Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju ættirðu að láta skírast?

Af hverju ættirðu að láta skírast?

Af hverju ættirðu að láta skírast?

„Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá.“ — MATTEUS 28:19.

1, 2. (a) Undir hvaða kringumstæðum hefur fólk stundum verið skírt? (b) Hvaða spurninga er spurt varðandi skírn?

KARLAMAGNÚS, konungur Frankaríkis, lagði Saxa undir sig og neyddi þá til að taka fjöldaskírn á árunum 775-77. „Hann þvingaði þá til að gerast kristnir að nafninu til,“ skrifaði sagnfræðingurinn John Lord. Árið 987 gekk Vladímír 1., stjórnandi Rússlands, að eiga prinsessu sem aðhylltist grískan rétttrúnað. Í framhaldi af því ákvað hann að þegnar sínir skyldu snúast til „kristni“ og fyrirskipaði fjöldaskírn. Hlýddu menn ekki áttu þeir á hættu að týna höfðinu!

2 Var viðeigandi að skíra fólk með þessum hætti? Hefur það einhverja þýðingu? Getur hver sem er látið skírast?

Hvernig á að skíra?

3, 4. Af hverju er það ekki fullnægjandi kristin skírn að dreypa vatni á höfuð fólks?

3 Karlamagnús og Vladímír 1. gengu í berhögg við orð Guðs er þeir þvinguðu fólk til að taka skírn. Það er reyndar tilgangslaust að ausa fólk vatni eða jafnvel að dýfa því niður í vatn nema það læri sannleika Biblíunnar fyrst.

4 Jesús frá Nasaret kom til Jóhannesar skírara árið 29. Jóhannes var að skíra í ánni Jórdan og fólk kom til hans af eigin hvötum til að taka skírn. Lét hann menn standa úti í ánni og jós svo dálitlu vatni á höfuð þeirra? Hvernig var Jesús skírður? Matteus segir að hann hafi ‚stigið upp úr vatninu‘ eftir að Jóhannes skírði hann. (Matteus 3:16) Hann hafði sem sagt verið niðri í vatninu, það er að segja færður í kaf í ánni. Og Biblían segir um skírn eþíópska hirðmannsins: „Stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn.“ Síðan segir: „Er þeir stigu upp úr vatninu . . .“ Þannig er ljóst að bæði Jesús og lærisveinar hans skírðust niðurdýfingarskírn. — Postulasagan 8:38, 39.

5. Hvernig skírðu frumkristnir menn?

5 Grísku orðin, sem þýdd eru „skíra,“ „skírn“ og svo framvegis, merkja að færa eða dýfa alveg í kaf. Smith’s Bible Dictionary bendir á að orðin merki „réttilega og bókstaflega niðurdýfing.“ Til eru biblíuþýðingar sem tala um „Jóhannes niðurdýfara.“ (Matteus 3:1, Rotherham; Diaglott-millilínuþýðingin) August Neander segir í bókinni History of the Christian Religion and Church, During the Three First Centuries: „Skírnin var upphaflega niðurdýfing.“ Hið nafnkunna franska verk Larousse du XXe Siècle (París, 1928) segir eftirfarandi: „Frumkristnir menn tóku niðurdýfingarskírn hvar sem vatn var að finna.“ Alfræðibókin New Catholic Encyclopedia segir: „Ljóst er að skírn frumkirkjunnar var niðurdýfingarskírn.“ (1967, 2. bindi, bls. 56) Og Íslenska alfræðibókin segir: „S[kírn] var upphafl[ega] niðurdýfing.“ (3. bindi, bls. 237) Vottar Jehóva skírast því niðurdýfingarskírn og gera það sjálfviljugir.

Nýtt skírnartilefni

6, 7. (a) Í hvaða tilgangi skírði Jóhannes? (b) Hvað var nýtt í sambandi við skírn fylgjenda Jesú?

