Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Rætist blessun Jehóva á þér?

Rætist blessun Jehóva á þér?

Rætist blessun Jehóva á þér?

„Þá munu fram við þig koma og á þér rætast allar þessar blessanir, ef þú hlýðir raustu [Jehóva] Guðs þíns.“ — 5. MÓSEBÓK 28:2.

1. Hvað skyldi ráða því hvort blessun eða bölvun félli Ísraelsmönnum í skaut?

ÍSRAELSMENN slá upp tjöldum á Móabsheiðum þegar 40 ára eyðimerkurganga þeirra er nærri á enda. Fyrirheitna landið blasir við þeim og Móse skrifar 5. Mósebók þar sem hann telur upp allmargar blessanir og bölvanir. Ef Ísraelsmenn ‚hlýða raustu Jehóva‘ munu blessanir „rætast“ á þeim. Hann elskar þá sem ‚eignarlýð‘ sinn og vill sýna sig máttugan þeim til hjálpar. En ef þeir halda ekki áfram að hlýða raust hans munu bölvanir hrína á þeim. — 5. Mósebók 8:10-14; 26:18; 28:2, 15.

2. Hvað merkja hebresku sagnirnar sem þýddar eru ‚hlýða‘ og „rætast“ eða „hrína á“ í 5. Mósebók 28:2?

2 Hebreska sagnorðið, sem þýtt er ‚hlýða‘ í 5. Mósebók 28:2, lýsir áframhaldandi athöfn. Blessun Jehóva rætist því aðeins á þjónum hans að þeir hlýði honum öllum stundum en ekki endrum og eins. Hebreska sagnorðið, sem þýtt er „rætast“ eða „hrína á,“ er notað um veiðar og merkir oftast „að draga uppi“ eða „að ná.“

3. Hvernig getum við líkt eftir Jósúa og hvers vegna er svo mikilvægt að gera það?

3 Jósúa, leiðtogi Ísraels, kaus að hlýða Jehóva og hlaut blessun fyrir vikið. Hann sagði: „Kjósið . . . í dag, hverjum þér viljið þjóna . . . Ég og mínir ættmenn munum þjóna [Jehóva].“ Landar hans svöruðu um hæl: „Fjarri sé það oss að yfirgefa [Jehóva] og þjóna öðrum guðum.“ (Jósúabók 24:15, 16) Rétt afstaða Jósúa varð til þess að hann fékk inngöngu í fyrirheitna landið, einn fárra af sinni kynslóð. Nú blasir við fyrirheitið land sem er miklu betra — jarðnesk paradís þar sem enn ríkari blessun en þá var bíður allra sem hafa velþóknun Guðs. Mun hún rætast á þér? Hún fellur þér í skaut ef þú heldur áfram að hlýða Jehóva. Við skulum skoða sögu Forn-Ísraels til að styrkja okkur í ásetningi okkar að hlýða honum og athuga jafnframt hvaða lærdóm megi draga af fordæmi nokkurra biblíupersóna. — Rómverjabréfið 15:4.

Blessun eða bölvun?

4. Hvernig svaraði Guð bæn Salómons og hvaða augum ættum við að líta slíka blessun?

4 Ísraelsmenn nutu ómældrar blessunar Jehóva mestan hluta stjórnartíma Salómons konungs. Þeir bjuggu öruggir og höfðu gnóttir gæða. (1. Konungabók 4:25) Salómon varð víðfrægur af auðæfum sínum þótt hann hafi ekki beðið Guð um ríkidæmi heldur um hlýðið hjarta af því að hann var enn ungur að aldri og óreyndur. Jehóva svaraði bæn hans með því að veita honum visku og skilning til að dæma rétt í málum manna og greina gott frá illu. Og þótt hann veitti Salómon ríkidæmi og heiður í ofanálag gerði Salómon sér grein fyrir því framan af ævinni að andlegur auður væri miklu verðmætari. (1. Konungabók 3:9-13) Hvort sem við höfum mikið eða lítið handa á milli getum við verið þakklát ef við höfum blessun Jehóva og erum andlega rík.

