Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hæfir til að kenna orð Guðs

Hæfir til að kenna orð Guðs

Hæfir til að kenna orð Guðs

‚Guð hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna.‘ —  2. KORINTUBRÉF 3:5, 6.

1, 2. Hvaða tilraunir til boðunar eru stundum gerðar og hvers vegna mistakast þær?

HVERNIG litist þér á að fá verkefni sem þú værir ekki fær um að leysa af hendi? Gerðu þér í hugarlund að allt efni til verksins sé fyrir framan þig og verkfærin við höndina. En þú hefur ekki hugmynd um hvernig ætti að framkvæma verkið. Og það sem verra er, það bráðliggur á að ljúka verkinu og fólk reiðir sig á þig. Væri ekki gremjulegt að lenda í þessu?

2 Svona ógöngur eru ekki alveg úr lausu lofti gripnar. Tökum dæmi: Öðru hverju hafa einstaka kirkjur kristna heimsins reynt að skipuleggja og halda úti boðunarstarfi hús úr húsi. Slíkar tilraunir hafa yfirleitt mistekist og fjarað út á fáeinum vikum eða mánuðum. Hvers vegna? Vegna þess að kirkjufélögin hafa ekki þjálfað áhangendur sína fyrir þetta starf. Prestastéttin er jafnvel ekki hæf til að taka að sér slíkt boðunarstarf, þrátt fyrir áralanga menntun við veraldlegar menntastofnanir og prestaskóla. Af hverju getum við sagt það?

3. Hvaða samstofna orð eru þrisvar sinnum notuð í 2. Korintubréfi 3:5, 6 og hvað merkja þau?

3 Orð Guðs útskýrir hvað það er sem gerir fólk að hæfum boðberum fagnaðarerindisins. Páli postula var innblásið að rita: „Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði, sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna.“ (2. Korintubréf 3:5, 6) Taktu eftir því að þrisvar sinnum eru notuð orð sem tengjast ‚hæfni.‘ Hvað merkja þau? Biblíuorðabókin Vine’s Expository Dictionary of Biblical Words segir: „Þegar [gríska orðið í frumtextanum] er notað um hluti merkir það ‚nóg‘ . . . en þegar það er notað um fólk merkir það ‚fær,‘ ‚verðugur.‘“ Sá sem er „hæfur“ er þess vegna fær um og verðugur þess að taka að sér ákveðið verk. Já, sannir boðberar fagnaðarerindisins eru hæfir til að inna þetta starf af hendi. Þeir eru færir um að prédika, verðugir og í stakk búnir til þess.

4. (a) Hvernig sýnir dæmi Páls að það eru ekki aðeins fáir útvaldir sem eru hæfir til að boða fagnaðarerindið? (b) Hvaða þrjár leiðir notar Jehóva til að gera okkur að hæfum boðberum?

4 En hvað veitir fólki þessa hæfni? Eru það meðfæddir hæfileikar, afburðagáfur eða sérmenntun í virtum skólum? Páll postuli hafði greinilega allt þetta til að bera. (Postulasagan 22:3; Filippíbréfið 3:4, 5) Samt sem áður viðurkenndi hann auðmjúklega að hæfileikar hans til að boða trúna væru ekki æðri menntastofnunum að þakka heldur Jehóva Guði. Eru slíkir hæfileikar aðeins ætlaðir fáeinum útvöldum? Páll skrifaði söfnuðinum í Korintuborg „að vér séum sjálfir hæfir.“ Það gefur vissulega til kynna að Jehóva sjái til þess að allir trúfastir þjónar hans séu hæfir til og færir um að leysa það starf af hendi sem hann hefur falið þeim. Hvernig gerir Jehóva sannkristið fólk hæft til að inna þetta starf af hendi nú á tímum? Við skulum fjalla um þrjár leiðir sem hann notar: (1) orð sitt, (2) heilagan anda sinn og (3) jarðneskt skipulag sitt.

Orð Jehóva gerir okkur að hæfum boðberum

5, 6. Hvaða áhrif hefur Ritningin á sannkristið fólk?

