Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góð forysta er fágæt

Góð forysta er fágæt

Góð forysta er fágæt

Hann var rithöfundur og ljóðskáld. Hann lét sig dreyma um bjarta og fagra framtíð. Fyrir 90 árum sá hann fyrir sér stað „þar sem hugurinn er frjáls undan ótta og menn bera höfuðið hátt; þar sem þekking er ókeypis; þar sem heiminum er ekki margsundrað með landamærum, þar sem orð spretta fram úr djúpum sannleikans; þar sem þrotlaus viðleitni teygir arma sína fram til fullkomnunar.“

HÖFUNDURINN lét síðan í ljós þá von að þjóð sín, sem og aðrar þjóðir heims, myndu einhvern tíma búa í slíkum heimi. Þessi nóbelsverðlaunahafi yrði fyrir miklum vonbrigðum ef hann væri á lífi núna. Þrátt fyrir miklar framfarir og merkar uppgötvanir er heimurinn sundraðri en nokkru sinni fyrr. Og framtíðarhorfur mannsins eru ekki glæsilegar þegar á heildina er litið.

Eftir að allt hafði farið í bál og brand milli tveggja ættflokka í landi einu var bóndi nokkur spurður hverjar ástæðurnar fyrir því væru að hans mati. „Leiðtogarnir eru óhæfir,“ svaraði hann. Sagnfræðingurinn Jonathan Glover tekur í sama streng í bók sinni Humanity — A Moral History of the Twentieth Century: „Þjóðarmorðin [í þessu sama landi] spruttu ekki sjálfkrafa af hatri milli ættflokka heldur voru þau skipulögð af fólki sem ætlaði sér að halda völdum.“

Þegar stríð braust út milli tveggja lýðvelda fyrrverandi Júgóslavíu snemma á síðasta áratug nýliðinnar aldar skrifaði blaðamaður: „Við bjuggum saman í friðsemd svo árum skipti en nú erum við farin að drepa börn hver annars. Hvað er að gerast hjá okkur?“

Ljóðskáldið, sem nefnt var í upphafi greinarinnar, fæddist á Indlandi, þúsundir kílómetra frá Evrópu. Rithöfundurinn Pranay Gupte flutti einu sinni erindi sem hann nefndi: „Geta Indverjar haldið velli sem ein þjóð?“ Þar sagði hann: ‚Um 70 prósent af íbúum Indlands eru undir þrítugu en þjóðin á sér enga leiðtoga sem unga fólkið getur tekið sér til fyrirmyndar.‘

Í sumum löndum heims hafa leiðtogar þurft að segja af sér eftir að hafa verið ákærðir fyrir spillingu. Heimurinn virðist því af ýmsum ástæðum vera að ganga í gegnum forystukreppu. Það má með sanni segja að spámaður einn, sem var uppi fyrir 2600 árum, hafi hitt naglann á höfðið er hann sagði: „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23.

Er einhver leið út úr þeim ógöngum sem heimurinn er kominn í? Hver getur leitt mannkynið inn í heim þar sem menn eiga hvorki í hatrömmu stríði né búa við þjakandi ótta, þar sem sönn þekking er ókeypis og stendur öllum til boða og þar sem mannkynið stefnir fram til fullkomnunar?

[Mynd credit line á blaðsíðu 3]

Fatmir Boshnjaku.