Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Getur stéttlaust þjóðfélag orðið að veruleika?

Getur stéttlaust þjóðfélag orðið að veruleika?

Getur stéttlaust þjóðfélag orðið að veruleika?

JOHN ADAMS, annar forseti Bandaríkjanna, var einn þeirra sem undirrituðu sögufræga sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna þar sem þessi göfugu orð voru meðal annars skráð: „Vér teljum það sjálfsögð sannindi að allir menn séu skapaðir jafnir.“ En John Adams var greinilega ekki alveg sannfærður um að allir væru í raun jafnir því að hann skrifaði: „Almáttugur Guð hefur gert mennina svo ójafna á huga og líkama að enginn ásetningur eða ráðagerð getur nokkurn tíma komið á jafnræði með þeim.“ Breski sagnfræðingurinn, H. G. Wells, gat á hinn bóginn séð fyrir sér jafnréttisþjóðfélag sem grundvallaðist á þremur forsendum: sameiginlegri en hreinni og óspilltri alheimstrú, sömu menntun handa öllum og afnámi alls herafla.

Jafnréttisþjóðfélagið, sem Wells sá fyrir sér, hefur enn ekki litið dagsins ljós. Mennirnir eru langt frá því að vera jafnir og stéttaskipting er enn þá ríkjandi í þjóðfélaginu. Hefur stéttaskipting gert þjóðfélaginu í heild sinni eitthvert gagn? Nei, hún sundrar fólki og ýtir undir öfund, hatur, sorg og miklar blóðsúthellingar. Sú skoðun að hvítir menn væru æðri, sem ríkti í Afríku, Ástralíu og Norður-Ameríku, leiddi mikið böl yfir þá sem ekki voru hvítir — þar á meðal útrýmingu frumbyggjanna á Van Diemens landi (nú Tasmaníu). Aðdragandi helfararinnar í Evrópu var sá að menn fóru að líta á Gyðinga sem óæðri menn. Auðæfi aðalsins og óánægja lágstéttanna áttu þátt í frönsku byltingunni á 18. öld og byltingu bolsévíka í Rússlandi á 20. öld.

Vitur maður skrifaði endur fyrir löngu: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 8:9) Orð hans eru sönn hvort sem það eru einstaklingar eða stéttir sem drottna yfir öðrum. Þegar einn hópur manna hefur sig upp yfir annan er afleiðingin óhjákvæmilega þjáningar og sorg.

Frammi fyrir Guði eru allir jafnir

Er einhverjum hópum manna áskapað að vera öðrum æðri? Ekki í augum Guðs. Biblían segir: „[Guð] skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar.“ (Postulasagan 17:26) Skaparinn hefur ‚ekki dregið taum höfðingjanna og ekki gert ríkum hærra undir höfði en fátækum, því að handaverk hans eru þeir allir.‘ (Jobsbók 34:19) Allir menn eru skyldir og frammi fyrir Guði eru allir bornir jafnir.

Mundu líka að þegar maðurinn deyr verða allar hugmyndir um að hann sé öðrum æðri að engu. Egyptar til forna voru á öðru máli. Þegar faraó dó var gríðarlegum verðmætum komið fyrir í grafhvelfingu hans til þess að hann gæti notið þeirra þegar hann héldi áfram að gegna hárri stöðu í framhaldslífinu. En gat hann það? Nei. Stór hluti þessara auðæfa endaði í höndum grafarræningja og margt af því sem ræningjunum tókst ekki að stela getum við núna séð á minjasöfnum.

Faraóinn gat ekki notfært sér þessi verðmæti vegna þess að hann var dáinn. Þegar maður deyr eru engar lágstéttir og engar yfirstéttir, enginn auður og engin fátækt. Í Biblíunni segir: ‚Vitrir menn deyja, fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum. Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.‘ (Sálmur 49:11, 13) Þessi innblásnu orð eiga jafnt við konunga sem þræla: „Hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar . . . Í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ — Prédikarinn 9:5, 10.

Við erum öll borin jöfn frammi fyrir Guði og að lokum verðum við öll jöfn þegar við deyjum. Það er því til lítils að upphefja einn hóp manna yfir annan á þessu stutta æviskeiði.

Stéttlaust þjóðfélag — hvernig?

En er einhver von til þess að einhvern tíma verði samfélag hér á jörðinni þar sem þjóðfélagsstéttir skipta ekki máli? Já. Grunnurinn að slíku þjóðfélagi var lagður þegar Jesús var á jörðinni fyrir næstum 2000 árum. Hann gaf líf sitt sem lausnargjald fyrir mannkynið til þess að „hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — Jóhannes 3:16.

Jesús benti fylgjendum sínum á að engin ætti að hefja sjálfan sig yfir trúbræður sína þegar hann sagði: „Þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur. Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða.“ (Matteus 23:8-12) Í augum Guðs eru allir sannir lærisveinar Jesú jafnir í trúnni.

Litu frumkristnir menn á sig sem jafningja? Þeir sem skildu kennslu Jesú gerðu það. Þeir litu hver á annan sem jafningja í trúnni og þeir sýndu það með því að ávarpa hver annan ‚bróður.‘ (Fílemonsbréfið 1, 7, 20) Enginn átti að álíta sjálfan sig öðrum fremri. Taktu eftir auðmýkt Péturs þegar hann lýsir sjálfum sér í seinna bréfi sínu: „Símon Pétur, þjónn og postuli Jesú Krists, heilsar þeim, sem hlotið hafa hina sömu dýrmætu trú og vér.“ (2. Pétursbréf 1:1) Pétur hafði fengið persónulega kennslu hjá Jesú og sem postuli gegndi hann mikilvægri ábyrgðarstöðu. Samt áleit hann sjálfan sig vera þjón og viðurkenndi að aðrir kristnir menn hefðu sömu dýrmætu trúna og hann sjálfur.

