Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafðu trú eins og Abraham

Hafðu trú eins og Abraham

Hafðu trú eins og Abraham

„Þeir sem byggja á trúnni, þeir eru einmitt synir Abrahams.“ — GALATABRÉFIÐ 3:7.

1. Hvernig brást Abram við nýrri prófraun í Kanaan?

ABRAM hlýddi fyrirmælum Jehóva og yfirgaf þægilegt líf í borginni Úr. Óþægindin, sem hann þoldi á næstu árum, voru aðeins undanfari þeirrar trúarprófraunar sem hann þoldi í Egyptalandi. Biblíusagan segir: „Hallæri varð í landinu.“ Abram hefði hæglega getað orðið bitur út af ástandinu en í staðinn gerði hann viðeigandi ráðstafanir til að sjá fjölskyldunni farborða. „Þá fór Abram til Egyptalands til að dveljast þar um hríð, því að hallærið var mikið í landinu.“ Heimili Abrams var svo fjölmennt að það hlaut að vekja athygli í Egyptalandi. Myndi Jehóva standa við orð sín og vernda Abram fyrir tjóni? — 1. Mósebók 12:10; 2. Mósebók 16:2, 3.

2, 3. (a) Af hverju leyndi Abram því að Saraí væri eiginkona hans? (b) Hvernig bar Abram málið upp við eiginkonu sína?

2 Við lesum í 1. Mósebók 12:11-13: „Er hann var kominn langt á leið til Egyptalands, sagði hann við Saraí konu sína: ‚Sjá, ég veit að þú ert kona fríð sýnum. Það mun því fara svo, að þegar Egyptar sjá þig, þá munu þeir segja: „Þetta er kona hans,“ og drepa mig, en þig munu þeir láta lífi halda. Segðu fyrir hvern mun, að þú sért systir mín, svo að mér megi líða vel fyrir þínar sakir og ég megi lífi halda þín vegna.‘“ Þótt Saraí væri rúmlega 65 ára var hún enn áberandi fögur og Abram var í lífshættu sökum þess. * (1. Mósebók 12:4, 5; 17:17) Aðalatriðið var þó það að hagsmunir Jehóva voru í húfi því að hann hafði sagt að allar þjóðir jarðar myndu hljóta blessun af afkvæmi Abrams. (1. Mósebók 12:2, 3, 7) Abram var enn þá barnlaus þannig að það skipti öllu máli að hann héldi lífi.

3 Abram ræddi við konu sína um að beita bragði sem þau höfðu komið sér saman um áður, sem sé það að segjast vera systir hans. Við veitum athygli að hann misbeitti ekki ættföðurvaldi sínu heldur fór fram á samvinnu hennar og stuðning. (1. Mósebók 12:11-13; 20:13) Þar er Abram eiginmönnum góð fyrirmynd um það að beita húsbóndavaldinu ástúðlega, og Saraí er eiginkonum góð fyrirmynd með undirgefni sinni. — Efesusbréfið 5:23-28; Kólossubréfið 4:6.

4. Hvað gera trúir þjónar Guðs nú á tímum þegar lífi bræðra þeirra er stefnt í hættu?

4 Saraí gat réttilega sagst vera systir Abrams vegna þess að hún var hálfsystir hans. (1. Mósebók 20:12) Og henni var alls ekki skylt að veita öðrum upplýsingar sem þeir áttu engan rétt á. (Matteus 7:6) Trúfastir þjónar Guðs á okkar tímum eru heiðarlegir eins og Biblían mælir fyrir um. (Hebreabréfið 13:18) Til dæmis myndu þeir aldrei ljúga fyrir rétti eftir að hafa unnið eið að framburði sínum. Þegar bræður þeirra eru í lífsháska eða andlegri hættu, til dæmis á tímum ofsókna eða borgaralegra átaka, hlýða þeir hins vegar ráðleggingu Jesú og eru „kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur.“ — Matteus 10:16; sjá Varðturninn, 1. janúar 1997, bls. 31, grein. 19.