6 Skírn Jóhannesar hafði annað tilefni en sú skírn sem fylgjendur Jesú framkvæmdu. (Jóhannes 4:1, 2) Jóhannes skírði fólk til tákns um að það iðraðist synda sinna gegn lögmálinu. * (Lúkas 3:3) En þegar fylgjendur Jesú skírðust kom nýr þáttur til skjalanna. Pétur postuli hvatti áheyrendur sína á hvítasunnu árið 33: „Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar.“ (Postulasagan 2:37-41) Þó svo að Pétur væri að ávarpa Gyðinga og fólk, sem tekið hafði gyðingatrú, var inntakið ekki það að fólk ætti að skírast til tákns um að það iðraðist synda gegn lögmálinu, né heldur að skírn í nafni Jesú táknaði hreinsun af syndum. — Postulasagan 2:11.

7 Við þetta tækifæri notaði Pétur fyrsta ‚lykil himnaríkis‘ til að upplýsa áheyrendur sína um að þeir gætu fengið inngöngu í himnaríki. (Matteus 16:19) Gyðingar höfðu hafnað Jesú sem Messíasi þannig að þeir þurftu að iðrast og iðka trú á hann til að hljóta fyrirgefningu Guðs. Þetta var nýr og mikilvægur þáttur sem nú kom til skjalanna. Þeir gátu gefið opinbert tákn um slíka trú með því að skírast niðurdýfingarskírn í nafni Jesú Krists. Þannig myndu þeir sýna að þeir hefðu persónulega vígst Guði fyrir milligöngu Krists. Allir sem þrá velþóknun Jehóva Guðs nú á dögum verða að iðka trú eins og þeir, vígjast hinum hæsta Guði skilyrðislaust og skírast kristinni skírn til tákns um það.

Nákvæm þekking er nauðsynleg

8. Hvers vegna er kristin skírn ekki fyrir alla?

8 Það geta ekki allir látið skírast kristinni skírn. Jesús sagði fylgjendum sínum: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Áður en fólk skírist þarf að ‚kenna því að halda allt sem Jesús bauð lærisveinunum.‘ Það er gagnslaust og gengur í berhögg við fyrirmæli Jesú til sannra fylgjenda sinna að skíra fólk nauðugt og án trúar sem byggð er á nákvæmri þekkingu á orði Guðs. — Hebreabréfið 11:6.

9. Hvað merkir það að skírast „í nafni föður“?

9 Hvað merkir það að skírast „í nafni föður“? Það merkir að skírnþeginn viðurkennir stöðu og vald föðurins á himnum. Hann viðurkennir Jehóva Guð sem skapara, sem alheimsdrottin og ‚Hinn hæsta yfir allri jörðinni.‘ — Sálmur 83:19; Jesaja 40:28; Postulasagan 4:24.

10. Hvað merkir það að ‚skírast í nafni sonar‘?

10 Að skírast ‚í nafni sonar‘ merkir að viðurkenna stöðu og vald Jesú sem eingetins sonar Guðs. (1. Jóhannesarbréf 4:9) Þeir sem skírast verða að viðurkenna að það er Jesús sem Guð hefur gefið „til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Skírnþegar verða einnig að viðurkenna hina háu stöðu sem Guð hefur veitt syni sínum. — Filippíbréfið 2:8-11; Opinberunarbókin 19:16.

11. Hvað er fólgið í því að skírast ‚í nafni heilags anda‘?

11 Hvað er fólgið í því að skírast ‚í nafni heilags anda‘? Það gefur til kynna að skírnþeginn viðurkenni að heilagur andi sé starfskraftur Jehóva sem hann notar með ýmsum hætti í samræmi við tilgang sinn. (1. Mósebók 1:2; 2. Samúelsbók 23:1, 2; 2. Pétursbréf 1:21) Þeir sem láta skírast viðurkenna að heilagur andi hjálpar þeim að skilja „djúp Guðs,“ prédika Guðsríki og sýna ávöxt andans sem er „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.“ — 1. Korintubréf 2:10; Galatabréfið 5:22, 23; Jóel 2:28, 29.

