Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er hæli okkar

Jehóva er hæli okkar

Jehóva er hæli okkar

„Þitt hæli er [Jehóva]. . . . Engin ógæfa hendir þig.“ — SÁLMUR 91:9, 10.

1. Hvers vegna getum við sagt að Jehóva sé hæli okkar?

JEHÓVA er raunverulegt hæli fyrir fólk sitt. Ef við erum honum fullkomlega trú verðum við ekki ‚ofþrengd þó að við séum aðþrengd á allar hliðar, örvæntum ekki þó að við séum efablandin, erum ekki yfirgefin þó að við séum ofsótt og tortímumst ekki þó að við séum felld til jarðar.‘ Af hverju? Af því að Jehóva veitir okkur „ofurmagn kraftarins.“ (2. Korintubréf 4:7-9) Já, faðirinn á himnum hjálpar okkur að lifa guðrækilega og við getum tekið til okkar orð sálmaritarans: „Þitt hæli er [Jehóva], þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu. Engin ógæfa hendir þig.“ — Sálmur 91:9, 10.

2. Hvað er hægt að segja um Sálm 91 og þau fyrirheit sem hann veitir?

2 Sennilega hefur Móse skrifað orðin í 91. sálminum. Í yfirskrift er hann nefndur sem ritari 90. sálmsins og Sálmur 91 kemur í kjölfarið án þess að annar ritari sé kynntur til sögunnar. Sálmur 91 var ef til vill sunginn í víxlsöng, það er að segja einhver einn hefur sungið fyrst (91:1, 2), og kórinn svo svarað (91:3-8). Næst hefur kannski heyrst einsöngur (91:9a) og hópur svo tekið undir (91:9b-13). Síðan kann einn söngvari að hafa sungið lokaorðin (91:14-16). En hvað sem því líður veitir 91. sálmurinn fyrirheit um andlegt öryggi handa smurðum kristnum mönnum og trúföstum félögum þeirra sem heild. * Við skulum skoða þennan sálm frá sjónarhóli allra slíkra þjóna Jehóva.

Örugg í ‚skjóli Guðs‘

3. (a) Hvað er ‚skjól Hins hæsta‘? (b) Hvers njótum við þegar við ‚gistum í skugga Hins almáttka‘?

3 Sálmaritarinn syngur: „Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka, sá er segir við [Jehóva]: ‚Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!‘“ (Sálmur 91:1, 2) ‚Skjól Hins hæsta‘ er táknrænn verndarstaður fyrir okkur, ekki síst fyrir þá sem eru smurðir því að þeir eru sérstakur skotspónn Satans. (Opinberunarbókin 12:15-17) Hann myndi eyða okkur öllum ef við fengjum ekki þessa vernd sem fylgir því að vera andlegir gestir Guðs. Með því að ‚gista í skugga Hins almáttka‘ njótum við verndar í skjóli hans. (Sálmur 15:1, 2; 121:5) Ekkert hæli er öruggara og engin háborg traustari en alvaldur Drottinn okkar, Jehóva. — Orðskviðirnir 18:10.

4. Hvaða brögð notar ‚fuglarinn‘ Satan og hvernig getum við sloppið?

4 Sálmaritarinn bætir við: „Hann [Jehóva] frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar.“ (Sálmur 91:3) Fuglari í Ísrael til forna notaði oft snörur eða gildrur til að veiða fugla. ‚Fuglarinn‘ Satan notar gildrur svo sem illt skipulag sitt og „vélabrögð.“ (Efesusbréfið 6:11) Snörur eru lagðar fyrir okkur til að tæla okkur til illsku og valda okkur andlegu tjóni. (Sálmur 142:4) En ‚sál vor sleppur burt eins og fugl úr snöru‘ því að við höfum hafnað ranglæti. (Sálmur 124:7, 8) Við erum innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli frelsa okkur frá hinum vonda ‚fuglara.‘ — Matteus 6:13.

5, 6. Hvaða „drepsótt“ veldur glötun en hvers vegna vinnur hún ekki á þjónum Jehóva?

