Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystu á Jehóva hinn raunverulega Guð

Treystu á Jehóva hinn raunverulega Guð

Treystu á Jehóva hinn raunverulega Guð

Hefurðu horft til himins á heiðskírri nóttu og séð stjörnur í hundraðatali? Hvernig skýrirðu tilvist þeirra?

STJÖRNURNAR „töluðu“ í næturkyrrðinni og knúðu Davíð konung til að skrifa forðum daga: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ (Sálmur 19:2) Skaparinn er verður þess að „fá dýrðina og heiðurinn og máttinn,“ frekar en sköpunin. — Opinberunarbókin 4:11; Rómverjabréfið 1:25.

„Guð er sá, sem allt hefur gjört,“ segir Biblían. (Hebreabréfið 3:4) Hinn sanni Guð, sem ‚einn heitir Jehóva, er Hinn hæsti yfir allri jörðunni.‘ (Sálmur 83:19) Og hann er engin blekking eða hilling. Jesús Kristur sagði um föður sinn á himni: „Sá er sannur, sem sendi mig.“ — Jóhannes 7:28.

Jehóva uppfyllir fyrirætlanir sínar

Hið einstæða nafn Guðs, Jehóva, kemur næstum 7000 sinnum fyrir í Hebresku ritningunum. Sjálft nafnið staðfestir að hann er raunverulegur. Nafn hans merkir bókstaflega „hann lætur verða“ og lýsir honum svo að hann uppfylli fyrirætlanir sínar. Þegar Móse spurði Guð nafns skýrði hann það nánar fyrir honum: „Ég mun reynast vera sá sem ég mun reynast vera.“ (2. Mósebók 3:14, NW) Þýðing Rotherhams orðar það skýrt og skorinort: „Ég verð hvað sem mér þóknast.“ Jehóva reynist vera eða kýs að verða hvaðeina sem þarf til að réttlátar fyrirætlanir hans og fyrirheit verði að veruleika. Hann ber þannig tilkomumikla titla svo sem skapari, faðir, alvaldur Drottinn, hirðir, Jehóva allsherjar, hann sem heyrir bænir, dómari, hinn mikli fræðari og lausnari. — Dómarabókin 11:27; Sálmur 23:1; 65:3; 73:28, NW; 89:27; Jesaja 8:13; 30:20, NW; 40:28; 41:14, NW.

Aðeins hinn sanni Guð getur með réttu borið nafnið Jehóva því að mennirnir geta aldrei verið vissir um að áætlanir þeirra heppnist. (Jakobsbréfið 4:13, 14) Jehóva einn getur sagt: „Eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta, eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:10, 11.

Jehóva framkvæmir fyrirætlanir sínar af slíkri vissu að jafnvel það sem virðist óraunverulegt í augum manna er raunverulegt frá sjónarhóli hans. Jesús minntist á Abraham, Ísak og Jakob, sem voru löngu látnir, og sagði: „Ekki er hann [Jehóva] Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir.“ (Lúkas 20:37, 38) Þessir þrír trúföstu ættfeður voru dánir en sú fyrirætlun Guðs að reisa þá upp frá dauðum var svo örugg að segja mátti að þeir væru lifandi. Jehóva á ekkert erfiðara með að lífga við þessa dyggu fortíðarþjóna frekar en að skapa fyrsta manninn af leiri jarðar. — 1. Mósebók 2:7.

Páll postuli bendir á annað dæmi um að Guð lætur fyrirætlanir sínar verða að veruleika. Í Ritningunni er Abraham kallaður ‚faðir margra þjóða.‘ (Rómverjabréfið 4:16, 17) Meðan Abram var enn barnlaus breytti Jehóva nafni hans í Abraham sem merkir „faðir margra (fjölda).“ Jehóva lét hann rísa undir nafni með því að endurvekja getnaðarmátt hans og Söru eiginkonu hans, en þau voru bæði orðin öldruð. — Hebreabréfið 11:11, 12, neðanmáls.

