Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Blessun Jehóva auðgar

Blessun Jehóva auðgar

Blessun Jehóva auðgar

„Blessun Jehóva — það er hún sem auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 10:22, NW.

1, 2. Hvers vegna veita auðæfi ekki hamingju?

EFNISHYGGJAN ræður lífi milljóna manna. En eru þeir hamingjusamir fyrir vikið? „Ég minnist þess ekki að fólk hafi áður verið svona bölsýnt á hlutskipti sitt,“ segir vikublaðið The Australian Women’s Weekly, og bætir við: „Þetta er þverstæða. Okkur er tjáð að efnahagur Ástralíu standi í miklum blóma, að lífið hafi aldrei verið betra. . . . Samt er svartsýnin allsráðandi í landinu. Konur jafnt sem karlar skynja að eitthvað vantar í líf þeirra en geta ekki hent reiður á hvað.“ Ritningin fer með rétt mál er hún segir að hvorki líf né hamingja sé tryggð með eigum okkar. — Prédikarinn 5:10; Lúkas 12:15.

2 Biblían kennir að blessun Guðs veiti okkur mesta hamingju. Orðskviðirnir 10:22 segja: „Blessun Jehóva — það er hún sem auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ (NW) Sársauki og kvöl eru oft samfara ágjarnri auðsöfnun og því á viðvörun Páls postula fyllilega rétt á sér: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

3. Hvers vegna verða þjónar Guðs fyrir prófraunum?

3 Þeir sem ‚hlýða raustu Jehóva‘ hljóta aftur á móti kvalalausa blessun. (5. Mósebók 28:2) En sumum er kannski spurn hvers vegna svo margir þjónar Guðs þjást fyrst hann lætur enga kvöl fylgja blessun sinni. Biblían upplýsir að Guð leyfi að trú okkar sé reynd, en að prófraunir okkar eigi rætur að rekja til Satans, hins illa heimskerfis hans og ófullkomleika okkar. (1. Mósebók 6:5; 5. Mósebók 32:4, 5; Jóhannes 15:19; Jakobsbréfið 1:14, 15) „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ kemur frá Jehóva. (Jakobsbréfið 1:17) Blessun hans hefur því aldrei kvöl í för með sér. Við skulum skoða sumar þessara fullkomnu gjafa Guðs.

Orð Guðs — ómetanleg gjöf

4. Hvaða ómetanlega gjöf hafa þjónar Jehóva fengið og hvaða blessunar njóta þeir á endalokatímanum?

4 Spádómur Daníels segir að sönn ‚þekking muni vaxa er að endalokunum líður,‘ en bætir svo við til skýringar: „Engir óguðlegir munu skilja það, en hinir vitru munu skilja það.“ (Daníel 12:4, 10) Þetta er umhugsunarvert. Orð Guðs — einkum spádómar — er sett fram af slíkri visku að hinir óguðlegu fá ekki skilið það, aðeins fólk Jehóva. „Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum,“ sagði sonur Guðs í bæn. (Lúkas 10:21) Það er mikil blessun að hafa hið ómetanlega orð Guðs, Biblíuna, undir höndum og vera í hópi þeirra sem hann hefur veitt andlegan skilning. — 1. Korintubréf 1:21, 27, 28; 2:14, 15.

5. Hvað er viska og hvernig getum við öðlast hana?

5 Við hefðum alls engan andlegan skilning ef ekki væri viskunni „sem að ofan er“ fyrir að þakka. (Jakobsbréfið 3:17) Viska er sá hæfileiki að beita þekkingu og skilningi til að leysa vandamál, forðast eða fyrirbyggja hættur, ná markmiðum eða veita traust ráð. Hvernig öðlumst við slíka visku? Orðskviðirnir 2:6 segja: „[Jehóva] veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“ Jehóva veitir okkur visku ef við höldum áfram að biðja um hana, á sama hátt og hann veitti Salómon konungi „hyggið og skynugt hjarta.“ (1. Konungabók 3:11, 12; Jakobsbréfið 1:5-8) Við öðlumst líka visku með því að nema orð hans reglulega, fara eftir því og halda áfram að hlýða honum.

6. Hvers vegna er viturlegt að fara eftir lögum og meginreglum Guðs í lífinu?

6 Við finnum afbragðsdæmi um visku Guðs í lögum og meginreglum Biblíunnar sem gagnast okkur á allan hátt, bæði líkamlega, hugarfarslega, tilfinningalega og andlega. Orð sálmaritarans eiga vel við: „Lögmál [Jehóva] er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður [Jehóva] er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran. Fyrirmæli [Jehóva] eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð [Jehóva] eru skír, hýrga augun. Ótti [Jehóva] er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði [Jehóva] eru sannleikur, eru öll réttlát. Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli.“ — Sálmur 19:8-11; 119:72.