5 Sálmaritarinn talar um „drepsótt glötunarinnar.“ Þetta er einhvers konar smitnæm farsótt sem er til mikillar ógæfu fyrir mannkynið og þá sem halda drottinvaldi Jehóva á loft. Sagnfræðingurinn Arnold Toynbee skrifaði þar um: „Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur tala sjálfstæðra þjóða tvöfaldast af völdum þjóðernishyggjunnar . . . Hugarástand mannkynsins nú á tímum einkennist af vaxandi sundrungu.“

6 Í aldanna rás hafa vissir stjórnendur kynt undir sundrandi átökum um allan heim. Þeir hafa líka krafist þess að fólk lúti þeim sjálfum eða ýmsum líkneskjum eða táknum. En Jehóva leyfir slíkri „drepsótt“ aldrei að yfirbuga trúfasta þjóna sína. (Daníel 3:1, 2, 20-27; 6:7-10, 16-22) Við veitum Jehóva óskipta hollustu sem kærleiksríkt alþjóðlegt bræðrafélag, erum hlutlaus eins og Biblían mælir fyrir um og viðurkennum að „[Guð] tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35; 2. Mósebók 20:4-6; Jóhannes 13:34, 35; 17:16; 1. Pétursbréf 5:8, 9) Þó að við kristnir menn fáum yfir okkur ofsóknir erum við glöð og andlega örugg „í skjóli Hins hæsta.“

7. Hvernig verndar Jehóva okkur „með fjöðrum sínum“?

7 Þar sem Jehóva er hæli okkar eru þessi orð hughreystandi: „Hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.“ (Sálmur 91:4) Guð verndar okkur eins og fugl sem sveimar yfir ungum sínum. (Jesaja 31:5) ‚Hann skýlir okkur með fjöðrunum.‘ Í víðum skilningi eru ‚fjaðrirnar‘ sama og vængirnir. Með þeim vernda fuglar unga sína frá rándýrum. Við erum eins og ungar, örugg undir táknrænum fjöðrum Jehóva því að við leitum hælis í sannkristnu skipulagi hans. — Rutarbók 2:12; Sálmur 5:2, 12.

8. Hvernig er „trúfesti“ Jehóva skjöldur og verja?

8 Við treystum á „trúfesti.“ Hún er eins og hermannaskjöldur til forna sem var oft ferhyrndur að lögun og nógu stór til að hylja allan líkamann. (Sálmur 5:13) Ef við treystum á slíka vernd frelsar það okkur undan ótta. (1. Mósebók 15:1; Sálmur 84:12) Trúfesti Guðs er, líkt og trú okkar, eins og stór verndarskjöldur sem stöðvar eldleg skeyti Satans og verndar okkur fyrir atlögum óvina. (Efesusbréfið 6:16) Hún er eins og sterkur virkisgarður sem við skýlum okkur bak við og erum þar óhult.

‚Við þurfum ekki að óttast‘

9. Hvers vegna getur nóttin verið ógnvekjandi og af hverju erum við ekki hrædd?

9 Í ljósi verndar Guðs segir sálmaritarinn: „Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga, drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.“ (Sálmur 91:5, 6) Nóttin getur verið ógnvekjandi því að mörg illvirki eru framin í skjóli náttmyrkurs. Í andlega myrkrinu, sem nú grúfir yfir jörðinni, grípa óvinir okkar oft til leynilegra aðgerða til að reyna að spilla andlegu hugarfari okkar og stöðva boðunarstarfið. En ‚við óttumst ekki ógnir næturinnar‘ því að Jehóva verndar okkur. — Sálmur 64:2, 3; 121:4; Jesaja 60:2.

10. (a) Hvað virðist ‚örin, sem flýgur um daga,‘ tákna og hver eru viðbrögð okkar við henni? (b) Hvert er eðli ‚drepsóttarinnar er reikar um í dimmunni‘ og af hverju óttumst við hana ekki?

