Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ástundaðu gæsku

Ástundaðu gæsku

Ástundaðu gæsku

„Ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:9.

1. Hvernig sýna milljónir manna að þær samsinna Sálmi 31:20?

AÐ HEIÐRA Jehóva er það besta sem nokkur maður getur látið af sér leiða. Og milljónir manna gera það með því að lofa hann fyrir gæsku hans. Dyggir vottar Jehóva taka heilshugar undir með sálmaritaranum er hann söng: „Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig.“ — Sálmur 31:20.

2, 3. Hvað gæti gerst ef við lifðum ekki í samræmi við kennslu okkar?

2 Við berum djúpa lotningu fyrir Jehóva og það er okkur hvöt til að lofa hann fyrir gæsku hans. Lotningin er okkur jafnframt hvati til að ‚lofa hann, prísa og tala um dýrð konungdóms hans.‘ (Sálmur 145:10-13) Þess vegna tökum við dyggilega þátt í að boða ríki hans og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Boðunin þarf auðvitað að haldast í hendur við góða breytni. Að öðrum kosti gætum við kastað rýrð á heilagt nafn Jehóva.

3 Margir segjast tilbiðja Guð en breytni þeirra samræmist ekki þeim siðferðiskröfum sem hann gerir í innblásnu orði sínu. Páll sagði um menn sem þóttust vinna góð verk en breyttu ekki samkvæmt því: „Þú sem . . . fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó? Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór? . . . Svo er sem ritað er: ‚Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna.‘“ — Rómverjabréfið 2:21, 22, 24.

4. Hvaða áhrif hefur góð breytni okkar?

4 Við viljum ekki kasta rýrð á nafn Jehóva heldur kappkostum við að vegsama það með því að breyta vel. Þetta hefur góð áhrif á þá sem standa utan kristna safnaðarins. Það hjálpar okkur til dæmis að þagga niður í andstæðingunum. (1. Pétursbréf 2:15) En það er meira um vert að góð breytni okkar dregur fólk til skipulags Jehóva og opnar því leið til að vegsama hann og hljóta eilíft líf. — Postulasagan 13:48.

5. Hvaða spurningar ættum við að skoða núna?

5 En við erum ófullkomin þannig að sú spurning vaknar hvernig við getum forðast að kasta rýrð á Jehóva með hegðun okkar og hneyksla þá sem leita sannleikans. Hvernig getum við eiginlega sýnt af okkur gæsku og góðvild?

Ávöxtur ljóssins

6. Nefndu dæmi um ‚verk myrkursins sem ekkert gott hlýst af.‘ Hvaða ávöxtur ætti að vera augljós meðal kristinna manna?

6 Við sem erum kristin og vígð Guði fáum hjálp til að forðast ‚verk myrkursins sem ekkert gott hlýst af.‘ Þetta er meðal annars svívirða eins og lygi, þjófnaður, lastmæli, óæskilegt tal um kynlíf, skammarleg hegðun, klámfengið spaug og drykkjuskapur. (Efesusbréfið 4:25, 28, 31; 5:3, 4, 11, 12, 18) Við komum ekki nálægt slíkum verkum heldur ‚hegðum okkur eins og börn ljóssins.‘ Páll postuli segir að ‚ávöxtur ljóssins sé einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.‘ (Efesusbréfið 5:8, 9) Við getum sem sagt haldið áfram að sýna gæsku og góðvild með því að ganga í ljósinu. En hvers konar ljós er þetta?

7. Hvað þurfum við að gera til að sýna gæsku áfram?

7 Þrátt fyrir ófullkomleikann getum við sýnt gæsku ef við framgöngum í andlegu ljósi. „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum,“ söng sálmaskáldið. (Sálmur 119:105) Ef við viljum halda áfram að bera ‚ávöxt ljóssins‘ og sýna ‚einskæra góðvild‘ þurfum við að notfæra okkur að staðaldri hið andlega ljós frá orði Guðs sem er rannsakað vandlega í ritum okkar og rætt á safnaðarsamkomum. (Lúkas 12:42; Rómverjabréfið 15:4; Hebreabréfið 10:24, 25) Við þurfum líka að gefa sérstakan gaum að fordæmi og kenningum Jesú Krists en hann er „ljós heimsins“ og „ljómi dýrðar“ Jehóva. — Jóhannes 8:12; Hebreabréfið 1:1-3.