7. Hvaða afleiðingar hefur það að hunsa réttlátar lífsreglur Guðs?

7 Þeir sem hafna réttlátum lífsreglum Guðs finna hins vegar ekki hamingjuna og frelsið sem þeir sækjast eftir. Fyrr eða síðar rennur upp fyrir þeim að Guð lætur ekki að sér hæða, að menn uppskera það sem þeir sá. (Galatabréfið 6:7) Hjá milljónum manna, sem virða meginreglur Biblíunnar að vettugi, er uppskeran skelfileg — óæskilegar þunganir, viðbjóðslegir sjúkdómar og þjakandi fíknir. Ef menn iðrast ekki og breyta um lífsstefnu bíður þeirra að lokum dauði eða tortíming af hendi Guðs. — Matteus 7:13, 14.

8. Hvers vegna eru þeir sem elska orð Guðs hamingjusamir?

8 En þeir sem elska orð Guðs og fylgja því hljóta ríkulega blessun nú og í framtíðinni. Þeim finnst réttilega að lög Guðs hafi gert þá frjálsa, þeir eru raunverulega hamingjusamir og bíða þess eftirvæntingarfullir að verða leystir undan syndinni og banvænum afleiðingum hennar. (Rómverjabréfið 8:20, 21; Jakobsbréfið 1:25) Von þeirra er örugg því að hún byggir á mestu kærleiksgjöf Guðs til mannkyns — lausnarfórn eingetins sonar hans, Jesú Krists. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 6:23) Þessi óviðjafnanlega gjöf staðfestir hve heitt Guð elskar mannkynið og tryggir endalausa blessun til handa öllum sem honum hlýða. — Rómverjabréfið 8:32.

Þakklát fyrir heilagan anda

9, 10. Hvernig njótum við góðs af heilögum anda? Nefndu dæmi.

9 Heilagur andi er önnur kærleiksgjöf Guðs sem við ættum að vera þakklát fyrir. Á hvítasunnunni árið 33 hvatti Pétur postuli mannfjöldann í Jerúsalem og sagði: „Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.“ (Postulasagan 2:38) Jehóva veitir dyggum nútímaþjónum sínum, sem gera vilja hans, heilagan anda ef þeir biðja um hann. (Lúkas 11:9-13) Heilagur andi eða starfskraftur Guðs er sterkasta aflið í alheiminum. Hann styrkti trúmenn fortíðar, þar á meðal hina frumkristnu. (Sakaría 4:6; Postulasagan 4:31) Hann getur einnig styrkt okkur, jafnvel þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum hindrunum eða þrengingum sem fólk Jehóva. — Jóel 3:1, 2.

10 Tökum Laurel sem dæmi en hún fékk mænusótt og lá í stállunga í 37 ár. * Hún þjónaði Guði af kostgæfni allt til dauðadags þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður. Ríkuleg blessun Jehóva rættist á Laurel meðan hún lifði. Hún hjálpaði til dæmis 17 einstaklingum til þekkingar á sannleika Biblíunnar, þótt hún lægi í stállunganu allan sólarhringinn! Aðstæður hennar minna á orð Páls postula: „Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.“ (2. Korintubréf 12:10) Velgengni okkar við boðun fagnaðarerindisins er ekki hæfni okkar eða krafti að þakka heldur liðsinni heilags anda Guðs sem hann veitir þeim er hlýða raust hans. — Jesaja 40:29-31.

11. Hvaða eiginleika kallar andi Guðs fram í fari þeirra sem íklæðast „hinum nýja manni“?

11 Ef við hlýðum Guði kallar andi hans fram í fari okkar eiginleika eins og kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trú, hógværð og sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Þessi „ávöxtur andans“ er hluti ‚hins nýja manns‘ sem kristnir menn íklæðast í stað ágjarnra og dýrslegra eiginleika sem þeir höfðu kannski áður. (Efesusbréfið 4:20-24; Jesaja 11:6-9) Kærleikurinn er veigamestur ávaxta andans en hann er „band algjörleikans.“ — Kólossubréfið 3:14.

