Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líktu eftir Jehóva við uppeldi barnanna

Líktu eftir Jehóva við uppeldi barnanna

Líktu eftir Jehóva við uppeldi barnanna

„Leiðrétta ekki allir foreldrar börnin sín?“ — HEBREABRÉFIÐ 12:7, Contemporary English Version.

1, 2. Af hverju eiga foreldrar í erfiðleikum með barnauppeldi nú á tímum?

KÖNNUN, sem gerð var í Japan fyrir fáeinum árum, leiddi í ljós að um það bil helmingur fullorðinna þátttakenda taldi foreldra eiga of lítil tjáskipti við börn sín og láta of mikið eftir þeim. Í annarri könnun þar í landi viðurkenndi næstum fjórðungur svarenda að þeir kynnu ekki að eiga samskipti við börn. Og þetta ástand einskorðast ekki við Austurlönd. „Margir kanadískir foreldrar viðurkenna að þeir séu óvissir um hvernig góðir foreldrar eigi að vera,“ að sögn dagblaðsins The Toronto Star. Foreldrum finnst alls staðar erfitt að ala börnin upp.

2 Af hverju eiga foreldrar í erfiðleikum með uppeldi barnanna? Ein meginástæðan er sú að við lifum á „síðustu dögum“ og þeim fylgja „örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Og „hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans,“ að sögn Biblíunnar. (1. Mósebók 8:21) Börn og unglingar eru varnarlítil gegn árásum Satans sem er eins og „öskrandi ljón“ og níðist á hinum óreyndu. (1. Pétursbréf 5:8) Það eru vissulega ýmsir tálmar í vegi kristinna foreldra sem vilja ala börnin upp „með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Hvernig geta foreldrar komið börnunum til þroska og kennt þeim að tilbiðja Jehóva og „greina gott frá illu“? — Hebreabréfið 5:14.

3. Af hverju þurfa foreldrar að leiðbeina börnunum og kenna þeim til að uppeldið heppnist vel?

3 Spekingurinn Salómon benti á að ‚fíflska sitji föst í hjarta sveinsins.‘ (Orðskviðirnir 13:1; 22:15) Foreldrar þurfa að leiðrétta hegðun og viðhorf barnanna ástúðlega til að uppræta fíflskuna úr hjörtum þeirra. En börn og unglingar eru ekki alltaf hrifin af slíkri leiðréttingu og bregðast oft illa við henni, hvaðan sem hún kemur. Foreldrar þurfa því að læra að ‚fræða sveininn um veginn sem hann á að halda.‘ (Orðskviðirnir 22:6) Það getur orðið börnunum til lífs að þiggja slíka ögun. (Orðskviðirnir 4:13) Foreldrar þurfa svo sannarlega að vera vel að sér í uppeldismálum!

Hvað er agi?

4. Hvað er fyrst og fremst fólgið í orðinu „agi“ eins og það er notað í Biblíunni?

4 Sumir foreldrar veigra sér við því að leiðrétta börnin af ótta við að vera sakaðir um að misþyrma þeim líkamlega eða tilfinningalega. En slíkur ótti er óþarfur. Orðið „agi,“ eins og það er notað í Biblíunni, vísar ekki til neins konar misþyrminga eða grimmdar. Gríska orðið, sem þýtt er „agi,“ merkir fyrst og fremst tilsögn, menntun og leiðréttingu og stundum ákveðna en kærleiksríka hirtingu.

5. Hvers vegna er gagnlegt að skoða hvernig Jehóva agar og þroskar fólk sitt?

5 Jehóva Guð er fullkomin fyrirmynd um slíka ögun. Páll postuli líkti honum við mennskan föður og skrifaði: „Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar? . . . Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar [Guð] oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.“ (Hebreabréfið 12:7-10) Jehóva agar fólk sitt til að það sé hreint og heilagt. Við getum vissulega lært margt um ögun barna með því að skoða hvernig Jehóva hefur agað og þroskað fólk sitt. — 5. Mósebók 32:4; Matteus 7:11; Efesusbréfið 5:1.

Hvötin er kærleikur

6. Af hverju geta foreldrar átt erfitt með að líkja eftir kærleika Jehóva?

6 „Guð er kærleikur,“ segir Jóhannes postuli. Ögun og umvöndun Jehóva er því alltaf sprottin af kærleika. (1. Jóhannesarbréf 4:8; Orðskviðirnir 3:11, 12) Foreldrum er eðlislægt að elska börn sín þannig að spyrja má hvort þeir eigi þá auðvelt með að líkja eftir Jehóva að þessu leyti. Nei, það er ekki víst. Kærleikur Guðs er byggður á meginreglum. Grískufræðingur bendir á að slíkur kærleikur „haldist ekki alltaf í hendur við náttúrlegar tilhneigingar.“ Guð er ekki blindaður af tilfinningasemi heldur tekur alltaf mið af því sem er fólki hans fyrir bestu. — Jesaja 30:20; 48:17.