5 Í fyrsta lagi skulum við kanna hvernig orð Guðs á þátt í því að gera okkur að hæfum boðberum. Páll skrifaði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Ritningin getur sem sagt gert okkur ‚albúin og hæf‘ til að framkvæma hið ‚góða verk‘ að fræða fólk um orð Guðs. En hvað um alla áhangendur kirkna kristna heimsins? Þeir hafa aðgang að Biblíunni. Hvernig getur sama bókin gert suma að færum boðberum en aðra ekki? Svarið felst í viðhorfi okkar til Biblíunnar.

6 Því miður viðurkenna fáir kirkjugestir boðskap Biblíunnar ‚sem Guðs orð eins og það í sannleika er.‘ (1. Þessaloníkubréf 2:13) Kristni heimurinn hefur getið sér smánarlegt orð á þessu sviði. Er prestastéttin í stakk búin til að kenna orð Guðs eftir margra ára nám við guðfræðistofnanir? Síður en svo. Sumir nemendur trúa á Biblíuna þegar þeir hefja nám í guðfræði en eru orðnir efahyggjumenn þegar þeir útskrifast! Í stað þess að prédika orð Guðs — sem margir þeirra trúa ekki lengur á — beina þeir þjónustu sinni inn á aðrar brautir, taka til dæmis afstöðu í stjórnmáladeilum, beita sér fyrir kristilegum þjóðfélagsumbótum eða leggja áherslu á veraldlega heimspeki í prédikunum sínum. (2. Tímóteusarbréf 4:3) Á hinn bóginn fylgir sannkristið fólk fordæmi Jesú Krists.

7, 8. Hvaða munur var á afstöðu Jesú til orðs Guðs og afstöðu trúarleiðtoganna á hans dögum?

7 Jesús lét ekki trúarleiðtoga samtíðarinnar móta hugsunarhátt sinn. Hann notaði Ritninguna á áhrifaríkan hátt, hvort sem hann var að kenna fámennum hópi, eins og postulunum, eða miklum mannfjölda. (Matteus 13:10-17; 15:1-11) Þessi venja greindi hann frá trúarleiðtogum samtímans. Þeir vöruðu almúgann eindregið við því að rýna í hin djúpu sannindi Guðs. Reyndar var það algengt á þeim tíma að kennurum fyndust sumir kaflar Ritningarinnar of torskildir til að ræða um þá við nokkurn nema nánasta nemanda sinn — og þá aðeins lágum rómi og með höfuðfat. Trúarleiðtogarnir voru næstum eins hjátrúarfullir gagnvart því að ræða um ákveðna hluta Biblíunnar og þeir voru gagnvart því að segja nafn Guðs.

8 Kristur var ekki þannig. Honum fannst að allir, ekki bara fáir útvaldir, ættu að íhuga ‚hvert það orð sem fram gengur af Guðs munni.‘ Jesús ætlaði sér ekki að færa útvöldum hópi fræðimanna einhvers konar lykil að þekkingunni. Hann sagði við lærisveina sína: „Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi.“ (Matteus 4:4; 10:27) Jesús hafði brennandi áhuga á að koma þekkingunni á Guði á framfæri við eins marga og hægt væri.

9. Hvernig notar sannkristið fólk Biblíuna?

9 Orð Guðs á að vera þungamiðjan í kennslustarfi okkar. Til dæmis er yfirleitt ekki nóg að lesa valin vers úr Biblíunni þegar ræða er flutt í ríkissal Votta Jehóva. Það þarf að útskýra ritningarstaðinn, heimfæra hann út frá samhenginu og lýsa honum með dæmi. Markmiðið er að flytja boðskap Biblíunnar úr bókinni og festa hann í hjarta áheyrandans. (Nehemía 8:8, 12) Það á líka að nota Biblíuna sem verkfæri þegar óhjákvæmilegt reynist að áminna eða leiðrétta. Þótt fólk Jehóva tali ýmis tungumál, sé af mismunandi uppruna og komi úr mismunandi umhverfi virðir það allt bók bókanna — Biblíuna.

