Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gullna reglan er enn í gildi

Gullna reglan er enn í gildi

Gullna reglan er enn í gildi

Þó að flestir álíti Jesú höfund gullnu reglunnar sagði hann sjálfur: „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.“ — Jóhannes 7:16.

SKAPARINN, Jehóva Guð, er höfundur þess sem Jesús kenndi, þar á meðal gullnu reglunnar sem svo er nefnd.

Upprunalega ætlaðist Guð til þess að allir menn kæmu fram við aðra eins og þeir vildu að aðrir kæmu fram við sig. Sjálfur sýndi hann mikla umhyggju fyrir velferð annarra með gerð mannsins því að hann „skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ (1. Mósebók 1:27) Þetta þýðir að í kærleika sínum skapaði Guð mennina með sömu einstæðu eiginleika og hann hefur sjálfur. Þetta gerði hann til þess að þeir gætu notið lífsins í friði, hamingju og samlyndi og haft eilíft líf fyrir sjónum. Ef þeir þjálfuðu samviskuna, sem hann gaf þeim, átti hún að fá þá til að koma fram við aðra eins og þeir vildu að aðrir kæmu fram við sig.

Eigingirnin tók völdin

En hvað gerðist fyrst skilyrði manna voru svona góð í byrjun? Í stuttu máli sagt hélt eigingirnin innreið sína. Flestir þekkja frásögu Biblíunnar í 3. kafla 1. Mósebókar þar sem sagt er frá því hvað fyrstu mannhjónin gerðu. Af eigingirni höfnuðu Adam og Eva yfirráðum Guðs og kusu að vera óháð honum og ráða sér sjálf. Þetta gerðu þau að undirlagi Satans sem er andstæðingur alls þess er Guð stendur fyrir. Sjálfselska þeirra og uppreisn olli sjálfum þeim miklu tjóni og hafði auk þess hörmuleg áhrif á ófædda afkomendur þeirra. „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) Þetta sýndi ótvíræðar afleiðingar þess að hunsa lífsregluna sem síðar varð kölluð gullna reglan.

Þó að mannkynið í heild sinni hefði snúið baki við kærleiksríkum vegum Jehóva Guðs yfirgaf hann það ekki. Til dæmis gaf hann Ísraelsmönnunum lögmálið til leiðsagnar. Það kenndi þeim að koma fram við aðra eins og þeir vildu að aðrir kæmu fram við sig. Lögmálið sagði þeim hvernig þeir ættu að koma fram við þræla, munaðarlausa og ekkjur. Það útlistaði hvernig tekið skyldi á málum eins og líkamsárásum, mannráni og þjófnaði. Hreinlætisreglurnar báru vott um umhyggju fyrir heilsu annarra. Það voru jafnvel reglur um kynferðismál. Jehóva dró saman inntak lögmálsins með því að segja fólkinu það sem Jesús vitnaði í síðar: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (3. Mósebók 19:18; Matteus 22:39, 40) Lögmálið fjallaði líka um það hvernig komið skyldi fram við útlendinga sem bjuggu meðal Ísraelsmanna. Það skipaði svo fyrir: „Eigi skalt þú veita útlendum manni ágang. Þér vitið sjálfir, hvernig útlendum manni er innanbrjósts, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi.“ Ísraelsmenn áttu með öðrum orðum að sýna bágstöddum hluttekningu og góðvild. — 2. Mósebók 23:9; 3. Mósebók 19:34; 5. Mósebók 10:19.

Jehóva blessaði Ísraelsþjóðina meðan hún fylgdi lögmálinu. Í stjórnartíð Davíðs og Salómons vegnaði þjóðinni vel og fólkið var ánægt. Forn frásaga segir: „Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir . . . Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré.“ — 1. Konungabók 4:20, 25.

En friður og öryggi þjóðarinnar entist því miður ekki lengi. Þó að Ísraelsmenn hefðu lögmál Guðs fylgdu þeir því ekki; þeir leyfðu eigingirninni að bæla niður umhyggjuna fyrir öðrum og margir hurfu frá trúnni. Þetta leiddi mikla erfiðleika yfir þá sjálfa og þjóðina í heild. Að lokum, árið 607 f.o.t., leyfði Jehóva Babýloníumönnum að eyða Júdaríki, Jerúsalemborg og meira að segja musterinu stórfenglega sem þar stóð. Af hverju gerði hann það? „Af því að þér hlýdduð ekki orðum mínum, þá vil ég láta sækja allar kynkvíslir norðursins — segir [Jehóva]— og Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og láta þá brjótast inn yfir þetta land og inn á íbúa þess og inn á allar þessar þjóðir hér umhverfis, og ég vil helga þá banni og gjöra þá að skelfing og spotti og eilífri háðung.“ (Jeremía 25:8, 9) Það reyndist þeim dýrkeypt að yfirgefa sanna tilbeiðslu.