Kristinn kærleikur — dýrmæt gjöf

12. Hvernig sýndu Tabíþa og aðrir snemmkristnir menn kærleika?

12 Kristinn kærleikur er önnur blessunarrík gjöf Jehóva sem ætti að vera okkur kær. Hann byggist á frumreglum en er svo alúðlegur að hann bindur trúbræður sterkari böndum en jafnvel fjölskyldubönd geta gert. (Jóhannes 15:12, 13; 1. Pétursbréf 1:22) Tökum kristnu konuna Tabíþu frá fyrstu öld sem dæmi. „Hún var mjög góðgerðasöm og örlát,“ einkum við ekkjur í söfnuðinum. (Postulasagan 9:36) Konurnar áttu kannski ættingja, en Tabíþa vildi gera það sem hún gat til að hjálpa þeim og hvetja. (1. Jóhannesarbréf 3:18) Hún var frábært fordæmi. Bróðurkærleikur kom Prisku og Akvílasi til að ‚stofna lífi sínu í hættu‘ fyrir Pál. Og kærleikurinn knúði Epafras, Lúkas, Ónesífórus og fleiri til að hjálpa postulanum er hann sat í fangelsi í Róm. (Rómverjabréfið 16:3, 4; 2. Tímóteusarbréf 1:16; 4:11; Fílemonsbréfið 23, 24) Kristnir menn, sem líkjast þeim nú á tímum, ‚bera elsku hver til annars‘ en það er blessunarrík gjöf frá Guði og auðkennir sanna lærisveina Jesú. — Jóhannes 13:34, 35.

13. Hvernig getum við sýnt að við metum hið kristna bræðrafélag mikils?

13 Er kærleikur kristna safnaðarins þér dýrmætur? Ertu þakklátur fyrir hið andlega bræðrafélag okkar sem nær um allan hnöttinn? Þetta eru líka blessunarríkar og auðgandi gjafir að ofan. Hvernig getum við sýnt að við metum þær mikils? Með því að veita Guði heilaga þjónustu, taka þátt í samkomunum og sýna kærleika og aðra ávexti andans. — Filippíbréfið 1:9; Hebreabréfið 10:24, 25.

„Gjafir í mönnum“

14. Hvers er krafist af kristnum manni sem vill vera öldungur eða safnaðarþjónn?

14 Það er verðugt markmið hjá kristnum karlmanni að vilja þjóna trúbræðrum sínum sem öldungur eða safnaðarþjónn. (1. Tímóteusarbréf 3:1, 8) Til að vera hæfur til þess þarf bróðir að vera andlega sinnaður, fær í Ritningunni og kostgæfinn í boðunarstarfinu. (Postulasagan 18:24; 1. Tímóteusarbréf 4:15; 2. Tímóteusarbréf 4:5) Hann verður að vera auðmjúkur, hógvær og þolinmóður því að Guð blessar ekki hrokafulla, drambsama og metnaðargjarna menn. (Orðskviðirnir 11:2; Hebreabréfið 6:15; 3. Jóhannesarbréf 9, 10) Ef hann er kvæntur þarf hann að veita heimili sínu góða og kærleiksríka forstöðu. (1. Tímóteusarbréf 3:4, 5, 12) Slíkur maður metur andleg auðæfi að verðleikum hlýtur blessun Jehóva. — Matteus 6:19-21.

15, 16. Hverjir eru „gjafir í mönnum“? Nefndu dæmi.

15 Þegar öldungar safnaðarins leggja sig fram við trúboð, hirðastarf og kennslu höfum við ærna ástæðu til að meta mikils þessar „gjafir í mönnum.“ (Efesusbréfið 4:8, 11, NW ) Þeir sem njóta góðs af kærleiksstarfi þeirra láta það kannski ekki alltaf í ljós en Jehóva sér allt sem trúfastir öldungar gera. Hann gleymir ekki kærleikanum sem þeir auðsýna nafni hans með því að þjóna fólki hans. — 1. Tímóteusarbréf 5:17; Hebreabréfið 6:10.

16 Lítum á dæmi. Eljusamur öldungur heimsótti vottastúlku sem átti að gangast undir heilaskurðaðgerð. „Hann var svo vingjarnlegur og umhyggjusamur og svo mikil stoð og stytta,“ skrifar vinkona fjölskyldunnar. „Hann spurði hvort hann mætti biðja til Jehóva fyrir okkar hönd. Þegar hann baðst fyrir grét faðirinn [en hann var ekki vottur Jehóva] og allir á sjúkrastofunni felldu tár. Bæn öldungsins var sérlega blíð, og það var svo kærleiksríkt af Jehóva að senda hann á slíkri stundu.“ Annar sjúkur vottur segir um öldungana sem heimsóttu hann: „Þegar þeir gengu að rúminu mínu á gjörgæslunni vissi ég að frá þeirri stundu gæti ég þolað hvað sem yfir mig gengi. Ég varð sterk og róleg.“ Getur nokkur keypt slíka ást og umhyggju? Aldrei. Þetta er Guðs gjöf fyrir milligöngu kristna safnaðarins. — Jesaja 32:1, 2.

Boðunarstarfið er gjöf

17, 18. (a) Hvaða gjöf stendur öllu fólki Jehóva til boða? (b) Hvaða hjálp veitir Guð til að við getum sinnt boðunarstarfinu?

