Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig geturðu hjálpað ‚týndu‘ barni?

Hvernig geturðu hjálpað ‚týndu‘ barni?

Hvernig geturðu hjálpað ‚týndu‘ barni?

‚Fagnið því að . . . hann var týndur og er fundinn.‘ — LÚKAS 15:32.

1, 2. (a) Hvernig hafa sumir unglingar brugðist við sannleika Biblíunnar? (b) Hvernig má búast við að foreldrum og börnum líði við þessar aðstæður?

„ÉG ÆTLA að hætta í söfnuðinum!“ Guðhræddir foreldrar leggja hart að sér að ala börn sín upp í sannkristinni trú og það er mikið áfall fyrir þau að heyra barn sitt segja eitthvað þessu líkt! Aðrir unglingar ‚berast afleiðis‘ og fjarlægjast sannleikann án þess að lýsa beinlínis yfir að þau ætli að gera það. (Hebreabréfið 2:1) Margir þeirra minna á glataða soninn í dæmisögu Jesú sem yfirgaf æskuheimili sitt og sólundaði arfi sínum í fjarlægu landi. — Lúkas 15:11-16.

2 Það er ekki algengt að unglingar meðal Votta Jehóva yfirgefi trúna en fátt er til huggunar fyrir foreldra sem verða fyrir því. Og því má ekki gleyma að hið ódæla barn er kannski vansælt líka undir niðri því að samviskan getur nagað það. Glataði sonurinn í dæmisögu Jesú ‚kom að lokum til sjálfs sín,‘ við mikinn fögnuð föðurins. Hvernig geta foreldrar og aðrir í söfnuðinum hjálpað hinum týndu að ‚koma til sjálfra sín‘?— Lúkas 15:17.

Hvers vegna sumir ákveða að yfirgefa sannleikann

3. Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að unglingar ákveða að yfirgefa kristna söfnuðinn.

3 Hundruð þúsunda barna og unglinga þjóna Jehóva með gleði í kristna söfnuðinum. Hvers vegna ákveða sumir unglingar þá að yfirgefa söfnuðinn? Kannski finnst þeim þeir fara á mis við eitthvað sem heimurinn hefur upp á að bjóða. (2. Tímóteusarbréf 4:10) Sumum finnst sauðabyrgi Jehóva, sem er þeim til verndar, takmarka athafnafrelsi sitt um of. Slæm samviska, mikill áhugi á hinu kyninu eða löngunin til að njóta viðurkenningar jafnaldranna getur líka orðið til þess að unglingar fjarlægjast hjörð Jehóva. Og unglingur getur hætt að þjóna Guði sökum hræsni sem honum finnst hann sjá í fari foreldra sinna eða annarra í söfnuðinum.

4. Hver er oft undirrót þess að unglingar villast af leið?

4 Uppreisnarhugur og uppreisnarhegðun barns er yfirleitt merki um andlegan veikleika og er spegilmynd þess sem býr í hjartanu. (Orðskviðirnir 15:13; Matteus 12:34) Hver sem ástæðan er fyrir því að unglingur villist af leið er undirrótin oft sú að hann hefur ekki ‚nákvæma þekkingu á sannleikanum.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:7, NW) Það er mikilvægt fyrir börn og unglinga að byggja upp náið einkasamband við Jehóva en þjóna honum ekki aðeins til málamynda. Hvernig geta þau gert það?