7, 8. (a) Hvernig sýndi Jehóva fólki sínu kærleika byggðan á meginreglum? (b) Hvernig geta foreldrar líkt eftir Jehóva og hjálpað börnunum að fylgja meginreglum Biblíunnar?

7 Móse brá upp fallegri líkingu til að lýsa kærleika Jehóva til hinnar ungu Ísraelsþjóðar. Við lesum: „Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt og svífur yfir ungum sínum, svo útbreiddi hann vængi sína, tók hann upp og bar hann á flugfjöðrum sínum. [Jehóva] einn leiddi [Jakob].“ (5. Mósebók 32:9, 11, 12) Arnarmóðirin ‚vekur upp hreiður sitt‘ með bægslagangi og vængjaslætti og hvetur ungann til að taka flugið. Hún „svífur yfir“ unganum þegar hann steypir sér loks úr hreiðrinu sem oft er á hárri klettasyllu. Ef henni virðist unginn ætla að falla til jarðar steypir hún sér undir hann og ‚ber hann á flugfjöðrum sínum.‘ Jehóva annaðist hina nýfæddu Ísraelsþjóð með svipuðum hætti. Hann gaf henni Móselögin, fylgdist vökulu auga með henni og var reiðubúinn að koma henni til bjargar ef hún lenti í nauðum. — Sálmur 78:5-7.

8 Hvernig geta kristnir foreldrar líkt eftir kærleika Jehóva? Í fyrsta lagi þurfa þeir að kenna börnunum þær meginreglur og lífsreglur sem er að finna í orði Guðs. (5. Mósebók 6:4-9) Markmiðið er að kenna börnunum að taka ákvarðanir í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Þannig svífa foreldrarnir yfir börnunum, ef svo má að orði komast, og fylgjast með hvernig þau fara eftir þeim meginreglum sem þau hafa lært. Smám saman fá börnin aukið frjálsræði í samræmi við aldur og þroska, en umhyggjusamir foreldrar eru alltaf reiðubúnir að ‚steypa sér niður og bera þau á flugfjöðrum sínum‘ þegar hætta steðjar að. Hvers konar hætta?

9. Fyrir hvaða hættu þurfa kærleiksríkir foreldrar að vera sérstaklega vakandi? Lýstu með dæmi.

9 Jehóva Guð varaði Ísraelsmenn við afleiðingunum af vondum félagsskap. (4. Mósebók 25:1-18; Esrabók 10:10-14) Vondur félagsskapur er ekki síður háskalegur nú á tímum. (1. Korintubréf 15:33) Kristnir foreldrar ættu einnig að líkja eftir Jehóva á þessu sviði. Lísa var 15 ára þegar hún fékk áhuga á strák sem hafði aðrar hugmyndir um andleg mál og siðferði en fjölskylda hennar. „Foreldrar mínir tóku strax eftir breytingu á viðmóti mínu og létu áhyggjur sínar í ljós,“ segir hún. „Stundum leiðréttu þau mig og stundum voru þau mild og uppörvandi.“ Þau settust niður með Lísu og hlustuðu þolinmóð á hana. Þannig hjálpuðu þau henni að taka á vandamálinu sem þau sáu að bjó að baki, en það var löngunin til að njóta viðurkenningar jafnaldranna.

Haltu tjáskiptaleiðinni opinni

10. Hvaða gott fordæmi gaf Jehóva með samskiptum sínum við Ísraelsmenn?

10 Farsælt barnauppeldi útheimtir að foreldrarnir leggi sig alla fram um að halda tjáskiptaleiðinni milli sín og barnanna opinni. Jehóva veit fullvel hvað býr í hjörtum okkar en hvetur okkur samt til að tala við sig í bæn. (1. Kroníkubók 28:9) Eftir að hafa gefið Ísraelsmönnum lögmálið fól hann levítunum að fræða þá og sendi spámennina til að rökræða við þá og leiðrétta. Hann var líka fús til að hlusta á bænir þeirra. — 2. Kroníkubók 17:7-9; Sálmur 65:3; Jesaja 1:1-3, 18-20; Jeremía 25:4; Galatabréfið 3:22-24.

11. (a) Hvernig geta foreldrar stuðlað að góðum tjáskiptum við börnin? (b) Af hverju er mikilvægt að foreldrar hlusti vel á börnin?

