófraunir

8. (a) Hvernig gætu kristnir menn ‚valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum‘? (b) Af hverju gat Abraham sýnt jafnvægi gagnvart efnislegum hlutum?

8 Sumar prófraunir eru óneitanlega sjálfskapaðar. Svo dæmi sé tekið sagði Jesús fylgjendum sínum: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.“ (Matteus 6:19) En einstaka bræður ‚valda sjálfum sér mörgum harmkvælum‘ með því að taka efnislega hagsmuni fram yfir Guðsríki. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Abraham var tilbúinn til að fórna efnislegum þægindum til að þóknast Guði. „Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti. Því að hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.“ (Hebreabréfið 11:9, 10) ‚Borgin,‘ sem Abraham sá framundan, var stjórn Guðs og þar sem hann trúði á hana reiddi hann sig ekki á efnislegan auð. Væri ekki viturlegt af okkur að gera slíkt hið sama?

9, 10. (a) Hvernig getur framalöngun orðið að prófraun? (b) Hvernig getur bróðir hegðað sér eins og hann sé ‚minnstur‘?

9 Lítum á annað. Biblían gefur mjög ákveðnar leiðbeiningar og segir: „Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar.“ (Galatabréfið 6:3) Og við erum hvött til að ‚gera ekkert af eigingirni eða hégómagirnd heldur vera lítillát.‘ (Filippíbréfið 2:3) Sumir kalla yfir sig prófraunir af því að þeir fara ekki eftir þessu. Þeir láta stjórnast af framagirni en ekki löngun í „fagurt hlutverk,“ og verða niðurdregnir eða óánægðir þegar þeir fá ekki ábyrgðarstöðu í söfnuðinum. — 1. Tímóteusarbréf 3:1.

10 Abraham er góð fyrirmynd af því að hann ‚hugsaði ekki hærra um sig en hugsa ber.‘ (Rómverjabréfið 12:3) Þegar hann átti fund við Melkísedek hegðaði hann sér ekki eins og hann væri yfir hann hafinn sökum velvildar Guðs. Hann viðurkenndi að Melkísedek væri yfir sig hafinn sem prestur og greiddi honum tíund. (Hebreabréfið 7:4-7) Kristnir menn ættu líka að vera reiðubúnir að vera ‚minnstir‘ en ekki heimta að fá að vera í sviðsljósinu. (Lúkas 9:48) Ef forystumenn safnaðarins virðast meina þér einhverja ábyrgð ættirðu að horfa gagnrýnu auga á sjálfan þig og athuga hvernig þú getir bætt persónuleika þinn eða framkomu. Í stað þess að verða bitur út af því að hljóta ekki ákveðna ábyrgð skaltu sinna sem best þeirri ábyrgð sem þú hefur — sem er sú að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva. Já, „auðmýkið yður . . . undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður.“ — 1. Pétursbréf 5:6.

Trú á hið ósýnilega

11, 12. (a) Af hverju gætu sumir í söfnuðinum glatað ákafanum? (b) Hvernig er Abraham gott fordæmi um að byggja líf sitt á trúnni á Guð?

11 Sumum þykir endalokum hins illa heimskerfis hafa seinkað og það getur verið prófraun fyrir þá. Samkvæmt 2. Pétursbréfi 3:12 eiga kristnir menn að ‚vænta eftir og flýta fyrir komu Guðs dags.‘ En margir hafa beðið ‚dagsins‘ árum saman og sumir í áratugi. Einhverjir geta því orðið niðurdregnir og glatað ákafanum.

12 Enn og aftur er gott að líta til fordæmis Abrahams. Líf hans byggðist að öllu leyti á trúnni á fyrirheit Guðs, jafnvel þótt það væru engar líkur á að þau rættust öll á æviskeiði hans. Að vísu lifði hann nógu lengi til að sjá soninn Ísak ná fullorðinsaldri. En aldir myndu líða þangað til afkomendur hans væru orðnir eins og „stjörnur á himni“ eða sem ‚sandur á sjávarströnd.‘ (1. Mósebók 22:17) En Abraham varð hvorki niðurdreginn né beiskur. Páll postuli sagði því um hann og hina ættfeðurna: „Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“ — Hebreabréfið 11:13.

13. (a) Hvernig eru kristnir menn eins og „útlendingar“? (b) Af hverju bindur Jehóva enda á þetta heimskerfi?

