Gullna reglan — algild lífsregla
Gullna reglan — algild lífsregla
„Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ — Matteus 7:12.
JESÚS KRISTUR sagði þessi orð í fjallræðunni frægu fyrir næstum 2000 árum. Um allar aldir síðan hefur mikið verið skrifað og sagt um þessi einföldu ummæli. Þau hafa meðal annars verið lofuð sem „kjarni Ritningarinnar,“ „grundvallarskylda kristins manns gagnvart náunganum“ og „undirstöðulífsregla.“ Þessi orð eru svo vel þekkt að menn kalla þau gullnu regluna.
En hugmyndafræði gullnu reglunnar takmarkast ekki aðeins við hinn svokallaða kristna heim. Í gyðingdóm, búddhatrú og grískri heimspeki hefur líka verið fjallað um þessa lífsreglu á einn eða annan hátt. Spakmæli Konfúsíusar er vel þekkt í Austurlöndum fjær en þar er hann virtur sem mesti spekingur og kennari allra tíma. Það kemur þrisvar sinnum fyrir í þriðja bindi hinna Fjögurra bóka hans. Tvívegis svaraði hann fyrirspurnum nemenda sinna þannig: „Gerðu ekki öðrum það sem þú vilt ekki að þeir geri þér.“ Og við annað tækifæri þegar Zigong, nemandi hans, hreykti sér upp og sagði: „Ég vil ekki gera öðrum það sem ég vil ekki að þeir geri mér,“ svaraði hann skynsamlega og sagði: „En þetta ertu ekki enn fær um að gera.“
Þegar við lesum þetta sjáum við að orð Konfúsíusar eru „andhverf“ útgáfa af því sem Jesús sagði síðar. Munurinn er augljóslega sá að gullna reglan, sem Jesús setti fram, krefst þess að við tökum frumkvæði að því að vinna góðverk í þágu annarra. Heldurðu ekki að heimurinn yrði betri ef allir hegðuðu sér í samræmi við orð Jesú, létu sér annt um náungann, hefðu frumkvæði að því að hjálpa öðrum og lifðu daglega í samræmi við boð hans? Tvímælalaust.
Það skiptir ekki öllu máli hvernig reglan er sett fram, aðalatriðið er að í aldanna rás hefur fólk á ólíkum stöðum og með mismunandi bakgrunn sett mikið traust á hugmyndafræði gullnu reglunnar. Þetta sýnir einfaldlega fram á að lífsreglan, sem Jesús setti fram í fjallræðunni, er algild og snertir líf fólks alls staðar í heiminum á hvaða tímaskeiði sem er.
Spyrðu sjálfan þig: ‚Vildi ég að aðrir sýndu mér virðingu, sanngirni og
heiðarleika? Vildi ég búa í heimi sem væri laus við kynþáttafordóma, glæpi og stríð? Vildi ég tilheyra fjölskyldu þar sem allir bæru umhyggju hver fyrir öðrum?‘ Hver myndi eiginlega hafna slíkum boðum? En blákaldur veruleikinn er sá að mjög fáir búa við aðstæður sem þessar. Flestir geta ekki einu sinni leyft sér að dreyma um slíkt.Gullna reglan smánuð
Alla mannkynssöguna hafa glæpir verið framdir gegn mannkyninu þar sem mannréttindi eru algerlega virt að vettugi. Sem dæmi má nefna þrælasöluna frá Afríku, útrýmingarbúðir nasista, nauðungarvinnu barna og grimmileg þjóðarmorð á ýmsum stöðum. Þessi hræðilegi listi gæti verið miklu lengri.
Nútímavætt þjóðfélag okkar er sjálfselskt. Fáir hugsa um hag annarra þegar eigin hagur eða svokölluð réttindi eru í húfi. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Af hverju eru svona margir orðnir eigingjarnir, grimmir, harðbrjósta og sjálfselskir? Er það ekki vegna þess að þótt margir þekki gullnu regluna þá er henni ýtt til hliðar og hún álitin vera úrelt og óraunhæf? Því miður er það svo jafnvel hjá mörgum sem segjast trúa á Guð. Og allt bendir til þess að fólk eigi aðeins eftir að verða eigingjarnara.
Spurningarnar, sem nauðsynlegt er að hugleiða, eru því þessar: Hvað felst í því að lifa samkvæmt gullnu reglunni? Lifir einhver enn þá eftir henni? Og mun sá tími koma þegar allir menn lifa í samræmi við gullnu regluna? Lestu næstu grein til að fá áreiðanleg svör við þessum spurningum.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Konfúsíus og aðrir kenndu ýmsar útgáfur af gullnu reglunni.