Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristur leiðir söfnuð sinn

Kristur leiðir söfnuð sinn

Kristur leiðir söfnuð sinn

„Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — MATTEUS 28:20.

1, 2. (a) Hverju lofaði Jesús fylgjendum sínum, eftir að hann reis upp, er hann fól þeim að gera menn að lærisveinum? (b) Hvernig leiddi Jesús frumkristna söfnuðinn?

JESÚS KRISTUR, upprisinn leiðtogi okkar, birtist lærisveinum sínum áður en hann steig upp til himna og sagði við þá: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 23:10; 28:18-20.

2 Jesús fól lærisveinunum ekki aðeins það verkefni að bjarga mannslífum með því að gera aðra að lærisveinum heldur lofaði jafnframt að vera með þeim. Saga frumkristninnar, sem Postulasagan geymir, sýnir ótvírætt að Kristur notaði vald sitt til að leiða hinn nýstofnaða söfnuð. Hann sendi fylgjendum sínum hinn fyrirheitna ‚hjálpara,‘ heilagan anda, til að styrkja þá og leiðbeina þeim. (Jóhannes 16:7; Postulasagan 2:4, 33; 13:2-4; 16:6-10) Hinn upprisni Jesús hafði engla til umráða sem hann notaði til að styðja lærisveinana. (Postulasagan 5:19; 8:26; 10:3-8, 22; 12:7-11; 27:23, 24; 1. Pétursbréf 3:22) Og leiðtogi okkar gerði ráðstafanir til þess að hæfir karlmenn mynduðu stjórnandi ráð sem veitti söfnuðinum forstöðu. — Postulasagan 1:20, 24-26; 6:1-6; 8:5, 14-17.

3. Hvaða spurningar er fjallað um í þessari grein?

3 En hvað um okkar tíma nú við „enda veraldar“? Hvernig leiðir Jesús Kristur söfnuð sinn nú á tímum? Og hvernig getum við sýnt að við viðurkennum forystu hans?

Húsbóndinn á trúan þjón

4. (a) Hverjir mynda ‚hinn trúa og hyggna þjón‘? (b) Hvers hefur húsbóndinn falið þjóni sínum að gæta?

4 Jesús sagði í spádóminum um tákn nærveru sinnar: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ (Matteus 24:45-47) „Húsbóndinn“ er leiðtogi okkar, Jesús Kristur, og hann hefur skipað ‚trúan og hygginn þjón‘ — alla smurða kristna menn á jörð — til að gæta allra jarðneskra hagsmuna sinna.

5, 6. (a) Hvað tákna „gullstikurnar sjö“ og „stjörnurnar sjö“ í sýn Jóhannesar postula? (b) Hvað táknar það að „stjörnurnar sjö“ skuli vera í hægri hendi Jesú?

5 Í Opinberunarbók Biblíunnar kemur fram að hinn trúi og hyggni þjónn er undir beinni stjórn Jesú Krists. Í sýn um ‚Drottins dag‘ sá Jóhannes postuli „sjö gullljósastikur, og milli ljósastikanna einhvern, líkan mannssyni“ og hafði hann „í hægri hendi sér sjö stjörnur.“ (Opinberunarbókin 1:1, 10-20) Jesús sagði Jóhannesi um sýnina: „Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.“ — Opinberunarbókin 1:1, 10-20.

6 „Gullstikurnar sjö“ tákna alla sannkristna söfnuði á „Drottins degi“ sem hófst árið 1914. En hvað um „stjörnurnar sjö“? Í upphafi táknuðu þær alla andagetna, smurða umsjónarmenn sem gættu safnaðanna á fyrstu öld. * Umsjónarmennirnir voru í hægri hendi Jesú, það er að segja undir stjórn hans og umsjón. Kristur Jesús leiddi þjónshópinn. En núna eru fáir umsjónarmenn af hópi hinna smurðu. Hvernig nær forysta Krists út til meira en 93.000 safnaða Votta Jehóva um heim allan?