Jesús Kristur fékk mikinn mátt og vald og talaði um veruleika frá æðri sjónarhóli en menn gátu gert. Þótt Lasarus, náinn vinur hans, væri dáinn sagði hann lærisveinum sínum: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“ (Jóhannes 11:11) Hvers vegna kallaði hann látinn mann sofandi?

Þegar Jesús kom til Betaníu, heimabæjar Lasarusar, gekk hann að gröfinni og bað um að steinninn yrði fjarlægður frá grafarmunnanum. Hann baðst fyrir upphátt og hrópaði síðan: „Lasarus, kom út!“ Augu allra beindust að gröfinni og „hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið.“ Jesús sagði þá: „Leysið hann og látið hann fara.“ (Jóhannes 11:43, 44) Hann reisti Lasarus upp frá dauðum — lífgaði mann við sem hafði verið dáinn í fjóra daga. Kristur var ekki að rangfæra sannleikann þegar hann sagði að vinur sinn væri sofandi. Í augum Jehóva og Jesú var eins og hinn látni Lasarus væri einungis sofandi. Jesús og faðir hans á himni fást við veruleikann.

Jehóva getur gert vonir okkar að veruleika

Það er himinn og haf milli blekkjandi skurðgoða og hins sanna Guðs. Skurðgoðadýrkendur eigna goðum sínum ranglega ofurmannlega krafta. En engin lotning getur veitt þeim einhvern undrakraft. Jehóva Guð getur á hinn bóginn réttilega talað um löngu látna þjóna sína eins og þeir lifi því að hann getur veitt þeim lífið aftur. „[Jehóva] er sannur Guð“ og blekkir aldrei þjóna sína. — Jeremía 10:10.

Það er uppörvandi að vita til þess að á tilsettum tíma reisir Jehóva upp hina dánu, sem eru í minni hans, og veitir þeim líf á ný. (Postulasagan 24:15) Með upprisunni endurvekur hann lífsmynstur þeirra. Hann á ekki í neinum erfiðleikum með að muna eftir lífsmynstri manna og reisa þá upp frá dauðum, enda eru visku hans og mætti engin takmörk sett. (Jobsbók 12:13; Jesaja 40:26) Jehóva er auðugur að kærleika og beitir fullkomnu minni sínu við að reisa dána upp til lífs á paradísarjörð með sama persónuleika og þeir höfðu fyrir andlát sitt. — 1. Jóhannesarbréf 4:8.

Heimur Satans líður bráðlega undir lok og framtíð þeirra sem treysta hinum sanna Guði er björt. (Orðskviðirnir 2:21, 22; Daníel 2:44; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Sálmaritarinn segir: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:10, 11) Afbrot og ofbeldi heyra þá fortíðinni til. Réttlæti mun ríkja og fjárhagsþrengingar verða á bak og burt. (Sálmur 37:6; 72:12, 13; Jesaja 65:21-23) Allt misrétti vegna þjóðfélagsstöðu, kynþáttar, þjóðernis og ættflokka verður upprætt. (Postulasagan 10:34, 35) Stríð og stríðsvopn hverfa. (Sálmur 46:10) „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Allir verða fullkomlega heilbrigðir. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Paradís á jörð verður brátt að veruleika. Það er ætlun Jehóva.

Innan skamms rætast allar biblíutengdar vonir okkar. Hví að láta blekkjast af því sem heimurinn dýrkar þegar við getum sett fullt traust okkar á Jehóva? Það er vilji hans að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Í stað þess að eyða tíma okkar og efnum í tálvonir eða hillingar þessa heimskerfis og guði þess, skulum við afla okkur þekkingar á hinum raunverulega Guði og treysta á hann af öllu hjarta. — Orðskviðirnir 3:1-6; Jóhannes 17:3.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Í augum Jehóva og Jesú var Lasarus aðeins sofandi.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Paradís á jörð verður brátt að veruleika.