5. Hvers vegna var Saraí fús til að gera eins og Abram fór fram á?

5 Hvernig brást Saraí við beiðni Abrams? Pétur postuli talar um að konur eins og hún hafi ‚sett von sína til Guðs.‘ Saraí gerði sér því ljóst hvaða andleg mál voru í húfi. Og hún elskaði eiginmann sinn og virti hann. Hún kaus því að ‚vera honum undirgefin‘ og leyndi því að hún væri gift. (1. Pétursbréf 3:5) Auðvitað setti hún sig í hættu með því. „Er Abram kom til Egyptalands, sáu Egyptar, að konan var mjög fríð. Og höfðingjar Faraós sáu hana og létu mikið af henni við Faraó, og konan var tekin í hús Faraós.“ — 1. Mósebók 12:14, 15.

Jehóva frelsar

6, 7. Í hvaða raunir rötuðu Abram og Saraí og hvernig frelsaði Jehóva Saraí?

6 Þetta hlýtur að hafa verið ákaflega erfitt fyrir Abram og Saraí því að það leit út fyrir að henni yrði nauðgað. Faraó vissi ekki að Saraí var gift kona og ruddi gjöfum í Abram þannig að „hann eignaðist sauði, naut og asna, þræla og ambáttir, ösnur og úlfalda.“ * (1. Mósebók 12:16) Abram hlýtur að hafa haft óbeit á þessum gjöfum. En þó að útlitið væri dökkt hafði Jehóva ekki yfirgefið hann.

7 „En [Jehóva] þjáði Faraó og hús hans með miklum plágum vegna Saraí, konu Abrams.“ (1. Mósebók 12:17) Einhvern veginn var faraó opinberað af hverju þessar ‚plágur‘ væru til komnar. Viðbrögðin létu ekki á sér standa: „Þá kallaði Faraó Abram til sín og mælti: ‚Hví hefir þú gjört mér þetta? Hví sagðir þú mér ekki, að hún væri kona þín? Hví sagðir þú: „Hún er systir mín,“ svo að ég tók hana mér fyrir konu? En þarna er nú konan þín, tak þú hana og far burt.‘ Og Faraó skipaði svo fyrir um Abram, að menn sínir skyldu fylgja honum á braut og konu hans með öllu, sem hann átti.“ — 1. Mósebók 12:18-20; Sálmur 105:14, 15.

8. Hvers konar vernd lofar Jehóva kristnum mönnum nú á tímum?

8 Jehóva hefur ekki lofað að vernda okkur nú á tímum fyrir dauða, glæpum, hungri eða náttúruhamförum. Hann heitir því hins vegar að bjóða okkur alltaf upp á vernd fyrir því sem getur stefnt andlegu hugarfari okkar í voða. (Sálmur 91:1-4) Þetta gerir hann fyrst og fremst með tímabærum viðvörunum í orði sínu og fyrir atbeina ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45) Og þó að einstakir þjónar Guðs kunni að deyja af völdum ofsókna leyfir hann aldrei að fólki sínu í heild sé útrýmt. (Sálmur 116:15) Og ef einhverjir trúfastir þjónar deyja getum við treyst að þeir rísi upp aftur. — Jóhannes 5:28, 29.

Fórn til að halda friðinn

9. Á hverju sést að Abram var á faraldsfæti í Kanaan?

9 Hungursneyðin í Kanaan var greinilega afstaðin og „Abram fór frá Egyptalandi með konu sína og allt, sem hann átti, og Lot fór með honum, til Suðurlandsins [gresjanna suður af Júdafjöllum]. Abram var stórauðugur að kvikfé, silfri og gulli.“ (1. Mósebók 13:1, 2) Heimamenn hafa því litið á hann sem voldugan áhrifamann og höfðingja. (1. Mósebók 23:6) En Abram vildi alls ekki setjast að og blanda sér í stjórnmál Kanaaníta heldur „flutti sig smátt og smátt sunnan að allt til Betel, til þess staðar, er tjald hans hafði áður verið, milli Betel og Aí.“ Sem fyrr lét hann tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir hvar sem hann var niðurkominn. — 1. Mósebók 13:3, 4.