7. (a) Hvernig notar Jesús hið stjórnandi ráð til að sjá söfnuðunum út um heim allan fyrir forystu? (b) Hvernig má segja að kristnir umsjónarmenn séu útnefndir af heilögum anda?

7 Eins og á fyrstu öld þjónar fámennur hópur af hæfum, smurðum umsjónarmönnum sem stjórnandi ráð, og kemur fram sem fulltrúi hins trúa og hyggna þjónshóps. Leiðtogi okkar notar þetta stjórnandi ráð til að útnefna hæfa karlmenn, ýmist andagetna eða ekki, sem öldunga í söfnuðunum. Jehóva hefur veitt Jesú umráð yfir heilögum anda sem gegnir þarna afarmikilvægu hlutverki. (Postulasagan 2:32, 33) Í fyrsta lagi verða þessir umsjónarmenn að uppfylla þær hæfniskröfur sem settar eru fram í orði Guðs og það er innblásið af heilögum anda. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:5-9; 2. Pétursbréf 1:20, 21) Meðmæli og útnefning eiga sér stað að aflokinni bæn og undir handleiðslu heilags anda. Og þeir sem skipaðir eru sýna þess merki að þeir beri ávöxt þessa anda. (Galatabréfið 5:22, 23) Ráðleggingar Páls eiga því jafnt við alla öldunga, hvort heldur þeir eru smurðir eða ekki: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar.“ (Postulasagan 20:28) Þessir útnefndu öldungar lúta forræði hins stjórnandi ráðs og gæta safnaðarins fúslega. Þannig er Kristur með okkur núna og leiðir söfnuðinn.

8. Hvernig notar Kristur engla til að leiða fylgjendur sína?

8 Jesús notar líka raunverulega engla til að leiða fylgjendur sína nú á tímum. Samkvæmt dæmisögunni um hveitið og illgresið átti uppskerutíminn að eiga sér stað við „endi veraldar.“ Hverja ætlaði húsbóndinn að nota við uppskerustarfið? Jesús sagði að ‚kornskurðarmennirnir væru englar.‘ Síðan bætti hann við: „Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja.“ (Matteus 13:37-41) Engill stýrði skrefum Filippusar svo að hann fann eþíópska hirðmanninn, og eins eru næg merki þess núna að Kristur noti engla sína til að stýra því starfi sannkristinna manna að finna þá sem eru hjartahreinir. — Postulasagan 8:26, 27; Opinberunarbókin 14:6.

9. (a) Með hvaða hætti leiðir Kristur söfnuðinn á okkar tímum? (b) Hvaða spurningu ættum við að íhuga ef við viljum hafa gagn af forystu Krists?

9 Það er traustvekjandi til að vita að Jesús Kristur skuli nota hið stjórnandi ráð, heilagan anda og englana til að leiða lærisveina sína. Þó svo færi að einhverjir dýrkendur Jehóva einangruðust um tíma frá hinu stjórnandi ráði vegna ofsókna eða einhvers annars myndi Kristur eftir sem áður veita þeim forystu með stuðningi heilags anda og englanna. Hins vegar höfum við því aðeins gagn af forystu hans að við viðurkennum hana. Hvernig getum við sýnt að við viðurkennum forystu Krists?

‚Hlýðið og verið auðsveipir‘

10. Hvernig getum við sýnt útnefndum öldungum safnaðarins virðingu?

10 Leiðtogi okkar hefur gefið söfnuðinum „gjafir í mönnum.“ „Sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar.“ (Efesusbréfið 4:8, 11, 12, NW, Biblían 1981) Viðhorf okkar til þeirra og framkoma okkar við þá segir heilmikið um hvort við viðurkennum forystu Krists. Okkur ber að ‚vera þakklát‘ fyrir hina andlega hæfu menn sem Kristur hefur gefið. (Kólossubréfið 3:15) Þeir verðskulda einnig virðingu okkar. „Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum,“ skrifaði Páll postuli. (1. Tímóteusarbréf 5:17) Hvernig getum við sýnt að við virðum öldungana og séum þakklát fyrir að hafa þá í söfnuðinum? Páll svarar: „Hlýðið þeim sem fara með forystuna á meðal ykkar og verið þeim auðsveipir.“ (Hebreabréfið 13:17, NW) Við eigum sem sagt að vera auðsveip og hlýða þeim sem fara með forystu í söfnuðinum.

