Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Ber að skilja leiðbeiningar Guðs í Jeremía 7:16 þannig að kristnir menn eigi ekki að biðja fyrir þeim sem hefur verið vikið úr kristna söfnuðinum fyrir að syndga og iðrast ekki?

Eftir að Jehóva hafði kveðið upp dóm sinn yfir Júdamönnum, sem voru ótrúir, sagði hann við Jeremía: „Þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, og legg ekki að mér, því að ég heyri þig ekki.“ — Jeremía 7:16.

Hvers vegna var Jeremía bannað að biðja fyrir Ísraelsmönnum? Augljóslega vegna þess hve svívirðilega þeir höfðu brotið lögmál hans. Þeir ‚stálu, myrtu, drýgðu hór, sóru meinsæri, færðu Baal reykelsisfórnir og eltu aðra guði‘ blygðunarlaust og fyrir opnum tjöldum. Þess vegna sagði Jehóva hinum trúlausu Gyðingum: „[Ég] útskúfa yður frá augliti mínu, eins og ég útskúfaði bræðrum yðar, öllum niðjum Efraíms.“ Ljóst er að það hefði verið algerlega óviðeigandi að Jeremía eða nokkur annar bæði Jehóva að snúa dómi sínum við. — Jeremía 7:9, 15.

Jóhannes postuli tók í sama streng er hann fjallaði um viðeigandi bænir. Fyrst fullvissaði hann kristna menn um að ‚ef þeir bæðu um eitthvað eftir Guðs vilja þá heyrir hann þá.‘ (1. Jóhannesarbréf 5:14) Síðan talaði hann um það að biðja fyrir öðrum og sagði: „Ef einhver sér bróður sinn drýgja synd, sem er ekki til dauða, þá skal hann biðja, og Guð mun gefa honum líf, þeim sem ekki syndgar til dauða. Til er synd til dauða. Fyrir henni segi ég ekki að hann skuli biðja.“ (1. Jóhannesarbréf 5:16) Jesús minntist einnig á synd sem ‚yrði ekki fyrirgefin,‘ það er að segja synd gegn heilögum anda. — Matteus 12:31, 32.

Ber að skilja þetta svo að allir sem vikið er úr kristna söfnuðinum fyrir að syndga og iðrast ekki, hafi drýgt synd „til dauða“ og því eigi ekki að biðja fyrir þeim? Svo þarf ekki að vera því að ekki er í öllum tilfellum um brot að ræða sem er synd til dauða. Reyndar er erfitt að meta hvort syndirnar eru þess eðlis. Manasse Júdakonungur er dæmi um það. Hann reisti falsguðum ölturu, færði syni sína að fórn, stundaði spíritisma og lét setja upp skurðgoð í musteri Jehóva. Biblían segir reyndar að Manasse og þjóð hans hafi breytt ‚verr en þær þjóðir sem Jehóva hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.‘ Fyrir vikið refsaði Jehóva Manasse með því að senda hann fjötraðan sem fanga til Babýlonar. — 2. Konungabók 21:1-9; 2. Kroníkubók 33:1-11.

Voru hinar svívirðilegu syndir Manasse syndir til dauða? Greinilega ekki því að frásagan heldur áfram og segir um hann: „En er hann var í nauðum staddur, reyndi hann að blíðka [Jehóva], Guð sinn, og lægði sig mjög fyrir Guði feðra sinna. Og er hann bað hann, þá bænheyrði [Jehóva] hann. Hann heyrði grátbeiðni hans og lét hann hverfa heim aftur til Jerúsalem í ríki sitt. Komst þá Manasse að raun um, að [Jehóva] er Guð.“ — 2. Kroníkubók 33:12, 13.

Við ættum því ekki að álykta í fljótræði að maður, sem vikið er úr söfnuðinum, hljóti að vera sekur um synd til dauða. Það tekur kannski nokkurn tíma áður en það kemur í ljós hvað býr raunverulega í hjarta hans. Reyndar er oft sagt að eitt af markmiðunum með því að víkja syndara úr söfnuðinum sé að koma vitinu fyrir hann, í von um að hann iðrist og snúi við.

Þar sem viðkomandi einstaklingur tilheyrir ekki söfnuðinum lengur er líklegt að þeir sem standa honum næst, svo sem maki eða nákomnir ættingjar, taki fyrst eftir breytingum á hjartalagi hans og hugarfari. Þeir sem sjá þessar breytingar geta ályktað sem svo að hinn brotlegi hafi ekki framið synd sem er til dauða. Þeir biðja þess kannski að hann sæki styrk í innblásið orð Guðs og að Guð sinni honum í samræmi við vilja sinn. — Sálmur 44:22; Prédikarinn 12:14.

Þó að sumir séu í aðstöðu til að sjá nógu mikið til að álíta að syndarinn hafi iðrast er óvíst að söfnuðurinn í heild sé það. Það gæti valdið furðu, óróa eða jafnvel hneykslun ef söfnuðurinn heyrði einhvern biðja opinberlega fyrir hinum brotlega. Þeir sem vilja biðja fyrir syndaranum ættu þess vegna að gera það einslega og láta útnefnda öldunga safnaðarins sjá um framhaldið.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Manasse syndgaði gróflega en var fyrirgefið er hann auðmýkti sig fyrir Jehóva.

[Mynd credit line á blaðsíðu 30]

Úr Illustrirte Pracht - Bibel/Heilige Schrift des Alten und Neuen Testaments, nach der deutschen Uebersetzung D. Martin Luther’s.