Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getur friður Krists ríkt í hjörtum okkar?

Hvernig getur friður Krists ríkt í hjörtum okkar?

Hvernig getur friður Krists ríkt í hjörtum okkar?

„Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:15.

1, 2. Hvernig ríkir ‚friður Krists‘ í hjarta kristins manns?

MÖRGUM hugnast það illa að láta eitthvað eða einhvern ríkja yfir sér. Þeim finnst það minna um of á drottnun og valdbeitingu. Sumum gæti því þótt hvatning Páls til kristinna manna í Kólossu ósanngjörn: „Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar.“ (Kólossubréfið 3:15) Höfum við ekki frjálsan vilja? Af hverju ættum við að láta eitthvað eða einhvern ríkja í hjörtum okkar?

2 En Páll var ekki að segja Kólossumönnum að afsala sér frjálsum vilja. Gríska orðið, sem þýtt er „ríkja“ í Kólossubréfinu 3:15, er skylt orði sem notað var um dómara er veitti íþróttamönnum verðlaun í kappleikjum til forna. Keppendur höfðu ákveðið svigrúm innan þeirra marka sem leikreglurnar settu en að lokum var það dómarinn sem skar úr um það hver hefði fylgt leikreglunum og unnið keppnina. Við höfum líka frjálsræði til að taka margs konar ákvarðanir í lífinu, en friður Krists ætti alltaf að vera „dómarinn“ í hjörtum okkar, eða „ráðandi regla“ eins og biblíuþýðandinn Edgar J. Goodspeed orðar það.

3. Hvað er ‚friður Krists‘?

3 Hvað er ‚friður Krists‘? Hann er sú stilling og sú innri ró sem við hljótum þegar við gerumst lærisveinar Jesú og komumst að raun um að Jehóva Guð og sonur hans elska okkur og eru ánægðir með okkur. Jesús sagði lærisveinunum í það mund er hann var að yfirgefa þá: „Frið læt ég yður eftir. . . . Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ (Jóhannes 14:27) Smurðir menn, sem tilheyra líkama Krists, hafa notið þessa friðar í næstum 2000 ár og félagar þeirra, hinir ‚aðrir sauðir,‘ njóta hans með þeim núna. (Jóhannes 10:16) Þessi friður ætti að vera ráðandi afl í hjörtum okkar. Hann getur komið í veg fyrir að við lömumst af ótta í erfiðum prófraunum eða verðum áhyggjufull úr hófi fram. Við skulum kanna hvernig hann verndar okkur þegar við verðum fyrir ranglæti, þegar áhyggjur steðja að og þegar okkur finnst við óverðug þess að þjóna Guði.

Í ranglæti

4. (a) Hvernig kynntist Jesús ranglæti? (b) Hvernig hafa kristnir menn brugðist við ef þeir hafa verið ranglæti beittir?

4 Salómon konungur sagði að ‚einn maðurinn drottnaði yfir öðrum honum til ógæfu.‘ (Prédikarinn 8:9) Jesús þekkti sannleiksgildi þessara orða. Af himnum hafði hann horft upp á ranglæti manna hver gagnvart öðrum. Hann var beittur grófu ranglæti á jörð er hann, syndlaus maðurinn, var ákærður fyrir guðlast og tekinn af lífi sem glæpamaður. (Matteus 26:63-66; Markús 15:27) Ranglæti er útbreitt enn þann dag í dag og sannkristnir menn hafa fengið meira en sinn skerf af því, enda ‚hafa allar þjóðir hatað þá.‘ (Matteus 24:9) En þrátt fyrir skelfilega lífsreynslu í dauðabúðum nasista og í sovéska Gúlaginu, og þrátt fyrir skrílsárásir, upplognar ákærur og álygar hefur friður Krists haldið þeim uppi. Þeir hafa líkt eftir Kristi sem um er sagt: „Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.“ — 1. Pétursbréf 2:23.