10. Hvaða ósætti kom upp milli fjárhirða Abrams og Lots og af hverju var mikilvægt að setja það tafarlaust niður?

10 „Lot, sem fór með Abram, átti og sauði, naut og tjöld. Og landið bar þá ekki, svo að þeir gætu saman verið, því að eign þeirra var mikil, og þeir gátu ekki saman verið. Og sundurþykkja reis milli fjárhirða Abrams og fjárhirða Lots. — En Kanaanítar og Peresítar bjuggu þá í landinu.“ (1. Mósebók 13:5-7) Landið var ekki nógu vatnsríkt eða grösugt til að bera búsmala bæði Abrams og Lots, þannig að spenna og óvild varð milli fjárhirða þeirra. Slíkar deilur voru ekki sæmandi fyrir tilbiðjendur hins sanna Guðs, og yrði ekkert að gert gæti komið til varanlegra vinaslita. Hvernig tók Abram á málinu? Hann hafði tekið Lot að sér eftir að Lot missti föður sinn og hugsanlega alið hann upp sem sinn eigin son. Átti Abram ekki rétt á að velja sér besta beitilandið sökum aldursmunar?

11, 12. Hvaða göfuglyndi sýndi Abram Lot og hvers vegna var val Lots óskynsamlegt?

11 „Þá mælti Abram við Lot: ‚Engin misklíð sé milli mín og þín og milli minna og þinna fjárhirða, því að við erum frændur. Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skil þig heldur við mig. Viljir þú fara til vinstri handar, þá fer ég til hægri; og viljir þú fara til hægri handar, þá fer ég til vinstri.‘“ Í grennd við Betel er sagður vera „einn besti útsýnisstaður Palestínu.“ Kannski var Lot staddur þar er hann „hóf . . . upp augu sín og sá, að allt Jórdansléttlendið, allt til Sóar, var vatnsríkt land, eins og aldingarður [Jehóva], eins og Egyptaland. (Þetta var áður en [Jehóva] eyddi Sódómu og Gómorru.)“ — 1. Mósebók 13:8-10.

12 Biblían kallar Lot ‚réttlátan‘ en í þessu máli laut hann hvorki hinum aldna Abram né virðist hafa leitað ráða hans. (2. Pétursbréf 2:7) „Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið, og Lot flutti sig austur á við, og þannig skildu þeir. Abram bjó í Kanaanlandi, en Lot bjó í borgunum á sléttlendinu og færði tjöld sín allt til Sódómu.“ (1. Mósebók 13:11, 12) Sódóma var blómleg borg og bauð upp á alls konar efnisleg gæði. (Esekíel 16:49, 50) En þó að Lot virtist hafa valið skynsamlega frá efnislegum sjónarhóli var þetta illa valið frá andlegum bæjardyrum séð. Hvers vegna? Vegna þess að „mennirnir í Sódómu voru vondir og stórsyndarar fyrir [Jehóva],“ segir 1. Mósebók 13:13. Sú ákvörðun Lots að flytjast þangað átti eftir að valda miklum harmleik í fjölskyldunni.

13. Hvers vegna er Abram góð fyrirmynd fyrir kristna menn sem kunna að lenda í deilum út af fjármálum?

13 En Abram sýndi trú á loforð Jehóva um að afkvæmi hans myndi eignast allt landið um síðir, þannig að hann vildi ekki þrátta um smáskika af því. Hann var örlátur og fór eftir sömu meginreglu og var síðar sett fram í 1. Korintubréfi 10:24: „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.“ Þetta er góð áminning til þeirra sem kunna að lenda í deilum við trúbróður út af fjármálum. Sumir hafa stefnt bræðrum sínum fyrir rétt í stað þess að fylgja leiðbeiningunum í Matteusi 18:15-17. (1. Korintubréf 6:1, 7) Fordæmi Abrams sýnir að það er betra að tapa fé en að kasta rýrð á nafn Jehóva eða raska friði kristna safnaðarins. — Jakobsbréfið 3:18.

