Öðlumst hjarta Jehóva að skapi
Öðlumst hjarta Jehóva að skapi
„Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ — SÁLMUR 51:12.
1, 2. Af hverju ættum við að láta okkur annt um hjartað?
ELSTI sonur Ísaí var hávaxinn og myndarlegur. Samúel spámaður hreifst svo af útliti hans að hann ályktaði sem svo að Jehóva Guð hlyti að hafa valið hann sem arftaka Sáls konungs. En Jehóva sagði um hann: „Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt því að ég hefi hafnað honum. . . . Mennirnir líta á útlitið, en [Jehóva] lítur á hjartað.“ Síðan kom í ljós að Jehóva hafði valið Davíð, yngsta son Ísaí, ‚mann eftir sínu hjarta.‘ — 1. Samúelsbók 13:14; 16:7.
Jeremía 17:10) Jehóva „prófar hjörtun.“ (Orðskviðirnir 17:3) En hvað er átt við þegar sagt er að Jehóva prófi og rannsaki hjartað og hvað getum við gert til að öðlast hjarta sem er honum þóknanlegt?
2 Guð getur lesið hvað býr í mannshjartanu eins og kom fram síðar: „Ég, [Jehóva], er sá, sem rannsaka hjartað, prófa nýrun, og það til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans, eftir ávexti verka hans.“ („Hinn huldi maður hjartans“
3, 4. Hvernig er orðið „hjarta“ fyrst og fremst notað í Biblíunni? Nefndu dæmi.
3 Frummálsorðin, sem oftast eru þýdd „hjarta,“ standa um þúsund sinnum í Heilagri ritningu, oftast í óeiginlegri merkingu. Til dæmis sagði Jehóva spámanninum Móse: „Seg Ísraelsmönnum að þeir færi mér gjafir. Af hverjum þeim manni skuluð þér gjöf taka mér til handa, sem gefur hana af fúsum huga.“ Og menn „gáfu af fúsum huga.“ (2. Mósebók 25:2; 35:21) Á báðum þessum stöðum stendur „hjarta“ samkvæmt frummálinu. Ljóst er að einn þáttur hins táknræna hjarta er áhugahvöt, hinn innri kraftur sem hvetur okkur til athafna. Hið táknræna hjarta er einnig nefnt í tengslum við tilfinningar, langanir og hrifningu. Það getur fyllst reiði eða ótta og harmi eða fögnuði. (Sálmur 27:3; 39:4; Jóhannes 16:22; Rómverjabréfið 9:2) Það getur verið hrokafullt eða auðmjúkt og það getur elskað eða hatað. — Orðskviðirnir 21:416:5, NW; Matteus 11:29; 1. Pétursbréf 1:22.
4 „Hjartað“ er því oft sett í samband við áhugahvatir og tilfinningar en „hugur“ við vitsmuni og skilning. Þannig ber að skilja þessi orð þegar þau standa saman í Ritningunni. (Matteus 22:37; Filippíbréfið 4:7) En oft skarast merkingin. Móse hvatti til dæmis Ísraelsmenn: „Þá ber þér í dag að kannast við það og hugfesta það, að [Jehóva], hann er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri og enginn annar.“ (5. Mósebók 4:39) Jesús spurði til dæmis fræðimennina sem sátu á svikráðum við hann: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar?“ (Matteus 9:4) Hjartað getur verið „skynugt,“ leitað að ‚þekkingu‘ og ‚hugsað.‘ (1. Konungabók 3:12; Orðskviðirnir 15:14; Markús 2:6) Hið táknræna hjarta getur því tengst vitsmunum, hugsunum og skilningi.
5. Hvað táknar hjartað?
5 Heimildarrit bendir á að hjartað tákni „kjarna almennt, hið innra eðli, þannig að það táknar hinn innri mann eins og hann birtist í ýmsum verkum, löngunum, hrifningu, tilfinningum og ástríðum, ásetningi, hugsunum, skilningi, ímyndun, visku og þekkingu, færni, trú, rökhugsun, minni og vitund.“ Það táknar hið raunverulega eðli okkar, ‚hinn hulda mann hjartans.‘ (1. Pétursbréf 3:4) Það er hann sem Jehóva sér og rannsakar. Þess vegna bað Davíð: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ (Sálmur 51:12) Hvernig getum við öðlast hreint hjarta?
