Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefur þú fengið „anda sannleikans“?

Hefur þú fengið „anda sannleikans“?

Hefur þú fengið „anda sannleikans“?

„[Faðirinn] mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans.“ — JÓHANNES 14:16, 17.

1. Hvaða mikilvægar upplýsingar veitti Jesús lærisveinunum síðustu klukkustundirnar sem hann var með þeim í loftstofunni?

„HERRA, hvert ferðu?“ Þetta var eitt af því sem postular Jesú spurðu hann um síðustu klukkustundirnar sem hann var með þeim í loftstofu einni í Jerúsalem. (Jóhannes 13:36) Er leið á samverustundina sagði Jesús þeim að hann væri í þann mund að yfirgefa þá og snúa aftur til föður síns. (Jóhannes 14:28; 16:28) Hann yrði ekki lengur með þeim í eigin persónu til að fræða þá og svara spurningum. En hann hughreysti þá og sagði: „Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu.“ — Jóhannes 14:16.

2. Hvað lofaði Jesús að senda lærisveinunum eftir að hann væri farinn?

2 Jesús sagði hver þessi hjálpari væri og hvernig hann myndi liðsinna lærisveinunum. Hann sagði þeim: „Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður. En nú fer ég til hans, sem sendi mig . . . Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar. En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann.“ — Jóhannes 16:4, 5, 7, 13.

3. (a) Hvenær var frumkristnum mönnum sendur „andi sannleikans“? (b) Hvernig ‚hjálpaði‘ andinn þeim meðal annars?

3 Þetta loforð rættist á hvítasunnu árið 33 eins og Pétur postuli staðfesti: „Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess. Nú er hann upp hafinn til Guðs hægri handar og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum, eins og þér sjáið og heyrið.“ (Postulasagan 2:32, 33) Eins og við sjáum síðar kom heilagur andi, sem úthellt var á hvítasunnu, mörgu til leiðar fyrir frumkristna menn. En Jesús lofaði því að „andi sannleikans“ myndi ‚minna þá á allt sem hann hefði sagt þeim.‘ (Jóhannes 14:26) Hann myndi gera þeim kleift að muna eftir þjónustu Jesú og kennslu, jafnvel orðum hans, og skrásetja þau. Þetta hefur verið sérstaklega gagnlegt fyrir hinn aldraða Jóhannes postula er hann tók að rita guðspjall sitt undir lok fyrstu aldar. Í frásögu hans er að finna hinar verðmætu leiðbeiningar sem Jesús gaf er hann stofnaði til minningarhátíðarinnar um dauða sinn. — Jóhannes 13.-17. kafli.

4. Hvernig hjálpaði „andi sannleikans“ hinum smurðu á fyrstu öld?

4 Jesús hét því einnig að andinn myndi ‚kenna þessum frumkristnu mönnum allt og leiða þá í allan sannleika.‘ Andinn myndi hjálpa þeim að skilja hin dýpri sannindi Ritningarinnar og varðveita einingu þeirra í hugsun, skilningi og ætlunarverki. (1. Korintubréf 2:10; Efesusbréfið 4:3) Heilagur andi fól þessum frumkristnu mönnum að starfa sameiginlega sem ‚trúr og hygginn þjónn‘ til að þeir gætu gefið einstaklingum af hópi hinna smurðu andlegan „mat á réttum tíma.“ — Matteus 24:45.

Andinn vitnar

5. (a) Hvaða nýja sýn opnaði Jesús lærisveinunum kvöldið 14. nísan árið 33? (b) Hvaða hlutverki átti heilagur andi að gegna í því að uppfylla fyrirheit Jesú?

5 Kvöldið 14. nísan árið 33 lét Jesús á sér skilja að lærisveinar hans myndu sameinast honum síðar og búa með honum og föður hans á himnum. Hann sagði þeim: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“ (Jóhannes 13:36; 14:2, 3) Þeir áttu að stjórna með honum í ríki hans. (Lúkas 22:28-30) Til að hljóta þessa himnesku von urðu þeir að ‚fæðast af anda‘ sem andlegir synir Guðs og hljóta smurningu til að þjóna sem konungar og prestar með Kristi á himnum. — Jóhannes 3:5-8; 2. Korintubréf 1:21, 22; Títusarbréfið 3:5-7; 1. Pétursbréf 1:3, 4; Opinberunarbókin 20:6.