Mikilvægi iðrunar og sinnaskipta

12. Hvernig er kristin skírn tengd iðrun?

12 Skírn er tengd iðrun. Skírn Jesú er eina undantekningin frá því enda var hann maður syndlaus. Að iðrast merkir að sjá eftir og harma eitthvað sem maður hefur gert eða ekki gert. Gyðingar á fyrstu öld urðu að iðrast synda sinna gegn Kristi til að þóknast Guði. (Postulasagan 3:11-19) Trúaðir menn í Korintu, sem voru af heiðnum uppruna, iðruðust saurlifnaðar, skurðgoðadýrkunar, þjófnaðar og annarra grófra synda. Með því að iðrast voru þeir ‚laugaðir‘ í blóði Jesú, þeir voru „helgaðir“ eða teknir frá til þjónustu við Guð og voru „réttlættir“ í nafni Krists og með anda Guðs. (1. Korintubréf 6:9-11) Iðrun er nauðsynleg til að hljóta góða samvisku og losna með Guðs hjálp við sektarkenndina vegna synda. — 1. Pétursbréf 3:21.

13. Hvað er fólgið í því að taka sinnaskiptum?

13 Við þurfum að taka sinnaskiptum áður en við látum skírast sem vottar Jehóva. Sinnaskiptin eru fús og frjáls ákvörðun þess sem hefur afráðið að fylgja Kristi Jesú. Hann hafnar fyrri lífsstefnu og einsetur sér að gera það sem rétt er í augum Guðs. Hebresku og grísku sagnorðin, sem notuð eru í Ritningunni um sinnaskipti, merkja að snúa til baka eða snúa við. Hugsunin er sú að hverfa af rangri braut og snúa sér til Guðs. (1. Konungabók 8:33, 34) Sinnaskipti kosta „verk samboðin iðruninni.“ (Postulasagan 26:20) Þau útheimta að maður hætti falskri guðsdýrkun, breyti í samræmi við boðorð Guðs og sýni honum óskipta hollustu. (5. Mósebók 30:2, 8-10; 1. Samúelsbók 7:3) Þau hafa í för með sér breyttan hugsunarhátt, persónuleika og markmið. (Esekíel 18:31) Við ‚snúum okkur‘ jafnhliða því sem óguðleg einkenni víkja fyrir nýja persónuleikanum. — Postulasagan 3:19; Efesusbréfið 4:20-24; Kólossubréfið 3:5-14.

Hugheil vígsla er nauðsynleg

14. Hvað merkir það að vígja sig Guði?

14 Til að skírast sem fylgjandi Jesú þarf maður fyrst að vígjast Guði af heilum hug. Vígsla merkir að taka eitthvað frá til helgra nota. Vígslan er svo mikilvæg að við ættum að tjá Jehóva í bæn að við höfum ákveðið að veita honum óskipta hollustu að eilífu. (5. Mósebók 5:9) Við erum auðvitað ekki að vígjast einhverju verkefni eða manni heldur Guði sjálfum.

15. Hvers vegna á að skírast niðurdýfingarskírn?

15 Þegar við vígjumst Guði fyrir milligöngu Krists lýsum við yfir þeim ásetningi að nota líf okkar til að gera vilja Guðs eins og Biblían útlistar hann. Síðan látum við skírast til tákns um vígsluna, og skírnin er niðurdýfing líkt og þegar Jesús skírðist í Jórdan til merkis um að hann byði sig Guði til þjónustu. (Matteus 3:13) Það er eftirtektarvert að Jesús baðst fyrir við þetta mikilvæga tækifæri. — Lúkas 3:21, 22.