11 Hvernig geta foreldrar líkt eftir Jehóva í tjáskiptum sínum við börnin? Í fyrsta lagi verða þeir að taka sér tíma til að vera með þeim. Þeir þurfa að forðast að gera gys að þeim með hugsunarlausum orðum, svo sem: „Er þetta allt og sumt? Ég hélt að það væri eitthvað mikilvægt,“ „þetta er nú kjánalegt,“ „við hverju býstu? Þú ert bara krakki.“ (Orðskviðirnir 12:18) Vitrir foreldrar leggja sig fram um að hlusta vel á börnin og hvetja þau þannig til að vera opinská. Ef foreldrar hlusta ekki á börnin meðan þau eru lítil er hætta á að börnin hlusti ekki á foreldrana þegar þau stækka. Jehóva hefur alltaf verið fús til að hlusta á þá sem leita til hans í auðmjúkri bæn. — Sálmur 91:15; Jeremía 29:12; Lúkas 11:9-13.

12. Hvernig geta foreldrar auðveldað börnunum að leita til sín?

12 Lítum einnig á það hvernig persónuleiki Guðs hefur auðveldað fólki hans að nálgast hann að vild. Davíð Ísraelskonungur syndgaði gróflega er hann framdi hjúskaparbrot með Batsebu. Og Davíð var ófullkominn maður og drýgði ýmsar aðrar alvarlegar syndir á lífsleiðinni. En alltaf sneri hann sér til Jehóva og leitaði fyrirgefningar og áminningar hjá honum. Gæska Jehóva og miskunn auðveldaði Davíð að leita til hans. (Sálmur 103:8) Foreldrar geta líkt eftir umhyggju og miskunn Guðs og haldið tjáskiptaleiðinni opinni, jafnvel þegar börnunum verður eitthvað á. — Sálmur 103:13; Malakí 3:17.

Verið sanngjörn

13. Hvað er sanngirni meðal annars?

13 Foreldrar þurfa að vera sanngjarnir og sýna ‚þá speki, sem að ofan er,‘ þegar þeir hlusta á börnin. (Jakobsbréfið 3:17) „Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum,“ skrifaði Páll postuli. (Filippíbréfið 4:5) Hvað er átt við með ljúflyndi? Gríska orðið er einnig þýtt „sanngirni“ og er meðal annars skilgreint sem það „að heimta ekki að fylgja lagabókstafnum.“ Hvernig geta foreldrar verið sanngjarnir, án þess þó að hvika frá andlegum lífsreglum og siðferðiskröfum?

14. Hvernig var Jehóva sanngjarn í samskiptum við Lot?

14 Jehóva er afbragðsfyrirmynd um sanngirni. (Sálmur 10:17) Lot „hikaði við“ þegar Jehóva hvatti hann til að yfirgefa hina dæmdu Sódómu ásamt fjölskyldu sinni. Þegar engill Jehóva sagði honum nokkru síðar að forða sér til fjalla svaraði hann: „Ég get ekki forðað mér á fjöll upp . . . Sjá, þarna er borg í nánd [Sóar], þangað gæti ég flúið, og hún er lítil.“ Hvernig brást Jehóva við? Hann sagði: „Ég hefi einnig veitt þér þessa bæn, að leggja ekki í eyði borgina, sem þú talaðir um.“ (1. Mósebók 19:16-21, 30) Jehóva var fús til að fara að beiðni Lots. Foreldrar þurfa að fylgja þeim stöðlum og lífsreglum sem Jehóva Guð setur í orði sínu, Biblíunni, en oft er líka hægt að koma til móts við óskir barnanna þegar það fer ekki á svig við meginreglur Biblíunnar.

15, 16. Hvað geta foreldrar lært af dæmisögunni í Jesaja 28:24, 25?

15 Sanngirni felur í sér að búa hjörtu barnanna undir það að þiggja leiðbeiningar. Jesaja líkti Jehóva við bónda og sagði: „Hvort plægir plógmaðurinn í sífellu til sáningar, ristir upp og herfar akurland sitt? Hvort mun hann eigi, þegar hann hefir jafnað moldina að ofan, sælda þar kryddi og sá kúmeni, setja hveiti niður í raðir, bygg á tilteknum stað og speldi í útjaðarinn?“ — Jesaja 28:24, 25.

16 Jehóva ‚plægir til sáningar‘ og „ristir upp og herfar akurland sitt.“ Þannig býr hann hjörtu þjóna sinna undir það að taka við ögun. Hvernig geta foreldrar ‚plægt‘ hjörtu barnanna til að leiðrétta þau? Faðir nokkur líkti eftir Jehóva þegar hann þurfti að siða fjögurra ára gamlan son sinn fyrir að berja annan dreng í hverfinu. Fyrst hlustaði hann á afsakanir sonarins og síðan ‚plægði‘ hann hjarta hans með því að segja honum sögu af litlum dreng sem varð illilega fyrir barðinu á hrekkjusvíni. Drengurinn hlýddi á söguna og sagði svo að það ætti að refsa hrekkjusvíninu. Með þessari ‚plægingu‘ auðveldaði faðirinn drengnum að átta sig á því að hann væri sjálfur sekur og að það hefði verið rangt að slá nágrannadrenginn. — 2. Samúelsbók 12:1-14.

