Hvers vegna fórst þessi fortíðar heimur?
Hvers vegna fórst þessi fortíðar heimur?
HEIMSFLÓÐIÐ átti sér ekki náttúrulegar orsakir heldur kom það sem dómur frá Guði. Viðvörun var gefin en fæstir tóku mark á henni. Því fór sem fór. Jesús sagði: „Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt.“ — Matteus 24:38, 39.
Þróuð siðmenning
Á vissum sviðum stóð mannkynið betur að vígi fyrir flóðið en nú. Til dæmis töluðu allir sama tungumálið. (1. Mósebók 11:1) Það hefur örugglega stuðlað að afrekum á sviði lista og vísinda sem útheimta samvinnu margra með ólíka hæfileika. Hið langa æviskeið flestra á þeim tíma gerði mönnum líka kleift að halda áfram að byggja á því sem þeir höfðu lært í aldanna rás.
Sumir halda því fram að æviskeið manna í þá daga hafi í raun ekki verið svona langt og að átt sé við mánuði þar sem Biblían talar um ár. Er þetta rétt? Lítum á Mahalalel sem dæmi. Biblían segir: „Er Mahalalel var sextíu og fimm ára, gat hann Jared. . . . Og allir dagar Mahalalels voru átta hundruð níutíu og fimm ár, þá andaðist hann.“ (1. Mósebók 5:15-17) Ef ár eru mánuðir þá eignaðist Mahalalel son þegar hann var aðeins fimm ára gamall. Árin voru ekki mánuðir heldur var lífsþróttur manna á þessum tíma nær hinum fullkomna lífsþrótti fyrsta mannsins Adams. Menn lifðu í raun í margar aldir. Hverju áorkuðu þeir?
Öldum fyrir flóðið var íbúatala jarðarinnar orðin svo há að Kain, sonur Adams, gat byggt borg sem hann kallaði Henok. (1. Mósebók 4:17) Á tímanum fyrir flóðið þróaðist ýmiss konar iðnmenning. Menn smíðuðu „úr kopar og járni alls konar tól.“ (1. Mósebók 4:22) Þessi tól voru vafalaust notuð við byggingar, trésmíði, fataiðn og jarðyrkju. Í frásögum af fyrstu íbúum jarðar er minnst á allar þessar iðngreinar.
Þekkingin, sem menn viðuðu að sér, gat gert komandi kynslóðum kleift að þróa sérgreinar á borð við málmvinnslu, jarðræktarfræði, búfjárrækt, skriftir, og fagrar listir. Júbal var til dæmis „ættfaðir allra þeirra, sem leika á gígjur og hjarðpípur.“ (1. Mósebók 4:21) Siðmenningunni fleygði fram. Samt leið allt skyndilega undir lok. Hvað gerðist?
Hvað fór úrskeiðis?
Þrátt fyrir alla þá kosti, sem samfélagið fyrir flóðið hafði, byrjaði saga þess ekki vel. Adam, stofnandi þess, gerði uppreisn gegn Guði. Kain, sem byggði fyrstu borgina svo vitað sé, myrti bróður sinn. Það er ekki að furða að illskan skuli hafa magnast. Hin slæma arfleið, sem Adam gaf afkomendum sínum, fór smám saman að segja til sín. — Rómverjabréfið 5:12.
Það stefndi greinilega í óefni og Jehóva ákvað að hann myndi aðeins leyfa þessu að viðgangast í 120 ár til viðbótar. (1. Mósebók 6:3) Biblían segir: ‚Illska mannsins var mikil á jörðinni og allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga, jörðin fylltist glæpaverkum.‘ — 1. Mósebók 6:5, 11.
Að lokum var Nóa sagt að Guð myndi eyða öllu holdi í vatnsflóði. (1. Mósebók 6:13, 17) Þó að Nói hafi gerst ‚prédikari réttlætisins‘ var greinilega erfitt fyrir fólk að trúa því að allt sem það sá í kringum sig myndi líða undir lok. (2. Pétursbréf 2:5) Aðeins átta manns gáfu viðvöruninni gaum og björguðust. (1. Pétursbréf 3:20) Af hverju er þetta mikilvægt fyrir okkur sem nú lifum?
Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir okkur?
Dagar okkar eru mjög svipaðir dögum Nóa. Við heyrum stöðugt af skelfilegum hryðjuverkum, þjóðarmorðum, mönnum sem fremja fjöldamorð af minnsta tilefni, svo og heimilisofbeldi sem er gríðarlega útbreitt. Jörðin er aftur orðin full af glæpaverkum og eins og þá er búið að vara heiminn við komandi dómi. Jesús sagðist sjálfur koma sem skipaður dómari Guðs til að skilja fólk hvert frá öðru eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Hann sagði að þeir sem væru óverðugir ‚færu til eilífrar refsingar,‘ það er að segja eilífrar eyðingar. (Matteus 25:31-33, 46) Biblían segir hins vegar að í þetta sinn komist milljónir manna af — mikill múgur sem tilbiður hinn eina sanna Guð. Í hinum komandi heimi mun þetta fólk njóta þess að lifa við varanlegan frið og öryggi sem aldrei fyrr. — Míka 4:3, 4; Opinberunarbókin 7:9-17.
Margir gera gys að fullyrðingum og viðvörunum Biblíunnar um komandi dóm en þær sannast þegar honum verður fullnægt. Pétur postuli sagði að slíkir efasemdamenn væru að horfa fram hjá staðreyndum. Hann skrifaði: „Á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er . . . segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans‘? . . . Viljandi gleyma þeir því, að himnar voru til forðum og jörð til orðin af vatni og upp úr vatni fyrir orð Guðs. Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst. En þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ — 2. Pétursbréf 3:3-7.
Matteus 24:14) Þessa viðvörun á að taka alvarlega því að alvaldur Guð stendur við orð sín.
Í samræmi við spádómleg fyrirmæli Jesú er um allan heim verið að vara fólk við hinum komandi dómsdegi og boða gleðitíðindi um þann frið sem kemur í kjölfarið. (Heimurinn sem koma skal
Hver er þá framtíð mannkynsins þegar tekið er mið af þessari afdrifaríku breytingu sem koma skal? Í inngangsorðum hinnar frægu fjallræðu lofaði Jesús: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ Síðan hélt hann áfram og kenndi lærisveinunum að biðja til Guðs: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 5:5; 6:10) Já, Jesús kenndi sjálfur að trúfastir menn ættu yndislega framtíð fyrir höndum hér á jörðinni. Hann kallaði þetta ‚endurfæðingu.‘ — Matteus 19:28.
Þegar þú veltir framtíðinni fyrir þér skaltu því ekki leyfa spotturum að gera þig vantrúaðan á viðvörun Guðs. Umhverfi okkar virðist kannski vera stöðugt og núverandi heimur á sér langa sögu. En við ættum samt sem áður ekki að setja traust okkar á hann. Það er búið að dæma mannheiminn. Leitaðu því hughreystingar í lokaorðunum í bréfi Páls postula:
„Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags . . . Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði. Vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists.“ (2. Pétursbréf 3:11, 12, 14, 18) Lærðu af því sem gerðist á dögum Nóa. Nálægðu þig Guði. Bættu við þekkingu þína á Jesú Kristi. Þroskaðu með þér guðrækni og vertu meðal þeirra milljóna manna sem velja að lifa af endalok þessa heims og komast inn í þann friðsæla heim sem er framundan.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Málmsmíði var þekkt fyrir flóðið.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Við eigum dásamlega framtíð fyrir höndum.