Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Glæddu hjá þér slíkt hugarfar að þú óttist Jehóva

Glæddu hjá þér slíkt hugarfar að þú óttist Jehóva

Glæddu hjá þér slíkt hugarfar að þú óttist Jehóva

„Ó, að þeir hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga.“ —  5. MÓSEBÓK 5:29.

1. Hvernig getum við verið viss um að sú stund renni upp að menn verði lausir við allan ótta?

ÓTTI hefur sótt að mönnum um aldaraðir. Ótti við hungur, sjúkdóma, glæpi eða stríð heldur milljónum manna sífellt í angist. Af þeirri ástæðu er í inngangsorðum mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sett fram sú einlæga ósk að koma megi á heimi þar sem allir menn verða lausir við ótta. * Sem betur fer fullvissar sjálfur Guð okkur um að slíkur heimur komi — en þó ekki fyrir tilverknað manna. Fyrir munn spámannsins Míka heitir Jehóva okkur því að í hinum nýja réttláta heimi sínum ‚verði enginn til að hræða fólk hans.‘ — Míka 4:4.

2. (a) Hvernig hvetur Ritningin okkur til að óttast Guð? (b) Hvaða spurningar gætu komið upp þegar við íhugum þá skyldu okkar að óttast Guð?

2 Ótti getur á hinn bóginn líka verið jákvætt afl. Í Ritningunni eru þjónar Guðs hvað eftir annað hvattir til að óttast Jehóva. Móse sagði Ísraelsmönnum: „[Jehóva] Guð þinn skalt þú óttast, og hann skalt þú dýrka.“ (5. Mósebók 6:13) Öldum síðar skrifaði Salómon: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ (Prédikarinn 12:13) Með boðunarstarfi okkar, sem fram fer undir umsjón engla, erum við sömuleiðis að hvetja alla menn til að ‚óttast Guð og gefa honum dýrð.‘ (Opinberunarbókin 14:6, 7) Auk þess að óttast Jehóva verða kristnir menn að elska hann af öllu hjarta. (Matteus 22:37, 38) Hvernig getum við elskað Guð og óttast hann um leið? Hvers vegna er nauðsynlegt að óttast ástríkan Guð? Hvaða gagn höfum við af því að rækta með okkur guðsótta? Til þess að svara þessum spurningum verum við fyrst að skilja hvað felst í því að óttast Guð og hvernig þess konar ótti sé einn grundvallarþátturinn í sambandi okkar við Jehóva.

Aðdáun, lotning og ótti

3. Hvað er átt við með guðsótta?

3 Guðsótti er tilfinning sem kristnir menn ættu að bera til skapara síns. Þessi ótti er meðal annars skilgreindur sem „aðdáun og djúpstæð virðing fyrir skaparanum og heilnæmur ótti við að gera honum á móti skapi.“ Guðsótti hefur þannig áhrif á tvo mikilsverða þætti í lífi okkar: viðhorf okkar til Guðs og viðhorf okkar til hegðunar sem hann hatar. Báðir þessir þættir skipta greinilega sköpum og verðskulda vandlega athugun. Í heimildarritinu Expository Dictionary of New Testament Words bendir biblíufræðingurinn Vine á að þessi lotningarfulli ótti ‚ráði miklu í lífi kristinna manna um það hvaða braut þeir vilja ganga bæði í andlegum og siðferðilegum efnum.‘

4. Hvernig getum við glætt með okkur aðdáun og lotningu fyrir skaparanum?

4 Hvernig getum við glætt með okkur aðdáun og lotningu fyrir skaparanum? Við stöndum agndofa af aðdáun og hrifningu þegar við lítum fagurt landslag, tilkomumikinn foss eða dýrlegt sólarlag. Þessar tilfinningar eflast til muna þegar við, vegna trúar okkar, greinum handbragð Guðs á slíkum sköpunarverkum. Enn fremur skynjum við, eins og Davíð konungur, hversu lítilvæg við sjálf erum í samanburði við magnþrungna sköpun Jehóva. „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans?“ (Sálmur 8:4, 5) Þessi djúpstæða aðdáun leiðir af sér lotningu sem fær okkur til að þakka og lofa Jehóva fyrir allt sem hann gerir fyrir okkur. Davíð skrifaði líka: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ — Sálmur 139:14.