17. Hvað geta foreldrar lært um leiðréttingu af Jesaja 28:26-29?

17 Jesaja líkti leiðréttingu Jehóva einnig við það hvernig bóndinn þreskir. Hann notar ólík áhöld, allt eftir því hve sterkt hýðið er. Hann notar þúst til að berja viðkvæmt kryddblóm og staf til að þreskja kúmen, en sleða eða vagnhjól til að þreskja korn með sterkara hýði. En hann gætir þess að mylja ekki kornið sundur. Jehóva notar líka mismunandi aðferðir þegar hann vill losa þjóna sína við eitthvað óæskilegt, allt eftir þörfum og aðstæðum. Hann er aldrei harðneskjufullur eða gerræðislegur. (Jesaja 28:26-29) Sum börn þurfa ekki annað en augnatillit frá foreldrum sínum en önnur þurfa endurteknar áminningar og sum enn sterkari fortölur. Sanngjarnir foreldrar leiðrétta börnin eftir þörfum hvers og eins.

Ánægjulegar umræður í fjölskyldunni

18. Hvernig geta foreldrar fundið tíma fyrir reglulegt fjölskyldunám?

18 Reglulegt fjölskyldubiblíunám og daglegar umræður um Biblíuna er einhver besta leiðin til að fræða börnin. Fjölskyldunámið er áhrifaríkast ef það er reglulegt. Ef tilviljun eða augnabliksákvörðun ræður því hvort námið fer fram er hætt við að lítið verði úr því. Foreldrar þurfa því að ‚kaupa upp tíma‘ til náms. (Efesusbréfið 5:15-17) En það er oft hægara sagt en gert að finna tíma sem hentar öllum. Fjölskyldufaðir nokkur komst að raun um að þegar börnin stækkuðu reyndist æ erfiðara að finna tíma þegar allir voru heima. En fjölskyldan var alltaf saman á samkomukvöldum svo að hann hélt fjölskyldunámið á slíku kvöldi. Það reyndist vel og öll börnin þrjú eru skírðir þjónar Jehóva.

19. Hvernig geta foreldrar líkt eftir Jehóva í sambandi við fjölskyldunámið?

19 En það er ekki nóg að fara aðeins yfir biblíulegt efni í náminu. Jehóva kenndi Ísraelsmönnum fyrir milligöngu prestanna sem ‚útskýrðu lögmálið svo að menn skildu hið upplesna.‘ (Nehemíabók 8:8) Fjölskyldufaðir nokkur dró sig alltaf í hlé fyrir fjölskyldunámið til að undirbúa sig og sníða námsefnið að þörfum hvers barns. Hann gerði námið ánægjulegt og börnin, sem eru sjö að tölu, lærðu öll að elska Jehóva. „Námið var alltaf skemmtilegt,“ segir einn af sonum hans sem nú er fullorðinn. „Ef við vorum í boltaleik úti í garði og það var kallað á okkur til að koma inn að nema hættum við alltaf strax í boltaleiknum og hlupum inn. Þetta var eitt skemmtilegasta kvöld vikunnar.“

20. Á hvaða hugsanlegt vandamál þurfum við að líta?

20 Sálmaritarinn sagði: „Sjá, synir eru gjöf frá [Jehóva], ávöxtur móðurkviðarins er umbun.“ (Sálmur 127:3) Barnauppeldi kostar bæði tíma og erfiði en gott uppeldi getur tryggt börnunum eilíft líf. Og það eru ómetanleg laun! Leggjum okkur því vel fram um að líkja eftir Jehóva við uppeldi barnanna. En þó svo að foreldrum sé lögð sú ábyrgð á herðar að ‚ala börnin upp með aga og umvöndun Jehóva‘ er ekki tryggt að útkoman verði góð. (Efesusbréfið 6:4) Jafnvel þótt foreldrar geri allt sem í þeirra valdi stendur getur barn gert uppreisn og hætt að þjóna Jehóva. Hvað er þá til ráða? Um það er fjallað í næstu grein.

Hvert er svarið?

• Hvernig geta foreldrar líkt eftir kærleika Jehóva sem lýst er í 5. Mósebók 32:11, 12?

• Hvað lærðir þú af samskiptum Jehóva við Ísraelsmenn?

• Hvað lærum við af því að Jehóva skyldi hlusta á beiðni Lots?

• Hvaða lærdóm má draga af Jesaja 28:24-29 um það að leiðrétta börnin?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Móse líkti ögun og umvöndun Jehóva við það hvernig örninn annast unga sína.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Foreldrar þurfa að taka sér tíma til að vera með börnunum.

[Mynd á blaðsíðu 12]

„Þetta var eitt skemmtilegasta kvöld vikunnar.“