10 ‚Örin, sem flýgur um daga,‘ virðist tákna árásir með orðum. (Sálmur 64:4-6; 94:20) Við höldum þrautseig áfram að koma sönnum upplýsingum á framfæri og þessi beina andstaða gegn heilagri þjónustu okkar reynist því árangurslaus. Við óttumst ekki heldur „drepsóttina, er reikar um í dimmunni.“ Þetta er táknræn drepsótt sem þrífst í dimmu þessa siðferðilega og trúarlega sýkta heims sem er á valdi Satans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Hún leiðir af sér banvænt hjarta- og hugarástand og fáfræði um Jehóva, ásetning hans og kærleiksríkar ráðstafanir. (1. Tímóteusarbréf 6:4) En við erum ekki hrædd í þessu myrkri því að við njótum gnægðar andlegs ljóss. — Sálmur 43:3.

11. Hvernig fer fyrir þeim sem verða fyrir ‚sýkinni sem geisar um hádegið‘?

11 ‚Sýkin, er geisar um hádegið,‘ hræðir okkur ekki heldur. „Hádegið“ táknar ef til vill hina svokölluðu upplýsingu heimsins. Þeir sem lúta í lægra haldi fyrir veraldarhyggju hans bíða andlegt skipbrot. (1. Tímóteusarbréf 6:20, 21) Við kynnum boðskapinn um ríkið djarflega og óttumst enga óvini því að Jehóva er verndari okkar. — Sálmur 64:2; Orðskviðirnir 3:25, 26.

12. Við hlið hverra ‚falla‘ þúsundir og í hvaða skilningi?

12 Sálmaritarinn heldur áfram: „Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín. Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.“ (Sálmur 91:7, 8) Margir ‚falla‘ í andlegan dauða okkur „við hlið“ af því að þeir gera ekki Jehóva að hæli sínu. Í raun hafa „tíu þúsund“ fallið „til hægri handar“ andlegra Ísraelsmanna nútímans. (Galatabréfið 6:16) En við erum örugg „í skjóli“ Guðs hvort sem við erum smurðir kristnir menn eða trúfastir fylgjendur þeirra. Við ‚horfum aðeins á og sjáum hvernig óguðlegum er endurgoldið.‘ Þeir eru að uppskera erfiðleika á sviði viðskipta, trúmála og margs annars. — Galatabréfið 6:7.

‚Engin ógæfa hendir okkur‘

13. Hvaða hörmungar henda okkur ekki og hvers vegna?

13 Þó að öryggi heimsins sé að bregðast látum við Guð ganga fyrir og orð sálmaritarans veita okkur hugrekki: „Þitt hæli er [Jehóva], þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu. Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.“ (Sálmur 91:9, 10) Já, Jehóva er hæli okkar. En við gerum Hinn hæsta líka að ‚athvarfi okkar‘ þar sem við erum örugg. Við lofum Jehóva sem alheimsdrottin, leitum ‚athvarfs‘ og öryggis hjá honum og kunngerum fagnaðarerindið um ríkið. (Matteus 24:14) Og þar af leiðandi mun ‚engin ógæfa henda okkur‘ — engin af þeim hörmungum sem lýst var fyrr í þessum sálmi. Jafnvel þegar við verðum, ásamt öðrum, fyrir hörmungum eins og jarðskjálftum, fellibyljum, flóðum, hungursneyð og eyðileggingu styrjalda þá spilla þær ekki trú okkar eða andlegu öryggi.

14. Af hverju erum við, þjónar Jehóva, ekki smituð af banvænum plágum?

14 Smurðir kristnir menn eru eins og útlendingar sem búa í tjöldum fyrir utan þetta heimskerfi. (1. Pétursbréf 2:11) ‚Engin plága nálgast tjald þeirra.‘ Hvort sem við höfum himneska von eða jarðneska tilheyrum við ekki þessum heimi og erum ekki smituð af andlega banvænum plágum eins og siðleysi, efnishyggju, falstrúarbrögðum, og tilbeiðslu á „dýrinu“ og „líkneski“ þess, Sameinuðu þjóðunum. — Opinberunarbókin 9:20, 21; 13:1-18; Jóhannes 17:16.