Ávöxtur andans

8. Hvers vegna getum við sýnt gæsku og góðvild?

8 Andlegt ljós hjálpar okkur tvímælalaust að sýna gæsku. Heilagur andi, sem er starfskraftur Guðs, hjálpar okkur sömuleiðis til þess. „Ávöxtur andans“ er meðal annars gæska og góðvild. (Galatabréfið 5:22, 23) Ef við erum eftirlát við heilagan anda Jehóva gefur hann af sér þennan ágæta ávöxt í fari okkar.

9. Hvernig getum við farið eftir leiðbeiningum Jesú í Lúkasi 11:9-13?

9 Okkur er mikið í mun að þóknast Jehóva með því að sýna af okkur þennan ávöxt andans, gæskuna, þannig að við ættum að gera eins og Jesús hvatti til: „Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka, ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð [ófullkomnir og þess vegna hlutfallslega] vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:9-13) Við skulum fylgja ráðleggingum Jesú með því að biðja Jehóva að gefa okkur anda sinn þannig að við getum sýnt af okkur gæskuna sem er ávöxtur hans.

„Gjör það sem gott er“

10. Hvað er nefnt í sambandi við gæsku Guðs í 2. Mósebók 34:6, 7?

10 Við getum ‚gert það sem gott er‘ með hjálp heilags anda Guðs og hins andlega ljóss frá orði hans. (Rómverjabréfið 13:3) Með reglulegu biblíunámi getum við lært að líkja æ betur eftir gæsku Jehóva. Í greininni á undan var fjallað um gæsku hans og þá þætti hennar sem fram komu í yfirlýsingu Guðs til Móse í 2. Mósebók 34:6, 7. Þar lesum við: „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt.“ Við getum auðveldað okkur að ‚gera það sem gott er‘ með því að líta nánar á hvernig gæska Jehóva hefur birst.

11. Hvaða áhrif ætti vitneskjan um að Jehóva er miskunnsamur og líknsamur að hafa á okkur?

11 Þessi yfirlýsing Jehóva Guðs minnir okkur á að við þurfum að líkja eftir honum með því að vera miskunnsöm og líknsöm. „Sælir eru miskunnsamir,“ sagði Jesús, „því að þeim mun miskunnað verða.“ (Matteus 5:7; Lúkas 6:36) Við þurfum að vera minnug þess að Jehóva er líknsamur og vera vinsamleg og lítillát í samskiptum við aðra, einnig þá sem við prédikum fyrir. Það kemur heim og saman við ráðleggingar Páls: „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ — Kólossubréfið 4:6.

12. (a) Hvernig ættum við að koma fram við aðra í ljósi þess að Guð er þolinmóður? (b) Hvað ættum við að gera með hliðsjón af gæsku Jehóva?

12 Þar sem Jehóva er þolinmóður og við viljum ‚gera það sem gott er‘ reynum við að umbera smávægilega galla og veikleika trúsystkina okkar og horfa á góðu eiginleikana í fari þeirra. (Matteus 7:5; Jakobsbréfið 1:19) Gæska Jehóva er okkur hvöt til að vera trygg í kærleikanum, jafnvel við erfiðustu skilyrði. Það er vissulega mjög eftirsóknarvert. — Orðskviðirnir 19:22.

13. Hvernig ættum við að endurspegla að Jehóva er ‚harla trúfastur‘?

13 Faðir okkar á himnum er ‚harla trúfastur‘ og sannorður svo að við erum sannsögul og ‚sýnum með sannleiksorði að við erum þjónar hans.‘ (2. Korintubréf 6:3-7) Jehóva segir að sjö hlutir séu sér andstyggð, þar á meðal „lygin tunga“ og „ljúgvottur sem lygar mælir.“ (Orðskviðirnir 6:16-19) Okkur langar til að þóknast Guði svo að við höfum ‚lagt af lygina og tölum sannleikann.‘ (Efesusbréfið 4:25) Gætum þess að sýna alltaf gæsku á þennan hátt.

14. Hvers vegna ættum við að vera fús til að fyrirgefa?

14 Yfirlýsing Jehóva við Móse ætti einnig að hvetja okkur til að fyrirgefa fúslega því að Jehóva er fús til að fyrirgefa. (Matteus 6:14, 15) Hann refsar auðvitað syndurum sem iðrast ekki þannig að við verðum að fylgja mælikvarða hans um gæsku til að viðhalda andlegum hreinleika safnaðarins. — 3. Mósebók 5:1; 1. Korintubréf 5:11, 12; 1. Tímóteusarbréf 5:22.