5. Hvers vegna ættum við að óttast Jehóva og hvaða góða fordæmi höfum við í því efni?

5 Aðdáun og lotning getur af sér heilnæman og tilhlýðilegan ótta við mátt Guðs sem skapara og við vald hans sem hins réttmæta stjórnanda alheimsins. Í sýn sá Jóhannes postuli þá „sem unnið höfðu sigur á dýrinu og líkneski þess“ — smurða fylgjendur Krists sem þá eru komnir í himneska stöðu sína —  gefa eftirfarandi yfirlýsingu: „Mikil og dásamleg eru verkin þín, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt?“ (Opinberunarbókin 15:2-4) Ótti við Guð, sprottinn af djúpstæðri lotningu fyrir hátign hans, fær þessa meðstjórnendur Krists í hinu himneska ríki til að heiðra Guð sem hinn æðsta valdhafa. Höfum við ekki kappnóga ástæðu til að óttast Jehóva þegar við íhugum allt sem hann hefur afrekað og á hve réttlátan hátt hann stjórnar alheiminum? — Sálmur 2:11; Jeremía 10:7.

6. Hvers vegna ætti að búa í okkur heilnæm hræðsla við að vanþóknast Jehóva?

6 En aðdáun og lotning nægja ekki. Í guðsóttanum þarf líka að felast heilnæm hræðsla við að vanþóknast Guði eða óhlýðnast honum. Af hverju? Af því að þótt Jehóva sé „þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur“ verðum við að muna að hann „lætur [misgjörða, afbrota og synda] þó eigi með öllu óhegnt.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Jehóva er kærleiksríkur og miskunnsamur en líður samt ekki óréttvísi og vísvitandi rangsleitni. (Sálmur 5:5, 6; Habakkuk 1:13, 14) Þeir sem af ásettu ráði stunda það sem er illt í augum Jehóva og iðrast ekki og þeir sem snúast gegn honum geta ekki gert það sér að skaðlausu. „Óttalegt er,“ eins og Páll sagði, „að falla í hendur lifanda Guði.“ Ef í okkur býr heilnæm hræðsla við að lenda í slíkum aðstæðum verður það okkur í raun til verndar.— Hebreabréfið 10:31.

„Við hann skuluð þér halda yður fast“

7. Hvaða ástæður höfum við til að treysta á mátt Jehóva til að bjarga fólki?

7 Áður en við getum náð að leggja traust okkar og trúnað á Jehóva þurfum við að búa yfir lotningarfullum ótta við hann og vera ákaflega meðvituð um hinn ógurlega mátt hans. Rétt eins og litlu barni finnst það vera öruggt þegar faðir þess er nærri finnst okkur við vera óhult og örugg undir leiðbeinandi hendi Jehóva. Tökum eftir hvernig Ísraelsmenn brugðust við þá er Jehóva hafði leitt þá út úr Egyptalandi: „Og er Ísrael sá hið mikla undur, sem [Jehóva] hafði gjört á Egyptum, þá óttaðist fólkið [Jehóva], og þeir trúðu á [Jehóva].“ (2. Mósebók 14:31) Reynsla Elísa er líka til vitnis um að „engill [Jehóva] setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.“ (Sálmur 34:8; 2. Konungabók 6:15-17) Nútímasaga fólks Jehóva og sennilega okkar eigin reynsla staðfestir að Guð beitir mætti sínum í þágu þeirra sem þjóna honum. (2. Kroníkubók 16:9) Þannig skynjum við að „í ótta [Jehóva] er öruggt traust.“ — Orðskviðirnir 14:26.

8. (a) Hvers vegna fær ótti við Guð okkur til að ganga á vegum hans? (b) Útskýrðu hvernig við ættum að ‚halda okkur fast‘ við Jehóva.

8 Heilnæmur guðsótti nærir ekki aðeins traust okkar og trúnað á Guð heldur hvetur okkur líka til að ganga á hans vegum. Þegar Salómon vígði musterið bað hann til Jehóva: ‚Megi Ísrael óttast þig og ganga á vegum þínum alla þá stund, er þeir lifa í landinu, er þú gafst feðrum vorum.‘ (2. Kroníkubók 6:31) Löngu áður hafði Móse gefið Ísraelsmönnum þessa hvatningu: „[Jehóva] Guði yðar skuluð þér fylgja og hann skuluð þér óttast, og skipanir hans skuluð þér varðveita og raustu hans skuluð þér hlýða, og hann skuluð þér dýrka og við hann skuluð þér halda yður fast.“ (5. Mósebók 13:4) Löngunin til að ganga á vegum Jehóva og að ‚halda sér fast‘ við hann verður til, eins og þessi vers sýna greinilega, af því að menn setja traust og trúnað á Guð. Já, guðsótti fær okkur til að hlýða Jehóva, þjóna honum og halda okkur fast við hann, nákvæmlega eins og lítið barn heldur sér gjarnan bókstaflega fast í föður sinn sem það treystir algerlega. — Sálmur 63:9.