6. (a) Hvenær hófst hin himneska köllun og hversu margir hljóta hana? (b) Hvers eru hinir kölluðu skírðir til?

6 Þessi ‚himneska köllun‘ hófst á hvítasunnu árið 33 og virðist að mestu leyti hafa verið lokið um miðjan fjórða áratug tuttugustu aldar. (Hebreabréfið 3:1) Heilagur andi innsiglar 144.000 einstaklinga til að tilheyra hinum andlega Ísrael. Þeir eru ‚út leystir frá jörðinni.‘ (Opinberunarbókin 7:4; 14:1-4) Þeir voru skírðir til hins andlega líkama Krists, safnaðar hans, og til dauða hans. (Rómverjabréfið 6:3; 1. Korintubréf 12:12, 13, 27; Efesusbréfið 1:22, 23) Eftir niðurdýfingarskírn og smurningu heilags anda lögðu þeir út á fórnarbraut með því að lifa ráðvandir allt til dauða. — Rómverjabréfið 6:4, 5.

7. Hvers vegna eru það einungis smurðir kristnir menn sem neyta með réttu af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni?

7 Þar eð smurðir kristnir menn eru andlegir Ísraelsmenn fengu þeir aðild að nýjum sáttmála milli Jehóva og ‚Ísraels Guðs.‘ (Galatabréfið 6:16; Jeremía 31:31-34) Nýi sáttmálinn var fullgiltur með úthelltu blóði Jesú og Jesús nefndi það er hann stofnaði til minningarhátíðarinnar um dauða sinn. Lúkas skrifar: „Hann tók brauð, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: ‚Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.‘ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ‚Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.‘“ (Lúkas 22:19, 20) Þeir sem eftir eru á jörð af hinum 144.000 neyta með réttu af hinu táknræna brauði og víni við minningarhátíðina um dauða Krists.

8. Hvernig vita hinir smurðu að þeir hafa hlotið himneska köllun?

8 Hvernig vita hinir smurðu að þeir hafa hlotið himneska köllun? Heilagur andi ber vitni um það með óyggjandi hætti. Páll postuli skrifaði um þá: „Allir þeir, sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs börn. . . . Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.“ (Rómverjabréfið 8:14-17) Vitnisburður andans er svo sterkur að þeir sem eru í minnsta vafa um að þeir hafi hlotið himneska köllun geta réttilega ályktað að svo sé ekki, og þeir neyta því ekki af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni.

Andinn og ‚aðrir sauðir‘

9. Hvaða tveir hópar eru nefndir í guðspjöllunum og Opinberunarbókinni?

9 Jesús kallaði þá sem mynda andlegan Ísrael „litla hjörð“ í ljósi þess að fjöldi þeirra er takmarkaður. Þeir fá að ganga inn í „sauðabyrgi“ nýja sáttmálans, ólíkt ótöldum ‚öðrum sauðum‘ sem Jesús sagði að sér bæri einnig að safna saman. (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16) Hinum öðrum sauðum er safnað á endalokatímanum og þeir mynda ‚mikinn múg‘ sem á að lifa af ‚þrenginguna miklu‘ og eiga það fyrir höndum að lifa að eilífu í paradís á jörð. Athygli vekur að í sýn, sem Jóhannes sá undir lok fyrstu aldar, er gerður greinarmunur á þessum mikla múgi og hinum 144.000 sem mynda andlegan Ísrael. (Opinberunarbókin 7:4, 9, 14) Hljóta aðrir sauðir einnig heilagan anda og hvaða áhrif hefur hann á líf þeirra ef svo er?

10. Í hvaða skilningi láta aðrir sauðir skírast „í nafni föður, sonar og heilags anda“?

10 Heilagur andi gegnir vissulega mikilvægu hlutverki í lífi annarra sauða. Þeir gefa tákn um að þeir séu vígðir Jehóva með því að láta skírast „í nafni föður, sonar og heilags anda.“ (Matteus 28:19) Þeir viðurkenna drottinvald Jehóva, lúta Kristi sem konungi og lausnara og fylgja handleiðslu heilags anda Guðs eða starfskraftar. Þeir leggja sig daglega fram um að þroska með sér ‚ávöxt andans‘ sem er „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.“ — Galatabréfið 5:22, 23.

11, 12. (a) Hvernig eru hinir smurðu helgaðir á mjög sérstakan hátt? (b) Hvernig eru aðrir sauðir helgaðir?