11. Af hverju er virðing fyrir öldungafyrirkomulaginu einn þáttur þess að lifa í samræmi við vígsluheit okkar?

11 Leiðtogi okkar er fullkominn. Mennirnir, sem hann hefur gefið, eru það ekki. Þeim geta því orðið á mistök. Engu að síður er mikilvægt að sýna fyrirkomulagi Krists hollustu. Sannast að segja þurfum við að viðurkenna það umsjónarvald sem andinn hefur sett í söfnuðinum og lúta því fúslega til að lifa í samræmi við vígslu okkar og skírn. Skírn ‚í nafni heilags anda‘ er opinber yfirlýsing um að við viðurkennum heilagan anda og hlutverk hans í tilgangi Jehóva. (Matteus 28:19) Slík skírn gefur í skyn að við vinnum með andanum og gerum ekkert sem getur hindrað að hann starfi meðal fylgjenda Krists. Heilagur andi á stóran þátt í því að mæla með öldungum og útnefna þá svo að við getum tæplega verið trú vígsluheiti okkar ef við vinnum ekki með öldungafyrirkomulagi safnaðarins.

12. Hvaða dæmi nefnir Júdas um virðingarleysi fyrir yfirvaldi og hvað kenna þau okkur?

12 Biblían segir frá atvikum sem sýna fram á gildi þess að hlýða og vera undirgefin. Þegar lærisveinninn Júdas minnist á menn sem lastmæltu útnefndum mönnum í söfnuðinum bendir hann á þrjú dæmi til viðvörunar: „Vei þeim, því að þeir hafa gengið á vegi Kains og hrapað í villu Bíleams fyrir ávinnings sakir og tortímst í þverúð Kóra.“ (Júdasarbréfið 11) Kain hunsaði kærleiksráð Jehóva og ól viljandi með sér hatur og morðhug. (1. Mósebók 4:4-8) Þrátt fyrir endurteknar viðvaranir Guðs reyndi Bíleam að formæla fólki Guðs fyrir laun. (4. Mósebók 22:5-28, 32-34; 5. Mósebók 23:5) Kóra gegndi virðingarstöðu í Ísrael en hún nægði honum ekki. Hann æsti til uppreisnar gegn Móse, þjóni Guðs, auðmjúkasta manni á jörð. (4. Mósebók 12:3; 16:1-3, 32, 33) Kain, Bíleam og Kóra hlutu makleg málagjöld. Þessi dæmi kenna mjög greinilega hve mikilvægt það er að hlusta á ráðleggingar þeirra sem Jehóva velur til ábyrgðarstarfa og virða þá.

13. Hvaða blessun boðaði spámaðurinn Jesaja þeim sem virða öldungafyrirkomulagið?

13 Hver vill ekki njóta góðs af því ágæta umsjónarfyrirkomulagi sem leiðtogi okkar hefur sett í kristna söfnuðinum? Spámaðurinn Jesaja boðaði hvaða blessun fylgir því: „Þegar konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi, þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ (Jesaja 32:1, 2) Hver einasti öldungur á að veita slíkt „hlé“ og „skjól.“ Jafnvel þótt okkur finnist erfitt að lúta yfirvaldi skulum við reyna eftir bestu getu að vera hlýðin og auðsveip því yfirvaldi sem Guð hefur sett í söfnuðinum og biðja hann að hjálpa okkur til þess.

Hvernig öldungar lúta forystu Krists

14, 15. Hvernig sýna þeir sem fara með forystuna í söfnuðinum að þeir lúta forystu Krists?