5. Hvað varð um íbúa Ísraels og Júda vegna þess að þeir hlýddu ekki Jehóva?

5 Ísraelsmenn kunnu ekki að meta blessun Jehóva og hlýddu honum ekki þannig að bölvunin, sem boðuð var, kom fram á þeim. Fyrir vikið sigruðu óvinaþjóðir þá og leiddu íbúa Ísraels og Júda í útlegð. (5. Mósebók 28:36; 2. Konungabók 17:22, 23; 2. Kroníkubók 36:17-20) Lærðu þeir af raunum sínum að blessun Jehóva rætist aðeins á þeim sem halda áfram að hlýða honum? Leifar Gyðinga, sem sneru heim árið 537 f.o.t., fengu tækifæri til að sýna hvort þær hefðu öðlast „viturt hjarta“ og skildu nú nauðsyn þess að hlýða Guði. — Sálmur 90:12.

6. (a) Hvers vegna sendi Jehóva spámennina Haggaí og Sakaría til að spá hjá fólki sínu? (b) Hvaða frumreglu er að finna í orðum Guðs fyrir munn Haggaís?

6 Hinir heimkomnu Gyðingar reistu altari og hófu að endurreisa musterið í Jerúsalem. En þegar þeir mættu kröftugri mótspyrnu dalaði kostgæfni þeirra og þeir hættu verkinu. (Esrabók 3:1-3, 10; 4:1-4, 23, 24) Þeir fóru líka að láta eigin þægindi ganga fyrir. Guð sendi því spámennina Haggaí og Sakaría til að glæða kostgæfni þeirra gagnvart sannri tilbeiðslu og sagði fyrir munn Haggaí: „Er þá tími fyrir yður að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta [tilbeiðsluhús] liggur í rústum? . . . Takið eftir, hvernig fyrir yður fer! Þér sáið miklu, en safnið litlu, etið, en verðið eigi saddir, . . . og sá sem vinnur fyrir kaupi, vinnur fyrir því í götótta pyngju.“ (Haggaí 1:4-6) Það hefur ekki blessun Jehóva í för með sér að fórna andlegum hugðarefnum fyrir efnislegan ávinning. — Lúkas 12:15-21.

7. Hvers vegna sagði Jehóva Gyðingum að ‚taka eftir hvernig fyrir þeim hefði farið‘?

7 Gyðingarnir voru svo niðursokknir í daglegt amstur að þeir gleymdu að Guð myndi eingöngu veita þeim regn og gjöfular árstíðir ef þeir héldu áfram að hlýða honum, jafnvel í ofsóknum. (Haggaí 1:9-11) Það átti því vel við að hvetja þá til að ‚taka eftir hvernig fyrir þeim hefði farið.‘ (Haggaí 1:7) Jehóva var í raun að segja þeim: ‚Staldrið við! Sjáið þið ekki samhengið milli árangurslausrar vinnu ykkar á ökrunum og hins bága ásigkomulags tilbeiðsluhúss míns?‘ Innblásin orð spámanna Jehóva náðu loks til hjarta fólksins. Það tók aftur til við musterisframkvæmdirnar og lauk þeim árið 515 f.o.t.

8. Til hvers hvatti Jehóva Gyðingana á tímum Malakís og hvers vegna?

8 Gyðingarnir voru aftur farnir að tvístíga andlega á tímum Malakís spámanns og færðu Guði jafnvel vanþóknanlegar fórnir. (Malakí 1:6-8) Jehóva hvatti þá til að færa tíund afurðanna í forðabúrið og reyna hann hvort hann lyki ekki upp fyrir þeim flóðgáttum himins og úthellti yfir þá yfirgnæfanlegri blessun. (Malakí 3:10) Það var heimskulegt að strita fyrir því sem Guð myndi hvort eð er gefa þeim í ríkum mæli ef þeir hlýddu raust hans. — 2. Kroníkubók 31:10.