Náið samband við Guð

5. Hvað þurfa börn og unglingar að gera til að byggja upp náið samband við Guð?

5 „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. (Jakobsbréfið 4:8) Til að gera það þurfa börn og unglingar að hafa mætur á orði hans og fá hjálp til þess. (Sálmur 34:9) Í fyrstu þarf að næra þau á „mjólk,“ það er að segja undirstöðukenningum Biblíunnar. En þegar barnið fær mætur á ‚föstu fæðunni,‘ það er að segja hinum dýpri andlegu sannindum Biblíunnar, er andlegur þroski á næsta leiti. (Hebreabréfið 5:11-14; Sálmur 1:2) Unglingur nokkur viðurkenndi að hann hefði látið háttalag heimsins gleypa sig en síðar fékk hann mætur á andlegum verðmætum. Hvað hjálpaði honum að snúa við? Hann var hvattur til þess að lesa alla Biblíuna og fór að lesa reglulega í henni. Reglulegur lestur í Biblíunni er einmitt nauðsynlegur til að byggja upp náið samband við Jehóva.

6, 7. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að hafa yndi af orði Guðs?

6 Það er ákaflega mikilvægt að foreldrar hjálpi börnunum að hafa dálæti á orði Guðs. Unglingsstúlka ein var í slagtogi við vandræðaunglinga þrátt fyrir reglulegt biblíunám. Hún segir um fjölskyldunámið: „Pabbi spurði spurninganna og ég las bara upp svörin án þess að horfast í augu við hann.“ Vitrir foreldrar láta sér ekki nægja að komast yfir ákveðið efni í fjölskyldunáminu heldur beita líka góðri kennslutækni. (2. Tímóteusarbréf 4:2) Til að unglingur hafi ánægju af náminu og námsefninu þarf hann að finna að það snerti hann. Hví ekki að spyrja viðhorfsspurninga og láta hann tjá sig? Hvettu unglinginn til að heimfæra og notfæra sér það efni sem fjallað er um hverju sinni. *

7 Og gæddu hinar biblíulegu umræður lífi. Láttu börnin leika biblíuatburði þegar við á. Hjálpaðu þeim að sjá fyrir sér staði og staðhætti þar sem atburðirnir áttu sér stað. Kort og töflur geta komið að góðum notum. Með svolitlu ímyndunarafli er hægt að gera fjölskyldunámið líflegt og fjölbreytt. Og foreldrar ættu jafnframt að skoða sitt eigið samband við Jehóva. Með því að nálægjast Jehóva geta þeir hjálpað börnunum að gera það líka. — 5. Mósebók 6:5-7.

8. Hvernig er bænin hjálp til að styrkja sambandið við Guð?

8 Bænin styrkir einnig sambandið við Guð. Unglingsstúlka átti í togstreitu innra með sér milli þess að lifa kristilegu líferni og umgangast vini sem voru annarrar trúar. (Jakobsbréfið 4:4) Hvað gerði hún í málinu? „Í fyrsta sinn á ævinni sagði ég Jehóva í bæn hvernig mér var raunverulega innanbrjósts,“ viðurkennir hún. Hún ályktaði sem svo að hún hefði fengið bænheyrslu þegar hún eignaðist trúnaðarvin í söfnuðinum. Hún fann fyrir handleiðslu Jehóva og tók að byggja upp einkasamband við hann. Foreldrar geta hjálpað börnunum með því að bæta bænasamband sitt við Guð. Þegar þau biðja með börnunum geta þau úthellt hjörtum sínum þannig að börnin skynji hið nána samband milli Jehóva og foreldranna.

Þolinmæði og festa

9, 10. Hvernig var Jehóva langlyndur við hina þrjósku Ísraelsmenn?

9 Unglingur reynir kannski að einangra sig þegar hann byrjar að fjarlægjast sannleikann, og spyrnir við fótum þegar foreldrarnir reyna að ræða við hann um andleg mál. Hvað geta foreldrar gert í þessari erfiðu stöðu? Lítum á hvernig Jehóva tók á Ísraelsmönnum til forna. Hann umbar ‚harðsvíraða‘ þjóð í meira en 900 ár áður en hann ofurseldi hana eigin þrjósku. (2. Mósebók 34:9; 2. Kroníkubók 36:17-21; Rómverjabréfið 10:21) Hann var „miskunnsamur“ við hana þótt hún ‚freistaði hans‘ æ ofan í æ. ‚Hann stillti reiði sína hvað eftir annað og hleypti eigi fram allri bræði sinni.‘ (Sálmur 78:38-42) Hann var óaðfinnanlegur í samskiptum sínum við þjóðina. Ástríkir foreldrar líkja eftir Jehóva og eru þolinmóðir þó að barn bregðist ekki vel við hjálp þeirra í byrjun.

