Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ert þú einn þeirra sem Guð elskar?

Ert þú einn þeirra sem Guð elskar?

Ert þú einn þeirra sem Guð elskar?

„Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum.“ — JÓHANNES 14:21.

1, 2. (a) Hvernig sýndi Jehóva kærleika sinn til mannkyns? (b) Hvers stofnaði Jesús til kvöldið 14. nísan árið 33?

JEHÓVA elskar sköpunarverk sitt, mennina. Reyndar elskar hann mannheiminn svo heitt „að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Er dregur að því að halda minningarhátíðina um dauða Krists ættu sannkristnir menn að vera meðvitaðri en endranær um það að Jehóva „elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:10.

2 Kvöldið 14. nísan árið 33 komu Jesús og postularnir 12 saman í loftstofu í Jerúsalem til að halda páska, en það var gert til að minnast frelsunar Ísraelsmanna frá Egyptalandi. (Matteus 26:17-20) Jesús lét Júdas Ískaríot yfirgefa staðinn eftir að þeir höfðu haldið þessa gyðinglegu hátíð, og stofnaði síðan til minningarmáltíðar er kristnir menn áttu að halda þaðan í frá til að minnast dauða hans. * Hann notaði ósýrt brauð og rauðvín sem tákn um efnislíkama sinn og blóð og lét postulana 11, sem eftir voru, neyta þess í sameiningu. Í samstofna guðspjöllum þeirra Matteusar, Markúsar og Lúkasar er því lýst hvernig máltíðin fór fram, og Páll postuli gerir einnig grein fyrir henni og kallar hana ‚máltíð Drottins.‘ — 1. Korintubréf 11:20; Matteus 26:26-28; Markús 14:22-25; Lúkas 22:19, 20.

3. Hvaða þýðingamikill munur er á frásögn Jóhannesar og hinna guðspjallamannanna af síðustu klukkustundunum sem Jesús átti með lærisveinum sínum?

3 Athygli vekur að Jóhannes postuli lætur þess ekki getið að brauðið og vínið hafi gengið milli viðstaddra, en ástæðan kann að vera sú að aðferðin var orðin hefðbundin meðal frumkristinna manna þegar hann skrifaði guðspjallið um árið 98. (1. Korintubréf 11:23-26) En Jóhannesi einum var innblásið að láta okkur í té ýmsar mikilvægar upplýsingar um það sem Jesús sagði og gerði rétt áður og rétt eftir að hann stofnaði til minningarhátíðarinnar um dauða sinn. Þessar áhugaverðu upplýsingar fylla heila fimm kafla í Jóhannesarguðspjalli og taka af allan vafa um það hvers konar fólk Guð elskar. Við skulum líta nánar á 13. til 17. kafla hjá Jóhannesi.

Lærum af einstökum kærleika Jesú

4. (a) Hvernig leggur Jóhannes áherslu á aðalstefið á fundi Jesú með lærisveinunum er hann stofnaði til minningarhátíðarinnar? (b) Af hvaða mikilvægri ástæðu elskar Jehóva Jesú?

4 Kærleikur er áberandi stef í þessum köflum þar sem segir frá síðustu ráðleggingum Jesú til fylgjenda sinna. Orðin „kærleikur“ og „elska“ koma þar reyndar fyrir rúmlega 30 sinnum í ýmsum myndum. Djúpstæður kærleikur Jesú til Jehóva, föður síns, og til lærisveinanna kemur hvergi skýrar fram en í þessum köflum. Ást hans til Jehóva kemur greinilega fram í öllum guðspjöllunum en enginn nema Jóhannes hefur orðrétt eftir honum: „Ég elska föðurinn.“ (Jóhannes 14:31) Jesús sagði líka að Jehóva elskaði sig og tiltók ástæðuna. Hann sagði: „Ég hef elskað yður, eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðugir í elsku minni. Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“ (Jóhannes 15:9, 10) Jehóva elskar son sinn fyrir skilyrðislausa hlýðni hans. Þetta er lærdómsríkt fyrir alla fylgjendur Jesú Krists.

