Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þú hefur hringt í skakkt númer“

„Þú hefur hringt í skakkt númer“

Fréttir úr boðunarstarfinu

„Þú hefur hringt í skakkt númer“

ÞÆR Leslie og Caroline í Jóhannesarborg í Suður-Afríku notuðu síma til að vitna fyrir öldruðum, sem áttu heima í hverfi fyrir fólk á eftirlaunaaldri, en þar var öryggisvarsla við hliðið. Fáir voru heima og lítill áhugi fyrir fagnaðarboðskapnum svo að Caroline varð mjög ánægð þegar kona svaraði.

„Er þetta G — ?“ spurði Caroline.

„Nei,“ svaraði vingjarnleg rödd. „Ég heiti B — . Þú hefur hringt í skakkt númer.“

Þar sem Caroline fann hlýjuna í röddinni sagði hún: „Mig langar nú samt til að segja þér erindi mitt við G — , má ég það?“ Síðan fór hún að tala um þá blessun sem Guðsríki mun hafa í för með sér. Þegar þær höfðu ákveðið að Caroline kæmi með bæklinginn Hvers krefst Guð af okkur? spurði B — : „Vel á minnst, hvaða trúarsöfnuði tilheyrir þú?“

„Ég er vottur Jehóva,“ svaraði Caroline.

„Æ, nei, trúarsöfnuður! Ég held ég kæri mig ekki um að fá ykkur í heimsókn.“

„En B — ,“ sagði Caroline hlýlega. „Síðustu tuttugu mínúturnar hef ég verið að kynna fyrir þér dásamlega von og bent þér á hvað Biblían segir að Guðsríki muni gera fyrir mannkynið innan skamms. Þú gladdist svo yfir að heyra þetta, þú varðst meira að segja spennt — og þig langaði til að vita meira. Hvað veistu í raun og veru um Votta Jehóva? Ef þú værir veik færir þú þá til vélvirka? Hvers vegna lofarðu mér ekki að segja þér hverju Vottar Jehóva trúa?“

Eftir stundarþögn svaraði hún: „Þú hefur sjálfsagt rétt fyrir þér. Komdu bara. En eitt er víst, þú snýrð mér aldrei!“

„B — , ég gæti aldrei snúið þér til minnar trúar hversu mikið sem mig langaði til þess,“ svaraði Caroline. „Jehóva einn getur gert það.“

Allt fór á besta veg þegar komið var með bæklinginn og B — (Betty) þáði aðra heimsókn. Þegar Caroline kom aftur sagðist Betty hafa sagt borðfélögum sínum að hún hefði verið að ræða við Votta Jehóva. „Hvernig gastu gert það?“ höfðu þær sagt og fórnað höndum. „Þetta fólk trúir ekki einu sinni á Jesú!“

Caroline var fljót til og minnti Betty á eitt aðalatriðið í síðustu umræðu þeirra um komu Guðsríkis.

„Hver verður konungurinn?“ spurði Caroline.

„Jesús, auðvitað,“ svaraði Betty.

„Alveg rétt,“ sagði Caroline. Síðan hélt hún áfram að útskýra að Vottar Jehóva trúi því að Jesús sé sonur Guðs en ekki jafn Guði sem hluti af þrenningu. — Markús 13:32; Lúkas 22:42; Jóhannes 14:28.

Eftir nokkrar heimsóknir var augljóst að slæm heilsa hrjáði Betty þótt hún væri bjartsýn og ánægð. Hún var reyndar með krabbamein og óttaðist dauðann. „Ég vildi óska að ég hefði heyrt um þetta fyrir mörgum árum og hefði sömu trú og þið,“ viðurkenndi hún. Caroline huggaði hana með því að sýna henni ritningarstaði þar sem dauðanum er líkt við djúpan svefn sem maður verður vakinn af í upprisunni. (Jóhannes 11:11, 25) Þetta hafði mikið að segja fyrir Betty og núna er hún að kynna sér Biblíuna með hjálp Votta Jehóva. Hrakandi heilsa er það eina sem hefur komið í veg fyrir að hún komi á samkomur í ríkissalnum.

Caroline segir: „Í mínum huga er það ljóst að englarnir stjórna starfinu. Betty var ‚skakkt númer‘ og það sem meira er, hún er 89 ára!“ — Opinberunarbókin 14:6.