9. Um hvaða þrjár biblíupersónur verður fjallað?

9 Auk sögu Ísraelsþjóðarinnar greinir Biblían frá lífi margra sem ýmist hlutu blessun Guðs fyrir að hlýða honum eða bölvun hans fyrir að gera það ekki. Athugum hvaða lærdóm má draga af þrem þeirra — Bóasi, Nabal og Hönnu — en frá þeim er sagt í Rutarbók, 1. Samúelsbók 1:1–2:21 og 1. Samúelsbók 25:2-42.

Bóas hlýddi Guði

10. Hvað áttu Bóas og Nabal sameiginlegt?

10 Bóas og Nabal voru ekki samtíðarmenn en áttu ýmislegt sameiginlegt. Báðir bjuggu til dæmis í Júda, voru auðugir landeigendur og fengu einstakt tækifæri til að sýna þurfandi fólki ástúð og umhyggju. En fleira áttu þeir ekki sammerkt.

11. Hvernig sýndi Bóas að hann hlýddi Jehóva?

11 Bóas var uppi á dómaratímanum í Ísrael. Hann sýndi öðrum virðingu og var í miklum metum hjá kornskurðarmönnum sínum. (Rutarbók 2:4) Hann gætti þess að bágstaddir og fátækir fengju að tína eftirtíning á akri hans eins og kveðið var á um í lögmálinu. (3. Mósebók 19:9, 10) Hvað gerði Bóas þegar hann frétti af Rut og Naomí og sá hve vel Rut hugsaði um þarfir aldraðrar tengdamóður sinnar? Hann sýndi Rut sérstaka tillitssemi og skipaði mönnum sínum að leyfa henni að tína á akrinum. Hann sýndi með orðum sínum og kærleiksverkum að hann var andlegur maður sem hlýddi Jehóva, og hlaut velþóknun hans og blessun fyrir vikið. — 3. Mósebók 19:18; Rutarbók 2:5-16.

12, 13. (a) Hvernig virti Bóas lausnarlög Jehóva? (b) Hvaða blessun frá Guði féll Bóasi í skaut?

12 Óeigingirni Bóasar í sambandi við lausnarlögin sýndi einna best fram á hlýðni hans við Jehóva. Hann gerði allt sem hann gat til að tryggja að arfleifð Elímeleks frænda síns, látins eiginmanns Naomí, héldist í fjölskyldunni. Nánasti ættingi látins eiginmanns skyldi gegna „mágskyldunni“ við ekkjuna með því að giftast henni og eignast með henni son sem tæki við arfleifðinni. (5. Mósebók 25:5-10; 3. Mósebók 25:47-49) Rut bauðst til að ganga í hjónaband í stað Naomí sem komin var úr barneign. Þegar náinn ættingi Elímeleks neitaði að hjálpa Naomí gekk Bóas að eiga Rut. Óbeð, sonur þeirra, var álitinn sonur Naomí og lögerfingi Elímeleks. — Rutarbók 2:19, 20; 4:1, 6, 9, 13-16.

13 Bóas hlaut ríkulega blessun fyrir ósérplægni sína og hlýðni við lög Guðs. Þau Rut nutu þeirrar blessunar að eignast soninn Óbeð og verða þannig forfaðir og formóðir Jesú Krists. (Rutarbók 2:12; 4:13, 21, 22; Matteus 1:1, 5, 6) Ósíngirni Bóasar kennir okkur að blessun fellur þeim í skaut er sýna öðrum kærleika og breyta eftir kröfum Guðs.

Nabal hlýddi ekki

14. Hvaða mann hafði Nabal að geyma?

14 Nabal neitaði að hlýða Jehóva, ólíkt Bóasi. Hann braut lög Guðs um að ‚elska náungann eins og sjálfan sig.‘ (3. Mósebók 19:18) Hann var ekki andlegur maður heldur „harður og illur viðureignar.“ Þjónar hans kölluðu hann jafnvel „hrakmenni.“ Hann bar nafn með rentu, enda merkir Nabal „fífl“ eða „heimskingi.“ (1. Samúelsbók 25:3, 17, 25) Hvað gerði hann er honum bauðst að sýna hjálparþurfa manni góðvild — Davíð, smurðum þjóni Jehóva? — 1. Samúelsbók 16:13.