5. Hvernig sýndi Jesús kærleika sinn til lærisveinanna?

5 Djúpstæður kærleikur Jesú til fylgjenda sinna kemur skýrt fram strax í upphafi frásögunnar af síðustu samverustund hans og postulanna. Jóhannes skrifar: „Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi, að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk.“ (Jóhannes 13:1) Þetta eftirminnilega kvöld gaf hann þeim ógleymanlega lexíu í því að þjóna öðrum í kærleika er hann þvoði fætur þeirra. Þeir hefðu allir átt að vera fúsir til að þvo fætur Jesú og bræðra sinna en voru það ekki. Jesús vann þetta lítilmótlega verk og sagði lærisveinunum síðan: „Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ (Jóhannes 13:14, 15) Sannkristnir menn ættu að þjóna bræðrum sínum fúslega. — Matteus 20:26, 27; Jóhannes 13:17.

Fylgdu nýja boðorðinu

6, 7. (a) Hvaða mikilvægar upplýsingar veitir Jóhannes um tilkomu minningarhátíðarinnar? (b) Hvaða nýtt boðorð gaf Jesús lærisveinunum og að hvaða leyti var það nýtt?

6 Í frásögu Jóhannesar af því sem fram fór í loftstofunni kvöldið 14. nísan er sérstaklega tekið fram að Júdas Ískaríot hafi yfirgefið staðinn. (Jóhannes 13:21-30) Hinir guðspjallamennirnir geta þess ekki, en þegar frásagnirnar eru lagðar saman kemur í ljós að Jesús stofnaði ekki til minningarhátíðarinnar um dauða sinn fyrr en eftir að svikarinn var farinn. Hann talaði síðan ítarlega við trúa postula sína og gaf þeim ráð og leiðbeiningar að skilnaði. Þegar við búum okkur undir að sækja minningarhátíðina ættum við að hafa brennandi áhuga á því sem Jesús sagði við þetta tækifæri, ekki síst vegna þess að við þráum að vera í hópi þeirra sem Guð elskar.

7 Fyrstu fyrirmæli Jesú til lærisveinanna eftir að hann hafði stofnað til minningarhátíðarinnar um dauða sinn voru nýlunda. Hann sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) Að hvaða leyti var þetta nýtt boðorð? Síðar sama kvöld skýrði Jesús málið nánar og sagði: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:12, 13) Móselögin gerðu þá kröfu til Ísraelsmanna að þeir ‚elskuðu náungann eins og sjálfa sig.‘ (3. Mósebók 19:18) En boðorð Jesú gekk lengra. Kristnir menn áttu að elska hver annan eins og Kristur elskaði þá; þeir áttu að vera fúsir til að leggja lífið í sölurnar fyrir trúbræður sína.

8. (a) Hvað er fólgið í fórnfýsi? (b) Hvernig sýna Vottar Jehóva fórnfúsan kærleika nú á tímum?

8 Er dregur að minningarhátíðinni er vel við hæfi að líta í eigin barm, bæði sem einstaklingar og söfnuður, til að kanna hvort við höfum til að bera þetta auðkenni sannrar kristni — kærleika eins og Kristur sýndi. Þessi fórnfúsi kærleikur getur haft það í för með sér að kristinn maður hætti lífinu frekar en að svíkja trúbræður sína — og það hefur stundum gerst. En oftar en ekki felst hann í því að vera fús til að fórna eigin hagsmunum til að hjálpa og þjóna bræðrum okkar og öðrum. Þar var Páll postuli góð fyrirmynd. (2. Korintubréf 12:15; Filippíbréfið 2:17) Vottar Jehóva eru þekktir um heim allan fyrir fórnfýsi, fyrir að hjálpa bræðrum sínum og nágrönnum og leggja sig fram um að koma sannleika Biblíunnar á framfæri við aðra. * — Galatabréfið 6:10.

Dýrmæt sambönd

9. Hvað gerum við fúslega til að varðveita hið dýrmæta samband við Guð og son hans?

9 Ekkert getur verið okkur dýrmætara en að Jehóva og sonur hans, Jesús Kristur, elski okkur. En við þurfum að gera eitthvað til að njóta þessa kærleika og finna fyrir honum. Jesús sagði lærisveinunum síðasta kvöldið sem hann var með þeim: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig.“ (Jóhannes 14:21) Þar eð við látum okkur annt um sambandið við Guð og son hans fögnum við því að halda boðorð þeirra. Þar á meðal er nýja boðorðið um fórnfúsan kærleika og einnig fyrirmæli Krists eftir upprisu hans um að „prédika fyrir lýðnum og vitna“ og leitast við að gera þá sem taka við fagnaðarerindinu að „lærisveinum.“ — Postulasagan 10:42; Matteus 28:19, 20.