Að elska Guð er að óttast hann

9. Hver eru tengslin milli kærleiks til Guðs og ótta við Guð?

9 Óttist menn Guð útilokar það engan veginn, frá biblíulegum sjónarhóli, að þeir elski hann. Ísraelsmönnum var þvert á móti kennt að ‚óttast Jehóva Guð sinn og ganga því ávallt á hans vegum svo að þeir myndu elska hann.‘ (5. Mósebók 10:12) Ótti við Guð og kærleikur til Guðs eru þar af leiðandi nátengdir. Ótti við Guð fær okkur til að ganga á hans vegum og það er síðan sannindamerki um kærleika okkar til hans. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Þetta er rökrétt af því að þegar við elskum einhvern óttumst við með réttu að særa hann. Ísraelsmenn hryggðu Jehóva með þrjóskufullri breytni sinni í eyðimörkinni. Vissulega vildum við ekki gera neitt til að leiða slíka sorg yfir himneskan föður okkar. (Sálmur 78:40, 41) Hlýðni okkar og trúfesti verður aftur á móti til þess að gleðja hjarta Guðs af því að hann „hefir þóknun á þeim er óttast hann.“ (Orðskviðirnir 27:11; Sálmur 147:11) Kærleikur til Guðs fær okkur til að þóknast honum og ótti við Guð aftrar okkur frá að hryggja hann. Þessi kærleikur og ótti stangast ekki á heldur efla hvor annan.

10. Hvernig sýndi Jesús að hann hefði yndi af því að óttast Jehóva?

10 Líf Jesú Krists er skýrt dæmi um það hvernig við getum elskað Guð og samtímis óttast hann. Spámaðurinn Jesaja skrifaði um Jesú: „Yfir honum mun hvíla andi [Jehóva]: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta [Jehóva]. Unun hans mun vera að óttast [Jehóva].“ (Jesaja 11:2, 3) Samkvæmt þessum spádómi fékk andi Guðs Jesú til að óttast himneskan föður sinn. Við tökum auk þess eftir að þessi ótti var langt frá því að vera hamlandi. Hann var öllu heldur gleðigjafi. Jesús hafði yndi af að gera vilja Guðs og þóknast honum, jafnvel við hinar erfiðustu kringumstæður. Þegar hann stóð andspænis yfirvofandi aftöku á kvalastaurnum sagði hann við Jehóva: „Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ (Matteus 26:39) Vegna þess að sonur Guðs sýndi þessa guðhræðslu hlustaði Jehóva með velþóknun á áköll hans, styrkti hann og frelsaði hann frá dauða. — Hebreabréfið 5:7.

Hvernig við lærum að óttast Jehóva

11, 12. (a) Hvers vegna þurfum við að læra að óttast Guð? (b) Hvernig kennir Jesús okkur að óttast Jehóva?

11 Ósjálfrátt fyllumst við aðdáun og lotningu þegar við stöndum andspænis afli og mikilfengleik náttúrunnar, en ótti við Guð kemur ekki þannig sjálfkrafa. Sökum þess fáum við á spádómlegan hátt þetta boð frá hinum meiri Davíð, Jesú Kristi: „Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta [Jehóva].“ (Sálmur 34:12) Hvernig getum við lært af Jesú að óttast Jehóva?

12 Jesús hjálpar okkur að skilja hve dásamlegum persónueiginleikum hinn himneski faðir okkar er gæddur og með því kennir hann okkur að óttast Jehóva. (Jóhannes 1:18) Með eigin fordæmi opinberar Jesús hvernig Guð hugsar og hvernig hann meðhöndlar aðra, vegna þess að Jesús endurspeglar persónuleika föður síns fullkomlega. (Jóhannes 14:9, 10) Þar fyrir utan fáum við, vegna fórnar Jesú, aðgang að Jehóva þegar við biðjum um fyrirgefningu synda okkar. Hvernig miskunn Guðs birtist þannig á alveg einstakan hátt er í sjálfu sér öflug ástæða til þess að óttast hann. Sálmaritarinn skrifaði: „En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.“ — Sálmur 130:4.