10. Hvaða áhrif getur innblásinn boðskapur Biblíunnar haft á okkur?

10 Orð Guðs er máttugt þegar það er notað af virðingu. (Hebreabréfið 4:12) Það fær fólk til að gera breytingar á lífi sínu, eins og að snúa baki við óbiblíulegri hegðun svo sem saurlífi, hjúskaparbrotum, skurðgoðadýrkun, drykkjuskap og þjófnaði. Og það hefur hjálpað afar mörgum að afklæðast gamla persónuleikanum og íklæðast þeim nýja. (Efesusbréfið 4:20-24) Ef við berum meiri virðingu fyrir Biblíunni en skoðunum og erfðavenjum manna og notum hana trúfastlega, þá getur hún gert okkur fær um og hæf til að kenna orð Guðs.

Andi Jehóva gerir okkur að hæfum boðberum

11. Hvers vegna er heilagur andi réttilega nefndur „hjálparinn“?

11 Í öðru lagi skulum við fjalla um hvaða þátt andi Jehóva eða starfskraftur hans á í því að gera okkur hæf til þessa starfs. Gleymum aldrei að andi Jehóva er sterkasta aflið sem til er. Jehóva hefur falið ástkærum syni sínum að beita þessum mikilfenglega mætti í þágu allra sannkristinna manna. Því er viðeigandi að Jesús skuli nefna heilagan anda ‚hjálparann.‘ (Jóhannes 16:7) Hann hvatti fylgjendur sína til að biðja Jehóva um þennan anda og fullvissaði þá um að Jehóva myndi veita hann örlátlega. — Lúkas 11:10-13; Jakobsbréfið 1:17.

12, 13. (a) Hvers vegna er mikilvægt að við biðjum í bænum okkar um stuðning heilags anda í boðunarstarfinu? (b) Hvernig sýndu farísearnir að heilagur andi starfaði ekki í þeim?

12 Við þurfum að biðja Guð um heilagan anda daglega, einkum til að hjálpa okkur í boðunarstarfinu. Hvaða áhrif getur þessi starfskraftur haft á okkur? Hann getur haft áhrif á hugann og hjartað og hann getur hjálpað okkur að taka breytingum, vaxa og íklæðast nýjum persónuleika og afklæðast þeim gamla. (Kólossubréfið 3:9, 10) Hann getur stuðlað að því að við temjum okkur dýrmæta eiginleika eins og þá sem Kristur hafði. Mörg okkar geta farið með Galatabréfið 5:22, 23 utan að. Þessi vers telja upp ávexti anda Guðs. Sá fyrsti er kærleikur. Það er eiginleiki sem er ómissandi fyrir boðunarstarfið. Hvers vegna?

13 Kærleikurinn er sterkur hvati. Kærleikur til Jehóva og náungans knýr sannkristna menn til að boða fagnaðarerindið. (Markús 12:28-31) Án þess háttar kærleika værum við alls ekki hæf til að kenna orð Guðs. Tökum eftir mismuninum á Jesú og faríseunum. Í Matteusi 9:36 er sagt um Jesú: „En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ Hvaða tilfinningar báru farísearnir til almúgans? Þeir sögðu: „Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!“ (Jóhannes 7:49) Farísearnir báru ekki kærleika til fólksins en þá vantaði ekki fyrirlitninguna. Það er augljóst að andi Guðs starfaði ekki í þeim.

14. Hvaða áhrif ætti kærleikurinn, sem Jesú sýndi í boðunarstarfinu, að hafa á okkur?

14 Jesú kenndi í brjósti um fólkið. Honum var kunnugt um kvöl þess. Hann vissi að það hafði sætt illri meðferð og var hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa. „Hann vissi sjálfur, hvað í manni býr,“ segir um Jesú í Jóhannesi 2:25. Hann hafði djúpan skilning á eðli mannsins þar sem hann var verkstjóri Jehóva við sköpunina. (Orðskviðirnir 8:30, 31) Þessi skilningur hefur gert hann kærleiksríkari. Slíkur kærleikur ætti alltaf að vera hvatinn að baki boðunarstarfi okkar. Ef okkur finnst við geta tekið framförum á þessu sviði, þá skulum við biðja um heilagan anda Jehóva og breyta síðan í samræmi við bænir okkar. Jehóva bænheyrir okkur. Hann sendir ómótstæðilegan mátt sinnt til að hjálpa okkur að líkjast Kristi enn frekar, en hann var færastur allra í að boða fagnaðarerindið.