10. Hvaða dýrmæt sambönd standa bæði hinum smurðu og ‚öðrum sauðum‘ til boða?

10 Síðar sama kvöld svaraði Jesús spurningu hins trúa Júdasar (Taddeusar) postula: „Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.“ (Jóhannes 14:22, 23) Smurðir kristnir menn eru kallaðir til að ríkja með Kristi á himnum en jafnvel áður en þeir fara til himna eiga þeir einstaklega náið samband við hann og Jehóva föður hans. (Jóhannes 15:15; 16:27; 17:22; Hebreabréfið 3:1; 1. Jóhannesarbréf 3:2, 24) Félagar þeirra af hópi ‚annarra sauða‘ eiga þá von að lifa eilíflega á jörðinni. En þeir eiga einnig dýrmætt samband við hinn ‚eina hirði‘ Jesú Krist og við Guð sinn Jehóva, svo framarlega sem þeir eru hlýðnir. — Jóhannes 10:16; Sálmur 15:1-5; 25:14.

„Þér eruð ekki af heiminum“

11. Hvaða alvarlega viðvörun gaf Jesús postulunum?

11 Jesús veitti hinum trúu postulum alvarlega viðvörun þetta síðasta kvöld sem hann var með þeim fyrir dauða sinn: Ef einhver er elskaður af Guði er sá hinn sami hataður af heiminum. Jesús sagði: „Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum. Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.“ — Jóhannes 15:18-20.

12. (a) Af hverju varaði Jesús lærisveinana við hatri heimsins? (b) Hvað ættu allir að ígrunda er dregur að minningarhátíðinni?

12 Jesús gaf þessa viðvörun til þess að hinir 11 trúu postular og aðrir sannkristnir menn, sem á eftir þeim kæmu, misstu ekki kjarkinn og gæfust upp sökum þess að heimurinn hatar þá. Hann bætti við: „Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.“ (Jóhannes 16:1-3) Biblíuorðabók segir að ein mynd sagnarinnar, sem þýdd er ‚fallið frá,‘ merki „að gera mann tortrygginn gagnvart þeim sem hann á að treysta og hlýða, svo að hann yfirgefur þá.“ Nú nálgast minningarhátíðin og allir ættu að ígrunda æviferil trúrra þjóna Guðs fyrr og nú og líkja eftir staðfestu þeirra í prófraunum. Láttu ekki andstöðu eða ofsóknir verða til þess að þú yfirgefir Jehóva og Jesú heldur vertu staðráðinn í því að treysta þeim og hlýða.

13. Hvernig bað Jesús fyrir fylgjendum sínum?

13 Jesús sagði við föður sinn í lokabæninni sem hann fór með áður en hann yfirgaf loftstofuna í Jerúsalem: „Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:14-16) Við getum verið örugg um að Jehóva gætir þeirra sem hann elskar til að styrkja þá svo að þeir haldi sér frá heiminum. — Jesaja 40:29-31.

Varðveittu þig í kærleika föðurins og sonarins

14, 15. (a) Við hvað líkti Jesús sjálfum sér og hver var hinn ‚úrkynja vínviður‘? (b) Hverjir eru „greinarnar“ á ‚hinum sanna vínviði‘?

14 Í umræðum sínum við hina trúu lærisveina kvöldið 14. nísan kallaði Jesús sjálfan sig ‚hinn sanna vínvið‘ í andstæðu við ‚villivínviðinn‘ sem var hinn ótrúi Ísrael. Hann sagði: „Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn.“ (Jóhannes 15:1) Öldum áður hafði spámaðurinn Jeremía skrásett þessi orð Jehóva til svikullar þjóðar sinnar: „Ég hafði gróðursett þig sem gæðavínvið, . . . hvernig gastu breytst fyrir mér í villivínviðarteinunga.“ (Jeremía 2:21) Og spámaðurinn Hósea skrifaði: „Ísrael er úrkynja vínviður. Hann ber sinn ávöxt. . . . Hjarta þeirra er orðið hræsnisfullt.“ — Hósea 10:1, 2, NW.

