Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lykillinn að hamingju mannkyns

Lykillinn að hamingju mannkyns

Lykillinn að hamingju mannkyns

„JESÚS frá Nasaret er langsamlega áhrifamesti maður allrar mannkynssögunnar — ekki aðeins síðastliðinna tvö þúsund ára,“ segir tímaritið Time. Þúsundir hjartahreinna manna viðurkenndu mikilleik Jesú þegar hann var hér á jörð, og ekki aðeins mikilleik hans heldur einnig umhyggju hans fyrir öðrum. Það kemur því ekki á óvart að menn skyldu vilja gera hann að konungi. (Jóhannes 6:10, 14, 15) En eins og fram kom í greininni á undan vildi hann ekki hafa afskipti af stjórnmálum.

VIÐBRÖGÐ Jesú byggðust að minnsta kosti á þrennu: afstöðu föður hans til þess hvort maðurinn hafi rétt til að ráða sér sjálfur og stjórna jörðinni, þeirri vitneskju að sterk öfl vinni í leynum gegn góðri viðleitni mennskra stjórnvalda og vissunni um að Guð ætli sér að koma á himneskri stjórn yfir allri jörðinni. Við skulum líta nánar á þetta þrennt og þá sjáum við hvers vegna mannkyninu hefur mistekist að bæta heiminn. Og við sjáum líka hvernig það verður gert.

Geta menn stjórnað sér sjálfir?

Þegar Guð skapaði manninn gaf hann honum yfirráð yfir dýraríkinu. (1. Mósebók 1:26) En mannkynið sjálft var undir æðstu yfirstjórn Guðs. Fyrsti maðurinn og fyrsta konan áttu að staðfesta undirgefni sína við hann með því að snerta ekki ávöxtinn á einu ákveðnu tré, „skilningstrénu góðs og ills.“ (1. Mósebók 2:17) Því miður misnotuðu Adam og Eva frjálsan vilja sinn og óhlýðnuðust Guði. Að taka forboðna ávöxtinn var meira en þjófnaður; það var uppreisn gegn drottinvaldi Guðs. The New Jerusalem Bible segir í neðanmálsgrein við 1. Mósebók 2:17 að Adam og Eva hafi gert kröfu „um algert sjálfstæði í siðferðilegum efnum þar sem maðurinn jafnframt neitar að viðurkenna stöðu sína sem sköpuð vera . . . Fyrsta syndin var árás á alræðisvald Guðs.“

Hér voru háalvarleg siðferðileg deilumál á ferðinni svo að Guð leyfði Adam og Evu og afkomendum þeirra að velja sér lífsbraut að eigin geðþótta, og þau settu sér eigin reglur um rétt og rangt. (Sálmur 147:19, 20; Rómverjabréfið 2:14) Það má því segja að tilraunin með sjálfsákvörðunarrétt mannsins hafi hafist þarna. Og hver er niðurstaðan? Við getum horft til baka yfir margar árþúsundir og sagt með öruggri vissu að niðurstaðan sé hrikaleg! Prédikarinn 8:9 segir að ‚einn maðurinn drottni yfir öðrum honum til ógæfu.‘ Þessi átakanlega saga af sjálfstjórn manna staðfestir orðin í Jeremía 10:23: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ Mannkynssagan hefur staðfest að menn eru ófærir um að stjórna svo vel sé án handleiðslu skaparans.

Jesús var fullkomlega sammála þessu. Honum þótti fráleitt að vera óháður Guði. „Ég gjöri ekkert af sjálfum mér,“ sagði hann, „því ég gjöri ætíð það sem [Guði] þóknast.“ (Jóhannes 4:34; 8:28, 29) Þar eð Jesús hafði ekki heimild Guðs til að taka við konungdómi af hendi manna hvarflaði ekki að honum að þiggja hann. En hann var ekki tregur til að hjálpa meðbræðrum sínum heldur gerði allt sem hann gat til að hjálpa fólki að hljóta mestu hamingju sem kostur var á, bæði í samtíð og framtíð. Hann gaf meira að segja líf sitt fyrir mannkynið. (Matteus 5:3-11; 7:24-27; Jóhannes 3:16) En hann vissi að „öllu er afmörkuð stund,“ þar á meðal því að Jehóva verji drottinvald sitt yfir alheimi. (Prédikarinn 3:1; Matteus 24:14, 21, 22, 36-39) En eins og við munum fóru foreldrar mannkyns að vilja illrar andaveru sem talaði í gegnum sýnilegan höggorm. Þar erum við komin að annarri ástæðunni fyrir því að Jesús forðaðist stjórnmál með öllu.

Leynilegur stjórnandi heimsins

Biblían segir frá því að Satan hafi boðið Jesú „öll ríki heims og dýrð þeirra“ í skiptum fyrir eina tilbeiðsluathöfn. (Matteus 4:8-10) Jesú var eiginlega boðið að verða heimsstjórnandi eftir skilmálum djöfulsins. Hann féll ekki fyrir þessari freistingu. En var þetta einhver freisting? Gat Satan virkilega gert Jesú þetta glæsilega tilboð? Já, því að Jesús kallaði hann ‚höfðingja heimsins‘ og Páll postuli sagði að hann væri „guð þessarar aldar.“ — Jóhannes 14:30; 2. Korintubréf 4:4; Efesusbréfið 6:12.

Jesús vissi auðvitað að djöflinum var ekki annt um mannkynið og kallaði hann ‚manndrápara, lygara og lyginnar föður.‘ (Jóhannes 8:44) Augljóst er að mannkynið getur aldrei verið hamingjusamt í raun og veru meðan það er „á valdi“ þessa illa anda. (1. Jóhannesarbréf 5:19) En djöfullinn mun ekki halda þessu valdi endalaust. Núna er Jesús voldugur andi og mun bráðlega taka Satan úr umferð og gera áhrif hans að engu. — Hebreabréfið 2:14; Opinberunarbókin 20:1-3.