17 Mesti heiður, sem manninum getur hlotnast, er að þjóna Jehóva, hinum hæsta. (Jesaja 43:10; 2. Korintubréf 4:7; 1. Pétursbréf 2:9) Allir, sem þrá í einlægni að þjóna Guði, geta tekið þátt í boðunarstarfinu meðal almennings, hvort heldur þeir eru ungir eða aldnir, karlar eða konur. Notfærirðu þér þessa dýrmætu gjöf? Sumir telja sig ekki í stakk búna til þess og hika kannski við. En mundu að Jehóva veitir þeim heilagan anda sem þjóna honum og bætir upp það sem okkur kann að bresta. — Jeremía 1:6-8; 20:11.

18 Jehóva hefur falið auðmjúkum þjónum sínum guðsríkisboðunina, en ekki þeim sem hættir til að hreykja sér upp og treysta eigin hæfileikum. (1. Korintubréf 1:20, 26-29) Auðmjúkt, heiðarlegt fólk viðurkennir takmörk sín og reiðir sig á hjálp Guðs í boðunarstarfinu. Það metur líka mikils andlegu aðstoðina sem hann veitir fyrir tilstilli ‚trúa ráðsmannsins.‘ — Lúkas 12:42-44; Orðskviðirnir 22:4.

Hamingjuríkt fjölskyldulíf — úrvalsgjöf

19. Hvað stuðlar að velheppnuðu barnauppeldi?

19 Hjónaband og hamingjuríkt fjölskyldulíf eru líka gjafir frá Guði. (Rutarbók 1:9; Efesusbréfið 3:14, 15) Börn eru einnig dýrmæt ‚gjöf frá Jehóva‘ og þeim foreldrum gleðigjafi sem tekst að innræta þeim guðrækilega eiginleika. (Sálmur 127:3) Sértu foreldri skaltu halda áfram að hlýða raust Jehóva og ala börnin upp samkvæmt orði hans. Þeir sem það gera geta verið vissir um stuðning hans og ríkulega blessun. — Orðskviðirnir 3:5, 6; 22:6; Efesusbréfið 6:1-4.

20. Hvað getur hjálpað foreldrum sem hafa misst börn sín frá sannleikanum?

20 Sum börn kjósa að snúa baki við sannri tilbeiðslu er þau stálpast, þó svo að guðræknir foreldrar þeirra hafi lagt sig samviskusamlega fram. (1. Mósebók 26:34, 35) Það getur verið mikið áfall fyrir foreldrana. (Orðskviðirnir 17:21, 25) En í stað þess að gefa upp alla von getur verið gagnlegt að rifja upp dæmisögu Jesú um glataða soninn. Hann fór að heiman og lagðist í spillingu en sneri síðar aftur heim til föður síns sem tók honum opnum örmum. (Lúkas 15:11-32) Hvað svo sem kann að gerast geta trúfastir foreldrar reitt sig á skilning, ástúðlega umhyggju og óbilandi stuðning Jehóva. — Sálmur 145:14.

21. Hverjum ættum við að hlýða og hvers vegna?

21 Reynum því að koma auga á hvað gengur fyrir í lífi okkar. Keppumst við ákaft eftir efnislegum nægtum sem gætu valdið okkur og fjölskyldu okkar harmkvælum? Eða sækjumst við eftir ‚góðum gjöfum og fullkomnum gáfum‘ sem koma frá „föður ljósanna“? (Jakobsbréfið 1:17) Satan, „lyginnar faðir,“ vill að við stritum fyrir auðæfum og glötum bæði hamingjunni og lífinu. (Jóhannes 8:44; Lúkas 12:15) Jehóva ber hins vegar hagsmuni okkar ávallt fyrir brjósti. (Jesaja 48:17, 18) Höldum því áfram að hlýða ástríkum föður okkar á himni og ‚gleðjumst alltaf yfir honum.‘ (Sálmur 37:4) Ef við gerum það munu ómetanlegar gjafir Jehóva og ríkuleg blessun hans auðga okkur — án nokkurra kvala.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Sjá Vaknið! apríl–júní 1993, bls. 24-27.

Manstu?

• Hvar er mesta hamingju að finna?

• Hvaða gjafir gefur Jehóva fólki sínu?

• Hvers vegna er boðunarstarfið gjöf?

• Hvað geta foreldrar gert til að öðlast blessun Guðs við barnauppeldið?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Sýnirðu að þú kunnir að meta Biblíuna sem er gjöf frá Guði?

[Mynd á blaðsíðu 26]

Laurel Nisbet þjónaði Guði af kostgæfni þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður.

[Myndir á blaðsíðu 27]

Kristnir nútímamenn eru alkunnir fyrir kærleiksverk sín líkt og Tabíþa.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Kristnir öldungar bera ástríka umhyggju fyrir trúbræðrum.