Fordæmi til eftirbreytni

Jesús Kristur kenndi ekki einungis gullnu regluna heldur gaf hann einnig besta fordæmið í að fara eftir henni. Hann lét sér raunverulega annt um velferð annarra. (Matteus 9:36; 14:14; Lúkas 5:12, 13) Eitt sinn er Jesús var staddur í grennd við borgina Nain sá hann niðurbrotna ekkju fylgja einkasyni sínum til grafar. Frásaga Biblíunnar segir: „Er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana.“ (Lúkas 7:11-15) Orðin sem þýdd eru „kenndi í brjósti um“ þýða samkvæmt Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words „að vera snortinn innst inni.“ Hann skynjaði hjartasorg hennar og ákvað að hugga hana. Gleði ekkjunnar var svo sannarlega mikil þegar Jesús reisti drenginn upp frá dauðum og „gaf hann móður hans.“

Í samræmi við ásetning Guðs leið Jesús að lokum miklar þjáningar og gaf líf sitt sem lausnargjald svo að mannkynið gæti losnað undan áþján syndar og dauða. Þetta var æðsta dæmið um að lifa eftir gullnu reglunni. — Matteus 20:28; Jóhannes 15:13; Hebreabréfið 4:15.

Fólk sem fer eftir gullnu reglunni

Er til fólk nú á dögum sem lifir eftir gullnu reglunni? Já, og það gerir það ekki bara þegar því hentar. Á valdatíma nasista í Þýskalandi varðveittu vottar Jehóva trú á Guð og kærleika til náungans og neituðu að víkja frá gullnu reglunni. Á meðan ríkið ýtti undir hatur og mismunun á Gyðingum héldu vottar Jehóva áfram að fylgja gullnu reglunni. Jafnvel í útrýmingarbúðunum létu þeir sér annt um náungann og gáfu hungruðu fólki af þeim litla mat sem þeir höfðu, gyðingum jafnt sem öðrum. Og þó að ríkið hafi skipað þeim að taka sér vopn í hönd í síðari heimsstyrjöldinni og drepa aðra neituðu þeir að gera slíkt á sama hátt og þeir vildu ekki að aðrir dræpu sig. Hvernig gátu þeir drepið þá sem þeir áttu að elska eins og sjálfa sig? Af þessum sökum voru margir þeirra ekki einungis settir í fangabúðir heldur voru þeir teknir af lífi. — Matteus 5:43-48.

Þegar þú lest þessa grein nýturðu góðs af öðru dæmi um gullnu regluna í verki. Vottar Jehóva gera sér grein fyrir því að margir nú á tímum eiga erfitt og hafa enga von. Þess vegna taka þeir frumkvæði að því að hjálpa öðrum að kynna sér þá von og þær hagnýtu leiðbeiningar sem við finnum í Biblíunni. Allt er þetta þáttur í alþjóðlegu fræðslustarfi sem er nú víðtækara en nokkru sinni fyrr. Hver er árangurinn? Eins og spáð var fyrir í Jesaja 2:2-4 hafa „margar þjóðir“ eða rúmlega sex milljónir manna út um allan heim verið fræddar um vegi Jehóva og „ganga á hans stigum.“ Þær hafa í táknrænni merkingu lært að „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.“ Þær hafa fundið frið og öryggi á þessum erfiðu tímum.

Hvað með þig?

Hugleiddu aðeins þá angist og erfiðleika sem brot á gullnu reglunni hefur leitt yfir mannkynið allt frá uppreisninni sem Satan kom af stað í Eden. En Jehóva ætlar bráðum að gerbreyta ástandinu. Hvernig? „Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.“ (1. Jóhannesarbréf 3:8) Þetta gerist undir stjórn Guðsríkis og verður í öruggum höndum Jesú Krists sem kenndi gullnu regluna og lifði eftir henni.— Sálmur 37:9-11; Daníel 2:44.

Davíð, konungur Ísraels til forna, sagði: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar. Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.“ (Sálmur 37:25, 26) Ertu ekki sammála því að nú á dögum eru flestir að eigna sér og hrifsa í stað þess að ‚vera mildir og lána‘? Að fylgja gullnu reglunni getur augljóslega leitt til raunverulegs friðar og öryggis því að þá getum við átt blessun í vændum bæði núna og í framtíðinni undir stjórn Guðsríkis. Guðsríki mun eyða allri eigingirni og illsku á jörðinni og nýr heimur Guðs koma í stað spilltra stjórna manna. Þá munu allir njóta þess að lifa eftir gullnu reglunni. — Sálmur 29:11; 2. Pétursbréf 3:13.

[Myndir á blaðsíðu 5]

Jesús kenndi ekki einungis gullnu regluna heldur gaf hann besta fordæmið í að lifa eftir henni.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Að fara eftir gullnu reglunni getur leitt til raunverulegs friðar og öryggis.