Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Á trú að byggjast á rökum?

Á trú að byggjast á rökum?

Á trú að byggjast á rökum?

„Of margt ‚trúað‘ fólk gerist trúað til þess að þurfa ekki að hugsa,“ skrifar rektor guðfræðiháskóla í Bandaríkjunum. „Það vill bara trúa,“ bætir hann við.

EFTIR þessum orðum að dæma hugsar flest trúað fólk lítið um það af hverju það trúir því sem það trúir eða hvort nægur grundvöllur sé fyrir trú þess. Það er því ekki að furða að margir séu orðnir tregir til að tala um trúmál.

Það er miður að sumar trúariðkanir, til dæmis bænaþulur og notkun á líkneskjum, letja fólk þess að rökhugsa. Hins vegar byggist trúarupplifun milljóna manna aðallega á þessum iðkunum og á glæsilegum byggingum, steindu gleri og hrífandi tónlist. Sumar kirkjudeildir fullyrða að trú þeirra sé byggð á Biblíunni en boðskapur þeirra um að ‚frelsast fyrir trú á Jesú‘ leggur litla áherslu á að fólk kynni sér Biblíuna af alvöru. Aðrar kirkjudeildir hafa snúið sér að því að boða kristilegar þjóðfélagsumbætur eða pólitískt fagnaðarerindi. Hverjar eru afleiðingarnar?

Rithöfundur, sem skrifar um trúmál, segir um ástandið í Norður-Ameríku: „Kristni . . . á það til að vera yfirborðskennd, [og] fylgjendur hennar eru illa menntaðir í trúnni.“ Skoðanakönnuður gekk jafnvel svo langt að kalla Bandaríkjamenn „biblíulega ólæsa þjóð.“ Þetta á líka við um aðrar þjóðir sem kallaðar eru kristnar. Mörg önnur trúarbrögð sem ekki eru kristin leggja einnig megináhersluna á söng, helgisiðabænir og ýmiss konar dulræna hugleiðslu en ekki rökrétta og uppbyggjandi hugsun.

Fólk sem hugsar lítið um það hvort trú þess er nákvæm eða rétt hugsar hins vegar oft mjög vandlega um aðra hversdagslega hluti. Er ekki svolítið undarlegt að fólk skuli rannsaka allt gaumgæfilega áður en það kaupir bíl — sem endar að lokum á ruslahaugunum — en segja svo um trúna: ‚Fyrst hún var nógu góð fyrir foreldra mína er hún nógu góð fyrir mig‘?

Ef við höfum raunverulegan áhuga á að þóknast Guði ættum við þá ekki að hugsa alvarlega um sannleiksgildi þess sem við trúum um hann? Páll postuli talaði um trúað fólk sinnar samtíðar sem var ‚kappsfullt Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi.‘ (Rómverjabréfið 10:2) Það mætti líkja slíku fólki við málara sem ráðinn er til að mála hús og leggur sig allan fram við verkið en notar ranga liti vegna þess að hann hlustar ekki á fyrirmæli eigandans. Málarinn er kannski hæstánægður með verk sitt en ætli eigandinn sé það?

Hvað er Guði þóknanlegt í sambandi við sanna tilbeiðslu? Biblían svarar: „Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Sumir telja kannski að ógerlegt sé að finna slíka þekkingu meðal hinna mörgu trúarbragða nútímans. En hugsaðu málið — ef Guð vill að fólk komist til þekkingar á sannleikanum, myndi hann þá fela þessa þekkingu fyrir því? Ekki samkvæmt Biblíunni, sem segir: „Ef þú leitar [Guðs], mun hann gefa þér kost á að finna sig.“ — 1. Kroníkubók 28:9.

Hvernig gefur Guð þeim sem leita hans einlæglega, kost á að finna sig? Næsta grein svarar því.