14. Hvaða blessun hlaut Abram fyrir örlæti sitt?

14 Abram hlaut blessun fyrir örlæti sitt. Guð lýsti yfir: „Ég mun gjöra niðja þína sem duft jarðar, svo að geti nokkur talið duft jarðarinnar, þá skulu einnig niðjar þínir verða taldir.“ Þetta hlýtur að hafa verið mjög uppörvandi opinberun fyrir Abram sem var barnlaus. Guð hélt áfram: „Tak þig nú upp og far þú um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það.“ (1. Mósebók 13:16, 17) Abram var ekki leyft að setjast að í einhverri borg og njóta þæginda hennar. Hann átti að halda sér aðgreindum frá Kanaanítum. Kristnir menn verða líka að vera aðgreindir frá heiminum. Þeir telja sig ekki vera öðrum fremri en eiga ekki náinn félagsskap við nokkurn mann sem gæti tælt þá út í óbiblíulega hegðun. — 1. Pétursbréf 4:3, 4.

15. (a) Hvaða gildi kann það að hafa haft fyrir Abram að vera á faraldsfæti? (b) Hvað geta kristnar fjölskyldur lært af fordæmi Abrams?

15 Á biblíutímanum áttu menn þann rétt að skoða land áður en þeir tóku það til eignar. Með því að vera á faraldsfæti var Abram kannski stöðugt minntur á það að afkomendur hans myndu eignast landið þegar fram liðu stundir. Abram hlýddi og „færði sig með tjöld sín og kom og settist að í Mamrelundi, sem er í Hebron, og reisti [Jehóva] þar altari.“ (1. Mósebók 13:18) Enn og aftur sýndi hann hve mikið hann lagði upp úr tilbeiðslunni. Er mikil áhersla lögð á sameiginlegt nám, bænir og samkomusókn í fjölskyldu þinni?

Óvinurinn gerir árás

16. (a) Hvaða óheillavænlegur tónn er í inngangsorðum 1. Mósebókar 14:1? (b) Hver var ástæðan fyrir innrás konunganna fjögurra úr austri?

16 „Þegar Amrafel var konungur í Sínear, Aríok konungur í Ellasar, Kedorlaómer konungur í Elam * og Tídeal konungur í Gojím, bar það til, að þeir herjuðu.“ Á hebresku hafa inngangsorðin (hér þýdd „þegar“) óheillavænlegan tón og gefa í skyn „þrengingatíma sem lýkur með blessun.“ (1. Mósebók 14:1, 2, NW, neðanmáls) Þrengingarnar hófust er hinir fjórir konungar úr austri og herir þeirra réðust með tortímingu inn í Kanaan. Markmiðið var að berja niður uppreisn fimm borga, þeirra Sódómu, Gómorru, Adma, Sebóím og Bela. Innrásarmenn brutu alla mótspyrnu á bak aftur og „hittust á Siddímsvöllum. (Þar er nú Saltisjór.)“ Lot og fjölskylda hans bjó þar í grenndinni. — 1. Mósebók 14:3-7.