5. Hvað ættum við fyrst að hugleiða þegar okkur finnst einhver vera ranglæti beittur í söfnuðinum?

5 Ef við lítum okkur nær finnst okkur kannski sem einhver hafi fengið ósanngjarna meðferð innan kristna safnaðarins. Þá líður okkur kannski eins og Páli sem sagði: „Hver hrasar, án þess að ég líði?“ (2. Korintubréf 11:29) Hvað getum við gert? Við ættum að spyrja okkur hvort um raunverulegt ranglæti sé að ræða. Oft þekkjum við ekki alla málavexti. Við bregðumst kannski harkalega við eftir að hafa hlustað á einhvern sem segist vita allt um málið. Biblían kemur með viturlega ábendingu er hún segir að ‚einfaldur maður trúi öllu.‘ (Orðskviðirnir 14:15) Við þurfum að vera varkár.

6. Hvernig er hægt að bregðast við ranglæti sem við teljum framið innan safnaðarins?

6 En setjum sem svo að okkur finnist við sjálf hafa verið ranglæti beitt. Hvernig bregst maður við ef friður Krists ríkir í hjarta hans? Kannski þurfum við að tala við þann sem okkur finnst hafa gert okkur rangt til. Síðan ættum við að leggja málið fyrir Jehóva í bæn og treysta honum til að láta réttlætið ná fram að ganga, en ekki ræða málið við hvern sem heyra vill. (Sálmur 9:11; Orðskviðirnir 3:5) Vel má vera að við verðum þá sátt við að leysa málið ‚hljóð‘ í hjarta okkar. (Sálmur 4:5) Í flestum tilfellum á eftirfarandi hvatning Páls við: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ — Kólossubréfið 3:13.

7. Hvað ættum við alltaf að hafa hugfast í samskiptum við bræður okkar?

7 En hvað sem við gerum þurfum við að hafa hugfast að við getum haft stjórn á viðbrögðum okkar þó að við getum ekki breytt því sem orðið er. Ef við sýnum öfgafull viðbrögð við meintu ranglæti getur það spillt friði okkar meir en sjálft ranglætið gerði. (Orðskviðirnir 18:14) Við gætum jafnvel hneykslast og hætt að sækja samkomur uns okkur finnst réttlætinu hafa verið fullnægt. Sálmaritarinn sagði að þeim sem elskuðu lög Jehóva væri „við engri hrösun hætt.“ (Sálmur 119:165) Veruleikinn er sá að allir eru ranglæti beittir af og til. Það er auðvitað miður, en láttu það aldrei trufla þjónustu þína við Jehóva heldur láttu frið Krists ríkja í hjarta þér.

Þegar áhyggjur sækja á okkur

8. Hvað getur valdið áhyggjum og til hvers geta þær leitt?

8 Áhyggjur eru snar þáttur í lífinu núna á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Vissulega sagði Jesús: „Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast.“ (Lúkas 12:22) En áhyggjur snúast um fleira en efnislega hluti. Siðspilling Sódómubúa ‚mæddi‘ Lot ákaflega. (2. Pétursbréf 2:7) Páll hafði ‚áhyggjur af öllum söfnuðinum.‘ (2. Korintubréf 11:28) Jesús var svo angistarfullur nóttina fyrir dauða sinn að „sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.“ (Lúkas 22:44) Ljóst er að áhyggjur eru ekki alltaf merki um veika trú. En hver sem orsökin er geta þungar og langvinnar áhyggjur rænt okkur friði. Áhyggjur hafa lagst svo þungt á suma að þeim finnst þeir ófærir um að bera þá ábyrgð sem fylgir því að þjóna Jehóva. Biblían segir að ‚hugsýki beygi manninn.‘ (Orðskviðirnir 12:25) Hvað getum við þá gert ef áhyggjur leggjast á okkur?