15. Hvernig áttu orðin í Jesaja 61:1-3 við Jesú og hvernig afhjúpuðu þau líka fræðimennina og faríseana?

15 Hvaðan komu hæfileikar Jesú? Hann sagði sjálfur: „Andi [Jehóva] er yfir mér.“ (Lúkas 4:17-21) Já, það var Jehóva sjálfur sem útnefndi Jesú með heilögum anda. Jesús þurfti engin frekari meðmæli. Voru trúarleiðtogarnir á hans dögum skipaðir af heilögum anda? Nei, og þeir voru heldur ekki færir um að uppfylla Jesaja 61:1-3 sem Jesús las upphátt og heimfærði upp á sjálfan sig. Lestu þessi vers og þá getur þú séð með eigin augum að lýsingin átti ekki við hina hræsnisfullu fræðimenn og farísea. Þeir höfðu engan gleðiboðskap að færa fátækum. Og hvernig gátu þeir boðað bandingjum lausn og blindum sýn? Þeir voru sjálfir blindir í andlegum skilningi og í fjötrum erfðavenja manna. Erum við, ólíkt þessum mönnum, fær um að kenna fólki?

16. Getur fólk Jehóva nú á dögum treyst að það sé hæft til að boða fagnaðarerindið?

16 Við höfum reyndar hvorki stundað nám í æðri menntastofnunum kristna heimsins né útskrifast sem kennarar frá einhverri guðfræðideild. Erum við þá að einhverju leyti vanhæf? Svo sannarlega ekki, því að Jehóva Guð hefur skipað okkur votta sína. (Jesaja 43:10-12) Ef við biðjum um anda hans og breytum svo í samræmi við bæn okkar þá uppfyllum við hæfniskröfurnar. Við erum auðvitað ófullkomin og okkur tekst ekki að fylgja nákvæmlega í fótspor kennarans mikla, Jesú Krists. Erum við samt ekki þakklát fyrir að Jehóva skuli nota anda sinn til að þjálfa okkur og gera okkur hæf til að kenna orð sitt?

Skipulag Jehóva gerir okkur að hæfum boðberum

17-19. Hvernig stuðla hinar fimm vikulegu samkomur, sem skipulag Jehóva sér okkur fyrir, að því að gera okkur að hæfum boðberum?

17 Fjöllum nú um þriðju leiðina sem Jehóva notar til að gera okkur hæf til að kenna orð sitt — jarðneskan söfnuð hans eða skipulag sem kennir okkar að boða orðið. Hvernig þá? Við getum til dæmis nefnt fræðsludagskrána. Að jafnaði sækjum við fimm safnaðarsamkomur í viku. (Hebreabréfið 10:24, 25) Við komum saman í litlum hópum í safnaðarbóknáminu til ítarlegs biblíunáms með hjálp kennslubókar sem skipulag Jehóva hefur séð okkur fyrir. Við lærum hvert af annars svörum og uppörvum þannig hvert annað. Umsjónarmaður bóknámsins sinnir líka og leiðbeinir hverjum og einum. Við fáum auk þess staðgóða andlega fæðu á opinbera fyrirlestrinum og í Varðturnsnáminu.

18 Hlutverk Guðveldisskólans er að kenna okkur að fræða aðra. Þegar við undirbúum nemendaræður lærum við að nota orð Guðs til að kenna ýmiss konar efni. (1. Pétursbréf 3:15) Hefur þér einhvern tíma verið falið að flytja ræðu um efni sem þú taldir þig gerþekkja, en árangurinn varð sá að þú lærðir ýmislegt nýtt um efnið? Slíkt er ekki óalgengt. Fátt skerpir betur þekkingu okkar á einhverju viðfangsefni en að kenna öðrum það. Og þó að við flytjum ekki ræðuna sjálf lærum við samt að vera betri kennarar. Við komum auga á góða eiginleika hjá sérhverjum nemenda og getum íhugað hvernig hægt sé að tileinka sér þá.