11 Aðrir sauðir verða einnig að leyfa orði Guðs og heilögum anda hans að hreinsa sig eða helga. Hinir smurðu eru nú þegar helgaðir á mjög svo sérstæðan hátt því að þeir eru lýstir réttlátir og heilagir sem brúður Krists. (Jóhannes 17:17; 1. Korintubréf 6:11; Efesusbréfið 5:23-27) Spámaðurinn Daníel kallar þá ‚hina heilögu Hins hæsta‘ sem hljóta ríkið í höndum ‚Mannssonarins‘ Jesú Krists. (Daníel 7:13, 14, 18, 27) Áður hafði Jehóva sagt Ísraelsmönnum fyrir munn Móse og Arons: „Því að ég er [Jehóva], Guð yðar. Og helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur.“ — 3. Mósebók 11:44.

12 Orðið „helgun“ merkir í meginatriðum „sú athöfn eða ferli að gera heilagt, aðgreina eða taka frá til þjónustu við Jehóva Guð eða til hans nota; það að vera heilagur, helgaður eða hreinsaður.“ Strax árið 1938 sagði Varðturninn að Jónadabarnir, það er aðrir sauðir, „verði að læra að krafist sé vígslu og helgunar af hverjum og einum sem vill verða hluti af hinum mikla múgi og lifa á jörðinni.“ Í sýninni um hinn mikla múg, sem skráð er í Opinberunarbókinni, er sagt að þeir hafi „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“ og þjóni Jehóva „dag og nótt í musteri hans.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14, 15) Aðrir sauðir gera sitt ýtrasta, með hjálp heilags anda, til að standast heilagleikakröfur Jehóva. — 2. Korintubréf 7:1.

Að gera bræðrum Krists gott

13, 14. (a) Hverju er hjálpræði sauðanna háð samkvæmt dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana? (b) Hvernig hafa aðrir sauðir gert bræðrum Krists gott á endalokatímanum?

13 Jesús benti á náin tengsl annarra sauða og litlu hjarðarinnar í dæmisögunni um sauðina og hafrana sem er hluti af spádómi hans um ‚endalok veraldar.‘ Í dæmisögunni kemur greinilega fram að hjálpræði annarra sauða er nátengt framkomu þeirra við hina smurðu sem hann kallar ‚bræður sína.‘ Hann sagði: „Þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ‚Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. . . . Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.‘“ — Matteus 24:3; 25:31-34, 40.

14 Orðin „það allt, sem þér gjörðuð“ vísar til kærleiksverka í þágu andagetinna bræðra Krists sem heimur Satans fer með eins og útlendinga og varpar jafnvel sumum í fangelsi. Þeir hafa verið matarþurfi, klæðlitlir og þarfnast hjúkrunar. (Matteus 25:35, 36) Margir hinna smurðu hafa verið þannig á sig komnir núna á endalokatímanum frá 1914. Nútímasaga Votta Jehóva vitnar um að dyggir félagar þeirra, aðrir sauðir, hafa liðsinnt þeim í samræmi við handleiðslu andans.

15, 16. (a) Við hvaða starf hafa aðrir sauðir sérstaklega hjálpað smurðum bræðrum Krists á jörð? (b) Hvernig hafa hinir smurðu tjáð öðrum sauðum þakkir sínar?

15 Smurðir bræður Krists hér á jörð á endalokatímanum hafa sérstaklega notið liðsinnis annarra sauða við að ‚prédika þetta fagnaðarerindi um ríkið um alla heimsbyggðina til vitnisburðar öllum þjóðum,‘ eins og Guð fól þeim að gera. (Matteus 24:14; Jóhannes 14:12) Hinum smurðu hér á jörð hefur fækkað með árunum en öðrum sauðum hefur fjölgað svo að þeir skipta milljónum. Þúsundir þeirra hafa þjónað sem boðberar í fullu starfi — brautryðjendur og trúboðar — og útbreitt fagnaðarerindið um ríkið „allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Aðrir vitna eins mikið og tími þeirra leyfir og fagna því að mega styðja þetta mikilvæga starf fjárhagslega.