16. Hvernig væri viðeigandi að tjá gleði sína þegar fólk lætur skírast?

16 Skírn Jesú var alvarlegur atburður en jafnframt gleðilegur. Hið sama er að segja um skírn kristinna manna nú á tímum. Þegar við sjáum fólk skírast til tákns um að það hafi vígst Guði getum við tjáð gleði okkar með hlýlegu hrósi og háttvíslegu lófataki. Hins vegar ættum við að bera slíka virðingu fyrir þessari helgu trúarjátningu að við forðumst fagnaðaróp, flaut og annað slíkt. Við tjáum gleði okkar með virðulegum hætti.

17, 18. Hvernig er hægt að ganga úr skugga um að fólk sé hæft til að láta skírast?

17 Vottar Jehóva þvinga engan til að skírast, ólíkt þeim sem ausa ómálga börn vatni eða skíra óuppfræddan fjöldann. Vottarnir skíra reyndar engan nema hann uppfylli kröfur Biblíunnar. Enginn getur orðið óskírður boðberi fagnaðarerindisins fyrr en öldungar safnaðarins hafa gengið úr skugga um að hann skilji aðalkenningar Biblíunnar, lifi samkvæmt þeim og svari játandi spurningu svo sem: „Langar þig í alvöru til að vera vottur Jehóva?“

18 Þegar fólk tekur virkan þátt í boðunarstarfinu og lætur í ljós að það vilji skírast ræða safnaðaröldungar við það í langflestum tilfellum. Tilgangurinn er sá að ganga úr skugga um að það trúi, hafi vígst Jehóva og uppfylli skilyrði hans fyrir skírn. (Postulasagan 4:4; 18:8) Svör þess við ríflega 100 spurningum um kenningar Biblíunnar hjálpa öldungunum að ganga úr skugga um að það uppfylli skírnarkröfurnar. Sumir uppfylla ekki kröfurnar og fá ekki að taka kristinni skírn.

Læturðu eitthvað aftra þér?

19. Hverjir erfa ríkið með Jesú, samkvæmt Jóhannesi 6:44?

19 Margir hafa verið þvingaðir til að taka þátt í fjöldaskírn með þeim formála að þeir færu til himna eftir dauðann. Jesús sagði hins vegar um fylgjendur sína: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ (Jóhannes 6:44) Jehóva hefur dregið 144.000 manns til Jesú til að erfa himnaríkið með honum. Nauðungarskírn hefur aldrei helgað nokkurn svo að hann fái hlutdeild í þessu dýrlega fyrirkomulagi Guðs. — Rómverjabréfið 8:14-17; 2. Þessaloníkubréf 2:13; Opinberunarbókin 14:1.

20. Hvað gæti hjálpað sumum sem hafa enn ekki látið skírast?

20 Mikill fjöldi fólks hefur gengið til liðs við „aðra sauði“ Jesú, einkum frá miðjum fjórða áratug síðustu aldar. Þeir eiga þá von að komast í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ og lifa að eilífu á jörðinni. (Opinberunarbókin 7:9, 14; Jóhannes 10:16) Þeir eru hæfir til að skírast vegna þess að þeir hafa lagað líf sitt að orði Guðs og elska hann af ‚öllu hjarta, sálu, huga og mætti.‘ (Lúkas 10:25-28) Ýmsir gera sér ljóst að vottar Jehóva ‚tilbiðja Guð í anda og sannleika‘ en hafa enn ekki fylgt fordæmi Jesú og látið skírast til marks um ósvikinn kærleika til Jehóva og óskipta hollustu við hann. (Jóhannes 4:23, 24; 5. Mósebók 4:24; Markús 1:9-11) Með því að ræða sérstaklega um þetta mikilvæga skref við Jehóva í einlægri bæn er hugsanlegt að þeir finni hjá sér hvöt og kjark til að fylgja orði hans að fullu, vígjast honum skilyrðislaust og láta skírast.

21, 22. Hvað aftrar sumum frá því að vígjast Guði og láta skírast?