13. Hvaða skref benda Orðskviðirnir á sem hjálpa okkur að óttast Jehóva?

13 Í Orðskviðunum er í stórum dráttum bent á skref sem við getum stigið hvert af öðru til að glæða með okkur guðsótta. „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin,. . . þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði.“ (Orðskviðirnir 2:1-5) Til þess að óttast Guð verðum við því að nema orð hans, leitast í einlægni við að skilja tilsögnina sem þar er og gefa síðan vandlegan gaum að ráðleggingum þess.

14. Hvernig getum við fylgt þeim leiðbeiningum sem Ísraelskonungar fengu?

14 Sérhver konungur í Ísrael til forna fékk þau fyrirmæli að gera eftirrit af lögmálinu og ‚lesa í því alla ævidaga sína, til þess að hann mætti læra að óttast Jehóva Guð sinn og gæta þess að halda öll fyrirmæli lögmálsins.‘ (5. Mósebók 17:18, 19) Lestur og nám í Biblíunni er ekkert síður nauðsynlegt fyrir okkur ef við eigum að læra að óttast Jehóva. Þegar við beitum frumreglum Biblíunnar í lífi okkar öðlumst við smám saman visku og þekkingu sem kemur frá Guði. Við förum að „skilja hvað ótti [Jehóva] er“ vegna þess að við sjáum það góða sem slíkur ótti kemur til leiðar í lífi okkar, og við metum mikils samband okkar við Guð. Auk þess geta bæði ungir og aldnir, með því að safnast reglulega saman með trúsystkinum sínum, hlustað á kennslu Guðs og lært að óttast hann og ganga á vegum hans. — 5. Mósebók 31:12.

Sæll er hver sá er óttast Jehóva

15. Hvernig tengist guðsótti tilbeiðslu okkar á Guði?

15 Af framansögðu getum við séð að guðsótti er heilnæmt viðhorf sem við ættum öll að rækta með okkur vegna þess að það er undirstöðuatriði í tilbeiðslu okkar á Jehóva. Það fær okkur til að treysta á hann skilyrðislaust, ganga á vegum hans og halda okkur fast við hann. Guðsótti getur fengið okkur, eins og Jesú, til að uppfylla vígsluheit okkar núna og um alla eilífð.

16. Af hverju hvetur Jehóva okkur til að óttast sig?

16 Guðsótti er aldrei sjúklegur eða óþarflega hamlandi. „Sæll er hver sá, er óttast [Jehóva], er gengur á hans vegum,“ fullvissar Biblían okkur um. (Sálmur 128:1) Jehóva hvetur okkur til að óttast sig af því að hann veit að það er okkur til verndar. Ástrík umhyggjan í orðum hans til Móse fer ekki fram hjá okkur: „Ó, að þeir [Ísraelsmenn] hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga, svo að þeim vegni vel og börnum þeirra um aldur og ævi.“ — 5. Mósebók 5:29.

17. (a) Hvaða hag höfum við af því að óttast Guð? (b) Hvaða hliðar guðsóttans verða skoðaðar í greininni hér á eftir?

17 Ef við glæðum hjá okkur slíkt hugarfar að við óttumst Guð mun okkur að sama skapi vegna vel. Hvernig þá? Slíkt viðhorf mun fyrst og fremst gleðja Jehóva og draga okkur nær honum. Davíð vissi af eigin raun að „hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.“ (Sálmur 145:19) Í annan stað kemur guðsótti okkur að gagni vegna þess að hann hefur áhrif á viðhorf okkar til þess sem illt er. (Orðskviðirnir 3:7) Greinin hér á eftir tekur til athugunar hvernig þessi ótti veitir okkur vörn gegn andlegum háskasemdum. Hún fer yfir nokkur biblíuleg dæmi um menn sem óttuðust Guð og sneru baki við hinu illa.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti mannréttindayfirlýsinguna hinn 10. desember 1948.

Getur þú svarað þessu?

• Hvað þýðir guðsótti og hvaða áhrif hefur hann á okkur?

• Hver eru tengslin á milli þess að óttast Guð og að ganga með Guði?

• Hvernig sýnir fordæmi Jesú að samband sé á milli þess að óttast Guð og að elska Guð?

• Hvernig getum við glætt með okkur slíkt hugarfar að við óttumst Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 11]

Ísraelskonungum var fyrirskipað að gera afrit fyrir sjálfa sig af lögmálinu og lesa það daglega.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Ótti við Jehóva fær okkur til að treysta honum eins og sonur treystir föður sínum.

[Mynd credit line á blaðsíðu 9]

Stjörnur: Mynd eftir Malin, © IAC/RGO 1991.