15. Hvernig kom Nabal fram við Davíð og í hverju var Abígail ólík manni sínum?

15 Meðan Davíð og menn hans tjölduðu í nágrenninu vernduðu þeir hjarðir Nabals fyrir ránsflokkum án þess að biðja um greiðslu. „Þeir voru sem varnargarður í kringum oss bæði um nætur og daga,“ sagði einn af fjárhirðum Nabals. Þegar sendimenn Davíðs báðu Nabal um vistir ‚jós hann yfir þá fáryrðum‘ og sendi þá tómhenta burt. (1. Samúelsbók 25:2–16) Abígail, kona Nabals, fór um hæl með matföng til Davíðs sem var sárreiður og staðráðinn í að drepa Nabal og menn hans. Frumkvæði hennar varð mörgum til bjargar og forðaði Davíð frá blóðsekt. En Nabal hafði gengið of langt í óbilgirni sinni og ágirnd. Um tíu dögum síðar „laust [Jehóva] Nabal, svo að hann dó.“ — 1. Samúelsbók 25:18-38.

16. Hvernig getum við líkt eftir Bóasi og hafnað hátterni Nabals?

16 Það var reginmunur á þeim Bóasi og Nabal. Líkjum eftir góðvild og ósérplægni Bóasar en höfnum harðdrægni og eigingirni Nabals. (Hebreabréfið 13:16) Við getum gert það með því að taka til okkar ráðleggingar Páls postula: „Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:10) ‚Aðrir sauðir‘ Jesú, kristnir menn með jarðneska von, eru í aðstöðu til að gera smurðum þjónum Jehóva gott, leifum hinna 144.000 sem hljóta ódauðleika á himnum. (Jóhannes 10:16; 1. Korintubréf 15:50-53; Opinberunarbókin 14:1, 4) Jesús lítur á slík kærleiksverk sem góð verk í sinn garð og þau hafa ríkulega blessun Jehóva í för með sér. — Matteus 25:34-40; 1. Jóhannesarbréf 3:18.

Prófraun og blessun Hönnu

17. Í hvaða prófraun átti Hanna og hvaða viðhorf sýndi hún?

17 Blessun Jehóva rættist líka á hinni guðræknu Hönnu. Hún bjó á Efraímfjöllum ásamt manni sínum, levítanum Elkana. Hann átti aðra konu, Peninnu, en það var heimilt samkvæmt lögmálinu og giltu ákveðnar reglur þar um. Hanna var óbyrja, sem var smán fyrir ísraelska konu, en Peninna átti mörg börn. (1. Samúelsbók 1:1-3; 1. Kroníkubók 6:16, 33, 34) Í stað þess að hugga Hönnu kom hún illa fram við hana og skapraunaði henni svo að hún grét og neytti ekki matar. Þetta gerðist „ár eftir ár,“ í hvert sinn er fjölskyldan hélt til húss Jehóva í Síló. (1. Samúelsbók 1:4-8) Kaldlyndi Peninnu var mikil prófraun fyrir Hönnu. En hún kenndi Jehóva aldrei um og dvaldist heldur ekki heima þegar maður hennar fór til Síló. Ríkuleg blessun hlaut því að falla henni í skaut um síðir.

18. Hvaða fordæmi gaf Hanna?

18 Hanna er nútímaþjónum Jehóva gott fordæmi, einkum þeim sem hafa orðið fyrir meiðandi og óvinsamlegum ummælum annarra. Þegar slíkt gerist er lausnin ekki sú að einangra sig. (Orðskviðirnir 18:1) Hanna lét ekki prófraunirnar draga úr löngun sinni að vera þar sem kennsla í orði Guðs fór fram og fólk hans safnaðist til tilbeiðslu. Hún hélt sér andlega sterkri eins og sést vel á fagurri bæn hennar í 1. Samúelsbók 2:1-10. *

19. Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar fyrir það sem andlegt er?