10 Að vera langlyndur og þolinmóður merkir einnig að gefa ekki upp vonina um að sambandið batni. Jehóva er góð fyrirmynd um langlundargeð. Að eigin frumkvæði sendi hann Ísraelsmönnum „stöðugt“ sendiboða sína. (2. Kroníkubók 36:15, 16) Hann „vildi þyrma lýð sínum“ þótt ‚þeir smánuðu sendiboða hans og fyrirlitu orð hans.‘ (2. Kroníkubók 36:15, 16) Hann reyndi að höfða til þeirra: „Snúið yður, hver og einn frá sínum vonda vegi.“ (Jeremía 25:4, 5) En Guð vék ekki frá réttlátum meginreglum sínum heldur var Ísraelsmönnum sagt að ‚snúa sér‘ aftur til hans og reglna hans.

11. Hvernig geta foreldrar sýnt þolinmæði og festu í samskiptum við barn sem hefur villst af leið?

11 Foreldrar geta líkt eftir Jehóva og verið langlyndir við barn sem villist af réttri leið. Þeir missa ekki vonina eða gefast upp á barninu í fljótræði heldur leggja sig fram um að halda tjáskiptaleiðinni opinni eða reyna að opna hana að nýju. Þeir halda sig fast við réttlátar meginreglur og geta hvatt barnið „stöðugt“ til að snúa aftur inn á veg sannleikans.

Þegar ófullveðja unglingi er vikið úr söfnuðinum

12. Hvaða ábyrgð bera foreldrar á ófullveðja unglingi sem býr heima en er vikið úr söfnuðinum?

12 En hvað skal gera ef ófullveðja unglingur, sem býr í foreldrahúsum, gerist sekur um alvarlega synd og er vikið úr söfnuðinum af því að hann iðrast ekki? Barnið býr enn hjá foreldrum sínum þannig að þeim er enn þá skylt að kenna því og aga það eins og orð Guðs býður. Hvernig er það hægt? — Orðskviðirnir 6:20-22; 29:17.

13. Hvernig geta foreldrar reynt að ná til hjarta villuráfandi barns?

13 Kannski er hægt að kenna barninu með hjálp Biblíunnar og siða það í einrúmi, og trúlega er það besta leiðin. Foreldrið þarf að horfa fram hjá harðneskju barnsins og reyna að koma auga á það sem býr í hjarta þess. Hversu umfangsmikill er hinn andlegi sjúkleiki þess? (Orðskviðirnir 20:5) Er hægt að snerta hjarta þess? Hvaða ritningarstaðir geta höfðað til þess? Páll postuli fullvissar okkur um að ‚orð Guðs sé lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smjúgi inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, og dæmi hugsanir og hugrenningar hjartans.‘ (Hebreabréfið 4:12) Foreldrar geta reynt að koma af stað andlegum bata og hlúð að honum í stað þess að segja barninu einvörðungu að syndga ekki framar.

14. Hvað þarf unglingur á villigötum fyrst að gera til að endurheimta sambandið við Jehóva og hvernig geta foreldrarnir hjálpað honum að stíga fyrsta skrefið?