19 Það er einnig hlutverk þjónustusamkomunnar að gera okkur hæf til að kenna orð Guðs. Viku eftir viku hlýðum við á líflegar ræður, sýnidæmi og umræður og allt er þetta sniðið að boðunarstarfinu. Hvaða kynningu ætlum við að nota? Hvernig getum við tekist á við krefjandi viðfangsefni í boðunarstarfinu? Hvaða leiðir standa okkur opnar í boðunarstarfinu sem við þurfum ef til vill að kynna okkur betur? Hvernig getum við náð betri árangri í endurheimsóknum eða þegar við höldum biblíunámskeið? (1. Korintubréf 9:19-22) Á þjónustusamkomum er fjallað ítarlega um spurningar sem þessar og ýmsar aðrar. Margir dagskrárliðir eru byggðir á greinum í Ríkisþjónustu okkar, verkfæri sem við höfum einnig fengið til að undirbúa okkur fyrir þetta mikilvæga starf.

20. Hvernig getum við haft sem mest gagn af samkomum og mótum?

20 Við fáum yfirgripsmikla starfsþjálfun með því að undirbúa okkur fyrir samkomur, sækja þær og nota síðan í kennslustarfinu það sem við lærum. En þar með er ekki allt upp talið. Við höfum líka fjölmennari samkomur — svæðismótin og landsmótin — en þeim er sérstaklega ætlað að þjálfa okkur í að kenna orð Guðs. Og það er okkur alltaf tilhlökkunarefni að hlusta með athygli og fara síðan eftir ráðleggingunum. — Lúkas 8:18.

21. Hvað ber vott um að starfsþjálfun okkar hafi borið árangur og hverjum er það að þakka?

21 Hefur þessi þjálfun, sem Jehóva veitir okkur, reynst árangursrík? Látum staðreyndirnar tala sínu máli. Árlega fá hundruð þúsunda manna aðstoð við að læra grundvallarkenningar Biblíunnar og færa líf sitt til samræmis við kröfur Guðs. Okkur fjölgar, en ekkert okkar á persónulega heiðurinn af því. Við verðum að vera raunsæ eins og Jesús. Hann sagði: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ Við erum flest ólærðir leikmenn eins og postularnir á sínum tíma. (Jóhannes 6:44; Postulasagan 4:13) Árangur okkar er undir Jehóva kominn, það er hann sem dregur réttsinnað fólk að sannleikanum. Páll postuli orðaði þetta vel: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.“ — 1. Korintubréf 3:6.

22. Hvers vegna ættum við að eiga fullan þátt í boðunarstarfinu og missa aldrei móðinn?

22 Já, Jehóva Guð tekur virkan þátt í starfi okkar að kenna orð hans. Stundum finnst okkur ef til vill að við séum ekki hæf til að vera kennarar. En höfum hugfast að það er Jehóva sem dregur fólk að sér og syni sínum. Það er Jehóva sem gerir okkur hæf til að hjálpa hinum nýju og notar til þess orð sitt, heilagan anda og hið jarðneska skipulag. Nýtum okkur þá kennslu sem Jehóva veitir og tileinkum okkur það góða sem hann sér okkur fyrir til að gera okkur hæf til að kenna orð hans.

Hvert er svarið?

• Hvernig undirbýr Biblían okkur fyrir boðunarstarfið?

• Hvaða hlutverki gegnir heilagur andi í því að gera okkur að hæfum boðberum?

• Á hvaða vegu hefur jarðneskt skipulag Jehóva hjálpað þér að verða hæfur boðberi fagnaðarerindisins?

• Um hvað getum við verið viss um þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Jesús kenndi orð Guðs og sýndi fólki kærleika.