15. Hvernig hjálpa englarnir okkur?

15 Sálmaritarinn heldur áfram að tala um þá vernd sem við njótum: „Þín vegna býður hann [Jehóva] út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.“ (Sálmur 91:11, 12-) Englarnir hafa fengið mátt til að vernda okkur. (2. Konungabók 6:17; Sálmur 34:8-10; 104:4; Matteus 26:53; Lúkas 1:19) Þeir gæta okkar ‚á öllum vegum okkar.‘ (Matteus 18:10) Við njótum því handleiðslu þeirra og verndar sem boðberar Guðsríkis og hrösum ekki andlega. (Opinberunarbókin 14:6, 7) Jafnvel ‚steinar‘ eins og bönn við starfi okkar valda því ekki að við hrösum og missum velþóknun Guðs.

16. Hver er munurinn á árásum ‚ljóna‘ og „höggorma“ og hver eru viðbrögð okkar við þeim?

16 Sálmaritarinn heldur áfram: „Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.“ (Sálmur 91:13) Sumir óvina okkar sýna andstöðu sína opinberlega með því að setja lög til þess að stöðva prédikunarstarfið og eru þannig eins og ljón sem ræðst beint á fórnarlamb sitt. En við verðum líka fyrir óvæntum árásum sem minna á það þegar höggormur ræðst til atlögu úr launsátri. Stundum nota klerkar löggjafa, dómara og aðra til að ráðast á okkur en fela sig sjálfir á bak við tjöldin. En með stuðningi Jehóva reynum við að rétta hlut okkar friðsamlega fyrir dómstólum og ‚verja þannig og staðfesta fagnaðarerindið.‘ — Filippíbréfið 1:7; Sálmur 94:14, 20-22.

17. Hvernig fótum troðum við „ljón“?

17 Sálmaritarinn talar um að fótum troða „ljón og dreka.“ Ljón geta verið mjög grimm og dreki vekur hugmynd um hættulega ófreskju. (Jesaja 31:4) En óháð því hve grimmt ljónið kann að vera þegar það gerir beinar árásir troðum við það fótum í táknrænum skilningi með því að hlýða Guði framar en mönnum eða samtökum sem eru eins og ljón. (Postulasagan 5:29) Hið ógnvekjandi „ljón“ skaðar okkur því ekki andlega.

18. Á hvern minnir „drekinn“ okkur og hvað þurfum við að gera ef hann ræðst á okkur?

18 ‚Drekinn‘ minnir okkur ef til vill á ‚drekann mikla, hinn gamla höggorm sem heitir djöfull og Satan.‘ (Opinberunarbókin 12:7-9; 1. Mósebók 3:15) Hann er eins og risavaxin slanga sem getur kramið bráð sína og gleypt hana. (Jeremía 51:34) Þegar Satan reynir að vefja sig um okkur, kremja okkur undan álagi heimsins og svelgja okkur í sig skulum við hrista hann af okkur og troða „drekann“ niður. (1. Pétursbréf 5:8) Hinar smurðu leifar verða að gera þetta til að eiga þátt í uppfyllingu Rómverjabréfsins 16:20.

Jehóva er hjálpræði okkar

19. Hvers vegna leitum við hælis hjá Jehóva?

19 Sálmaritarinn talar fyrir hönd Guðs og segir um sannan guðsdýrkanda: „Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.“ (Sálmur 91:14) Við leitum hælis hjá Jehóva sem tilbiðjendur hans einkum vegna þess að ‚við leggjum ást á hann.‘ (Markús 12:29, 30; 1. Jóhannesarbréf 4:19) Í staðinn ‚frelsar‘ hann okkur frá óvinum okkar. Við verðum aldrei afmáð af jörðinni heldur verðum við hólpin sökum þess að við þekkjum nafn Guðs og áköllum það í trú. (Rómverjabréfið 10:11-13) Og við erum staðráðin í að ‚ganga í nafni Jehóva æ og ævinlega.‘ — Míka 4:5; Jesaja 43:10-12.