14 Villuráfandi unglingur þarf að endurheimta samband sitt við Jehóva. Fyrsta skrefið er það að ‚gera iðrun og snúa sér.‘ (Postulasagan 3:19; Jesaja 55:6, 7) Foreldrar þurfa að vera ‚þolnir í þrautum og aga hógværlega‘ til að hjálpa mótþróafullu barni, sem býr heima, til að iðrast. (2. Tímóteusarbréf 2:24-26) Þeir þurfa að „tyfta“ það í biblíulegum skilningi. Gríska orðið, sem þýtt er „tyfta,“ má einnig þýða „sanna.“ (Opinberunarbókin 3:19; Jóhannes 16:8) Að tyfta barnið er því meðal annars fólgið í því að sannfæra það um að stefna þess sé syndsamleg. Það getur verið þrautin þyngri. Ef hægt er geta foreldrarnir höfðað til hjartans og reynt að sannfæra barnið með öllum biblíulega viðeigandi aðferðum. Þeir ættu að reyna að sýna því fram á að það þurfi að ‚hata hið illa og elska hið góða.‘ (Amos 5:15) Barnið gæti „endurvitkast og losnað úr snöru djöfulsins.“

15. Hvert er hlutverk bænarinnar í því að hjálpa villuráfandi unglingi að eignast aftur samband við Jehóva?

15 Bænin er forsenda þess að endurheimta samband sitt við Jehóva. Enginn ætti auðvitað að „biðja“ fyrir þeim sem sótti einhvern tíma samkomur en syndgar greinilega blygðunarlaust án þess að iðrast. (1. Jóhannesarbréf 5:16, 17; Jeremía 7:16-20; Hebreabréfið 10:26, 27) En foreldrar geta beðið Jehóva um visku til að takast á við vandann. (Jakobsbréfið 1:5) Ef unglingur, sem hefur verið vikið úr söfnuðinum, sýnir iðrunarmerki en hefur ekki „djörfung til Guðs“ geta foreldrarnir beðið þess að vilji Guðs nái fram að ganga ef Guð finnur iðrunargrundvöll hjá unglingnum. (1. Jóhannesarbréf 3:21) Þegar unglingurinn heyrir slíkar bænir ætti það að minna hann á að Jehóva er miskunnsamur Guð. * — 2. Mósebók 34:6, 7; Jakobsbréfið 5:16.

16. Hvernig getum við öll hjálpað fjölskyldu unglings sem hefur verið vikið úr söfnuðinum?

16 Ef skírðum unglingi er vikið úr söfnuðinum er þess vænst að safnaðarmenn ‚umgangist hann ekki.‘ (1. Korintubréf 5:11; 2. Jóhannesarbréf 10, 11) Það getur með tímanum orðið þess valdandi að hann ‚komi til sjálfs sín‘ og leiti aftur skjóls í sauðabyrgi Guðs. (Lúkas 15:17) En hvort sem hann snýr aftur eða ekki geta safnaðarmenn uppörvað fjölskyldu hans. Við getum öll verið vakandi fyrir tækifærum til að sýna þeim samkennd og hluttekningu. — 1. Pétursbréf 3:8, 9.

Hvernig geta aðrir hjálpað?

17. Hvað ættu safnaðarmenn að hafa í huga þegar þeir reyna að hjálpa barni eða unglingi sem hefur fjarlægst sannleikann?

17 Hvað um ungling sem hefur ekki verið vikið úr söfnuðinum heldur hefur veiklast í trúnni? ‚Ef einn limur þjáist þjást allir limirnir með honum,‘ skrifaði Páll postuli. (1. Korintubréf 12:26) Aðrir geta sýnt barninu eða unglingnum áhuga. Auðvitað þarf að gæta vissrar varúðar því að andlega veikburða unglingur getur haft slæm áhrif á aðra unglinga. (Galatabréfið 5:7-9) Velviljað fullorðið fólk vildi hjálpa nokkrum unglingum, sem voru orðnir andlega veikburða, og buðu þeim að koma saman og hlusta á dægurtónlist. Unglingarnir voru meira en fúsir og höfðu ánægju af en áhrif þeirra hver á annan urðu til þess að þeir slitu að lokum tengslin við söfnuðinn. (1. Korintubréf 15:33; Júdasarbréfið 22, 23) Andlega veikburða barni er lítil hjálp í því að hitta aðra ef þess er ekki gætt að það sé með andlegu ívafi. Það þarf að fá félagsskap sem glæðir löngun þess í það sem andlegt er. *