„Leggið ykkur á hjarta“ orð Guðs
6. Hvernig hvatti Móse Ísraelsmenn á Móabsheiðum?
6 Móse sagði Ísraelsmönnum er þeir söfnuðust saman á Móabsheiðum áður en þeir gengu inn í fyrirheitna landið: „Leggið ykkur á hjarta öll þau orð sem ég hef flutt ykkur í dag. Brýnið fyrir börnum ykkar að halda öll ákvæði þessara laga og framfylgja þeim.“ (5. Mósebók 32:46, Biblíurit, ný þýðing 1995) Ísraelsmenn áttu að ‚hugfesta öll þessi orð.‘ (Biblían 1981) Þeir þurftu að vera vel heima í boðorðum Guðs til að geta brýnt þau fyrir börnum sínum. — 5. Mósebók 6:6-8.
7. Hvað er fólgið í því að ‚leggja orð Guðs okkur á hjarta‘?
7 Nákvæm þekking á vilja Guðs og ásetningi er forsenda þess að eignast hreint hjarta. Innblásið orð hans er eina uppspretta þessarar þekkingar. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Huglæg þekking nægir ekki ein sér til að öðlast hjarta sem er Jehóva þóknanlegt. Til að þekking hafi áhrif á hinn innri mann þurfum við að ‚leggja okkur á hjarta‘ það sem við lærum. (5. Mósebók 32:46) Hvernig gerum við það? Sálmaritarinn Davíð segir: „Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.“ — Sálmur 143:5.
8. Hvaða spurningum getum við velt fyrir okkur þegar við nemum?
8 Við ættum líka að hugleiða verk Jehóva með þakklæti. Þegar við lesum í Biblíunni og biblíutengdum ritum þurfum við að hugleiða spurningar eins og: ‚Hvað segir þetta um Jehóva? Hvaða eiginleikar Jehóva birtast hér? Hvað geðjast Jehóva og hvað ekki miðað við þessa frásögu? Hvaða afleiðingar hefur það að fylgja þeirri stefnu sem er Jehóva að skapi, ólíkt þeirri stefnu sem hann hatar? Hvernig tengjast þessar upplýsingar fyrri þekkingu minni?‘
9. Hve mikilvægt er einkanám og hugleiðing?
9 Lísa * er 32 ára. Hún lýsir því hvernig hún áttaði sig á gildi markviss náms og hugleiðingar: „Ég lét skírast árið 1994 og var síðan mjög virk í sannleikanum um tveggja ára skeið. Ég sótti safnaðarsamkomur, var 30 til 40 tíma í boðunarstarfinu í hverjum mánuði og hafði félagsskap við trúsystkini mín. En síðan fjarlægðist ég söfnuðinn. Ég sökk svo djúpt að ég braut meira að segja lög Guðs. En svo kom ég til sjálfrar mín og ákvað að taka upp hreint líferni að nýju. Ég er Jehóva innilega þakklát fyrir að viðurkenna iðrun mína og taka við mér aftur! Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna ég féll frá og ég fæ alltaf sama svarið: Ég vanrækti markvisst nám og hugleiðingu. Sannleikur Biblíunnar hafði hreinlega ekki náð til hjartans. Héðan í frá skal einkanám og hugleiðing alltaf vera snar þáttur í lífi mínu.“ Það er afar mikilvægt að gefa okkur tíma til hugleiðingar jafnframt því að vaxa í þekkingu á Jehóva, syni hans og orði.
10. Af hverju er mikilvægt að skapa sér svigrúm til einkanáms og hugleiðingar?
10 Það er ekki hlaupið að því að finna sér tíma til náms og hugleiðingar í þessum annasama heimi. En kristnir menn standa nú á þröskuldi hins réttláta nýja heims sem Guð hefur lofað. (2. Pétursbréf 3:13) Við blasa miklir atburðir eins og eyðing ‚Babýlonar hinnar miklu‘ og árás ‚Gógs í Magóglandi‘ á fólk Jehóva. (Opinberunarbókin 17:1, 2, 5, 15-17; Esekíel 38:1-4, 14-16; 39:2) Það sem framundan er getur verið prófraun á kærleika okkar til Jehóva. Það er því mikilvægt að taka sér tíma núna til að leggja orð Guðs sér á hjarta. — Efesusbréfið 5:15, 16.
