Aldrei of gömul til að læra
Aldrei of gömul til að læra
KSENÍJA fæddist árið 1897. Hún á 3 dætur, 1 son, 15 barnabörn og 25 barnabarnabörn. Alla tíð gerði hún það sem foreldrar hennar kenndu henni að gera. Þótt hún hefði flúið til Moskvu frá hinu stríðshrjáða sjálfstjórnarlýðveldi Abkhazíu, sem er mitt á milli Svartahafs og Kákasusfjallgarðsins, var hún nokkuð ánægð með lífið, sérstaklega það sem hún kallaði trúararfleifð sína.
Árið 1993 gerðist Merí, dóttir hennar, vottur Jehóva. Merí fór að tala við Kseníju um Jehóva Guð og Biblíuna en hún vildi ekki hlusta. Kseníja sat alltaf fast við sinn keip og sagði við dóttur sína: „Það er of seint fyrir mig að læra eitthvað nýtt.“
Merí dóttir hennar, Londa, kona dóttursonar hennar og barnabarnabörn hennar Nana og Zaza, sem öll voru orðin vottar Jehóva, héldu þrátt fyrir það áfram að tala við hana um Biblíuna. Kvöld eitt árið 1999 lásu þau ritningarstað fyrir hana sem snerti hjarta hennar. Þetta voru hjartnæm orð Jesú til trúfastra postula sinna þegar hann stofnsetti minningarhátíðina um dauða sinn. (Lúkas 22:19, 20) Kseníja ákvað það kvöld, 102 ára að aldri, að byrja að kynna sér Biblíuna.
„Eftir að hafa lifað í 102 ár,“ segir Kseníja, „skildi ég loksins hver tilgangur lífsins er. Ég geri mér núna grein fyrir því að það er ekkert betra til en að þjóna hinum dásamlega og kærleiksríka Guði okkar, Jehóva. Ég er enn þá hress í huga og á líkama. Ég get lesið án gleraugna og verið með fjölskyldu minni.“
Kseníja lét skírast 5. nóvember árið 2000. Hún segir: „Nú gef ég líf mitt Jehóva og þjóna honum af kærleika. Ég sest út á strætisvagnabiðstöð nálægt heimili mínu og dreifi tímaritum og smáritum. Ættingjar koma oft í heimsókn og ég tala með ánægju við þá um Jehóva.“
Kseníja horfir fram til þess dags þegar ,hold hennar svellur af æskuþrótti og hún snýr aftur til æskudaga sinna.‘ (Jobsbók 33:25) Ef tíræðri konu finnst hún ekki of gömul til að læra um tilgang lífsins frá Biblíunni, hvað þá um þig?