Sumir segja kannski að þessi hugsjón um jafnrétti stangist á við þá staðreynd að fyrir tíma kristninnar hafi Guð útvalið Ísrael sem kjörþjóð sína. (2. Mósebók 19:5, 6) Þeir halda því ef til vill fram að þetta sé dæmi um það að einn kynþáttur sé hafinn yfir aðra, en svo er ekki. Rétt er það að Ísraelsmenn höfðu sérstakt samband við Guð þar sem þeir voru afkomendur Abrahams og Guð notaði þá sem boðleið til að opinbera orð sitt. (Rómverjabréfið 3:1, 2) En þetta var ekki gert til þess að setja þá á stall heldur til þess að ‚allar þjóðir hlytu blessun.‘ — 1. Mósebók 22:18; Galatabréfið 3:8.

Í ljós kom að fáir Ísraelsmenn fylgdu trúarfordæmi forföður síns, Abrahams. Þeir voru ótrúir og höfnuðu Jesú sem Messíasi og því hafnaði Guð þeim. (Matteus 21:43) En hinir auðmjúku fóru ekki á mis við hinar fyrirheitnu blessanir. Kristni söfnuðurinn varð til á hvítasunnu árið 33. Þetta var skipulag kristinna manna sem smurðir voru með heilögum anda. Það var kallað „Ísrael Guðs“ og reyndist vera sú boðleið sem Jehóva notar til að koma blessun sinni á framfæri. — Galatabréfið 6:16.

Sumir innan þessa safnaðar þurftu að fræðast um jafnræði. Lærisveininn Jakob þurfti til dæmis að leiðrétta þá sem sýndu ríkum kristnum mönnum meiri heiður en hinum fátæku. (Jakobsbréfið 2:1-4) Það var rangt. Páll postuli sýndi fram á að heiðnir menn, sem tóku kristna trú, voru á engan hátt lægra settir en kristnir Gyðingar og að kristnar konur væru ekki lægra settar en karlar. Hann skrifaði: „Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú. Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi. Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“ — Galatabréfið 3:26-28.

Stéttlaus þjóð nú á dögum

Vottar Jehóva reyna að lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Þeir gera sér grein fyrir því að þjóðfélagsstéttir hafa enga þýðingu í augum Guðs. Þar af leiðandi greinast þeir ekki í klerka og leikmenn og eru ekki aðskildir sökum litarháttar eða efnahags. Þótt sumir þeirra séu kannski auðugir er „auðæfa-oflæti“ fjarri þeim, enda vita þeir að efnislegir hlutir eru aðeins skammvinnir. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Allir eru þeir sameinaðir í tilbeiðslu á alheimsdrottni, Jehóva Guði.

Þeir axla hver og einn þá ábyrgð að kunngera öðrum fagnaðarerindið. Líkt og Jesús heiðra þeir hina undirokuðu og vanræktu með því að heimskækja þá og bjóðast til að fræða þá um orð Guðs. Þeir sem eru lágt settir vinna samhliða þeim sem sumir telja vera af yfirstétt. Það eru andlegu eiginleikarnir sem skipta máli en ekki þjóðfélagsstéttin. Eins og á fyrstu öldinni eru allir bræður og systur í trúnni.

Jafnrétti býður upp á fjölbreytileika

Auðvitað merkir jöfnuður ekki að allir þurfi að vera eins. Í þessu kristna skipulagi er að finna menn og konur, unga og aldna sem eru af mörgum mismunandi kynþáttum, þjóðum og tungum og hafa ólíkan efnahag. Þetta fólk hefur mismunandi hæfileika. En það gerir þá ekki öðrum fremri, heldur stuðlar að skemmtilegum fjölbreytileika. Þessir kristnu menn gera sér grein fyrir því að þeir hæfileikar, sem þeir kunna að hafa, eru gjafir frá Guði og því hafa þeir ekkert tilefni til að álíta sig öðrum æðri.

Stéttaskipting er afleiðing þess að maðurinn hefur reynt að stjórna sér sjálfur í stað þess að fylgja leiðsögn Guðs. Bráðlega tekur Guðsríki við stjórnun jarðarinnar og þá líður stéttaskipting manna undir lok ásamt öllu því sem valdið hefur þjáningum í aldanna rás. Þá fá ‚hinir hógværu landið til eignar‘ í bókstaflegum skilningi. (Sálmur 37:11) Allt það sem menn hafa státað af og talið gera sig öðrum æðri verður horfið. Þjóðfélagsstéttir fá aldrei framar að sundra alþjóðlegu bræðrafélagi manna.

[Innskot á blaðsíðu 5]

Skaparinn hefur ‚ekki dregið taum höfðingjanna og ekki gert ríkum hærra undir höfði en fátækum, því að handaverk hans eru þeir allir.‘—Jobsbók 34:19.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Vottar Jehóva heiðra náungann.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Það eru andlegu eiginleikarnir sem skipta sannkristna menn máli.