13 Abraham gat byggt líf sitt á fyrirheitum Guðs þó að hann sæi þau aðeins „álengdar.“ Við hljótum að geta byggt líf okkar á sömu fyrirheitum því að nú er uppfyllingin skammt undan! Við verðum að líta á okkur sem ‚útlendinga‘ í heimskerfi Satans og megum ekki sökkva okkur niður í sjálfsdekur. Auðvitað vildum við helst að „endir allra hluta“ væri kominn, ekki aðeins í nánd. (1. Pétursbréf 4:7) Við eigum kannski við alvarlegan heilsubrest að stríða eða finnst efnahagsástandið þjakandi. En við verðum að hafa hugfast að Jehóva bindur enda á þetta heimskerfi til að helga nafn sitt en ekki aðeins til að bjarga okkur frá illbærilegum aðstæðum. (Esekíel 36:23; Matteus 6:9, 10) Endirinn kemur ekki endilega þegar okkur finnst það þægilegt heldur þegar það þjónar tilgangi Jehóva best.

14. Hvaða gagn hafa kristnir menn af langlyndi Guðs?

14 Munum einnig að „ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Taktu eftir að Jehóva er „langlyndur við yður“ — ykkur sem eruð í kristna söfnuðinum. Líklega þurfa sum okkar lengri tíma til að gera ýmsar breytingar og vera ‚flekklaus og lýtalaus frammi fyrir honum í friði.‘ (2. Pétursbréf 3:14) Ættum við ekki að vera Guði þakklát fyrir langlundargeð hans?

Að vera glaður í mótlæti

15. Hvernig gat Jesús haldið gleði sinni í prófraunum og hvernig er það til góðs fyrir kristna menn að líkja eftir honum?

15 Kristnir menn læra margt af Abraham. Hann sýndi bæði sanna trú og þolinmæði, hyggindi, hugrekki og óeigingjarnan kærleika. Hann lét tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir í lífinu. Við verðum þó að hafa hugfast að Jesús Kristur er besta fyrirmynd okkar. Hann glataði aldrei gleðinni þótt hann yrði fyrir margs konar prófraunum og erfiðleikum. Af hverju? Af því að hann einbeitti sér að því sem var framundan. (Hebreabréfið 12:2, 3) Páll bað þess vegna: „Megi Guð, sem veitir þolgæði og huggun, gefa ykkur að hafa sama hugarfar á meðal ykkar og Kristur Jesús.“ (Rómverjabréfið 15:5, NW) Ef við höfum rétt hugarfar getum við verið glöð þrátt fyrir það mótlæti og þá tálma sem Satan leggur í götu okkar.

16. Hvað getum við gert þegar vandamálin virðast yfirþyrmandi?

16 Þegar vandamálin virðast yfirþyrmandi skaltu minna þig á að Jehóva elskar þig ekki síður en Abraham. Hann vill að þér farnist vel. (Filippíbréfið 1:6) Settu traust þitt algerlega á hann, vitandi að hann „lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:13) Vendu þig á að lesa daglega í orði Guðs. (Sálmur 1:2) Vertu þolgóður í bæninni og biddu Jehóva að hjálpa þér að halda út. (Filippíbréfið 4:6) Hann ‚gefur þeim heilagan anda sem biðja hann.‘ (Lúkas 11:13) Notfærðu þér þær ráðstafanir, sem Jehóva hefur gert til að halda þér uppi andlega, svo sem biblíufræðsluritin. Og leitaðu stuðnings hjá bræðrafélaginu. (1. Pétursbréf 2:17) Sæktu safnaðarsamkomur dyggilega því að þar færðu þá uppörvun sem þú þarft til að vera þolgóður. (Hebreabréfið 10:24, 25) Gleðstu í þeirri vissu að þolgæðið veiti þér velþóknun Guðs og að trúfesti þín gleðji hjarta hans. — Orðskviðirnir 27:11; Rómverjabréfið 5:3-5.

17. Hvers vegna örvænta kristnir menn ekki?

17 Guð elskaði Abraham sem ‚vin.‘ (Jakobsbréfið 2:23) Samt sem áður var ævi hans óslitin röð prófrauna og þrenginga. Kristnir menn mega búast við því sama núna á „síðustu dögum.“ Biblían varar meira að segja við því að „vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1, 13) En við örvæntum ekki því að okkur er ljóst að álagið er merki þess að heimskerfi Satans er næstum á enda runnið. Jesús minnir okkur á að „sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) ‚Þreytumst því ekki að gera það sem gott er.‘ Líkjum eftir Abraham og verum menn sem „vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin.“ — Hebreabréfið 6:12.

Veittirðu athygli?

• Af hverju má fólk Jehóva búast við prófraunum og þrengingum nú á tímum?

• Hvernig gæti Satan gert beinar árásir?

• Hvernig geta kristnir menn sett niður ágreining?

• Hvernig getur stolt og sjálfselska valdið prófraunum?

• Hvernig er Abraham gott fordæmi um að bíða eftir að fyrirheit Guðs uppfyllist?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Margir kristnir unglingar eru ofsóttir og hæddir af skólafélögum.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Abraham byggði líf sitt á fyrirheitum Guðs þó að hann sæi uppfyllingu þeirra aðeins „álengdar.“