16 Bræður Krists meta ákaflega mikils hinn dygga stuðning annarra sauða! Afstöðu þeirra var vel lýst í bókinni Öryggi um allan heim undir stjórn Friðarhöfðingjans sem þjónshópurinn lét í té árið 1986. * Þar segir: „Spádómur Jesú um það starf, sem vinna á við ‚endalok veraldar,‘ hefur frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar að mestu leyti uppfyllst í gegnum hinn mikla múg ‚annarra sauða.‘ . . . Hinn ‚mikli múgur‘ manna af öllum þjóðum og tungum fær ómældar þakkir fyrir þann stórkostlega þátt sem hann á í að uppfylla spádóm [Jesú] í Matteusi 24:14!“

‚Ekki fullkomnir án vor‘

17. Í hvaða skilningi verða trúfastir fortíðarþjónar Guðs, sem rísa upp á jörðinni, „ekki fullkomnir“ án hinna smurðu?

17 Páll postuli var andasmurður og talaði sem slíkur er hann minntist á trúfasta karla og konur sem uppi voru fyrir daga Krists. Hann skrifaði: „Þó að allir þessir menn fengju góðan vitnisburð fyrir trú sína, hlutu þeir þó eigi fyrirheitið. Guð hafði séð oss [hinum smurðu] fyrir því sem betra var: Án vor skyldu þeir ekki fullkomnir verða.“ (Hebreabréfið 11:35, 39, 40) Kristur og 144.000 smurðir bræður hans á himnum verða konungar og prestar í þúsundáraríkinu og miðla til jarðarbúa því sem lausnarfórn Krists kemur til leiðar. Þannig verða aðrir sauðir „fullkomnir“ á huga og líkama. — Opinberunarbókin 22:1, 2.

18. (a) Hvað ættu aðrir sauðir að skilja með hliðsjón af biblíulegum staðreyndum? (b) Með hvaða von bíða aðrir sauðir þess að „Guðs börn verði opinber“?

18 Allt ætti þetta að minna aðra sauði á ástæðuna fyrir því að kristnu Grísku ritningarnar beina svona mikilli athygli að Kristi og smurðum bræðrum hans, og að lykilhlutverki þeirra í framvindu tilgangs Jehóva. Aðrir sauðir álíta það því sérréttindi að styðja hinn smurða þjónshóp á hvern þann hátt sem þeir geta, og bíða þess að „Guðs börn verði opinber“ í Harmagedón og í þúsundáraríkinu. Þeir geta hlakkað til þess að ‚verða leystir úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.‘ — Rómverjabréfið 8:19-21.

Sameinuð í anda á minningarhátíð

19. Hvað hefur „andi sannleikans“ gert fyrir hina smurðu og félaga þeirra, og hvernig sameinast þeir sérstaklega kvöldið 28. mars?

19 Jesús sagði í lokabæn sinni kvöldið 14. nísan árið 33: „Ég bið . . . að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.“ (Jóhannes 17:20, 21) Vegna kærleika sendi Guð son sinn til að leggja lífið í sölurnar þannig að hinir smurðu og heimur hlýðinna manna hlyti hjálpræði. (1. Jóhannesarbréf 2:2) „Andi sannleikans“ hefur sameinað bræður Krists og félaga þeirra. Báðir hóparnir koma saman eftir sólsetur kvöldið 28. mars til að minnast dauða Krists og alls þess sem Jehóva hefur gert fyrir þá vegna fórnar hins ástkæra sonar síns. Megi vera þeirra á þessari mikilvægu samkomu treysta einingarbönd þeirra og endurnýja þann ásetning að halda áfram að gera vilja Guðs, og vera til merkis um að þeir fagni því að Jehóva skuli elska þá.

[Neðanmáls]

^ gr. 16 Bókin kom út í íslenskri þýðingu árið 1988.

Til upprifjunar

• Hvenær var frumkristnum mönnum sendur „andi sannleikans“ og hvernig reyndist hann þeim „hjálpari“?

• Hvernig vita hinir smurðu að þeir hafa hlotið himneska köllun?

• Hvernig starfar andi Guðs með öðrum sauðum?

• Hvernig hafa aðrir sauðir gert bræðrum Krists gott og hvers vegna ‚verða þeir ekki fullkomnir‘ án hinna smurðu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

„Anda sannleikans“ var úthellt yfir lærisveinana á hvítasunnu árið 33.

[Myndir á blaðsíðu 28]

Aðrir sauðir hafa gert bræðrum Krists gott með því að styðja þá í boðunarstarfinu sem Guð hefur falið þeim að inna af hendi.