Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvar er góða forystu að finna?

Hvar er góða forystu að finna?

Hvar er góða forystu að finna?

„SÉRHVERT hús er gjört af einhverjum,“ segir Biblían, „en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ (Hebreabréfið 3:4; Opinberunarbókin 4:11) Jehóva, hinn sanni Guð, er skapari okkar svo að hann „þekkir eðli vort.“ (Sálmur 103:14) Hann þekkir takmörk okkar og þarfir til hlítar. Og þar sem hann er kærleiksríkur Guð vill hann fullnægja þörfum okkar. (Sálmur 145:16; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Þörfin á góðri forystu er engin undantekning.

Jehóva sagði fyrir munn spámannsins Jesaja: „Sjá, ég hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna.“ (Jesaja 55:4) Lausnin á forystukreppu nútímans er fólgin í því að koma auga á hver þessi leiðtogi er, sem alvaldur Guð hefur sjálfur skipað, og viðurkenna forystu hans. Hver er þessi fyrirheitni höfðingi og stjórnari? Hvað mælir með honum sem leiðtoga? Hvert ætli hann leiði okkur? Hvað þurfum við að gera til að njóta góðs af forystu hans?

Hinn fyrirheitni leiðtogi kemur

Engillinn Gabríel birtist spámanninum Daníel fyrir 2500 árum og sagði: „Vita skaltu og skilja að frá því að orðið gekk út um endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem til Messíasar, leiðtogans, verða sjö vikur og sextíu og tvær vikur. Hún mun aftur snúa og verða endurreist með torgi og síki, en á þrengingatímum.“ — Daníel 9:25, NW.

Engillinn var greinilega að fræða Daníel um það hvenær hinn útvaldi leiðtogi Jehóva ætti að koma. ‚Leiðtoginn Messías‘ átti að koma fram við lok hinna 69 vikna, það er að segja eftir 483 ár talið frá 455 f.o.t. þegar skipun var gefin um endurreisn Jerúsalem. * (Nehemíabók 2:1-8) Hvað gerðist í lok þessa tímabils? Guðspjallaritarinn Lúkas segir svo frá: „Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu [árið 29], . . . kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda.“ Á þeim tíma var „eftirvænting vakin hjá lýðnum“ vegna komu leiðtogans Messíasar. (Lúkas 3:1-3, 15) Mannfjöldinn kom til Jóhannesar en hann var ekki leiðtoginn.

Það var síðan um októberleytið árið 29 sem Jesús frá Nasaret kom til Jóhannesar til að láta skírast. Jóhannes vitnaði um það og sagði: „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ‚Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.‘ Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs.“ (Jóhannes 1:32-34) Jesús varð hinn smurði leiðtogi þegar hann skírðist — hann varð Messías eða Kristur.

Hinn fyrirheitni ‚höfðingi og stjórnari þjóðanna‘ var sem sagt Jesús Kristur. Og þegar við kynnum okkur málið sjáum við að forystuhæfileikar hans skara langt fram úr því sem menn telja hinn fullkomna leiðtoga þurfa að hafa til að bera.

Messías — fullkominn leiðtogi

Góður leiðtogi heldur vel um stjórnvölinn og hjálpar þegnunum að fullnýta hæfileika sína svo að þeir geti ráðið fram úr þeim vandamálum sem við er að glíma. ‚Þetta er eitt af því sem leiðtogi 21. aldar þarf að hafa til að bera,‘ segir í bókinni 21st Century Leadership: Dialogues With 100 Top Leaders. Jesús bjó áheyrendur sína vel undir að takast á við daglega lífið. Frægasta ræðan sem hann flutti, fjallræðan, er auðug að hollum og hagnýtum ráðum. Þú finnur hana í 5. til 7. kafla hjá Matteusi.

Tökum sem dæmi ráðleggingar Jesú um ágreining milli manna. Hann sagði: „Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ (Matteus 5:23, 24) Sættir eiga að ganga fyrir öðru — meira að segja trúarlegum skyldum líkt og þeirri að færa fórnir á musterisaltarinu í Jerúsalem eins og Móselögin kváðu á um. Að öðrum kosti hefur Guð ekki velþóknun á tilbeiðslu manna. Ráð Jesú eru í fullu gildi enn þann dag í dag.

Jesús benti áheyrendum sínum á hvernig þeir gætu forðast siðleysi. Hann sagði: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt ekki drýgja hór.‘ En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:27, 28) Þetta er viðeigandi aðvörun. Hvers vegna að stíga fyrsta skrefið út í siðleysið með því að láta hugann gæla við það? Jesús sagði að hórdómur og saurlifnaður kæmi frá hjartanu. (Matteus 15:18, 19) Það er viturlegt af okkur að varðveita hjartað. — Orðskviðirnir 4:23.