‚Hafið nákvæma gát á‘

15, 16. Hvernig geta orð Páls í Efesusbréfinu 5:15-19 hjálpað okkur að ástunda gæsku?

15 Við þurfum að fyllast anda Guðs og hafa gát á skrefum okkar til að ástunda gæsku því að illska umheimsins er mikil. Þar af leiðandi hvatti Páll kristna menn í Efesus: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji [Jehóva]. Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum, og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir [Jehóva] í hjörtum yðar.“ (Efesusbréfið 5:15-19) Þessar ráðleggingar eiga svo sannarlega erindi til okkar núna á síðustu dögum. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

16 Til að ástunda gæsku þurfum við að gæta þess vandlega að hegða okkur í samræmi við visku Guðs. (Jakobsbréfið 3:17) Við verðum að forðast svívirðilegar syndir, fyllast heilögum anda og láta hann leiða okkur. (Galatabréfið 5:19-25) Við getum haldið áfram að gera hið góða með því að fara eftir andlegu fræðslunni sem veitt er á safnaðarsamkomum og mótum. Orð Páls í bréfinu til Efesusmanna minna líka á að oftast, þegar við hittumst í tilbeiðsluskyni, syngjum við ‚andleg ljóð‘ af hjartans lyst — og mörg þeirra fjalla um andlega eiginleika eins og gæsku.

17. Hverju mega kristnir menn treysta ef alvarleg veikindi koma í veg fyrir að þeir geti sótt samkomur reglulega?

17 Hvað um trúsystkini okkar sem eiga við alvarleg og langvinn veikindi að stríða og geta ekki sótt safnaðarsamkomur reglulega af þeim orsökum? Þau eru kannski niðurbeygð vegna þess að þau geta ekki alltaf tilbeðið Jehóva með andlegum bræðrum sínum og systrum. En þau geta treyst því að Jehóva skilur aðstæður þeirra, varðveitir þau í ljósinu, gefur þeim heilagan anda sinn og hjálpar þeim að gera það sem gott er. — Jesaja 57:15.

18. Hvað er okkur hjálp til að ástunda gæsku?

18 Til að ástunda gæsku þurfum við að gæta að félagsskap okkar og forðast þá sem ‚elska ekki hið góða.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:2-5; 1. Korintubréf 15:33) Ef við fylgjum leiðbeiningum af þessu tagi ‚hryggjum við ekki Guðs heilaga anda‘ með því að streitast gegn handleiðslu hans. (Efesusbréfið 4:30) Og náin tengsl við þá sem sýna með líferni sínu að þeir elska hið góða og láta heilagan anda Jehóva leiða sig eru okkur hjálp til að gera hið góða. — Amos 5:15; Rómverjabréfið 8:14; Galatabréfið 5:18.

Gæskan ber góðan ávöxt

19-21. Segðu frá dæmum um þau góðu áhrif sem gæska hefur.

19 Að ganga í andlegu ljósi, lúta handleiðslu anda Guðs og hafa gát á breytni okkar auðveldar okkur að forðast hið illa og ‚gera það sem gott er.‘ Það getur haft mjög jákvæðar afleiðingar. Zongezile er vottur Jehóva í Suður-Afríku. Einn morguninn, er hann var á leið í skólann, kom hann við í hraðbanka til að athuga innstæðuna sína. Á miðanum stóð að innstæðan væri meira en 42.000 rand (jafnvirði 600.000 íslenskra króna) sem var margfalt meira en hann átti í raun. Öryggisvörður í bankanum og fleiri hvöttu hann til að taka peningana út og leggja þá inn hjá öðrum banka. Það voru aðeins vottahjónin, sem hann bjó hjá, sem hrósuðu honum fyrir að taka ekki út peningana.

20 Zongezile tilkynnti bankanum um mistökin strax næsta virkan dag. Í ljós kom að reikningsnúmerið hans líktist númeri auðugs kaupsýslumanns sem hafði fyrir mistök lagt fé inn á skakkan reikninginn. Kaupsýslumaðurinn var furðu lostinn að Zongezile skyldi engu hafa eytt af peningunum og spurði hverrar trúar hann væri. Zongezile kvaðst vera vottur Jehóva. Yfirmenn við bankann hrósuðu honum mikið og sögðu: „Það væri óskandi að allir væru jafnheiðarlegir og vottar Jehóva.“ Ljóst er að heiðarleiki og gæska getur orðið til þess að aðrir vegsami Jehóva. — Hebreabréfið 13:18.