14 Allir kristnir menn verða að fylgja forystu Krists en öldungarnir sérstaklega. Öldungarnir eru umsjónarmenn og fara með ákveðið vald í söfnuðinum. En þeir reyna ekki að ráðskast með líf bræðra sinna og ‚drottna yfir trú þeirra.‘ (2. Korintubréf 1:24) Öldungarnir fara eftir orðum Jesú: „Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar.“ (Matteus 20:25-27) Öldungarnir leggja sig einlæglega fram um að uppfylla skyldur sínar með því að þjóna öðrum.

15 Kristnir menn eru hvattir til að minnast þeirra sem fara með forystuna í söfnuðinum, virða fyrir sér hvernig þeim farnast og líkja eftir trú þeirra. (Hebreabréfið 13:7) Þessi krafa er ekki gerð vegna þess að öldungarnir séu leiðtogar. Jesús sagði: „Einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ (Matteus 23:10) Það er trú öldunganna sem á að líkja eftir, því að þeir líkja eftir raunverulegum leiðtoga okkar sem er Kristur. (1. Korintubréf 11:1) Lítum á nokkur dæmi um það hvernig öldungarnir leggja sig alla fram um að líkjast Kristi í samskiptum við aðra í söfnuðinum.

16. Hvernig kom Jesús fram við fylgjendur sína, þrátt fyrir það vald sem hann hafði?

16 Þó svo að Jesús hafi verið ófullkomnum mönnum fremri á allan hátt og hafi farið með óviðjafnanlegt vald frá föður sínum var hann hógvær í samskiptum við lærisveinana. Hann reyndi ekki að gagntaka áheyrendur með tilkomumiklum þekkingarflaumi. Hann var næmur og umhyggjusamur gagnvart fylgjendum sínum og tók tillit til mannlegra þarfa þeirra. (Matteus 15:32; 26:40, 41; Markús 6:31) Hann krafðist aldrei meira af lærisveinunum en þeir gátu gert og lagði aldrei meira á þá en þeir gátu borið. (Jóhannes 16:12) Jesús var „hógvær og af hjarta lítillátur.“ Það kemur því ekki á óvart að mörgum skyldi þykja návist hans endurnærandi. — Matteus 11:28-30.

17. Hvernig ættu öldungar að sýna lítillæti eins og Kristur í samskiptum við aðra í söfnuðinum?

17 Fyrst Kristur, leiðtoginn, var hógvær ættu þeir sem fara með forystuna í söfnuðinum ekki síður að vera það. Þeir gæta þess vandlega að misbeita ekki nokkru því valdi sem þeim er trúað fyrir. Og þeir reyna ekki að hrífa aðra með „frábærri mælskusnilld“ heldur leitast við að koma sannleika Biblíunnar á framfæri með skýrum og einlægum orðum. (1. Korintubréf 2:1, 2) Öldungarnir leggja sig alla fram um að gera einungis sanngjarnar kröfur til annarra og taka tillit til þarfa þeirra. (Filippíbréfið 4:5) Þeir vita mætavel að allir hafa sín takmörk og taka tillit til þess í samskiptum við bræður sína. (1. Pétursbréf 4:8) Og er ekki upplífgandi að umgangast öldunga sem eru hógværir og lítillátir? Jú, svo sannarlega.

18. Hvað geta öldungar lært af framkomu Jesú við börn?

18 Jesús var viðmótsgóður og auðvelt var að nálgast hann, jafnvel fyrir þá sem lágt voru settir. Taktu eftir viðbrögðum hans þegar lærisveinarnir ávítuðu fólk fyrir að ‚færa börn til hans.‘ „Leyfið börnunum að koma til mín,“ sagði hann, „varnið þeim eigi.“ Síðan tók hann börnin „sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ (Markús 10:13-16) Jesús var hlýr og vingjarnlegur og fólk laðaðist að honum. Fólk var ekki hrætt við hann. Börnum leið meira að segja vel í návist hans. Öldungar eru líka viðmótsgóðir og auðvelt er að nálgast þá, og þar sem þeir eru hlýlegir og vingjarnlegir líður öðrum, jafnvel börnum, vel í návist þeirra.