15 Ísrael varð fráhverfur Guði og bar sinn eigin ávöxt í stað þess að bera ávöxt sannrar tilbeiðslu. Þrem dögum fyrir þessa síðustu samverustund Jesú og trúrra lærisveina hans sagði hann hræsnisfullum trúarleiðtogum Gyðinga: „Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ (Matteus 21:43) Þessi nýja þjóð er „Ísrael Guðs,“ 144.000 smurðir kristnir menn sem kallaðir eru ‚greinar‘ á ‚hinum sanna vínviði, Jesú Kristi.‘ — Galatabréfið 6:16; Jóhannes 15:5; Opinberunarbókin 14:1, 3.

16. Hvað hvatti Jesús hina 11 trúu postula til að gera og hvað er hægt að segja um hinar trúu leifar núna á endalokatímanum?

16 Jesús sagði postulunum 11 sem voru með honum í loftstofunni: „Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt. Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér.“ (Jóhannes 15:2, 4) Nútímasaga þjóna Jehóva sýnir að trúar leifar smurðra kristinna manna hafa verið fullkomlega samstiga höfðinu Kristi Jesú. (Efesusbréfið 5:23) Þær hafa þegið hreinsun og snyrtingu. (Malakí 3:2, 3) Síðan árið 1919 hafa þær borið ríkulegan ávöxt Guðsríkis, fyrst aðra smurða kristna menn og síðan, frá 1935, ört vaxandi ‚mikinn múg‘ félaga. — Opinberunarbókin 7:9; Jesaja 60:4, 8-11.

17, 18. (a) Hvaða orð Jesú hjálpa hinum smurðu og öðrum sauðum að varðveita sig í kærleika Jehóva? (b) Hvernig mun minningarhátíðin hjálpa okkur til þess?

17 Eftirfarandi orð Jesú eiga við alla smurða kristna menn og félaga þeirra: „Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir. Ég hef elskað yður, eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðugir í elsku minni. Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“ — Jóhannes 15:8-10.

18 Við viljum öll varðveita okkur í kærleika Guðs og það hvetur okkur til að bera ávöxt sem kristnir menn. Við grípum hvert tækifæri til að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið.“ (Matteus 24:14) Og við gerum okkar ýtrasta, hvert og eitt, til að bera ‚ávöxt andans.‘ (Galatabréfið 5:22, 23) Að sækja minningarhátíðina um dauða Krists mun styrkja þann ásetning okkar því að þar erum við minnt á hinn mikla kærleika Guðs og Krists til okkar. — 2. Korintubréf 5:14, 15.

19. Um hvað er fjallað í greininni á eftir?

19 Eftir að Jesús hafði stofnað til minningarhátíðarinnar hét hann því að faðirinn myndi senda trúum fylgjendum hans ‚hjálparann, andann heilaga.‘ (Jóhannes 14:26) Næsta grein fjallar um það hvernig þessi andi hjálpar hinum smurðu og öðrum sauðum að varðveita sig í kærleika Jehóva.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Árið 2002 ber 14. nísan upp á 28. mars eftir reikniaðferð Biblíunnar. Það kvöld koma Vottar Jehóva um heim allan saman til að minnast dauða Drottins Jesú Krists.

^ gr. 8 Sjá bókina Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom (Vottar Jehóva — boðendur Guðsríkis), 19. og 32. kafla, gefin út af Vottum Jehóva.

Upprifjunarspurningar

• Hvernig kenndi Jesús lærisveinunum að þjóna í kærleika?

• Hvað er viðeigandi að skoða í sambandi við sjálf okkur er dregur að minningarhátíðinni?

• Af hverju ættum við ekki að falla frá vegna haturs og ofsókna heimsins sem Jesús varaði við?

• Hver er „hinn sanni vínviður“? Hverjir eru „greinarnar“ og hvers er vænst af þeim?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20]

Jesús kenndi postulunum ógleymanlega lexíu um það að þjóna í kærleika.

[Myndir á blaðsíðu 22, 23]

Lærisveinar Krists hlýða boðorði hans um að sýna fórnfúsan kærleika.