19 Þjónar Jehóva tilbiðja ekki lengur í tjaldbúð en þeir geta samt sem áður sýnt þakklæti fyrir það sem andlegt er líkt og Hanna. Við getum til dæmis sýnt hve mikils við metum andleg auðæfi með því að sækja að staðaldri kristnar samkomur og mót. Notum þessi tækifæri til að hvetja hvert annað í sannri tilbeiðslu á Jehóva sem hefur veitt okkur að þjóna sér óttalaust í heilagleika og réttlæti. — Lúkas 1:74, 75; Hebreabréfið 10:24, 25.

20, 21. Hvernig var Hönnu umbunuð guðræknin?

20 Jehóva sá guðrækni Hönnu og umbunaði henni ríkulega. Á einni af árlegum ferðum fjölskyldunnar til Síló gerði hún heit og bað tárvotum augum til Guðs: „[Jehóva] allsherjar! Ef þú lítur á eymd ambáttar þinnar og minnist mín og gleymir eigi ambátt þinni og gefur ambátt þinni son, þá skal ég gefa hann [Jehóva] alla daga ævi hans.“ (1. Samúelsbók 1:9-11) Guð heyrði grátbeiðni Hönnu og veitti henni son sem hún nefndi Samúel. Þegar hann var vaninn af brjósti fór hún með hann til Síló svo að hann gæti þjónað við tjaldbúðina. — 1. Samúelsbók 1:20, 24-28.

21 Hanna elskaði Guð og stóð við það sem hún lofaði varðandi Samúel. Og hugleiddu þá ríkulegu blessun sem hún og Elkana hlutu vegna þess að ástkær sonur þeirra þjónaði við tjaldbúð Jehóva. Margir kristnir foreldrar njóta sams konar gleði og blessunar vegna þess að börn þeirra þjóna í fullu starfi sem brautryðjendur, Betelítar eða á aðra vegu Jehóva til heiðurs.

Haltu áfram að hlýða Jehóva

22, 23. (a) Hverju getum við treyst ef við höldum áfram að hlýða raust Jehóva? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?

22 Hverju getum við treyst ef við höldum áfram að hlýða Jehóva? Ef við elskum hann af allri sálu og lifum samkvæmt vígsluheiti okkar verðum við andlega rík. Þótt slík lífsstefna kunni að kalla á erfiðar prófraunir rætist blessun Jehóva á okkur um síðir, og oft í mun meiri mæli en okkur órar fyrir. — Sálmur 37:4; Hebreabréfið 6:10.

23 Margs konar blessun fellur fólki Guðs í skaut í framtíðinni. „Mikill múgur“ kemst lífs af úr „þrengingunni miklu“ vegna hlýðni sinnar við Jehóva og fær að njóta lífsins í nýjum heimi hans þar sem hann fullnægir réttlátum löngunum allra þjóna sinna. (Opinberunarbókin 7:9-14; 2. Pétursbréf 3:13; Sálmur 145:16) En þeir sem hlýða Jehóva geta nú þegar hlotið ‚góðar gjafir og fullkomnar gáfur að ofan‘ eins og næsta grein sýnir fram á.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Orð Hönnu líkjast í sumu því sem María mey sagði skömmu eftir að hún frétti að hún skyldi verða móðir Messíasar. — Lúkas 1:46-55.

Manstu?

• Hvað kennir saga Ísraels okkur um blessun Guðs?

• Á hvaða hátt voru Bóas og Nabal ólíkir?

• Hvernig getum við líkt eftir Hönnu?

• Hvers vegna eigum við að halda áfram að hlýða raust Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Salómon konungur bað um hlýðið hjarta og Jehóva veitti honum visku.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Bóas sýndi öðrum virðingu og góðvild.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Hanna reiddi sig á Jehóva og hlaut ríkulega blessun fyrir.