9. Hvað er hægt að gera til að draga úr áhyggjum en hvað ekki?

9 Í sumum tilfellum er kannski hægt að grípa til einhverra úrræða. Ef áhyggjurnar eiga rætur að rekja til einhvers lasleika væri skynsamlegt að reyna að ráða bót á honum, en það er auðvitað einkamál hvers og eins hvað hann gerir í þeim málum. * (Matteus 9:12) Ef við erum að kikna undan alls konar skyldum og ábyrgð er kannski hægt að dreifa henni eitthvað. (2. Mósebók 18:13-23) En hvað um þungar skyldur sem ekki er hægt að fela öðrum, svo sem foreldrahlutverkið? Hvað er til ráða ef makinn er andsnúinn trú hins kristna? Eða ef fjölskyldan á í miklum fjárkröggum eða býr á átakasvæði? Það er augljóslega ekki hægt að losa sig við allt sem veldur fólki áhyggjum í þessu heimskerfi, en við getum samt sem áður varðveitt frið Krists í hjörtum okkar. Hvernig?

10. Nefndu tvær leiðir fyrir kristinn mann til að draga úr áhyggjum.

10 Ein leiðin er sú að leita hughreystingar í orði Guðs. Davíð konungur skrifaði: „Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.“ (Sálmur 94:19) Það er hægt að finna „huggun“ Jehóva í Biblíunni. Við getum varðveitt frið Krists í hjörtum okkar með því að leita reglulega í hina innblásnu bók. Biblían segir: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ (Sálmur 55:23) Páll tók í svipaðan streng og skrifaði: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Einlægar og reglulegar bænir hjálpa okkur að varðveita frið í hjarta.

11. (a) Hvernig var Jesús góð fyrirmynd um bænrækni? (b) Hvernig ættum við að líta á bænina?

11 Jesús er afbragðsfyrirmynd í þessu efni. Stundum talaði hann klukkustundum saman í bæn við föður sinn á himnum. (Matteus 14:23; Lúkas 6:12) Bænin hjálpaði honum að standast erfiðustu prófraunir. Hann var ákaflega kvíðinn nóttina fyrir dauða sinn og baðst þá „enn ákafar“ fyrir. (Lúkas 22:44) Fullkominn sonur Guðs var einstaklega bænrækinn. Við sem erum ófullkomnir fylgjendur hans ættum ekki síður að temja okkur að leita til Jehóva í bæn. Jesús kenndi lærisveinunum ‚að biðja stöðugt og eigi þreytast.‘ (Lúkas 18:1) Bænin er raunveruleg og afar mikilvæg leið til samskipta við Jehóva Guð sem þekkir okkur betur en við gerum sjálf. (Sálmur 103:14) Við verðum að ‚biðja án afláts‘ til að varðveita frið Krists í hjörtum okkar. — 1. Þessaloníkubréf 5:17.

Að sætta sig við takmörk sín

12. Hvers vegna getur sumum fundist þjónusta sín ófullnægjandi?

12 Hver einasti þjónn Jehóva er dýrmætur í augum hans. (Haggaí 2:7) En mörgum finnst erfitt að meðtaka það. Sumir eru niðurdregnir sökum þess að ellin sækir á, fjölskylduábyrgðin þyngist eða heilsunni hrakar. Öðrum finnst þeir eiga erfitt uppdráttar vegna bágrar æsku eða uppeldisskilyrða. Og aðrir líða vegna fyrri mistaka sinna og efast um að Jehóva geti nokkurn tíma fyrirgefið þeim. (Sálmur 51:5) Hvað er til ráða?

13. Hvernig hughreystir Biblían þá sem finnst þeir lítils virði?

13 Friður Krists er okkur trygging fyrir kærleika Jehóva. Við getum endurheimt frið hans í hjörtum okkar með því að minna okkur á eitt: Jesús sagði aldrei að manngildi okkar væri metið eftir því hvernig við stöndum okkur í samanburði við aðra. (Matteus 25:14, 15; Markús 12:41-44) Hann lagði hins vegar áherslu á hollustu og sagði lærisveinunum: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Jesús var „fyrirlitinn“ af mönnum en efaðist ekki um að faðirinn elskaði sig. (Jesaja 53:3; Jóhannes 10:17) Og hann sagði lærisveinunum að þeir væru líka elskaðir. (Jóhannes 14:21) Hann sagði í áhersluskyni: „Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Matteus 10:29-31) Þetta er einstaklega hlýlegt loforð um kærleika Jehóva!

14. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að Jehóva meti hvert og eitt okkar mikils?

14 Jesús sagði enn fremur: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ (Jóhannes 6:44) Fyrst Jehóva hefur dregið okkur til Jesú svo að við fylgjum honum hlýtur hann að vilja að við björgumst. Jesús sagði lærisveinunum: „Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist.“ (Matteus 18:14) Ef þú þjónar af heilu hjarta geturðu glaðst yfir góðu verki. (Galatabréfið 6:4) Ef fyrri mistök hvíla þungt á þér máttu treysta að Jehóva fyrirgefur iðrandi mönnum „ríkulega.“ (Jesaja 43:25; 55:7) Ef þú ert niðurdreginn, einhverra orsaka vegna, þá skaltu muna að „[Jehóva] er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ — Sálmur 34:19.

15. (a) Hvernig reynir Satan að ræna okkur friði? (b) Hverju getum við treyst í sambandi við Jehóva?

15 Satan vill ekkert frekar en ræna þig friði. Hann ber sök á erfðasyndinni sem við eigum öll í baráttu við. (Rómverjabréfið 7:21-24) Hann vill gjarnan telja þér trú um að þú sért svo ófullkominn að þú getir ekki þjónað Guði með boðlegum hætti. Láttu djöfulinn aldrei lama hugrekki þitt. Vertu meðvita um vélabrögð hans og nýttu þér það til að vera staðráðinn í að vera þolgóður. (2. Korintubréf 2:11; Efesusbréfið 6:11-13) Munum að „Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.“ (1. Jóhannesarbréf 3:20) Jehóva sér ekki aðeins mistök okkar; hann sér líka hvatirnar og áformin. Leitaðu því hughreystingar í orðum sálmaritarans sem sagði: „[Jehóva] hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína.“ — Sálmur 94:14.

Sameinuð í friði Krists

16. Stöndum við ein í baráttu okkar að vera þolgóð?

16 Páll skrifaði að við ættum að láta frið Krists ríkja í hjörtum okkar af því að við værum „kallaðir sem limir í einum líkama.“ Smurðir kristnir menn, sem Páll skrifaði, voru kallaðir til að vera limir á líkama Krists líkt og þeir sem eftir eru á jörðinni núna af hinum smurðu. Félagar þeirra, ‚aðrir sauðir,‘ eru sameinaðir þeim sem „ein hjörð“ í umsjá ‚eins hirðis‘ sem er Jesús Kristur. (Jóhannes 10:16) Milljónahjörð manna um heim allan lætur frið Krists ríkja í hjörtum sér. Sú vitneskja að við erum ekki ein auðveldar okkur að halda út. Pétur skrifaði: „Standið gegn [Satan], stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.“ — 1. Pétursbréf 5:9.

17. Hvað hvetur okkur til að láta frið Krists ríkja í hjörtum okkar?

17 Höldum öll áfram að rækta með okkur frið sem er mikilvægur ávöxtur anda Guðs. (Galatabréfið 5:22, 23) Þeir sem eru flekklausir, lýtalausir og frammi fyrir Jehóva í friði hljóta að lokum eilíft líf í paradís á jörð þar sem réttlæti býr. (2. Pétursbréf 3:13, 14) Við höfum fullt tilefni til að láta frið Krists ríkja í hjörtum okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Í sumum tilfellum eiga áhyggjur og kvíði rætur að rekja til sjúkdóma, svo sem þunglyndis.

Manstu?

• Hvað er friður Krists?

• Hvernig getur friður Krists ríkt í hjörtum okkar þegar við verðum fyrir ranglæti?

• Hvernig hjálpar friður Krists okkur að takast á við áhyggjur?

• Hvernig er friður Krists hughreystandi þegar okkur finnst við óverðug þess að þjóna Guði?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Jesús fól Jehóva mál sín frammi fyrir ákærendum sínum.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Hughreysting Jehóva getur létt áhyggjur okkar, líkt og hlýlegt faðmlag föður.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Þolgæði er mikils virði í augum Guðs.