Satan veit að dagar hans sem stjórnanda heims eru taldir. Þess vegna reynir hann allt sem hann getur til að gerspilla mönnum svo að þeim sé ekki viðbjargandi, rétt eins og hann gerði fyrir Nóaflóðið. (1. Mósebók 6:1-5; Júdasarbréfið 6) „Vei sé jörðunni og hafinu,“ segir Opinberunarbókin 12:12, „því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ Af biblíuspádómunum og heimsmálunum má sjá að þessi ‚naumi tími‘ er næstum útrunninn. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Lausnin er því í sjónmáli.

Stjórn sem tryggir hamingju mannkyns

Þriðja ástæðan fyrir því að Jesús kom ekki nærri stjórnmálum er sú að hann vissi að Guð myndi koma á himneskri stjórn yfir jörðinni á fastákveðnum tíma síðar meir. Biblían kallar þessa stjórn Guðsríki og hún var inntakið í kennslu Jesú. (Lúkas 4:43; Opinberunarbókin 11:15) Jesús kenndi lærisveinunum að biðja þess að ríki Guðs kæmi því að þá fyrst yrði ‚vilji Guðs gerður á jörðu sem á himni.‘ (Matteus 6:9, 10) En þér er kannski spurn hvað verði um stjórnir manna ef þetta Guðsríki á að ráða yfir allri jörðinni.

Svarið er að finna í Daníelsbók 2:44: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [sem menn hafa myndað], en sjálft mun það standa að eilífu.“ Af hverju þarf ríki Guðs að „knosa“ jarðneskar stjórnir? Af því að þær berjast fyrir því að fá að ráða sér sjálfar eins og Satan hvatti til í Eden og bjóða Guði þar með byrginn. Þeir sem vilja viðhalda þessum anda vinna gegn hagsmunum manna og stefna í bein átök við skaparann. (Sálmur 2:6-13; Opinberunarbókin 16:14, 16) Við hljótum því að spyrja okkur hvort við séum hlynnt stjórn Guðs eða andvíg.

Yfirráð hvers velur þú?

Jesús fól lærisveinunum að boða „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar“ áður en núverandi heimskerfi tæki enda. (Matteus 24:14) Þetta var gert til þess að fólk gæti tekið upplýsta afstöðu til stjórnar yfir jörðinni. Vottar Jehóva eru þekktir um allan heim nú á tímum fyrir að boða ríki Guðs. Orðin „kunngerir ríki Jehóva“ hafa lengi staðið á forsíðu þessa tímarits. Um sex milljónir votta í meira en 230 löndum hjálpa fólki að tileinka sér nákvæma þekkingu á þessu ríki. *

Þegnar Guðsríkis eiga mikla blessun í vændum

Jesús fylgdi starfsháttum Guðs í einu og öllu. Þess vegna fór hann ekki eigin leiðir né reyndi að styðja eða bæta það kerfi, sem fyrir var, eftir pólitískum leiðum, heldur studdi hag Guðsríkis með ráðum og dáð, vitandi að þetta ríki værir eina lausnin á vandamálum heimsins. Að launum fyrir hollustu sína var hann gerður að konungi þessa ríkis. Hvílík umbun fyrir undirgefni hans við Guð! — Daníel 7:13, 14.

Milljónir manna líkja eftir Jesú með því að lúta vilja Guðs í einu og öllu og láta ríki hans ganga fyrir öðru. (Matteus 6:33) Þeir fá líka að vera jarðneskir þegnar þessa ríkis. Undir stjórn þess verður þeim lyft upp til fullkomleika og þeir eiga eilíft líf fyrir sér. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Fyrsta Jóhannesarbréf 2:17 segir: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ Það verður unaðslegt að búa að eilífu á jörðinni eftir að Satan og fylgjendum hans er vikið úr vegi og jörðinni hefur verið breytt í paradís, þar sem sundrandi þjóðernishyggja, spillt viðskiptakerfi og fölsk trúarbrögð verða liðin tíð. — Sálmur 37:29; 72:16.

Já, ríki Guðs er lykillinn að hamingju mannkyns og það er sannkallað fagnaðarerindi. Ef þú hefur ekki tekið við þessu fagnaðarerindi nú þegar hvetjum við þig til að hlusta á það þegar vottar Jehóva banka upp á hjá þér næst.

[Neðanmáls]

^ gr. 16 Vottar Jehóva styðja Guðsríki og blanda sér hvorki í stjórnmál né kynda undir uppreisn gegn stjórnum heims, ekki einu sinni í löndum þar sem þeir eru ofsóttir eða starfsemi þeirra er bönnuð. (Títusarbréfið 3:1) Þeir reyna að leggja eitthvað gagnlegt og andlegt af mörkum en án stjórnmálaþátttöku, líkt og Jesús og lærisveinar hans gerðu á fyrstu öld. Vottarnir kappkosta að hjálpa réttsinna fólki hvar sem er að tileinka sér hin heilnæmu gildi Biblíunnar, svo sem ástúð í fjölskyldunni, heiðarleika, hreinlífi og gott vinnusiðferði. En öðru fremur leggja þeir sig fram um að kenna fólki að fylgja meginreglum Biblíunnar og treysta á ríki Guðs sem raunverulega von mannkyns.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Mannkynssagan sannar að mönnum er illa lagið að stjórna án handleiðslu Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Satan gat boðið Jesú „öll ríki heims“ af því að hann stjórnar því heimskerfi sem nú er.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Jesús boðaði að heimurinn yrði unaðslegur þegar Guðsríki tæki völd.