19. Hvað er fólgið í því að hafa „huga Krists“ og hvað útheimtir það?

19 Því betur sem öldungar þekkja Krist, þeim mun auðveldara eiga þeir með að líkjast honum. „Hver hefur þekkt huga [Jehóva], að hann geti frætt hann?“ spurði Páll og bætti svo við: „En vér höfum huga Krists.“ (1. Korintubréf 2:16) Að hafa huga Krists er fólgið í því að þekkja hvernig hann hugsar og vera gagnkunnugur persónuleika hans þannig að við vitum hvernig hann myndi hugsanlega bregðast við ákveðnum aðstæðum. Hugsaðu þér að þekkja leiðtoga okkar svona vel! Til þess er nauðsynlegt að grannskoða guðspjöllin reglulega og hafa staðgóðan skilning á ævi og fordæmi Jesú. Þegar öldungar leggja sig þetta mikið fram um að fylgja fordæmi Krists hafa aðrir í söfnuðinum sterkari tilhneigingu til að líkja eftir trú þeirra. Og öldungarnir verða þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá aðra feta fagnandi í fótspor leiðtogans.

Haltu áfram að lúta forystu Krists

20, 21. Í hverju ættum við að vera staðráðin er við horfum fram til hins fyrirheitna nýja heims?

20 Það er mikilvægt fyrir okkur öll að vera undirgefin Kristi sem leiðtoga. Er endalok þessa heimskerfis nálgast erum við í sambærilegri aðstöðu og Ísraelsmenn á Móabsheiðum árið 1473 f.o.t. Þeir stóðu á þröskuldi fyrirheitna landsins og Guð lýsti yfir fyrir munn spámannsins Móse: „Þú [Jósúa] munt leiða þetta fólk inn í landið, sem [Jehóva] sór feðrum þeirra að gefa þeim.“ (5. Mósebók 31:7, 8) Jósúa var hinn útnefndi leiðtogi og Ísraelsmenn urðu að lúta forystu hans til að komast inn í fyrirheitna landið.

21 Biblían minnir okkur á að ‚einn er leiðtogi okkar, Kristur.‘ Enginn nema Kristur mun leiða okkur inn í hinn fyrirheitna nýja heim þar sem réttlæti býr. (2. Pétursbréf 3:13) Verum því staðráðin í að lúta forystu hans á öllum sviðum lífsins.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 „Stjörnurnar“ í þessari ritningargrein tákna ekki bókstaflega engla. Jesús hefði ekki notað mann til að skrásetja upplýsingar handa ósýnilegum andaverum. „Stjörnurnar“ hljóta því að tákna mennska umsjónarmenn eða öldunga í söfnuðunum frá þeim sjónarhóli að þeir séu sendiboðar Jesú. Að þeir skuli vera sjö táknar algerleika eða heild samkvæmt mælikvarða Guðs.

Manstu?

• Hvernig leiddi Kristur frumkristna söfnuðinn?

• Hvernig leiðir Kristur söfnuð sinn nú á dögum?

• Hvers vegna eigum við að vera auðsveip þeim sem fara með forystuna í söfnuðinum?

• Með hvaða hætti geta öldungar sýnt að Kristur sé leiðtogi þeirra?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Kristur leiðir söfnuð sinn og heldur á umsjónarmönnunum í hægri hendi sér.

[Myndir á blaðsíðu 16]

„Hlýðið þeim sem fara með forystuna á meðal ykkar og verið þeim auðsveipir.“

[Mynd á blaðsíðu 17]

Jesús var hlýr, viðmótsgóður og auðvelt var að nálgast hann. Kristnir öldungar leggja sig fram um að líkja eftir honum.