‚Undirbúðu hjartað til að leita ráða í orði Guðs‘
11. Hvernig má líkja hjartanu við jarðveg?
11 Líkja má hinu táknræna hjarta við jarðveg þar sem hægt er að sá sæði sannleikans. (Matteus 13:18-23) Það þarf að losa um jarðveg til að tryggja góðan vöxt og uppskeru. Eins þarf að undirbúa hjartað og gera það sem móttækilegast fyrir orði Guðs. Esra prestur ‚undirbjó hjarta sitt til að leita ráða í lögum Jehóva og breyta eftir þeim.‘ (Esrabók 7:10, NW ) Hvernig getum við undirbúið hjartað?
12. Hvernig er hægt að búa hjartað undir nám?
12 Innileg bæn er prýðisleið til að undirbúa hjartað þegar leitað er í orð Guðs. Sannkristnir menn hefja samkomur og ljúka þeim með bæn. Það er líka viðeigandi að hefja einkabiblíunámsstund með einlægri bæn og vera í bænarhug meðan námið stendur yfir.
13. Hvað þurfum við að gera til að öðlast hjarta Jehóva að skapi?
13 Það þarf að búa hjartað undir það að setja fyrir fram ákveðnar skoðanir til hliðar. Trúarleiðtogarnir á dögum Jesú voru ófáanlegir til þess. (Matteus 13:15) María, móðir hans, geymdi hins vegar „í hjarta sér“ þau sannindi sem hún heyrði, hugleiddi þau og varð trúr lærisveinn hans. (Lúkas 2:19, 51) Lýdía frá Þýatíru hlýddi á Pál og „opnaði [Jehóva] hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði.“ Hún tók líka trú. (Postulasagan 16:14, 15) Ríghöldum aldrei í eigin hugmyndir eða kennisetningar sem við höfum dálæti á. Látum heldur ‚Guð reynast sannorðan þótt hver maður reyndist lygari.‘ — Rómverjabréfið 3:4.
14. Hvernig getum við búið hjartað undir að hlusta á safnaðarsamkomum?
14 Það er sérstaklega mikilvægt að búa hjartað undir að hlusta á safnaðarsamkomum. Truflanir geta dregið athygli okkar frá því sem verið er að segja. Hið talaða orð hefur lítil áhrif á okkur ef við erum niðursokkin í það sem gerðist fyrr um daginn eða áhyggjufull út af því sem bíður okkar á morgun. Við þurfum að vera staðráðin í að hlusta og læra til að hafa gagn af því sem sagt er. Við höfum mikið gagn af samkomunum ef við erum ákveðin í að skilja ritningarstaðina sem verið er að útlista og skýra. — Nehemíabók 8:5-8, 12.
15. Hvernig gerir auðmýkt okkur móttækileg fyrir kennslu?
2. Konungabók 22:19) Hjarta Jósía var auðmjúkt og móttækilegt. Lærisveinar Jesú voru „ólærðir leikmenn“ en gátu skilið andleg sannindi og farið eftir þeim af því að þeir voru auðmjúkir. Þau voru hins vegar hulin ‚spekingum og hyggindamönnum.‘ (Postulasagan 4:13; Lúkas 10:21) Við skulum ‚auðmýkja okkur fyrir Guði‘ og reyna að öðlast hjarta honum að skapi. — Esrabók 8:21.
15 Hægt er að auka frjósemi jarðvegs með áburði og ýmsu fleiru, og eins getur auðmýkt, löngun í andlegt hugarfar, traust, guðsótti og kærleikur til Guðs auðgað hið táknræna hjarta. Auðmýkt mýkir hjartað og gerir það móttækilegra fyrir kennslu. Jehóva sagði við Jósía Júdakonung: „Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú auðmýktir þig fyrir [Jehóva], er þú heyrðir, hvað ég hafði talað . . . og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég og bænheyrt þig.“ (16. Af hverju kostar það áreynslu að glæða með sér hungur eftir andlegri fæðu?