21 Sumir eru svo uppteknir af heiminum eða af því að sækjast eftir peningum að þeir gefa sér lítinn tíma til að sinna andlegum málum. Þess vegna verður ekkert úr því að þeir vígist og skírist. (Matteus 13:22; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Það yrði þeim til mikillar gleði ef þeir breyttu um afstöðu og markmið. Það myndi auðga þá andlega að nálgast Jehóva, draga úr áhyggjum þeirra og veita þeim þann frið og fullnægju sem fylgir því að gera vilja hans. — Sálmur 16:11; 40:9; Orðskviðirnir 10:22; Filippíbréfið 4:6, 7.

22 Sumir segjast elska Jehóva en halda að þeir geti skotið sér undan ábyrgð með því að vígjast ekki né skírast. En allir verða að standa Guði reikningsskap. Ábyrgðin kom um leið og við heyrðum orð Jehóva. (Esekíel 33:7-9; Rómverjabréfið 14:12) Ísraelsmenn til forna voru „eignarlýður“ Jehóva og vígðir honum frá fæðingu. Þess vegna bar þeim að þjóna honum dyggilega í samræmi við reglur hans. (5. Mósebók 7:6, 11) Nú á tímum er enginn vígður Jehóva frá fæðingu en ef við höfum fengið markvissa biblíufræðslu þurfum við að breyta samkvæmt henni í trú.

23, 24. Hvað ætti ekki að tálma fólki að láta skírast?

23 Sumir óttast kannski að þeir hafi ekki næga þekkingu til að láta skírast. En við eigum margt ólært öllsömul vegna þess að ‚mannkynið fær ekki skilið verk Guðs frá upphafi til enda.‘ (Prédikarinn 3:11) Tökum eþíópska hirðmanninn sem dæmi. Hann hafði tekið gyðingatrú og þekkti eitthvað til Ritningarinnar en þekkti samt ekki tilgang Guðs til hlítar. Hins vegar skírðist hann tafarlaust eftir að hafa fræðst um þá ráðstöfun Guðs að veita hjálpræði vegna fórnar Jesú. — Postulasagan 8:26-38.

24 Sumir hika við að vígjast Guði af því að þeir eru smeykir um að sér takist ekki að halda vígsluheitið. „Ég hef veigrað mér við að skírast af ótta við að mér takist ekki að lifa í samræmi við vígsluheit mitt,“ segir Monique sem er 17 ára. En ef við treystum Jehóva af öllu hjarta ‚gerir hann stigu okkar slétta‘ og hjálpar okkur að ‚lifa í sannleikanum‘ sem trúir og vígðir þjónar hans. — Orðskviðirnir 3:5, 6; 3. Jóhannesarbréf 4.

25. Hvaða spurningu ætlum við að skoða næst?

25 Þúsundir manna finna hjá sér löngun til að vígjast og skírast ár hvert því að þeir treysta Jehóva algerlega og elska hann af öllu hjarta. Og allir vígðir þjónar Guðs vilja auðvitað vera honum trúir. En við lifum á erfiðum tímum og það reynir á trúna á ýmsan hátt. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Hvað getum við gert til að lifa samkvæmt vígsluheiti okkar við Jehóva? Greinin á eftir fjallar um það.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Jesús var syndlaus þannig að hann skírðist ekki til tákns um iðrun. Skírn hans táknaði að hann bauð sig fram til að gera vilja Guðs, föður síns. — Hebreabréfið 7:26; 10:5-10.

Manstu?

• Hvernig fer kristin skírn fram?

• Hvaða þekking er nauðsynleg til að skírast?

• Hvaða skref eru undanfari sannkristinnar skírnar?

• Hvers vegna veigra sumir sér við að skírast en hvað gæti hjálpað þeim?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 24]

Veistu hvað það merkir að skírast ‚í nafni föður, sonar og heilags anda‘?