20. Hvaða loforð veitir Jehóva trúföstum þjónum sínum í lok 91. sálmsins?

20 Í lok 91. sálmsins segir Jehóva um trúfastan þjón sinn: „Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan. Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt.“ (Sálmur 91:15, 16) Jehóva svarar okkur þegar við áköllum hann í bæn sem samræmast vilja hans. (1. Jóhannesarbréf 5:13-15) Við höfum nú þegar gengið í gegnum mikla erfiðleika vegna þeirrar andstöðu sem Satan kyndir undir. En orðin „ég er hjá honum í neyðinni“ búa okkur undir komandi prófraunir og fullvissa okkur um að Guð muni halda okkur uppi þegar þessu illa heimskerfi verður eytt.

21. Á hvaða hátt hafa hinir smurðu nú þegar verið gerðir vegsamlegir?

21 Þrátt fyrir grimma andstöðu Satans verða allir hinir smurðu, sem á meðal okkar eru, gerðir vegsamlegir á himnum þegar tími Jehóva kemur — eftir ‚fjölda lífdaga‘ á jörðinni. En Guð hefur frelsað hina smurðu með eftirtektarverðum hætti og það hefur nú þegar veitt þeim andlega vegsemd. Og það er vissulega mikill heiður fyrir þá að taka forystuna sem Vottar Jehóva á jörðinni á þessum síðustu dögum. (Jesaja 43:10-12) Mesta frelsunin, sem Jehóva veitir fólki sínu, mun eiga sér stað í hinu mikla Harmagedónstríði þegar hann réttlætir drottinvald sitt og helgar heilagt nafn sitt. — Sálmur 83:19; Esekíel 38:23; Opinberunarbókin 16:14, 16.

22. Hverjir fá að ‚sjá hjálpræði Jehóva‘?

22 Við treystum á hjálpræði Guðs, hvort sem við erum smurðir kristnir menn eða trúfastir félagar þeirra. Á ‚hinum mikla og ógurlega degi Jehóva‘ munu þeir sem þjóna honum trúfastlega hljóta frelsun. (Jóel 3:3-5) Þau okkar sem verða hluti af hinum ‚mikla múgi‘ er lifir inn í nýjan heim Guðs og eru trúföst í lokaprófrauninni verða ‚mettuð með fjölda lífdaga‘ — endalausu lífi. Guð reisir líka fjölda fólks upp frá dauðum. (Opinberunarbókin 7:9; 20:7-15) Hann mun hafa yndi af því að ‚láta okkur sjá hjálpræði sitt‘ fyrir milligöngu sonar síns Jesú Krists. (Sálmur 3:9) Þetta eru stórbrotnar framtíðarhorfur. Höldum því áfram að biðja Jehóva að hjálpa okkur að telja daga okkar, honum til dýrðar. Sýnum og sönnum í orði og verki að Jehóva sé hæli okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Ritarar kristnu Grísku ritninganna fjölluðu ekki um 91. sálminn í tengslum við messíasarspádóma. En vissulega var Jehóva hæli og háborg fyrir manninn Jesú Krist eins og hann er fyrir smurða fylgjendur Jesú og trúfasta félaga þeirra sem heild núna á tímum ‚endalokanna.‘ — Daníel 12:4.

Hvernig svarar þú?

• Hvað er ‚skjól Hins hæsta‘?

• Hvers vegna óttumst við ekki?

• Í hvaða skilningi mun ‚engin ógæfa henda okkur‘?

• Hvers vegna getum við sagt að Jehóva sé hjálpræði okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Veist þú hvernig trúfesti Jehóva er okkur skjöldur?

[Myndir á blaðsíðu 16]

Jehóva hjálpar þjónum sínum að sinna þjónustunni þrátt fyrir óvæntar árásir og beina andstöðu.

[Credit line]

Gleraugnaslanga: A. N. Jagannatha Rao, stjórnarmaður við Madras Snake Park Trust