16 Jesús sagði: „Sælir eru þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína.“ (Matteus 5:3, NW ) Okkur eru gefnir andlegir hæfileikar en álag þessa illa heims eða leti geta slævt vitundina um það að við þurfum að rækta þá. (Matteus 4:4) Við þurfum að glæða með okkur góða andlega matarlyst. Við uppgötvum að ‚þekking verður sálu okkar yndisleg‘ ef við erum þrautseig og þá förum við að hlakka til námsstundanna, þó að við höfum ekki sérstaka ánægju af biblíulestri og einkanámi til að byrja með. — Orðskviðirnir 2:10, 11.
17. (a) Af hverju verðskuldar Jehóva algert traust okkar? (b) Hvernig getum við styrkt traust okkar á Guði?
17 „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit,“ hvatti Salómon konungur. (Orðskviðirnir 3:5) Hjarta, sem treystir á Jehóva, veit að allt sem hann biður um eða leiðbeinir um í orði sínu er rétt. (Jesaja 48:17) Jehóva verðskuldar svo sannarlega algert traust okkar. Hann getur komið til leiðar öllu sem hann ætlar sér. (Jesaja 40:26, 29) Nafn hans merkir meira að segja „hann lætur verða“ og það treystir þá sannfæringu að hann geti uppfyllt allt sem hann hefur heitið! Hann er „réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.“ (Sálmur 145:17) Til að styrkja traust okkar þurfum við auðvitað að ‚finna og sjá að Jehóva er góður‘ með því að fara eftir því sem við lærum í Biblíunni og ígrunda hvernig það getur verið okkur til góðs. — Sálmur 34:9.
18. Hvernig er guðsótti hjálp til að vera móttækileg fyrir leiðsögn Guðs?
18 „Óttast [Jehóva] og forðast illt,“ segir Salómon og bendir þar á annan eiginleika sem gerir hjartað móttækilegt fyrir leiðsögn Guðs. (Orðskviðirnir 3:7) Jehóva sagði um Ísrael að fornu: „Ó, að þeir hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga, svo að þeim vegni vel og börnum þeirra um aldur og ævi.“ (5. Mósebók 5:29) Þeir sem óttast Guð hlýða honum. Hann getur ‚sýnt sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann,‘ og til að refsa þeim sem óhlýðnast honum. (2. Kroníkubók 16:9) Látum verk okkar, hugsanir og tilfinningar alltaf stjórnast af lotningu og guðsótta.
‚Elskaðu Jehóva af öllu hjarta‘
19. Hvernig getur kærleikurinn gert okkur næm fyrir leiðsögn Jehóva?
19 Kærleikurinn gerir hjörtu okkar móttækileg, meira en nokkuð annað, fyrir leiðsögn Jehóva. Ef hjartað er fullt af kærleika til Guðs langar okkur til að læra hverju hann hefur þóknun á og hvað er honum ekki að skapi. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Jesús sagði: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:37) Styrkjum kærleikann til Guðs með því að venja okkur á að hugleiða gæsku hans, með því að tala reglulega við hann eins og náinn vin og með því að vera áköf að segja öðrum frá honum.
20. Hvernig getum við öðlast hjarta sem er Jehóva að skapi?
20 Rifjum meginatriðin upp að lokum: Til að
öðlast hjarta, sem er Jehóva að skapi, þurfum við að leyfa orði hans að hafa áhrif á okkar innri mann, hinn hulda mann hjartans. Innihaldsríkt einkanám í Biblíunni, hugleiðing og þakklæti er nauðsynlegt. Besta leiðin til þess er sú að undirbúa hjartað — losa það við fyrir fram ákveðnar skoðanir og fylla það eiginleikum sem gera okkur móttækileg fyrir kennslu. Með hjálp Jehóva er hægt að öðlast hjarta sem er honum að skapi. En hvað er hægt að gera til að vernda hjartað?[Neðanmáls]
^ gr. 9 Nafninu er breytt.
Hvert er svarið?
• Hvað er hið táknræna hjarta sem Jehóva rannsakar?
• Hvernig er hægt að ‚leggja orð Guðs sér á hjarta‘?
• Hvernig ættum við að undirbúa hjartað til að leita ráða í orði Guðs?
• Hvað langar þig til að gera eftir að hafa farið yfir þetta efni?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 13]
Davíð kunni að meta andleg mál og hugleiddi þau. Hvað um þig?
[Myndir á blaðsíðu 15]
Undirbúðu hjartað áður en þú sest niður til biblíunáms.