Í fjallræðunni eru einnig afbragðsgóðar ráðleggingar um að elska óvini sína, vera örlát, hafa rétta afstöðu til efnislegra hluta og andlegra verðmæta og svo framvegis. (Matteus 5:43-47; 6:1-4, 19-21, 24-34) Jesús kenndi áheyrendum sínum jafnvel hvernig þeir gætu leitað hjálpar Guðs í bæn. (Matteus 6:9-13) Leiðtoginn Messías styrkir fylgjendur sína og býr þá undir að takast á við algeng vandamál.

Sex sinnum í fjallræðunni hefur Jesús máls á einhverju með orðunum „þér hafið heyrt, að sagt var“ eða „þá var og sagt,“ en bætir svo við: „En ég segi yður.“ (Matteus 5:21, 22, 27, 28, 31-34, 38, 39, 43, 44) Það bendir til þess að áheyrendur hans hafi verið vanir því að gera hlutina með ákveðnum hætti í samræmi við munnlegar erfðavenjur faríseanna. En nú var Jesús að benda þeim á aðra leið sem endurspeglaði hinn raunverulega anda Móselaganna. Hann var að kynna fyrir þeim ákveðna nýbreytni og hann gerði það þannig að þeir ættu auðvelt með að meðtaka hana. Hann snart fólk þannig að það fann hjá sér hvöt til að breyta algerlega um stefnu, bæði andlega og siðferðilega. Þetta er eitt af einkennum góðs leiðtoga.

Handbók um stjórnun bendir á hve erfitt það er að koma á slíkri breytingu. Þar segir: „Sá sem veldur breytingunni [leiðtoginn] þarf að vera gæddur næmni félagsráðgjafans, skarpskyggni sálfræðingsins, þrótti maraþonhlauparans, seiglu bolabítsins, sjálfstrausti einsetumannsins og þolinmæði dýrlingsins. Og jafnvel þótt hann hafi allt þetta til brunns að bera er það engin trygging fyrir árangri.“

„Leiðtogar verða að hegða sér eins og þeir vilja að fylgjendurnir hegði sér,“ segir í grein sem nefnist „Leadership: Do Traits Matter?“ (Forysta: skipta eiginleikar máli?) Góður leiðtogi iðkar sjálfur það sem hann kennir. Jesús Kristur gerði það svo sannarlega. Hann kenndi þeim sem voru með honum að vera auðmjúkir en gaf þeim líka áþreifanlegt dæmi um það með því að þvo fætur þeirra. (Jóhannes 13:5-15) Hann sendi lærisveinana út af örkinni til að prédika fagnaðarerindið um ríkið en lagði sig líka allan fram við það sjálfur. (Matteus 4:18-25; Lúkas 8:1-3; 9:1-6; 10:1-24; Jóhannes 10:40-42) Og Jesús var góð fyrirmynd um að lúta forystu. „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér,“ sagði hann um sig, „nema það sem hann sér föðurinn gjöra.“ — Jóhannes 5:19.

Þessi samantekt á því sem Jesús sagði og gerði sýnir greinilega að hann er hinn kjörni leiðtogi, og reyndar skarar hann fram úr öllum þeim kröfum sem menn gera til góðs leiðtoga. Hann er fullkominn. Hann lifir að eilífu því að hann hlaut ódauðleika eftir dauða sinn og upprisu. (1. Pétursbréf 3:18; Opinberunarbókin 1:13-18) Hvaða mennskur leiðtogi getur jafnast á við hann að þessu leyti?

Hvað þurfum við að gera?

Sem konungur Guðsríkis mun ‚leiðtoginn Messías‘ blessa hlýðna menn á margvíslegan hátt. Biblían lofar þar að lútandi: „Jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:11) „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ (Míka 4:4) „Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

Heimur nútímans á við forystukreppu að stríða en Jesús Kristur leiðir hógværa menn inn í friðsaman nýjan heim þar sem hlýðnir menn verða sameinaðir í tilbeiðslu á Jehóva Guði og hljóta smám saman fullkomleika. Það er ákaflega mikilvægt að taka sér tíma til að kynnast hinum sanna Guði og leiðtoganum, sem hann hefur valið, og breyta í samræmi við þessa þekkingu. — Jóhannes 17:3.

Eitthvert mesta hrós, sem hægt er að veita nokkrum manni, er að líkja eftir honum. Ættum við þá ekki að reyna að líkja eftir mesta leiðtoga mannkynssögunnar, Jesú Kristi? Hvernig getum við gert það? Hvaða áhrif hefur það á líf okkar að viðurkenna hann sem leiðtoga? Fjallað er um þessar spurningar og fleiri í næstu tveim greinum.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Sjá bókina Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, bls. 186-92, gefin út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Daníel spáði að útvalinn leiðtogi Guðs myndi koma.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Kenningar Jesú auðvelduðu fólki að takast á við vandamál lífsins.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Jesús mun leiða hlýðna menn inn í friðsælan, nýjan heim.