17. Af hverju reyndi það á trú Abrams að Lot skyldi tekinn til fanga?

17 Konungarnir í Kanaan veittu innrásarmönnum harða mótspyrnu en biðu hrapallegan ósigur. „Þá tóku [innrásarmenn] alla fjárhluti, sem voru í Sódómu og Gómorru, og öll matvæli og fóru burt. Þeir tóku og Lot, bróðurson Abrams, og fjárhluti hans og fóru burt, en hann átti heima í Sódómu.“ Skömmu síðar bárust Abram ótíðindin: „Þá kom maður af flóttanum og sagði Hebreanum Abram tíðindin, en hann bjó þá í lundi Amorítans Mamre, bróður Eskols og Aners, og þeir voru bandamenn Abrams. . . . Abram frétti, að frændi hans var hertekinn.“ (1. Mósebók 14:8-14) Þarna reyndi á trú hans! Bar hann kala til bróðursonar síns fyrir að hafa valið besta landið? Og munum einnig að innrásarmennirnir voru frá Sínear, ættlandi Abrams. Ef hann gengi til bardaga við þá myndi hann útiloka með öllu að geta nokkurn tíma snúið heim. Og hvað megnaði Abram gegn her sem sameinaðar sveitir Kanaanlands gátu ekki unnið?

18, 19. (a) Hvernig gat Abram frelsað Lot? (b) Hver fékk heiðurinn af þessum sigri?

18 Abram treysti Jehóva skilyrðislaust. „Abram . . . bjó . . . í skyndi þrjú hundruð og átján reynda menn sína, fædda í húsi hans, og elti þá allt til Dan. Skipti hann liði sínu í flokka og réðst á þá á náttarþeli, hann og menn hans, og sigraði þá og rak flóttann allt til Hóba, sem er fyrir norðan Damaskus. Sneri hann því næst heimleiðis með alla fjárhlutina og bróðurson sinn Lot, og fjárhluti hans hafði hann einnig heim með sér, sömuleiðis konurnar og fólkið.“ (1. Mósebók 14:14-16) Abram sýndi sterka trú á Jehóva, sigraði margfalt fjölmennara innrásarlið og bjargaði Lot og fjölskyldu hans. Síðan hitti Abram fyrir Melkísedek sem var konungur og prestur í Salem. „Melkísedek konungur í Salem kom með brauð og vín, en hann var prestur Hins Hæsta Guðs. Og hann blessaði Abram og sagði: ‚Blessaður sé Abram af Hinum Hæsta Guði, skapara himins og jarðar! Og lofaður sé Hinn Hæsti Guð, sem gaf óvini þína þér í hendur!‘ Og Abram gaf honum tíund af öllu.“ — 1. Mósebók 14:18-20.

19 Það var Jehóva sem vann þennan sigur. Vegna trúar sinnar fann Abram enn á ný fyrir frelsunarmætti hans. Fólk Guðs berst ekki með bókstaflegum vopnum nú á dögum. Hins vegar lendir það í margs konar þrautum og prófraunum. Í næstu grein er fjallað um það hvernig fordæmi Abrams getur hjálpað okkur að takast á við þær.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Samkvæmt bókinni Insight on the Scriptures (sem Vottar Jehóva gefa út) „segir fornt papýrusrit frá faraó nokkrum sem veitti vopnaðri sveit umboð til að taka aðlaðandi konu með valdi og drepa mann hennar.“ Ótti Abrams var því ekki ástæðulaus.

^ gr. 6 Vera má að Hagar, sem seinna varð hjákona Abrams, hafi verið meðal þeirra gjafa sem hann fékk á þessum tíma. — 1. Mósebók 16:1.

^ gr. 16 Gagnrýnismenn héldu því einu sinni fram að Elam hefði aldrei haft slík áhrif í Sínear, og að frásagan af árás Kedorlaómers væri uppspuni. Sjá Varðturninn, 1. nóvember 1989, bls. 4-7, þar sem rætt er um fornleifafundi er styðja frásögu Biblíunnar.

Tókstu eftir?

• Hvernig reyndist hungursneyðin í Kanaan prófraun á trú Abrams?

• Hvernig eru Abram og Saraí góðar fyrirmyndir fyrir eiginmenn og eiginkonur okkar tíma?

• Hvaða lærdóm má draga af því hvernig Abram tók á deilunni milli þjóna sinna og þjóna Lots?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Abram stóð ekki fastur á rétti sínum heldur tók hagsmuni Lots fram yfir sína eigin.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Með því að bjarga Lot bróðursyni sínum sýndi Abram að hann treysti á Jehóva.