18. Hvernig getum við líkt eftir föður glataða sonarins í dæmisögu Jesú?

18 Reyndu að ímynda þér hvernig unglingi, sem hefur yfirgefið söfnuðinn, er innanbrjósts þegar hann birtist aftur í ríkissalnum eða sækir mót. Er ekki ástæða til að taka honum hlýlega eins og faðir glataða sonarins í dæmisögu Jesú? (Lúkas 15:18-20, 25-32) Unglingur nokkur yfirgaf kristna söfnuðinn en sótti síðar umdæmismót. „Ég bjóst við að allir myndu sniðganga mig,“ segir hann, „en bræður og systur komu til mín og buðu mig velkominn. Ég var djúpt snortinn.“ Hann fór að nema Biblíuna aftur og lét síðan skírast.

Gefstu ekki upp

19, 20. Hvers vegna ættum við að vera jákvæð gagnvart börnum sem hafa villst af leið?

19 Að hjálpa ‚týndu‘ barni að ‚koma til sjálfs sín‘ kostar þolinmæði og getur verið krefjandi, bæði fyrir foreldra og aðra. En gefstu ekki upp. „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Biblían fullvissar okkur um að Jehóva vilji að fólk iðrist og lifi. Reyndar hefur hann að eigin frumkvæði gert ráðstafanir til að sætta menn við sig. (2. Korintubréf 5:18, 19) Langlyndi hans hefur valdið því að milljónir manna hafa komið til sjálfra sín. — Jesaja 2:2, 3.

20 Foreldrar ættu því að beita öllum hugsanlegum ráðum, sem Biblían mælir með, til að hjálpa börnum sínum að snúa við ef þau berast af leið. Líkið eftir Jehóva, sýnið langlundargeð og gerið jákvæðar ráðstafanir til að hjálpa barninu að snúa aftur til hans. Haldið ykkur fast við meginreglur Biblíunnar, reynið að endurspegla kærleika, réttlæti og visku Jehóva, og biðjið hann um hjálp. Margir þverúðugir uppreisnarmenn hafa þegið hlýlegt boð Jehóva um að snúa aftur. Sonur þinn eða dóttir, sem hefur villst af leið, getur alveg eins snúið aftur í skjól hjarðar Guðs. — Lúkas 15:6, 7.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Nánari tillögur um áhrifaríka barna- og unglingakennslu er að finna í Varðturninum, 1. ágúst 1999, bls. 14-18.

^ gr. 15 Ekki ætti að biðja slíkra bæna fyrir brottrækum, ófullveðja unglingi á safnaðarsamkomum því að óvíst er að aðrir viti hvernig hann er stemmdur. — Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. október 1979, bls. 31.

^ gr. 17 Ýmsar tillögur er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. júní 1972, bls. 13-16 og 22. september 1996, bls. 21-3.

Manstu?

• Hver getur undirrótin verið þegar unglingar yfirgefa söfnuðinn?

• Hvernig er hægt að hjálpa börnum og unglingum að byggja upp náið samband við Jehóva?

• Af hverju þurfa foreldrar að vera langlyndir en ákveðnir til að hjálpa barni sem hefur villst af leið?

• Hvernig geta aðrir í söfnuðinum hjálpað unglingi, sem hefur villst af leið, að snúa aftur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Það er afar mikilvægt að lesa orð Guðs til að byggja upp náið samband við hann.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Innilegar bænir foreldra geta sagt barninu mikið um samband þeirra við Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Takið vel á móti týndu barni þegar það ‚kemur til sjálfs sín.‘

[Mynd á blaðsíðu 18]

Gerðu jákvæðar ráðstafanir til þess að hjálpa barni þínu að snúa aftur til Jehóva.