21 Góðverk þurfa ekki að vera stórbrotin til að hafa góð áhrif. Tökum dæmi: Ungur vottur, sem er boðberi í fullu starfi á einni af Samóa-eyjunum, þurfti að fara í læknisviðtal á spítala. Þar biðu allmargir eftir viðtali við lækninn og votturinn tók eftir að roskin kona, sem var næst honum, var illa haldin. Hann leyfði konunni að fara inn til læknisins á undan sér svo að hún fengi umönnun fyrr. Seinna hitti hann konuna á markaðstorginu. Hún mundi eftir honum og góðverki hans á spítalanum. „Nú veit ég að vottar Jehóva elska náungann,“ sagði hún. Fram til þessa hafði hún ekki sinnt guðsríkisboðskapnum en góðvild boðberans hafði svo sterkt áhrif á hana að hún þáði heimabiblíunámskeið og fór að kynna sér orð Guðs.

22. Nefndu eina sérlega þýðingarmikla leið til að ‚gera það sem gott er.‘

22 Að öllum líkindum þekkirðu dæmi sem sýna fram á gildi gæskunnar. Að boða fagnaðarerindið um ríkið reglulega er sérlega þýðingarmikil leið til að ‚gera það sem gott er.‘ (Matteus 24:14) Höldum áfram að sinna þessu mikilvæga starfi af kappi, vitandi að það er ein leið til að gera það sem gott er, einkum í garð þeirra sem taka við boðskapnum. Aðalatriðið er þó að þjónusta okkar og góð breytni vegsama Jehóva sem er uppspretta gæskunnar. — Matteus 19:16, 17.

Haltu áfram að ‚gera það sem gott er‘

23. Hvers vegna er boðunarstarfið gott verk?

23 Þjónusta okkar er tvímælalaust gott starf. Hún getur orðið okkur til hjálpræðis og þeim sem hlusta á boðskap Biblíunnar og komast inn á veginn til eilífa lífsins. (Matteus 7:13, 14; 1. Tímóteusarbréf 4:16) Þess vegna er meira en líklegt að löngunin til að gera það sem gott er verði til þess að við spyrjum okkur þegar við þurfum að taka ákvarðanir: ‚Hvaða áhrif hefur þessi ákvörðun á boðunarstarf mitt? Er skynsamlegt að gera það sem ég er að íhuga? Auðveldar það mér að hjálpa öðrum að taka við ‚hinum eilífa fagnaðarboðskap‘ og eignast náið samband við Jehóva Guð?‘ (Opinberunarbókin 14:6) Það er mikið gæfuspor að taka ákvörðun sem eflir hag Guðsríkis. — Matteus 6:33; Postulasagan 20:35.

24, 25. Hvernig getum við gert það sem gott er í söfnuðinum og hverju getum við treyst ef við höldum áfram að ástunda gæsku?

24 Vanmetum aldrei hin gagnlegu áhrif gæskunnar. Við getum ástundað gæsku með því að styðja kristna söfnuðinn og með því að gera okkar besta til að sinna velferð hans. Við gerum vissulega gott með því að sækja samkomur reglulega og taka þátt í þeim. Það eitt að vera á samkomunni er hvetjandi fyrir trúsystkini okkar og úthugsuð svör okkar eru andlega uppbyggjandi fyrir þau. Við gerum líka gott með því að leggja fram fjármuni til rekstrar ríkissalarins og þegar við tökum þátt í hirðingu hans og viðhaldi. (2. Konungabók 22:3-7; 2. Korintubréf 9:6, 7) Við skulum, „meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ — Galatabréfið 6:10.

25 Okkur er ómögulegt að sjá fyrir allar þær aðstæður þar sem við getum og ættum að sýna af okkur gæsku. Þegar nýjar aðstæður ber að garði skulum við þess vegna skoða þær í ljósi Biblíunnar, biðja um heilagan anda Jehóva og leggja okkur fram um að gera hinn góða og fullkomna vilja hans. (Rómverjabréfið 2:9, 10; 12:2) Við getum treyst því að Jehóva blessar okkur ríkulega þegar við ástundum gæsku og góðvild.

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við látið sem mest gott af okkur leiða?

• Hvers vegna er gæska kölluð ‚ávöxtur ljóssins‘?

• Af hverju er gæska kölluð ‚ávöxtur andans‘?

• Hvaða áhrif hefur góð breytni okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Orð Guðs og heilagur andi hjálpa okkur að ástunda gæsku.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Gæska í verki hefur góð áhrif.